Borgfirðingabók - 01.12.2011, Síða 134
134 Borgfirðingabók 2011
héldu þessir skipstjórar reisugildi stórmyndarleg með nóg viskí. Á
þessum dögum notuðu margir munntóbak, rullu sem kölluð var, og
spýttu mikið. Vinnufélagar mínir sendu mig oft eftir snúðum eða
vínarbrauðum með kaffinu. Hver lét nokkra aura eftir því sem það
kostaði. Í eitt skiptið keypti ég tvo rullupakka og sagði þeim að þeir
ættu þetta sameiginlega. Eftir það sendu þeir mig ekki. Ég á margar
góðar minningar frá þessum dögum og ágætum vinnufélögum.
Um þessar mundir var í bænum maður að nafni Elías Stefánsson,
kallaður Elías á fartinni. Hann kom austan úr Árnessýslu, sárfátækur,
braust í útgerð og varð stórríkur. Það var sagt að hann léti skip sín
sigla óvátryggð á stríðsárunum til útlanda og lukkaðist það. Á því
græddi hann, heppnin fylgdi honum ótrúlega en endaði þó með því
að hann var orðinn eignalaus þegar hann dó,1920. Hann keypti land
áfast við túnið á Rauðará. Þetta land var líklega einir tveir hektarar
og stór grjóthóll í miðju sem Goshóll hét. Hann var sprengdur með
dýnamíti og keyrður út á járnbrautarteinum og búið til stakkstæði til
að þurrka fisk. Reynt var að láta grjótið liggja slétt svo að hægara
væri að ganga eftir því, þegar fiskurinn var borinn út á handbörum.
Jens og Kristinn tóku að sér verkstjórn á þessu þegar lægði að byggja
hús. Nú fá þeir byggingarverk svo þeir fara fram á það við mig að
fara inn í Goshól og verða þar verkstjóri. Ég segi þeim að ég kunni
ekkert við sprengingar, en þeir segjast láta mann sýna mér aðferðina,
ég sé laginn og verkhagur og þeir hefðu helst augastað á mér af
þeim sem hjá þeim unnu. Jú þetta freistar mín að verða sjálfs mín
herra. Mér hefur alla tíð þótt heldur leiðinlegt að vinna undir annarra
stjórn. Það er ekkert með það, tek þarna við stórum vinnuflokki, hálf-
kveið fyrir að þeim fyndist lítið koma til að fá sveitastrák sem herra
yfir sér. Þarna voru margir gamlir karlar sem höfðu verið í bæjar-
vinnu Reykjavíkur, en það fór allt prýðilega, vann mér traust þeirra
og þeir báru hlýjan hug til mín. Var líka svo heppinn að þeim féll
miður við þann sem var á undan mér. Sjórinn fellur upp að túninu á
Rauðará. Þar var skúr sem við drukkum kaffið og fyrir verkfæri og
sprengiefni. Í fjörunni voru nokkrir karlar sem klufu grjót, klöppuðu
nokkrar holur eftir endilöngum steininum og ráku þar í fleyga, þá
rifnaði hann. Þetta er ekki hægt við blágrýti, en í Reykjavík er tómur
grásteinn. Upp úr fjörunni var lögð járnbraut og vagnar, mjög lágir,
hlaðnir og ýtt með handafli upp á stakkstæðið. Þar voru fyrir menn að
dreifa úr því jafnótt. Við hólinn voru menn að bora með handborum