Harmonikublaðið - 15.05.2020, Blaðsíða 19

Harmonikublaðið - 15.05.2020, Blaðsíða 19
Bragi Gunnarsson f. 26. mars 1937 - d. 26. nóvember 2019 Kveðja frá Harmonikufélagi Rangæinga Fljótlega eftir stofnum Harmonikufélags Rangæinga árið 1985 gekk Bragi til liðs við félagið og kom fyrst fram með hljómsveit félagsins á landsmóti Sambands íslenskra harmonikuunnenda árið 1990 og lék þá á rythmagítar. Ekki löngu síðar færði hann sig yfir á bassagítar og lék með hljómsveitinni á bassann allt til ársins 2015 er hann dró sig í hlé. Það er reyndar varla hægt að fjalla um Braga nema eiginkona hans Unnur sé nefnd í sama orðinu, svo samrýmd voru þau hjón í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Unnur gekk í harmonikufélagið um leið og Bragi og hafa þau í gegnum árin verið traustir og góðir félagar og öðrum til fyrirmyndar hvað það varðar. Bragi var kjörinn gjaldkeri í félaginu 1996 og gegndi því starfi allt til ársins 2014 er hann lét af embætti og eru honum þökkuð traust og góð störf en ekki er grunlaust um að þar hafi Unnur nokkuð að komið líka. Bragi hafði næmt eyra fyrir lögum og lagavali og hafði ákveðnar skoðanir á tveggja og þriggja hljóma lögum og gat verið fastur fyrir ef því var að skipta. Á sextugsafmæli sínu fékk hann harmoniku í afmælisgjöf og sótti nokkra tíma í námi til félaga síns Grétars í Áshól og einnig hafði hann til taks trommusett til heimabrúks og fyrir gesti og ósjaldan var talið í lag er gesti bar að garði. Fyrr á árum var gjarnan farið á rútu í ferðir bæði á heimaslóðir og í heimsóknir til annarra harmonikufélaga vítt um landið og var þá gist í tjöldum eða legið í flatsæng í samkomuhúsum eða skólum og voru hljóðfærin ætíð með í för og fjörið þá allsráðandi hvar sem stoppað var. Ef veður var gott þá var spilað á tjaldstæðinu gjarnan undir berum himni og var aldrei spurt um heiti eða færni manna, allir voru með. Einnig fór félagið til Danmerkur og Færeyja og að sjálfsögðu var bassinn með í för. Á seinni árum hefur fólkið flust úr tjöldunum og flatsængunum í draghýsi eða húsbíla en þau hjón áttu slíkan bíl sem þau notuðu og nutu þess að sækja hinar ýmsu hátíðir og landsmót á vegum harmonikuunnenda vítt um land. Við minnumst Braga fyrst og fremst sem trausts og góðs félaga og þökkum honum fyrir samstarfið öll þessi ár. Nú er Bragi kominn á aðrar lendur og ekki ólíklegt að talið verði í nokkur lög og væntanlega verður Oli Lokbrá þar ofarlega á blaði en það lag var í miklu uppáhaldi hjá honum. Unni og afkomendum þeirra hjóna færum við okkar innilegustu samúðarkveðj ur. F.h. Harmonikufélags Rangœinga Haraldur KonráSsson 19

x

Harmonikublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Harmonikublaðið
https://timarit.is/publication/1088

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.