Borgfirðingabók - 01.12.2011, Blaðsíða 14
14 Borgfirðingabók 2011
þar sem voru loðnar mýrar sem höfðu ekki verið slegnar, mig minnir
oftast á Einifelli. Nokkrum reiðhestanna man ég glöggt eftir. Á
Sporð, reiðhest Þorsteins hef ég áður minnst í þessum pistlum. Hann
var brúnskjóttur með hvítt tagl að mig minnir. Aldrei kom ég á bak
honum nema þegar ég var upphaflega reiddur úr Borgarnesi fram
að Laxfossi. Jón átti mósokkóttan hest sem hét Sokki. Seinna átti
hann jarpan hest sem Börkur hét. En besti reiðhesturinn á bænum var
Svartur, sem Kristín átti, afar skemmtilegur gæðingur, brúnn að lit.
Þessir hestar voru allir hálfbræður, sammæðra. Sá ljóður var á ráði
Svarts að hann var afskaplega fjallsækinn. Hann átti það til að hverfa
úr heimahögum á sumrin og þurfti að leita hans með ærinni fyrirhöfn.
Einu sinni man ég eftir að Jón fann hann eftir langa leit inni á Hafradal
sem er lengst inni á Borghreppingaafrétti. Þar var hann í stóði. Allt
voru þetta ágætir töltarar, vel tamdir, líklega flestir af Ásgeiri bónda
á Haugum, og viljugir en þó meðfærilegir hverjum unglingi. Sumir
þeirra voru styggir í haga og létu hafa fyrir að ná sér. Á sumrin voru
þeir oft heftir svo að þeir færu ekki langt, því að oft þurfti að grípa til
þeirra fyrirvaralítið. Gömlu hnappheldurnar voru fléttaðar úr hross-
hári eða togi með kindarlegg á öðrum enda. Þó voru farnar að sjást
hnappheldur sem voru filtfóðraðir hólkar tengdir saman með keðju.
Vel þurfti að gæta þess að hestar yrðu ekki haftsárir. Vagnhestana
þurfti að hafa skaflajárnaða á vetrum. Þeir voru alltaf hafðir heima
við og hýstir á veturna í heimara hesthúsinu. Tveimur man ég eftir,
annar var Lýsingur, leirljós, stór og sterkur, skipti aldrei skapi og fór
aldrei nema fetið. Hann var minn fyrsti reiðhestur. Einu sinni sofnaði
ég á baki honum og datt af baki í fyrsta sinn. Hinn vagnhesturinn
var Hæringur, steingrár og stilltur vel en ekki annað eins letiblóð
og Lýsingur. Allt fullorðna fólkið átti vönduð reiðtygi, bræðurnir
hnakka en systurnar söðla og reiðföt. Flestir áttu sæmileg reiðbeisli
og sumir silfurbúnar svipur með fangamörk eigendanna grafin með
skrautletri á hólkana. Krakkar voru oftast látnir ríða á gæruskinni,
en þó sá ég einhvers konar hnakkpútur sem voru ætlaðar krökkum,
en aldrei átti ég slíkt reiðver. Fólkið heima fór oft í útreiðartúra á
sunnudögum til kunningja eða skyldmenna, til dæmis að Hvassafelli
eða til að skoða sig um á fallegum stöðum. Oft fékk ég að fara með
eftir að ég var farinn að geta setið skammlaust á hestbaki. Vinsæl
skemmtiferð var „að ríða í kring“. Þá var farið eftir þjóðveginum og
afleggjaranum að Hreðavatnsbænum og fyrir vestan vatn til baka að