Læknablaðið : fylgirit - 03.01.2017, Qupperneq 58
X V I I I V Í S I N D A R Á Ð S T E F N A H Í
F Y L G I R I T 9 1
58 LÆKNAblaðið/Fylgirit 91 2017/103
E 171 Langtímaárangur skurðaðgerða við sjálfsprottnu loftbrjósti á
Íslandi 1991-2015
Tinna Harper Arnardóttir1,2, Guðrún F. Tómasdóttir1, Arnar Geirsson1, Tómas
Guðbjartsson1,2
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, Læknadeild, Háskóli Íslands, 2Læknadeild, Háskóli Íslands
tinna.harper@gmail.com
Inngangur: Sjálfsprottið loftbrjóst getur greinst endurtekið og þarf þá oft
að grípa til skurðaðgerðar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni
og langtímaárangur þessara aðgerða hér á landi með áherslu á fylgikvilla
og tíðni enduraðgerða vegna endurtekins loftbrjósts.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 362 sjúklingum (meðal-
aldur 29,4 ár, 77,8% karlar) sem gengust undir 431 aðgerð við sjálfsprottnu
loftbrjósti á Íslandi 1991-2015. Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám og
m.a. skráð tegund aðgerðar, 30 daga dánartíðni og hvort greinst hefði
endurtekið loftbrjóst sem krafðist enduraðgerðar. Meðaleftirlitstími var
153 mánuðir og miðast eftirlit við 1. mars 2016.
Niðurstöður: Að meðaltali voru framkvæmdar 17±6,3 aðgerðir á ári og
sveiflaðist tíðnin frá 8 til 31 aðgerðar á ári. Meðalaðgerðartími var 60 mín-
útur og voru algengustu ábendingarnar annað (38,5%) og fyrsta loftbrjóst
(30,3%). Í 99,1% tilfella var gerður fleygskurður, en í 56,9% tilfella var
bætt við fleiðruertingu og hjá 13,1% hlutabrottnámi á brjóstholsfleiðru.
Hlutfall aðgerða með brjóstholssjá (VATS) jókst úr 67% fyrstu 5 árin í
97% þau síðustu. Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru viðvarandi
loftleki (11,8%) og endurtekið loftbrjóst (9,0%). Enginn sjúklingur lést
innan 30 daga frá aðgerð. Alls þurftu 27 einstaklingar enduraðgerð vegna
loftbrjósts (6,3%), þar af einn með þekktan lungnasjúkdóm, og var tíðnin
hærri eftir brjóstholsspeglun en eftir brjóstholsskurð (8,0% á móti 3,4%,
p<0,01). Tímalengd frá aðgerð að endurteknu loftbrjósti var að miðgildi 4
mánuðir (bil: 0-47).
Ályktanir: Árangur skurðaðgerða við sjálfsprottnu loftbrjósti er góður
á Íslandi. Þó er endurtekið loftbrjóst vandamál, en líkt og erlendis er
tíðni endurtekins loftbrjósts tvöfalt hærri eftir brjóstholsspeglun en opna
skurðaðgerð.
E 172 Endurinnlagnir eftir skurðaðgerðir vegna lungnakrabbameins -
frumniðurstöður
Björn Friðriksson1, Guðrún N. Óskarsdóttir2, Hannes Halldórsson1, Hrönn
Harðardóttir1,3, Arnar Geirsson2, Steinn Jónsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,2
1Háskóli Íslands, Læknadeild, 2Landspítali, Hjarta og lungnaskurðdeild, 3Lungnadeild
Landspítala
bmf3@hi.is
Inngangur: Bráðar endurinnlagnir eftir skurðaðgerðir vegna lungna-
krabbameins hafa ekki verið rannsakaðar áður hér á landi. Tilgangur
rannsóknarinnar var að skoða endurinnlagnir, forspárþætti þeirra og
dánartíðni þessa sjúklingahóps.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust
undir aðgerð vegna lungnakrabbameins á Íslandi árunum 1991-2014.
Endurinnlögn var skilgreind sem bráðainnlögn á sjúkrahús innan 90
daga frá útskriftardegi. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að meta
forspárþætti innlagnar innan 30 og 90 daga en einnig dánartíðni innan 90
daga og 6 mánaða.
Niðurstöður: Á ofangreindu tímabili fór 641 einstaklingur í 670 aðgerðir
og útskrifaðist af spítalanum í kjölfarið; 570 fóru í blaðnám, 81 í lungna-
brottnám og 82 í fleyg/geiraskurð. Tíðni endurinnlagna eftir 30 og 90
daga var 9,7% og 16,4%. Flestar endurinnlagnir (59%) voru innan 30 daga
frá útskrift, og voru oftast vegna fylgikvilla tengdum aðgerðinni (63%).
Áhættuþættir endurinnlagnar innan 30 daga voru saga um lungnateppu
(HL 1,98, 95%-ÕB: 1,09-3,55) og minniháttar fylgikvilli í legu (HL 3,3,
95%-ÕB:1,9-6,1). Stig lungnakrabbameins (HL 1,43, 95%-ÕB: 1,22-1,70),
meiriháttar fylgikvilli í legu (HL 5,40, 95%-ÕB:2,11-13,26), endurinnlögn
innan 30 daga (HL 3,66, 95%-ÕB: 1,71-7,53) og ASA-skor (HL 1,66, 95%-
ÕB: 1,03 - 2,70) voru sjálfstæðir forspárþættir dauða innan 6 mánaða.
Ályktanir: Endurinnlagnir eru algengar eftir skurðaðgerðir vegna
lungnakrabbameins, eða 10% á fyrsta mánuði eftir aðgerð. Flestar endur-
innlagnir má rekja til fylgikvilla eftir aðgerð sem oft tengjast undirliggj-
andi lungna- eða hjartasjúkdómum. Aukið eftirlit að útskrift lokinni gæti
fækkað endurinnlögnum hjá þessum sjúklingahópi.
E 173 Stigun lungnakrabbameins með miðmætisspeglun á Íslandi
2003-2012
Jónína Ingólfsdóttir1, Þóra Sif Ólafsdóttir1, Hrönn Harðardóttir2,3, Steinn Jónsson2,3,
Tómas Guðbjartsson1,3
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2Lungnadeild, Landspítali, 3Læknadeild Háskóla Íslands
jonina.ingolfsdottir@gmail.com
Inngangur: Miðmætisspeglun er talin kjörrannsókn til að meta útbreiðslu
lungnakrabbameins í eitla efra og fremra miðmætis, enda þótt rann-
sóknaraðferðir eins og jáeindaskönnun og berkju-/vélindaómspeglun hafi
fækkað þessum aðgerðum undanfarin ár. Markmið rannsóknarinnar var
að kanna árangur miðmætisspeglunar á Íslandi og meta neikvætt forspár-
gildi við greiningu miðmætiseitilmeinvarpa lungnakrabbameins.
Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar (n=125, meðalaldur 66 ár, 49% karl-
ar) með lungnakrabbamein sem ekki var af smáfrumugerð sem gengust
undir miðmætisspeglun á Landspítala 2003-2012. Farið var yfir sjúkra-
skrár, reiknað út 30 daga dánarhlutfall og farið yfir vefjasvör. Neikvætt
forspárgildi miðmætisspeglunar var reiknað hjá 66 sjúklingum sem í kjöl-
farið gengust undir brjóstholsskurðaðgerð með lækningu að markmiði.
Niðurstöður: Miðmætisspeglunum fjölgaði úr 2 árið 2003 í 24 árið 2012
(p<0,001). Meðal aðgerðartími var 31 mínúta og 64% sjúklinga útskrif-
uðust innan sólarhrings frá aðgerð. Að meðaltali voru tekin sýni úr 2,9
miðmætiseitlum (bil: 1-5). Hjá 42 sjúklingum (34%) fundust meinvörp
í að minnsta kosti einum eitli, en hjá hinum eitilvefur eða ósérhæfðar
vefjabreytingar. Í þremur tilfellum (2%) fékkst ekki vefjasýni úr eitlum.
Alls fengu 5% sjúklinga einhvern fylgikvilla í eða eftir aðgerð og voru þeir
helstu hæsi (2,4%), skurðsýking (0,8%) og lungnabólga (0,8%). Neikvætt
forspárgildi miðmætisspeglana reyndist 91,9%, en 5/66 sjúklingar reynd-
ust hafa meinvörp í miðmætiseitlum (N2-eitlastöð) við aðgerð sem ekki
höfðu greinst við miðmætisspeglun. Enginn sjúklingur lést innan 30 daga
frá aðgerð.
Ályktanir: Árangur miðmætisspeglana er mjög góður hérlendis sem
endurspeglast í lágri tíðni fylgikvilla og 0% 30 daga dánartíðni. Neikvætt
forspárgildi er í samræmi við erlendar rannsóknir.