Borgfirðingabók - 01.12.2011, Side 18
18 Borgfirðingabók 2011
nokkuð frá honum í einni bóka sinna. Andrés bróðir hans frá Bæ bjó
síðast í Reykjavík og kom þá oft að finna Ingibjörgu móður mína.
Það kunningjafólk úr Reykjavík sem voru árvissir gestir og vana-
lega um kyrrt einhvern tíma (bjuggu stundum í tjaldi) voru Ingólfur
Sveinsson bílstjóri og kona hans Oddfríður Sæmundsdóttir skáld-
kona. Synir þeirra, Guðmundur píanóleikari og Sæmundur vélstjóri,
voru í sumardvöl á Laxfossi sem krakkar, Sæmundur mörg sumur.
Helga systir Ingólfs og maður hennar, Kristinn Eiríksson járnsmiður,
voru líka tíðir sumargestir. Séra Björn Magnússon á Borg, seinna
prófessor, og fjölskylda hans áttu (og eiga víst enn) sumarbústað í
Leiðarskarði, rétt innan við landamerki Laxfoss og Hreðavatns, og
komu oft heim. Kunningsskapurinn við þau kom ekki síst til af því
að sonur séra Björns, Björn Björnsson, seinna guðfræðiprófessor, var
mörg sumur snúningastrákur á Laxfossi og hélt tryggð við heimilið
alla tíð meðan þar var búið.
Á fyrri árum meðan enn var lítið um bílferðir, komu stundum
gangandi ókunnugir ferðalangar, oft útlendir, og beiddust gistingar.
Þeim var veittur beini og gisting og grunur minn er sá að ekki hafi
verið tekið gjald fyrir þótt um bláókunnuga menn væri að ræða. Sér-
trúarmenn ýmsa sem voru að boða sínar kreddur og höfðu trúarrit
til sölu bar stundum að garði. Þeir voru yfirleitt litlir aufúsugestir
til sveita, því að sumir þeirra áttu til að vera ýtnir og ágengir. Aldrei
sýndu þeir neitt slíkt af sér heima.
Sesselja Níelsdóttir, móðir Mörtu konu Friðriks Jónssonar, jarð-
eigandans, var stundum á Laxfossi nokkra daga á haustin eftir að
fjölskyldan var farin heim úr sumarbústaðnum eftir sumardvölina.
Sesselja var flugmælsk og skemmtileg og mjög róttæk í skoðunum.
Þar áttu þær Guðrún amma mín ekki samleið, en þó fór vel á með
þeim og aldrei virtist þær skorta umræðuefni, enda jafnöldrur og upp
vaxnar í áþekku umhverfi.
Tveimur rosknum mönnum man ég eftir sem virtust koma gagngert
„til að vitja æsku sinnar“. Annar var fyrrverandi bóndi úr Kjósinni,
jafnaldri Guðrúnar og æskuvinur, mjög hávaxinn maður með mynd-
arlegt tjúguskegg. Hinn var Sigtryggur Kaldan, læknir í Danmörku
og fyrrverandi „sundkóngur Íslands“, mjög vörpulegur maður. Hann
hafði endur fyrir löngu verið þjónn og túlkur enskra laxveiðimanna við
Laxfoss en alið nær allan aldur sinn í Danmörku þar sem hann hafði
verið starfandi læknir en var nú sestur í helgan stein.