Gripla - 2022, Blaðsíða 271
269
þess predikunarstóll árið 1684, sennilega staðsettur framan við eða undir
svölunum sunnanmegin. Þessi lýsing nær aðeins til hússins sjálfs og helstu
innréttinga en sagt verður frá öðrum búnaði og munum að neðan.
Timburkirkjur eiga sér langa sögu á Íslandi. Smíðalag var oftast svo-
kallað stafverk sem gat tekið á sig ýmsar myndir. Stafverk og stafkirkjur
draga nafn sitt af rúnnuðum „stöfum“ sem báru bygginguna uppi.9 Í
úttektinni eru stafirnir nefndir „stöplar“ sem er ný merking orðsins vegna
þess að á miðöldum merkti „stöpull“ kirkjuturn.10 Stafirnir voru ýmist
frístandandi inni í miðju kirkjuskipinu eða innsettir í þiljur og veggi. Tíu
stafir báru uppi háþak Þingeyrakirkju og stóðu í tveimur röðum, fimm
norðanmegin og jafnmargir sunnanmegin, hver tæpir fimm metrar á hæð
sem samsvarar rúmlega tveimur hæðum í íbúðarhúsum nútímans. Þar fyrir
ofan var rjáfrið og súðin, um þrír metrar á hæð. Tveir stafanna voru felldir
inn í vesturgafl kirkjunnar en átta frístandandi inni í kirkjunni. Utar til
hliðanna voru aðrar tvær raðir lægri „útbrotastafa“ (hver um þrír metrar),
fimm hvorum megin, og þjónuðu sem stoðir og hornstafir í ytri veggjum
kirkjunnar. Hverjir 5 stafir mynduðu fjögur „stafgólf“ sem kallað var.
Margbrotið þakið hefur verið helsta prýði hússins og sett svip á
Þingeyraklaustur þar sem kirkjan var stærst og íburðarmest bygginga.
Þakið var samsett úr sextán aðgreindum flötum. Á kirkju, miðkór og
innrikór voru tvíhliða súðþök efst en auk þess lægri einhliða súðþök á
útbrotum eða hliðarskipum fyrri eininganna tveggja. Á þakinu var líklega
sköruð súð með tjörguðum þakfjölum, ef til vill með undirlagi eða langsúð.
Ekki er þess getið að á Þingeyrakirkju hafi verið spónþak eða tréflísar.
Súðþök eða þakkvistir voru einnig á krossörmum kórsins en innri kórinn
var eins og áður sagði útbrotalaus. Í lýsingu rjáfurs og þaks er talinn
upp fjöldi bita, skammbita, sperra, höggsperra, langbanda, mænitróða,
sláa og syllna, svo flókin þaksmíðin hefur heillað kirkjugesti og vakið
hugrenningar um mannlegt hugvit, himneska borg og eilífð. Að utan var
kirkjan studd grenistoðum sem komu í veg fyrir að hún fyki í óveðrum.
Slíkar stoðir eru þekktar annars staðar frá og gegndu að einhverju leyti
9 Þegar hafa fundist tvær stoðarholur á Þingeyrum, þar sem kirkjan virðist hafa staðið, og
fleiri komið fram á jarðsjármælingamyndum.
10 Um merkingu orðsins, sjá óútgefna MA-ritgerð Guðrúnar Harðardóttur, Stöpull Páls biskups
Jónssonar í Skálholti: gerð hans, hlutverk og áhrif í sögulegu og listasögulegu ljósi (Reykjavík,
2001), 9–17, ásamt samantekt um miðaldastöpla aðra en á dómkirkjunum, 101–3 (eintak af
ritgerðinni er á Landsbókasafni – Háskólabókasafni).
HEIMILDIR UM KLAUSTURKIRKJUNA Á ÞINGEYRUM