Borgfirðingabók - 01.12.2011, Síða 34
34 Borgfirðingabók 2011
grjóti. Barst nú orrusta Bamba og minksins á þennan vettvang, þar
sem óvinurinn skaust sitt á hvað undir kartöflugrösunum og Bambi
þaut á eftir skrækjandi undan klóri minksins og ólyfjan, sem dýrið
hvæsti framan í hann. Aldrei á ævi minni hef ég séð þvílíkt æði renna
á jafn gæft og blíðlynt dýr og Bambi var.
En nú breyttist vígstaðan snarlega, því að minkurinn hvarf inn í
holu í veggnum. Á samri stundu var hundurinn hálfur inni í veggnum
og jós moldinni undan sér í þykkum mekki. Þá var komið að Guð-
mundi að taka frumkvæðið af heimilishundinum. Hann tvíhenti
járnkarl af ofurmannlegum krafti og rak hann á kaf þar sem Bambi
vísaði á minkinn í veggnum. Skaust þá kvikindið út úr holunni og
hvarf í garðinn aftur.
Orrusta hófst á ný og nú með skotvopnum, því að hér dugði hvorki
herðatré né hundur. Skothríðin dundi upp og niður, austur og vestur,
svo að allir viðstaddir, nema náttúrlega við Guðmundur, forðuðu sér
til bjargar lífi og limum, en kíktu fyrir húshorn. Þá vorum við grannar
miklir kallar, sem töldu sig njóta ómældrar aðdáunar.
Nú fór dýrið að dasast. En þrátt fyrir skotfimi okkar Guðmundar,
sem okkur heyrðist vera rætt um með lotningu eftir það, tókst ekki að
vinna á minkinum fyrr en Guðmundur kallaði: „Nú hef ég hann og
skjóttu nú.“ En þar sem Guðmundur stóð gleiðfættur ofan á dýrinu
var ég í þeirri erfiðu stöðu að verða að miða og skjóta á óvættina
milli fóta hans. Í því skoti skiptist minkurinn í tvennt, og hreyfði sig
hvorugur hlutinn eftir það.
Af þessum atburði urðu nokkur eftirmál, sem ég vil nú leitast
við að leiðrétta. Einn aðdáenda okkar úr áhorfendahópnum, Böðvar
sonur bónda, setti síðar á bók frásögn af orrustunni svo að hún mætti
varðveitast á prenti eins og aðrar hetjusögur. Þessi frásögn heitir
„Lítil saga sem endar vel“ og er í bók sem hann að sjálfsögðu nefnir
„Sögur í seinni stríðum“. Í þeirri frumgerð sögunnar, sem lesin var
heima hjá okkur Eddu, var sú getgáta sett fram af bóndasyninum,
að í síðasta skoti mínu, því sem felldi dýrið, hefði ég sýnt óvönduð
vinnubrögð við að miða á dýrið, og þess vegna hefðu Kirkjubóls-
systkinin ekki orðið fleiri en þrjú. Þó að mér hafi ekki auðnast að
afsanna þetta þá var sögumanni ekki unnt að sanna sitt mál heldur.
Ég vil nota tækifærið til að mótmæla og telja þetta til ósanninda uns
sannað verður.