Bændablaðið - 27.04.2023, Blaðsíða 29
29Bændablaðið | Fimmtudagur 27. apríl 2023
Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga mun blása
til afmælishátíðar í Fossselsskógi þann 24. júní
nk. af tilefni þess að 80 ár eru síðan félagið
var stofnað.
Skógræktarfélagið var stofnað 19. apríl 1943
og er sambandsfélag deilda sem stofnaðar voru
í hreppum Þingeyjarsýslu. Fossselsskógur hefur
verið helsta skógræktarsvæði félagsins.
„Fyrstu áratugina var aðalstarf félagsins að
hvetja til og styrkja skógrækt á sem flestum
jörðum í sýslunni og skógarreitirnir urðu liðlega
eitt hundrað. Árið 1960 tók félagið á leigu
helming af Fossselsskógi og 1966 fékk félagið
leigusamning um allan skóginn. Næstu áratugi
varð skógurinn aðalræktunarsvæði félagsins. Auk
Fossselsskógar hefur félagið gróðursett umtalsvert
svæði í Hjallaheiði í Reykjadal. Hin síðari ár hefur
umhirða og nýting skóganna orðið aðalverkefni
félagsins. Félagið hefur tekjur af höggi jólatrjáa og
trén í Fossselsskógi hafa nú náð nýtingarstærð og
munu næstu áratugi skila umtalsverðum viðarafla,“
segir í tilkynningu frá Agnesi Þ. Guðbergsdóttur,
formanni Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga.
Nú verði grisjun og nýting skógarins
mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins. „Gömlu
heimilisskógarnir eru yndisreitir á fjölmörgum
bæjum í sýslunni og skógar félagsins í Fossseli
og á Hjallaheiði eru fögur útivistarsvæði.
Kolefnisbinding úr andrúmslofti er orðin
mikilvægur hluti skógræktar á Íslandi og skógar
félagsins binda árlega mikið kolefni og munu gera
um langa framtíð.“
Nánari upplýsingar um dagskrá afmælis-
hátíðarinnar verða auglýstar þegar nær dregur.
Hvað er ...
PFAS?
PFAS er skammstöfun á per- and
polyfluorinated alkyl substances
sem er flokkur manngerðra fjölliða,
nytsamlegra til margra hluta. PFAS
efni brotna seint eða aldrei niður í
umhverfinu og færast upp fæðu-
keðjuna. Aukin meðvitund er um
skaðsemi efnanna á heilsu fólks og
annarra lífvera.
Helst ætti fólk að þekkja PFAS efni í
Teflon steikingarpönnum og Gore-
Tex útivistarfatnaði. Framleiðsla
PFAS hófst á sjötta áratugnum
og eru efnin eftirsótt í fjölmargar
vörur vegna eiginleika þeirra til að
hrinda frá sér vatni og fitu. PFAS
byggja á sterku efnasambandi
kolefna og flúors.
Fyrirtækjum ber ekki skylda
að taka fram hvort vörur þeirra
innihaldi PFAS. Neytendur sem
vilja sneyða hjá PFAS geta valið
verslunarvörur með Svansmerki,
öðrum umhverfismerkjum eða
sem eru sérstaklega merktar
PFAS- eða flúorfríar, eins og
kemur fram á heimasíðu Umhverfis-
stofnunar. Vatnsheldur útivistar-
fatnaður með vaxhúð í stað
Gore-Tex er umhverfisvænni lausn.
Fjällräven var meðal fyrstu vöru-
merkjanna til að fasa út allt PFAS
í sínum útivistarvörum. Evrópska
lífvöktunarverkefnið HBM4EU tekur
fram í upplýsingabæklingum að
4.700 mismunandi efni teljast
til PFAS efnahópsins. Það gerir
vísindasamfélaginu erfitt að skil-
greina hver skaðsemi hvers og
eins er og koma með ráðleggingar
hver skuli leyfð og hver ekki. Sum
þeirra sem hafa verið rannsökuð
eru grunaðir krabbameinsvaldar,
talin hafa eituráhrif á æxlun, valda
skjaldkirtilssjúkdómum, hækka kóle-
strol, valda lifrarskaða, hafa neikvæð
áhrif á ónæmiskerfið ásamt mörgum
öðrum kvillum. ESB hefur til skoðunar
að banna öll PFAS efni sem ekki hafa
fengið staðfestingu á skaðleysi.
Vegna mikillar notkunar PFAS
undanfarna áratugi má gera ráð
fyrir að líkamar flestra einstaklinga
innihaldi efnin í einhverju magni.
Efnin komast í líkamann ýmist í
gegnum öndun, meltingarveg eða
húð. Í gegnum lungun berst PFAS
með ryki sem losnar frá hinum
og þessum vörum. Í gegnum
meltingarveginn berst PFAS með
fjölmörgum fæðutegundum eins
og fiski, kjöti, ávöxtum og eggjum.
Einnig frá matvælum sem geymd
eru í PFAS umbúðum eða elduð á
PFAS pönnum. Slökkviliðsmenn
eru í helstri hættu við að fá PFAS
í gegnum húðina þar sem það er
notað í eldvarnarefni og froður.
Almenningur er minna útsettur
fyrir PFAS í gegnum húð en getur
fengið efnin í sig í gegnum notkun
á málningu, vatnsfráhrindandi húð
o.fl. PFAS dreifist auðveldlega um
umhverfið, en efnin hafa fundist á
heimskautunum og í óbyggðum
um heim allan. Þau magnast á
leið sinni upp fæðukeðjuna, en
nýlega greindist mikið magn PFAS
í lífrænum dönskum eggjum sem
rakið var til fóðrunar varphænanna á
fiskimjöli, en höfin eru menguð PFAS.
Evrópska lífvöktunarverkefnið telur
upp algenga hluti sem innihalda PFAS
og er þar fyrst að nefna áðurnefndar
viðloðunarfríar pönnur. Einnig eru
listaðar upp umbúðir skyndibita eins
og örbylgjupoppspokar, fitufrá-
hrindandi pappír, pitsukassar og
nammiumbúðir. Þá eru efnavörur
eins og ofnahreinsir, fituhreinsir,
blettaeyðir, stíflueyðir, málning, lakk,
þéttiefni, blettaþolin húð notuð á
teppi, klæðningu og annan textíl oft
með PFAS. Algengar neysluvörur
eins og vatnsfráhrindandi og
efnaþolinn fatnaður, snyrtivörur eins
og sjampó, tannþráður, naglalakk og
farði innihalda oft PFAS. Sérhæfðari
hlutir eins og eldvarnarfroður,
smurefni og skíðavax byggja
eiginleika sína gjarnan á PFAS.
/ÁL
Afmælisár Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga
Fyrstu áratugina var aðalstarf félagsins að styrkja
skógrækt á sem flestum jörðum sýslunnar.