Bændablaðið - 27.04.2023, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 27. apríl 2023
FRÉTTIR
Engar annarlega hvatir eða dulinn
tilgangur liggur að baki kaupum
Jim Ratcliffes á jörðum sem liggja
að laxveiðiám á Austurlandi. Sonur
hans, Samuel Ratcliffe, segir að
markmiðið sé strangheiðarlegt; að
stuðla að verndun Atlantshafslaxins
sem sé í útrýmingarhættu.
Laxverndarverkefnið Six Rivers
stóð fyrir alþjóðlegu málþingi um
framtíð Atlantshafslaxins dagana
18. og 19 apríl sl. á Nordica hóteli
í Reykjavík. Var þetta í þriðja sinn
sem slíkur viðburður var haldinn
sem liður í eflingu vísindalegs
skilnings á ástæðum hnignunar
laxastofnsins og til að innleiða
hagnýtar leiðir til verndunar hans.
Á dagskrá voru fjölmörg erindi
vísindamanna og sérfræðinga um
Atlantshafslaxinn sem komu víðs
vegar að úr heiminum. Stofnandi Six
Rivers og stjórnarformaður þess, sir
Jim Ratcliffe, var af því tilefni hér á
landi með syni sínum, Samuel, sem
situr í stjórn verkefnisins.
„Six Rivers Iceland leggur áherslu
á verndun bæði lands og vistkerfis
nokkurra áa Norðurausturlands og
að styðja viðgang laxastofna þeirra.
Verkefnið er metnaðarfullt að umfangi
og felur í sér umtalsverða fjárfestingu
bæði í beinum verndaraðgerðum og
langtímarannsóknum svo staðinn
verði vörður um eitt af síðustu
svæðunum þar sem Atlantshafslaxinn
dafnar,“ segir í tilkynningu um
verkefnið, sem er fjármagnað
beint af Ratcliffe auk tekna af
stangveiðiupplifunum í ánum, þar
sem reglan er að öllum veiddum fiski
er sleppt aftur.
Sjálfbær verkefni áhrifaríkust
Samuel Ratcliffe er sonur Jims
Ratcliffe. Hann segir það krefjandi
verkefni að sannfæra fólk um
mikilvægi verndunar laxfisksins.
„Atlantshafslaxinn er lykiltegund
en fær ekki nóga athygli. Fólk þekkir
lax sem mat. Sem slíkur reynist
erfiðara að selja hugmyndina um
vernd hans í samanburði við til
dæmis fíla eða ljón – því það er
mun aðgengilegri frásögn. Einmitt
vegna þess hve krefjandi verkefnið
er þá er það mikilvægt. Hnignun
stofnsins er hraður, hann er kominn
niður fyrir fimm milljón fiska og er
því kominn á válista yfir tegundir í
útrýmingarhættu. Fólk áttar sig ekki
svo auðveldlega á þessu. Því viljum
við beina sjónum að tegundinni og
grípa til aðgerða sem styður við
varðveislu laxins.“
Ratcliffe á eignarhlut í tugum
jarða á Norðausturlandi sem eiga allar
land að ám sem Atlantshafslaxinn
þrífst í. Samuel segir að tilgangur
eignarhaldsins snúi eingöngu að því
að vernda tegundina. Með stjórn á
ánum geti þeir viðhaldið þeim og bætt
gæði þeirra. Þegar kaup þeirra hófust
fyrir nokkrum árum hafi fólk verið
uggandi. „En með tímanum hefur
fólk séð að eina ástæðan fyrir þessu
er verndun laxins. Við erum ekki
með neinar undirliggjandi leynilegar
ástæður, þetta er heiðarlegt verkefni.“
Þó nokkurt landbúnaðarland
fylgir þeim jörðum sem eru í eigu
Ratcliffe. „Við erum reyndar í þeirri
vinnu núna að fara yfir allar eignirnar
og greina notkunarmöguleika þeirra.
Við viljum hafa jarðirnar í búrekstri.
Við leyfum þeim bændum sem þar eru
að meta hvernig best sé að nýta þær.
Einu áhrifin sem við viljum hafa eru
í kringum árnar.“
Langtímamarkmiðið sé þó að
verkefnið verði sjálfbært. „Það er
reynsla okkar að sjálfbær verkefni
eru áhrifaríkari en þau sem maður
þarf stöðugt að viðhalda. Faðir
minn stofnaði þetta og ég mun
fylgja því eftir en á endanum er
meginmarkmiðið að verkefnið
geti fjármagnað sjálft sig með leigu
stangveiðiupplifana án aðkomu
okkar.“
Samuel segir að aðstandendur
Six Rivers hafi áhuga á að komast
í samband við aðra laxáreigendur
hér á landi. „Okkur langar að sýna
hvað við erum að gera, af hverju
við erum að þessu og hvernig við
störfum. Við viljum til dæmis kynna
fyrir þeim veiðireglurnar okkar
sem þóttu nokkuð umdeildar. Við
styttum veiðitímann, takmörkuðum
fjölda stanga og sleppum öllum laxi.
Þá er gestum einungis heimilt að
nota léttan búnað – allt til að vernda
laxinn og bæta gæði upplifunar
sportveiðimanna.“
Málþingið hafi þannig verið
liður í að vekja umræðu, kynna
þá þekkingu sem sé til staðar og
reyna að ná fram hugmyndum
að aðgerðum til verndar
Atlantshafslaxinum.
/ghp
Samuel Ratcliffe, sonur Jims Ratcliffe, segir að allt landbúnaðarland í eigu
Six Rivers eigi að vera nýtt í búrekstur. Mynd / ghp
Atlantshafslaxinn:
Ratcliffe vill hafa
jarðir sínar í búrekstri
Búið er að endurreisa garðyrkju
stöðina Jarðarberjaland og er
fram leiðsla komin aftur á fullt,
en stöðin eyðilagðist í aftakaveðri
sem gekk yfir Suðurland í febrúar
á síðasta ári. Stefnt er að enn
meiri framleiðslu allt árið með
endurbættri stöð.
„Við settum fyrstu plönturnar inn
í nýja húsið um miðjan desember og
fyrsta uppskeran fór á markað um
miðjan mars. Við erum þegar komin
í meiri afköst en við vorum í og tínum
hér á fullu alla daga. Uppskeran fer svo
í gegnum Sölufélag garðyrkjumanna
(SFG) til dreifingar í verslunum,“
segir Hólmfríður Geirsdóttir, eigandi
Jarðarberjalands.
Landsmenn sitja ekki
allir við sama borð
Að sögn Hólmfríðar sendir stöðin
frá sér vikulega hundruð kílóa, en
SFG sækir ber til þeirra þrisvar í viku.
„Svo fer þetta í þær verslunarkeðjur
sem vilja selja íslensk jarðarber,
en það eru ekki allar verslanir sem
vilja það, því miður. Við fáum
athugasemdir frá viðskiptavinum
okkar stundum um að þeir sjái ekki
framleiðsluna okkar í þeirra búðum.
Það er þá undir verslunarstjórum
þessara verslana komið að ákveða
hvort þeir vilji bjóða upp á þessa vöru
og leyfa kúnnanum að hafa valið – en
okkur finnst það frekar leiðinlegt að
vörurnar okkar virðast skila sér síður
í verslanir úti á landsbyggðinni.
Í því sambandi er ekki við SFG að
sakast, heldur er það í valdi hverrar
verslunar fyrir sig að ákveða þetta,“
segir Hólmfríður.
Hún segir að tjónið sem þau urðu
fyrir á síðasta ári hafi verið mikið
en byggt hafi verið upp frá grunni.
„Við byrjuðum á því að rífa hitt
húsið alveg í burtu og svo var ný stöð
byggð, með nýjum lýsingarbúnaði og
öðrum búnaði, sem getur afkastað
meiru og hún á að þola talsvert meira
veðurálag en sú fyrri.
Tryggingarnar bættu okkur upp
hluta tjónsins en við urðum að taka
á okkur talsvert fjárhagslegt högg,“
segir Hólmfríður. /smh
Jarðarberjaland endurreist
– Framleiðir nú á auknum afköstum allan ársins hring
Hólmfríður Geirsdóttir jarðarberjaræktandi og eigandi Jarðarberjalands.
Hrossaræktarfundir
Elsa Albertsdóttir, ræktunar
leiðtogi íslenska hestsins, og
Nanna Jónsdóttir, formaður
deildar hrossabænda hjá
Bændasamtökum Íslands, munu
ferðast um landið næstu daga
og funda með hestamönnum
og hrossaræktendum, sem eru
hvattir til að fjölmenna.
Skipulag fundanna er eftirfarandi:
• Fim. 27. apríl kl. 20:00 – Höfn
• Fös. 28. apríl kl. 20:00 – Egilsstaðir
• Lau. 29. apríl kl. 12:00 – Akureyri
• Sun. 30. apríl kl. 12:00 –
Sauðárkrókur
• Sun. 30. apríl kl. 20:00 – Vestur-
Húnavatnssýsla
• Mið. 3. maí kl. 20:00 – Borgarnes
• Fim. 4. maí kl. 20:00 – Hella
Í tilkynningu frá RML og
BÍ kemur fram að nákvæmar
staðsetningar hvers fundar verði
auglýstar í netmiðlum hestamanna.
Hnífjöfn Meistaradeild
Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir
var sigurvegari einstaklingskeppni
Meistaradeildar Líflands í
hestaíþróttum eftir æsispennandi
lokakeppni sem fram fór í
HorseDayhöllinni að Ingólfshvoli
þann 14. apríl sl.
Meistaradeildin samanstendur
af sex keppnisviðburðum í
vetur þar sem átta lið með fimm
knöpum innanborðs öttu kappi
í átta keppnisgreinum. Fyrir
lokakeppnisgreinina, 100 m
skeið, var Árni Björn Pálsson
með eins stigs forskot á Aðalheiði
Önnu. Því þurfti annað þeirra
einfaldlega að skeiða hraðar
gegnum keppnishöllina. Þau fóru
sprettina hins vegar hnífjöfn, á 5,66
sekúndum. Þar sem næstfljótasti
sprettur Aðalheiðar Önnu var betri
en hjá Árna hlaut hún stigi meira og
því voru þau hnífjöfn í lok mótsins.
Aðalheiður hefur hins vegar
stigið á verðlaunapall oftar í vetur og
sigraði hún því einstaklingskeppni
deildarinnar. Hún sigraði í keppni
í fjórgangi og slaktaumatölti T2 á
Flóvent frá Breiðsstöðum, var þriðja
í 100 metra skeiði á Ylfu frá Miðengi
og fjórða sæti í gæðingafimi á
fyrrnefndum Flóvent. Árni Björn
Pálsson var í öðru sæti og Konráð
Valur Sveinsson í því þriðja.
Liðakeppnin var ekki síður
spennandi. Þar enduðu einnig
tvö lið jöfn að stigum en vegna
árangurs innbyrðis sigraði lið Top
Reiter sem skipað var knöpunum
Teiti Árnasyni, Árna Birni Pálssyni,
Eyrúnu Ýri Pálsdóttur, Þórdísi
Ingu Pálsdóttur og Konráði Vali
Sveinssyni. Lið Hjarðartúns
var í öðru sæti og Ganghestar/
Margrétarhof í því þriðja. /ghp
Sigurvegari Meistaradeildarinnar í hestaíþróttum, Aðalheiður Anna
Guðjónsdóttir, og Flóvent frá Breiðsstöðum.