Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.09.2022, Blaðsíða 30

Læknablaðið - 01.09.2022, Blaðsíða 30
406 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 Y F I R L I T S G R E I N Skammtar Í psilocybin-rannsóknum hafa mismunandi skammtastærðir verið prófaðar og þátttakendur fá ýmist eina eða tvær psilocybin-gjafir. Þetta kom vel fram í safngreiningu þar sem mismunandi skammt- ar voru notaðir í öllum fjórum rannsóknum, allt frá 0,20-0,43 mg/ kg og í einni var 25 mg skammtur notaður.42 Í annarri rannsókn var borin saman meðferð með escitalopram og psilocybini. Þar voru notuð 25 mg af psilocybini sem voru gefin tvisvar, óháð svörun, í upphafi og að þremur vikum liðnum.43 Í COMP360 fasa 2 rannsókninni var gefinn einn skammtur af ýmist 25 mg, 10 mg eða 1 mg sem notað var sem lyfleysa. Þar sást einungis marktæk meðferðarsvörun við notkun 25 mg skammts.3 Út frá niðurstöð- um COMP360 fasa 2 rannsóknarinnar er líklegt að 25 mg verði sá skammtur sem fyrir valinu verður sem virk meðferð í fasa 3 rannsóknum í nánustu framtíð. Aukaverkanir Í rannsóknum er aukaverkunum psilocybins yfirleitt lýst sem vægum og skammvinnum.43,44 Hins vegar kunna þær að vera fleiri og alvarlegri utan öruggs umhverfis þar sem aðstæður eru vel skilgreindar. Í vefkönnun árið 2016 svöruðu til dæmis 1193 manns sem höfðu notað sveppi sem innihéldu psilocybin spurningum er vörðuðu aukaverkanir.45 Þar sögðu 39% að þetta hefði verið ein af 5 mest krefjandi reynslum lífs síns og 11% töldu sig hafa verið sjálf- um sér eða öðrum hættuleg meðan áhrifin stóðu yfir, en áhætta jókst við hærri skammt, lengri notkun, meiri erfiðleika tengda upplifuninni og skort á félagslegum stuðningi meðan áhrifin vörðu. Af þeim sem höfðu notað sveppina meira en einu ári áður höfðu 7,6% leitað meðferðar við viðvarandi geðrænum einkennum og þar af höfðu þrír verið með viðvarandi geðrofseinkenni og þrír gert tilraun til sjálfsvígs.45 Í COMP360 fasa 2 rannsókninni voru aukaverkanir þátttak- enda yfirleitt metnar vægar eða miðlungsmiklar. Algengustu aukaverkanirnar voru höfuðverkur, ógleði, þreyta og svefnleysi (tafla II). Um 5% þátttakenda tilkynntu alvarlegri aukaverkanir á borð við sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaða. Nánast sami fjöldi var með sjálfsvígshugsanir í öllum meðferðarhópum, sem bendir til þess að það sé frekar tengt þunglyndi þeirra en psilocybin-með- ferð í skynbreytandi skömmtum.44 Í safngreiningu voru helstu aukaverkanir tímabundinn kvíði, höfuðverkur, ógleði, aðsóknar- kennd, hugsanatruflun, hækkaður blóðþrýstingur og aukin hjart- sláttartíðni.42 Enn er óljóst hverjar langtímaafleiðingar meðferðar- innar munu verða. Breytingar á tilteknum persónuleikaþáttum hjá einstaklingum sem hafa þegið meðferð með psilocybini eru ólíkar því sem almennt sést í rannsóknum á annarri þunglyndismeðferð. Þunglyndismeðferð dregur almennt úr kvíðahneigð og eykur á samviskusemi en psilocybin virðist einnig auka á úthverfu (extra- version) og hreinskilni miðað við aðrar þunglyndismeðferðir.46 Þrátt fyrir að vera skilgreint sem vímuefni, þá er ávanahætta af psilocybini lág.47 Í þeim klínísku rannsóknum þar sem einstaklingar með þung- lyndi hafa fengið psilocybin og sálfræðilegan stuðning hefur enginn þátttakandi farið í alvarlegt geðrof sem krafist hefur með- ferðar. Ástæðan kann að vera sú að þýðið er þá jafnan skoðað vel og þau útilokuð frá rannsókninni sem hafa sögu eða ættarsögu um geðrof. Þetta gæti þó orðið meira vandamál fái meðferðin ábendinguna MÞÞ samþykkta og notkunin verður algengari.31 Rannsóknir hafa sýnt að notkun ofskynjunarefna getur valdið geðrofi og er áhættuþáttur fyrir þróun geðklofa48 og því þarf að fylgjast vel með þeirri áhættu í framtíðarrannsóknum. Ofskömmt- un er sjaldgæf en háir skammtar af psilocybini geta valdið ein- kennum á borð við ofsahræðslu og geðrof. Dauðsföll eru nánast óþekkt.49 Hallucinogen-persisting perception disorder (HPPD) getur komið í kjölfar notkunar psilocybins og einkennist af viðvarandi eða tímabundnum sjónrænum mis- og ofskynjunum.50 Meðferð með psilocybini Psilocybin hefur undanfarin ár mest verið rannsakað sem mögu- leg meðferð við þunglyndi, ekki síst MÞÞ. Rannsóknum fjölgar nú ört en árið 2020 var gefin út safngreining (meta-analysis) sem skoð- aði fjórar rannsóknir á psilocybini. Þýðið var smátt í öllum rann- sóknunum og rannsóknir voru aðeins fjórar. Þátttakendur voru að meðaltali 29 í hverri rannsókn og samtals 117. Skilyrði fyrir þátttöku voru marktækt klínískt þunglyndi og/eða kvíði. Í þremur rannsóknum voru þátttakendurnir einstaklingar með krabbamein á lokastigi. Í öllum rannsóknunum var stuðningur fagaðila til stað- ar samhliða gjöf psilocybins, en hann var mismunandi og varði í mislangan tíma eftir rannsóknum, oftast 5-8 klukkustundir í senn eftir gjöf psilocybins. Þótt hægt væri að koma í veg fyrir að mats- aðili sem metur þunglyndiseinkenni í kjölfar meðferðar vissi hver fékk virka meðferð (25 mg) og hver fékk lágskammtameðferð (1 mg), þá er ekki hægt að koma í veg fyrir hugsanlega bjögun. Þátt- takandinn er oftast nær nokkuð viss um hvort hann hafi fengið virka háskammtameðferð eða lágan samanburðarskammt vegna skynvíkkandi áhrifa sem fylgja virkum meðferðarskammti en ekki lágskammtameðferð. Þeir aðilar sem eru þátttakandanum til stuðnings meðan á meðferð stendur taka einnig oft eftir því hvort um ræðir. Því er bæði hætta á eftirtektarbjögun (detection bias) og frammistöðubjögun (performance bias). Einnig er viss valbjögun (selection bias) til staðar þar sem þátttakendur voru allir reiðubúnir til að taka inn efni sem flokkast undir „Schedule I drug”.42 Áhrif psilocybins á einkenni þunglyndis voru mæld í Hedges sem er reiknað út frá mun á meðaltali breytingar sem deilt er í Tafla II. Algengar aukaverkanir hjá þátttakendum sem fengu 25 mg, 10 mg og 1 mg af psilocybini úr fasa 2 rannsókn á COMP360.44 Algengar aukaverkanir COMP360 25 mg % COMP360 10 mg % COMP360 1 mg % Samtals % Höfuðverkur 34 21 25 27 Svefnleysi 10 15 18 14 Ógleði 23 9 5 12 Þreyta 15 7 9 10 Kvíði 9 17 4 10 Ofsagleði 5 7 5 6 Þunglyndi 5 8 6 6 Sjálfsvígshugsanir 6 7 5 6 Breytt líðan 9 4 1 5 Depurð 4 7 5 5

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.