Borgfirðingabók - 01.12.2011, Blaðsíða 33
33Borgfirðingabók 2011
íþrótt höfðaði til hans. Hins vegar varð hann að aflífa skepnur sínar,
eftir því sem nauðsyn ber til í sveit og óhjákvæmilega fylgir starfi
hvers einasta bónda. Og þó las ég í dagbók minni frá þessum tíma að
Guðmundur hefði beðið mig að koma tíl sín að skjóta fyrir sig hann
Lýsing, sem þá þurfti að fella. Það var uppáhaldshestur sem Inga átti.
Þetta verk gat hann ekki unnið. Samt lenti það oft á Guðmundi að
hjálpa til við stórgripaslátrun á nágrannabænum, eins og við margt
annað.
Einni veiðisögu get ég þó greint frá, einfaldlega af þeirri ástæðu
að í þeim bardaga vorum við báðir í aðalhlutverkum ásamt hundinum
Bamba.
Það var dag einn í ágústmánuði að ég var staddur á Kirkjubóli.
Í eldhúsinu, sem var í kjallaranum, var setið og spjallað yfir kaffi
og kökum, eins og venja var þegar komið var að Kirkjubóli. Var
tíminn fljótur að líða að vanda. Þegar við stóðum upp og litum út um
gluggana, sem voru niðri við jörð að utanverðu, blasti við óvenjuleg
sjón sem tók athygli allra viðstaddra. Þar gat að líta óvininn sjálfan,
sem átti sér fleiri fjendur um þessar mundir en nokkurt annað kvik-
indi. Þarna var minkurinn kominn í allri sinni ógn, með gljáandi
feld og hvæsandi kjaft, sem ógnaði öllu sem lífsanda dró. Nú voru
gerðar hernaðaráætlanir í hálfum hljóðum og leikfléttur lagðar með
bendingum, því aldrei var að vita nema vágesturinn skildi mannamál.
Síðan var lagt til atlögu með alvæpni af fjölbreyttri gerð. Þar gat
að líta herðatré og hrífur, kústa og koppa og fleira. Fremst gengum
við karlmenn að sjálfsögðu með þær pístólur sem fundust í skyndi.
Hver einstaklingur tók sér þá stöðu sem var nákvæmlega útreiknuð,
og var nú fátt um undankomuleiðir fyrir kvikindið.
En þá gerðist það óvænta á skjótu augabragði sem lagði í rúst
þrauthugsaða áætlun, svo að í skyndi varð að byggja upp aðra á ný.
Hundurinn Bambi hafði skynjað hvílíkur voði væri á vegi húsbænda
sinna og tók nú allt frumkvæði í orrustunni. Hann óð fram á völlinn
með æði í augum, urri og grimmd, svo að skein í hvítar vígtennur
í froðufellandi skoltinum. Skotmarkið hvarf sjónum manna á samri
stundu.
En Bambi vissi lengra nefi okkar. Örskammt frá húsinu var kart-
öflugarður heimilisins í fullum skrúða, með grösum sem náðu upp
að hnjám. Við norðurhlið hans var hlaðinn skjólgarður úr torfi og