Borgfirðingabók - 01.12.2011, Blaðsíða 163
163Borgfirðingabók 2011
verk að safnað var saman nokkrum merkum verkfærum og áhöldum
strax sumarið 1940. Verkfærasafnið komst inn á fjárlög ársins 1942
og hélst þar til og með fjárlagaárinu 1967 – með 1000-2000 kr. fram-
lagi árlega. Í nýjum lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr.
64/1965 (Rannsóknastofnun landbúnaðarins), voru hins vegar engin
ákvæði um verkfærasafn. Þar með var það horfið úr tölu lögbundinna
stofnana ríkisins.
Nútímasýningin sem varð minjasafn!
Það tókst ekki að halda nýjungum verkfærasýningarinnar við. Til
þess var hraði breytinganna of mikill. Fyrr en varði var sýningin,
ef svo mátti kalla, orðin eins konar minjasafn þar sem gripirnir
kúrðu í Gömlu skemmunni á Hvanneyri. Vegna skólastjóraskipta á
Hvanneyri haustið 1972 fól þáverandi landbúnaðarráðherra, Halldór
E. Sigurðsson, þeim Jóni Guðmundssyni, bónda á Hvítárbakka, og
Bjarna Arasyni, héraðsráðunaut í Borgarnesi, að gera úttekt á eignum
Bændaskólans. Í ítarlegri úttektarskýrslu sinni sögðu þeir um Verk-
færasafnið:
Á Hvanneyri er til mikið safn gamalla landbúnaðartækja. Hér er um að
ræða vélar og áhöld, sem eru orðin úrelt og hafa fallið úr notkun vegna
þess, svo sem ýmis konar jarðvinnslu- og heyvinnutæki, er hestum var
beitt fyrir, svo og margs konar handverkfæri. Þá eru í þessu safni gamlar
dráttarvélar og tæki við þær. Ekki verður dregið í efa að hér er saman
komið stærsta safn sinnar tegundar á landinu, og að þetta safn hefur
mikið sögulegt gildi.
Safn þetta er að nokkru geymt í Verkfærahúsinu (gamla) og að nokkru
í Skemmunni, en sum tækin standa úti undir beru lofti. Aðstaða til
geymslu þessara gripa er engan veginn eins og þyrfti að vera, þar sem
þeir eru ekki varðir gegn skemmdum sem skyldi, og engin aðstaða er til
að skoða þá.
Mikil þörf er á að bæta hér um og sýna þessu einstæða safni þann
sóma að koma því í húsnæði, þar sem varðveisla þess væri tryggð og
aðstaða væri fyrir hendi til að skoða gripina. Þá þyrfti jafnframt að skrá
safnið á viðeigandi hátt, en úttektarmenn töldu sig ekki hafa aðstöðu til
þess við þær kringumstæður sem voru fyrir hendi.