Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.09.2022, Blaðsíða 32

Læknablaðið - 01.09.2022, Blaðsíða 32
408 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 Y F I R L I T S G R E I N með psilocybini sé vissulega meðferð sem mikilvægt er að leggja frekara mat á sem meðferð við þunglyndi og einkum þá MÞÞ. Aukaverkanir voru álíka algengar, en 87% í psilocybin-hópnum og 83% í escitalopram-hópnum greindu frá aukaverkunum. Auka- verkanir af psilocybini vörðu yfirleitt í innan við 24 klukkustundir eftir meðferðina. Erfitt er þó að bera þessar meðferðir saman þar sem SSRI-lyf ná ekki fullri virkni á fyrstu vikum meðferðar og geta haldið áfram að auka virkni sína í margar vikur og jafnvel mánuði. Psilocybin virkar á hinn bóginn hraðar og er ekki tekið daglega eins og SSRI-lyf. Einnig hefur psilocybin að miklu leyti verið hugsað fyrir þá sem svara ekki hefðbundinni fyrstu þung- lyndismeðferð á borð við SSRI og eru því með erfiðari sjúkdóm.43 Forsendur fyrir markaðsleyfi lyfs Til að fá samþykki Evrópsku lyfjastofnunarinnar (The European Medicines Agency, EMA) fyrir lyfi sem meðferð við þunglyndi og markaðsleyfi innan Evrópu þarf að uppfylla ýmis skilyrði. Fram- kvæma þarf fasa 1, 2 og 3 rannsóknir og nauðsynlegt er að gera tvíblindar, slembiraðaðar rannsóknir með samanburði við lyf- leysu eða öðrum samanburði sem EMA telur ásættanlegan. Til að lyf fái formlega ábendinguna MÞÞ þarf einnig að sýna fram á að meðferðin sé betri en þau meðferðarúrræði sem eru nú þegar í boði eða að meðferðin sé að minnsta kosti jafngóð en með minni aukaverkanir. Almennt er hefð fyrir að þær meðferðir sem þykja veruleg inngrip, hafa meiri aukaverkanir eða færri rannsóknir á bak við sig séu helst notaðar þegar hefðbundnu meðferðirnar hafa ekki skilað árangri. Því eru slíkar meðferðir helst notaðar í MÞÞ, þótt formleg ábending liggi ekki fyrir frá EMA og/eða Food & Drug Administration (FDA).54 Með því að uppfylla upptalin skilyrði fengu lyfin ketamín og esketamín markaðsleyfi árið 2019 með ábendingarnar MÞÞ og þunglyndi með bráðri sjálfsvígshættu. 55 Þegar lyf eru komin á markað fer meðferð sjaldnast fram með alveg sama hætti og í rannsóknum, þar sem stöðlun er sérstaklega mikilvæg og mikið lagt upp úr því að allir fái nákvæmlega sömu meðferð þegar rann- sóknir eru gerðar. Slíka meðferð er því ekki alltaf hægt að veita í sömu gæðum utan rannsóknarumhverfis. Því er viss hætta á að hljóti psilocybin markaðsleyfi sem meðferð við þunglyndi og verði aðgengi takmarkað, eins og viðbúið er, meðal annars vegna kostn- aðar, þá kunni ýmsir að freistast til að nota óstaðlaða skammta utan skilgreindrar heilbrigðisþjónustu og minni gæði geti fyrir vikið orðið á meðferðarumhverfi og sálfræðilegum stuðningi líkt og gerst hefur með ketamín.55 Til eru reglur hvað varðar ketamín- meðferð til að reyna að koma í veg fyrir þetta. Hluti af reglu- verkinu er að sækja þarf sérstaklega um notkun tiltekins sérlyfs til lyfja nefndar, sem á að draga úr hættu á að ketamín sé notað í tilfellum þar sem skilyrði eru ekki uppfyllt. Einnig er nauðsynlegt að taka lyfið undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanns meðan á gjöf stendur og í einhverjar klukkustundir á eftir, sem ætti að auka öryggi meðferðar, draga úr ávanahættu og misnotkun og koma í veg fyrir sölu einstaklinga á efninu. Þannig má einnig fylgjast með aukaverkunum.55 Ekki er tekið fram í leiðbeiningum um ketamín- og esketamín- meðferð hvers konar heilbrigðisstarfsmenn skuli sjá um eft- irlit meðferðar.56 Það hefur leitt til þess að í ýmsum löndum á esketamín-meðferð sér stundum stað á stofnunum þar sem þeir sem sjá um gjöf þess hafa ekki hlotið viðeigandi þjálfun. Líklegt er að sérstakt regluverk verði haft til hliðsjónar fáist markaðsleyfi fyrir psilocybin-meðferð. Með því að skilgreina betur hvaða heil- brigðisstarfsfólk eigi að koma að psilocybin-meðferð væri hægt að draga úr meðferð úti í bæ hjá þeim sem ekki hafa hlotið sértæka menntun og þjálfun til að veita meðferðina. Einnig væri hægt að skilgreina hvar meðferð þurfi að eiga sér stað, til dæmis einungis á dagdeild eða göngudeild á vegum 3. stigs heilbrigðisþjónustu að uppfylltum vissum skilyrðum. COMP360 hefur nú gengið í gegnum fasa 1 og 2 rannsóknir og þær niðurstöður lofa góðu. Stefnt er að því að hefja fjölþjóðlega fasa 3 rannsókn á meðferðinni í ár og í kjölfarið sækja um mark- aðsleyfi ef niðurstöður leyfa. Þar sem ekki er hægt að sækja um einkaleyfi fyrir efni sem finnst í náttúrunni eins og psilocybin er COMP360 meðferðin einstök að því leyti að hún felur í sér allt í senn, gjöf psilocybins, fræðslu og stuðning fagaðila.44,50 Það á svo eftir að koma í ljós hvernig regluverk um meðferðina verður, hljóti hún markaðsleyfi á næstu árum. Siðferðileg álitamál Psilocybin er þekkt vímuefni sem hefur verið ólöglegt um ára- tuga skeið. Það veldur ofskynjunum, misskynjunum og mikl- um breytingum á tilfinningum og hugsun, sé það tekið í þeim skömmtum sem virðist þurfa til að ná virkni í meðferð þunglynd- is.57 Því vaknar spurningin hvort réttlætanlegt sé að nýta slíkt efni til meðferðar MÞÞ og þunglyndis almennt. Við meðferð einstak- lings með lyfi eða öðrum inngripum þarf ávallt að hafa í huga kosti og galla slíkra inngripa. Því alvarlegri sem sjúkdómur er, því meiri aukaverkanir er hægt að sætta sig við þar sem ávinningur- inn er talinn meiri en áhættan. Hvað varðar þunglyndi þar sem meðferð hefur ekki áður verið reynd, eru til gagnreyndar með- ferðir nú þegar sem almennt hafa ekki miklar aukaverkanir og eru vel rannsakaðar. Þar höfum við margra ára og áratuga þekkingu á notkun, skömmtum, svörun og langtímaáhrifum. Í rannsókn þar sem borin var saman meðferð með psilocybini og escitalopram sást ekki munur í virkni og því vart skýr forsenda fyrir því að beita psilocybin-meðferð nema þunglyndið hafi ekki svarað hefðbund- inni meðferð.43 Því eru meiri líkur á að psilocybin verði notað við MÞÞ en við fyrstu meðferð þunglyndis ef fasa 3 rannsóknir skila nægilega góðum niðurstöðum. Í flestum þunglyndismeðferðum tekur 4-12 vikur fyrir með- ferðina að sýna marktækan árangur. Oftast er þá auðvelt að stöðva meðferðina hvenær sem er. Þegar einstaklingur tekur psilocybin koma áhrifin hins vegar fram strax. Skjótvirk áhrif psilocybins á þunglyndiseinkenni eru einn aðalkostur þess og skortur hefur verið á slíkum meðferðum en þó mætti segja að eftir töku þess sé ekki aftur snúið. Þetta eykur mikilvægi þess að einstaklingur sé vel upplýstur um hvaða vegferð hann er að leggja í og eigi að auki kost á stuðningi og fræðslu fyrir og eftir meðferð. Raflækningar er önnur þunglyndismeðferð sem virkar fljótt og er hún almennt viðurkennd sem öflugasta meðferðin sem telst gagnreynd við MÞÞ.58 Hvað varðar upplýst samþykki fyrir psilocybin-meðferð með fræðslu og stuðningi er mikilvægt að einstaklingurinn viti hvaða meðferð hann er að fá, hverjar helstu og alvarlegustu auka- verkanirnar hafa verið og hvaða meðferðir aðrar koma til greina.59 Lyf á borð við SSRI-lyf hafa sjaldan alvarlegar aukaverkanir.60

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.