Gripla - 2022, Blaðsíða 280
GRIPLA278
þótt efast hafi verið um það, hefur kirkjan verið búin tveimur stöplum eða
klukknahúsum í vesturendanum.33
Flest bendir því til að endalok klausturkirkjunnar á Þingeyrum hafi
borið til árið 1695 þegar þessi forna og tilkomumikla kirkja, sem hafði að
líkindum prýtt Þingeyraklaustur í ríflega fimm hundruð og sextíu ár, var
tekin niður af Lárusi nokkrum Gottrup, dönskum umboðsmanni konungs,
sem lét byggja aðra, „hverja hann og að velli alsendis aleinn berhendur
hefur uppbyggja látið“, eins og hann svo borginmannlega kemst að orði í
nýrri úttekt Þingeyraklausturs frá árinu 1704. Þótt gamla klausturkirkjan
hafi þarfnast viðgerða var hún samkvæmt úttektinni 1684 síður en svo
ónýt eða að hruni komin og hefði væntanlega mátt gera við hana. Sennilega
hefur Lárusi Gottrup einfaldlega ekki líkað miðaldasvipurinn á gömlu
klausturkirkjunni. Hann var framkvæmdasamur maður og nýju kirkjuna
hefur hann byggt úr kóngsins timbri, ef marka má orð dóttursonar hans
Ólafs Gíslasonar í óprentuðum endurminningum hans, a.m.k. segir í úttekt
þeirrar kirkju frá 1704 að timbrið hafi verið nýlegt og á nokkrum stöðum
í lýsingunni eru nefnd „Gullandsborð“ sem að sögn Páls Vídalíns var inn-
flutt gæðatimbur frá Gotlandi.34 Að vísu viðurkennir Gottrup í úttekt
33 Bent hefur verið á líkindi við kirkjuteikningu í upphafsstaf á bl. 69v í Flateyjarbók, GKS
1005 fol. en erfiðara er að tengja þá mynd beint við Þingeyrarkirkju þótt handritið geti hafa
verið skrifað þar. Guðvarður Már Gunnlaugsson, „Ormur ber heyið eða …. Skandinavische
Schriftlandschaften“. Vänbok till Jürg Glauser, ritstj. Klaus Müller-Wille, Kate Heslop,
Anna Katharina Richter, Lukas Rösli, Beiträge zur nordischen Philologie 59 (Tübingen:
Narr Francke Attempto Verlag, 2017), 146–49, ásamt tilvísunum í fyrri skrif um efnið.
Hægt er einnig að túlka stöpul sem frístandandi einingu. Steinunn Kristjánsdóttir, Leitin
að klaustrunum, 98–99. Guðrún Harðardóttir, Stöpull Páls biskups Jónsonar, 9–17, telur að
orðnotkun í heimildum bendi sterklega til þess að á miðöldum hafi orðið „stöpull“ samsvarað
nokkurn veginn nútímanotkun orðsins kirkjuturn. Guðrún ræður þetta meðal annars af
leiðbeiningum um húsavirðingar í Lbs 63 4to (frá 1678) sem prentaðar eru hjá Guðbrandi
Jónssyni, Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal: Lýsing íslenzkra miðaldakirkna. Safn til sögu
Íslands og íslenzkra bókmennta ad fornu og nýju 5:6 (Reykjavík: Gutenberg, 1919–29),
111–12, en þar er rætt um „kirkjur sem storar eru. so sem klaustrum hæfer. edur þo nockud
minne sieu. þegar stopullinn er vj. vij eda viij al<n>a har og Bitinn vij eda viij alna langur.
og sie smijdad af nyum vidum og sie þiliad i hvolf og golf og med tueimur þockum i Ræfur
og veggi. allt af trie smijdad“. Ekki er þó ljóst hvað af þessum leiðbeiningum megi ráða um
stöpla klausturkirkna annað en að talað er um einn stöpul aðeins; ekki er tekið fram að hann
sé frístandandi og hæðin er áætluð sex til átta álnir, sem er töluvert minna en hæð framkirkju
Þingeyraklausturskirkju samkvæmt úttektinni 1684 („á hæð 13 álnir 3 kvartel“).
34 Sigfús Blöndal fann handrit Ólafs Gíslasonar á Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn með
æviminningum hans á dönsku og þýddi á íslensku kaflann um Þingeyrar, sem honum
þótti sérlega áhugaverður, og gaf hann út með inngangi og skýringum. Ólafur Gíslason,