Borgfirðingabók - 01.12.2011, Side 132
132 Borgfirðingabók 2011
að vera höfðingjasleikja -, eina ferð til Þingvalla með Jón Helgason
biskup, eina ferð til Hafnarfjarðar man ég líka. Hannes Hafstein og
frú fóru þangað í boði með dönsku varðskipi sem hét Fylla. Ég fór
síðla dags og sótti þau, man að hann var dökkur og rauður í andliti,
víst mikið vín í honum. Útlendingar voru stundum að gefa mér vín og
fá mig til að keyra hratt. Annars var ferðin alltaf þetta smáskokk. Ég
keyrði aldrei út af eða velti, en þá hefði getað orðið slys. Svo heppinn
var ég. Vann líka við afgreiðslu Ingólfs, keyrði oft fram á kvöld, en
fór ekki snemma til vinnu. Átti að vekja Nicolai á morgnana. Hann
svaf uppi á lofti, hafði hrífuskaft undir glugganum og átti að banka
í gluggann. Þetta var besti karl en var stundum skapstyggur og fann
að því ef bankað var of hátt eða lágt í gluggann. Mér þótti vænt um
hann. Hann átti myndarlega konu og tvo syni, Gunnar skólastjóra
Vélskólans og Hjálmar bankamann. Ég hafði hest í Reykjavík, þann
sama og á Hvítárbakka, hét Vífill, keyptur frá Skarðshömrum, rauður
glófextur, nokkuð góður. Það kom fyrir að karlinn fengi hann lánaðan
ef hann fór í útreiðatúr, sem þó var sjaldan. Það var, minnir mig,
þegar ég var hjá Nicolai Bjarnasyni að þá var í Reykjavík Sæmundur
Runólfsson, glæsilegur og myndarlegur náungi og hafði prýðis söng-
rödd. Hann var Árnesingur og kom að máli við mig að fara með
honum austur að Þjórsá. Þar eigi að vera stór samkoma. Ekki stóð
á mér og var þá með hest í borginni.Við riðum upp að Árbæ, þar
var þá veitingastaður, og fengum okkur vel af Carlsberg. Hann söng
þarna einsöng, nokkur lög og gerði stóra lukku. Næst stoppuðum við
á Kolviðarhóli. Hann þekkti þar veitingahjónin, og þaðan héldum við
austur yfir Hellisheiði slattkenndir og yfir Ölfusárbrú, sem er nokkuð
löng. Um sumarið var send til Sigurðar sýslumanns í Arnarholti sex
króna krafa á mig fyrir of hraða reið yfir Ölfusárbrú, sem ég auðvitað
greiddi orðalaust. Ég hafði látið klárinn fara á tölti yfir brúna en mátti
ekki fara nema lestagang. Það var mikið fjölmenni samankomið við
Þjórsá, veður gott og fjölbreytt skemmtun.
Hótel Ísland var á móti afgreiðslu flóabátsins, bara yfir götuna að
fara. Þegar við vorum að vinna fórum oft með könnu og keyptum á
hana nýlagað kaffi, drukkum með góðri lyst. Þar var seldur danskur
bjór, Carlsberg. Hann drukkum við í hitum og vorum þá undir
smááhrifum. Ekki man ég neitt um kaup. Þegar ég hætti hjá Nicolai
gaf frúin mér alklæðnað af honum, föt úr góðu efni, sem voru orðin
honum of lítil fyrir löngu, en ég reyndi að nota þau þó stór væru.