Bændablaðið - 15.12.2022, Blaðsíða 94

Bændablaðið - 15.12.2022, Blaðsíða 94
94 Bændablaðið | Fimmtudagur 15. desember 2022 Jólasaga: Lína á Á Bærinn stóð innst í dalnum. Þetta var gamall torfbær og í rauninni stóð hann varla, heldur kúrði undir fjallshlíðinni skammt norðan við ána. Áin rann niður fjallshlíðina eftir djúpu gili sem hún hafði grafið og mótað um aldir. Ofan við gilið var skarð sem náði inn í fjallgarðinn og áður fyrr var þar fjölfarin gönguleið á milli byggðarlaga. Bærinn við ána var nefndur eftir ánni og hét einfaldlega Á. Þar bjó gömul kona, sem komin var á níræðisaldur þegar hér var komið sögu og hún var einbúi. Þessi kona hét Lína. Upphaflega var hún kölluð Lína á Á, en þegar fram liðu stundir þá runnu saman nafnið hennar og bæjarins og þá var farið að kalla hana Líná og gekk hún síðan ætíð undir því nafni. Þó Líná væri eina manneskjan á bænum var hún þó ekki alveg ein þar, því hún var með búskap, átti kindur og hross, hund og kött. Hún var fædd á þessum bæ í þann mund sem ný öld var að ganga í garð og þarna hafði heimili hennar ávallt verið. Þarna var hennar heimur. Hún þekkti hverja þúfu, gilið og klettana beggja vegna árinnar. Léttur árniðurinn var hluti af tilveru hennar allt frá upphafi og hún tók ekki eftir honum, nema þegar hún var komin það langt frá ánni að niðurinn þagnaði.Gamli torfbærinn á Á var orðinn lélegur. Upphaflega hafði verið vandað til hans, en nú var hann farinn að láta á sjá. Þilin voru fúin og torfið veðrað og veggir farnir að halla inn eða út. Sú var tíð að Líná ætlaði að byggja sér nýjan bæ, eins og sveitungar hennar gerðu utar í dalnum, en einhvern veginn varð aldrei úr því og nú var hún löngu hætt að hugsa um það. Eldhúsið og baðstofan voru í sama rými og Líná gamla var þar inni og var að hella upp á kaffi. Hangikjötsilm lagði um allan bæinn því það var aðfangadagur jóla og jólahangikjötið var tilbúið í pottinum á eldavélinni. Líná ætlaði að fá sér kaffisopa fyrir gegningarnar. Hún teygði sig eftir kaffibollanum sínum og af gömlum vana strauk hún með vísifingri innan úr bollanum, ef ske kynni að kusk úr þekjunni hefði ratað í hann. Þessi vani var svo fastur að þó það væru gestir þá átti hún það til að bregða fingri í bollann um leið og hún lagði hann á borðið. En það voru ekki oft gestir. Ekki í seinni tíð. Nágrannar hennar litu þó til með henni og fylgdust með líðan hennar og heilsu. Hún heyrði umgang í göngunum. Það var kunnuglegt hljóð þegar hurðin skall aftur og hún vissi að hundurinn hennar, hann Glaumur, var að koma inn. Hann opnaði sjálfur þegar hann vildi koma inn og var búinn að mynda geil í hurðina í bæjardyrunum, sem orðið hafði til af þessum sífelldu ferðum hans inn og út úr bænum. Hurðin var slegin saman úr fjölum og á henni var hvorki húnn né lás. Þannig að Glaumur var frjáls ferða sinna. Líná tyllti sér á rúmbríkina með kaffibollann og strauk kettinum sem lá í rúminu, og virtist sofa þar værum svefni. Kisi hafði fengið nafnið Galsi þegar hann kom að Á sem kettlingur. Bæði var það galsinn í kettlingnum sem kallaði fram þetta nafn, svo og fannst Líná það passa vel við nafnið á hundinum. Glaumur og Galsi. En nú leið að því að gefa þurfti kindunum. Þær voru í gömlum fjárhúsum fyrir ofan bæinn, ekki langt frá, en upp nokkuð bratta brekku þurfti að fara. Það gat verið erfitt á veturna, þegar snjór var eða hálka í brekkunni. Ekki dugði þetta. Féð þurfti að fá gjöfina og Líná var vön því að vanda sérstaklega til gjafarinnar á aðfangadag jóla. Hún klæddi sig í úlpuna og reyndi að klæða sig hlýlega til fótanna áður en hún fór í stígvélin. Það var frost úti og næðingur og því veitti ekki af því að reyna að klæða sig vel og halda á sér hita. Glaumur rauk á undan henni fram göngin og á hurðina sem skall upp og aftur og Lína kom í humátt á eftir. Það var tekið að rökkva en skin tunglsins brá birtu á hjarnið og Lína sá vel móta fyrir húsunum uppi á brekkubrúninni. Hún fikraði sig varlega upp stíginn, sem hún hafði gengið ótal sinnum. Áður fyrr hafði hún hlaupið upp og ofan þennan stíg án þess að blása úr nös. Nú var þessi ganga orðin erfiðari og hún vissi að hún varð að fara varlega í hálkunni. Ekki mátti hún detta og jafnvel fótbrotna og liggja svo þarna bjargarlaus. Það skyldi ekki henda á sjálfa jólanóttina. Hún ætlaði sér svo sem að deyja heima, en fremur vildi hún þá vera í rúminu sínu en hér úti undir brekkunni. Þegar komið var í húsin kveikti hún á lukt sem hékk þar á bita. Kindurnar vissu að nú styttist í að heyið kæmi á garðann og fóru að troða sér að og spyrntu framfótunum í steinhleðsluna undir garðanum. Lína fór inn í tóftina og leysti hey úr sparihorninu, en þar hafði hún sett besta heyið á liðnu sumri. Það var heyið af heimatúninu sem hafði þornað á ljánum á sólríkum sumardegi. Henni fannst hún finna lykt af sumri og sól í þessum stráum sem hún reytti úr stálinu og hún bar þau að vitum sínum og andaði að sér þessari lykt. Svo undarlega vildi til að upp í hug hennar kom mynd af löngu liðnum sumardegi. Hún var barn að leika sér á túninu og fullorðna fólkið var að heyja. Þetta var svo gömul minning að móðir hennar var á lífi. Ung kona með fallegt hár sem vindurinn lék um. Og konan var glöð. Hún hló og brosti til Línu, kraup niður og breiddi faðminn á móti henni. Líná gamla fann að þessi minning snerti hana svo sterkt að henni fannst hún ekki vera lengur ein. Hún sá móður sína og föður og bróður sinn og allir voru glaðir og einhver heiðríkja var yfir öllu. Líná vissi ekki hversu lengi hún stóð þarna inni í tóftinni. Það var gott að hverfa um stund inn í þessa minningu, þegar allt var svo gott. Þegar lífið var fram undan. Þegar draumar og þrár voru í huga og hjarta og allir vegir virtust færir. Hún var alveg hætt að botna í þessum tíma. Stundum fannst henni dagarnir silast áfram, ekki síst í mesta skammdeginu, þó það passaði varla við orðanna hljóðan. En þegar hún horfði yfir farinn veg og minntist löngu liðinna atburða, þá fannst henni ekki svo langt síðan að þeir gerðust. Jafnvel þó að um áratugi væri að ræða. Líná fór með tvö föng á garðann og horfði á kindurnar jeta. Henni fannst þessi stund alltaf hátíðleg á jólunum. Þegar hún var búin að gefa á garðann. Þegar því var lokið gátu jólin komið. Ekki fyrr. Hún fann fyrir helgi jólanna, einmitt þarna. Þar sem hún var í fjárhúsunum og horfði á kindurnar við garðann. Við jötuna. Henni hlýnaði um hjartarætur og eftir dágóða stund slökkti hún á luktinni og fikraði sig aftur ofan stíginn og heim í bæinn. Þó að rafmagnsljós væru komin í bæinn þá kveikti hún á kertum til að gera hátíðlegra í baðstofunni. Hún ætlaði að vera búin að ganga frá öllu áður en útvarpsmessan hæfist frá dómkirkjunni. Hún hlustaði alltaf á þá messu og hafði gert frá því að útvarpið kom. Þegar Líná gamla var búin að leggja á borðið settist hún á rúmið og beið eftir því að messan hæfist. Glaumur lá við fætur hennar og Galsi, sem löngu var hættur að standa undir nafni, hringaði sig við hlið hennar í rúminu. Allt var svo kyrrt og hljótt. Það styttist í að það yrði heilagt. Líná seildist eftir Biblíunni sinni sem lá á hillu ofan við höfðagaflinn og fletti í henni af handahófi. Hún las nú ekki mikið í þeirri helgu bók, en hún vildi hafa hana við rúmið sitt, nálægt sér og handlék hana af og til og las í henni stundum, helst úr guðspjöllunum. Hún staldraði við í Mattheusar­ guðspjalli þar sem haft var eftir Jesú þessi orð: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“ Hún varð hugsi yfir þessum orðum og fann til einsemdar sinnar. Hvað átti frelsarinn við? Var hann ekki hjá henni á sjálfri jólahátíðinni af því að hún var ein? Var hann ekki hjá henni af því að þau voru ekki tvö eða þrjú í baðstofunni á Á? Mitt í þessum hugleiðingum gömlu konunnar hringdu kirkjuklukkurnar inn jólin. „Í dag er glatt í döprum hjörtum, því Drottins ljóma jól.“ Hún bærði varinar með söngnum, kunni þetta allt svo fremi að ekki var verið að koma með einhverja nýmóðins sálma. Hún kunni líka jólaguðspjallið utan að. Hafði heyrt það svo oft, en nú lagði hún sérstaklega við hlustir þegar presturinn las: „Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.“ Líná gamla sá fyrir sér útihúsið sem frelsarinn fæddist í. Hún sá fyrir sér dýrin sem hlutu að hafa verið þar. Varla hefði annars þurft að hafa þar jötu. Og allt í einu heyrði hún sjálfa sig segja. „Já, dýrin teljast með.“ Hún gat ekki varist brosi og endurtók: „Dýrin teljast með.“ Hún strauk þeim félögum Glaum og Galsa hlýlega og hvíslaði: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“ Og þó að það væri einsöngur eftir ræðu prestsins, þá hikaði Líná ekki við að taka undir og söng með titrandi rödd: Ó, Jesúbarn þú kemur nú í nótt, og nálægð þína ég í hjarta finn. Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt, í kotin jafnt og hallir fer þú inn. Þú kemur enn til þjáðra' í heimi hér með huggun kærleiks þíns og æðsta von. Í gluggaleysið geisla inn þú ber, því guðdómsljóminn skín um mannsins son. Sem ljós og hlýja' í hreysi dimmt og kalt þitt himneskt orð burt máir skugga' og synd. Þín heilög návist helgar mannlegt allt, í hverju barni sé ég þína mynd. Gamli bærinn kúrði undir fjallshlíðinni. Það var ljós í glugga. Úti var frost og næðingur. Inni var hátíð. Gísli Gunnarsson, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal LESENDARÝNI Gísli Gunnarsson. Glaumbær í Skagafirði. Mynd / Gísli Gunnarsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76
Blaðsíða 77
Blaðsíða 78
Blaðsíða 79
Blaðsíða 80
Blaðsíða 81
Blaðsíða 82
Blaðsíða 83
Blaðsíða 84
Blaðsíða 85
Blaðsíða 86
Blaðsíða 87
Blaðsíða 88
Blaðsíða 89
Blaðsíða 90
Blaðsíða 91
Blaðsíða 92
Blaðsíða 93
Blaðsíða 94
Blaðsíða 95
Blaðsíða 96
Blaðsíða 97
Blaðsíða 98
Blaðsíða 99
Blaðsíða 100
Blaðsíða 101
Blaðsíða 102
Blaðsíða 103
Blaðsíða 104
Blaðsíða 105
Blaðsíða 106
Blaðsíða 107
Blaðsíða 108
Blaðsíða 109
Blaðsíða 110
Blaðsíða 111
Blaðsíða 112

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.