Bændablaðið - 21.09.2023, Side 21
21Bændablaðið | Fimmtudagur 21. september 2023
drapst svo mikið,“ segir Sigurborg.
Á sumum stöðum hafi í kringum 20
prósent fjárins fallið ár hvert vegna
riðu. Þá hafi verið farið í átak, sem hafi
tekist gríðarlega vel og nú sé landið
að mestu laust við sjúkdóminn, fyrir
utan ákveðin svæði í Skagafirði og í
Húnavatnssýslum.
Árið 1986 var það fyrirkomulag
sett á laggirnar sem við þekkjum í dag,
sem felst í að skera niður riðuhjarðir á
einstaka bæjum, eða skera niður fé í
heilu varnarhólfunum þar sem sóttin er
landlæg. Þegar ráðist sé í niðurskurð á
riðubæ fylgi því viðamiklar hreinsanir
og förgun efna, auk þess sem bænum
er haldið fjárlausum. Fyrst voru það
þrjú ár, en nú sé miðað við tvö ár.
Undanfarin fimmtán ár sé ekki
hægt að tala um riðufaraldur, heldur
stök tilvik. Það sé þó ekki hægt að
fullyrða að hún komi ekki upp aftur
á öðrum svæðum vegna þess hversu
lengi smitefnið hefur verið virkt í
umhverfinu. Eftir því sem tímanum
líði minnki líkur á enduruppkomu.
Varnarhólf aðallega vegna riðu
Eins og áður segir hefur mæðiveiki
verið útrýmt og er búið að þróa
bóluefni gegn garnaveiki. Því má
segja að varnarhólfin snúi helst að
vörnum gegn riðu í dag. Sigurborg
segir hólfin hafa í för með sér
takmarkanir sem snúi að sauðfé
og geitum, en einnig nautgripum
þar sem þeir geti borið með sér
garnaveiki. Engar takmarkanir
eru á öðru dýrahaldi vegna
varnarhólfanna.
Þegar upp komi riðuveiki á bæ
í einhverju tilteknu hólfi, þá verði
það skilgreint sem sýkt svæði, sem
í daglegu tali sé kallað riðuhólf.
Sigurborg segir þessa skilgreiningu
gilda í tuttugu ár. Á þeim tíma séu
mjög miklar takmarkanir á öllum
bæjum innan hólfsins, eins og bann
við flutningi fjár milli bæja. Þar með
sé ekki hægt að halda hrútasýningar
og selja líflömb. Takmarkanir eru á
flutningi á hlutum úr varnarhólfinu
sem geta borið með sér smit, svo sem
heyi, torfi og landbúnaðartækjum.
Vilji einhver flytja landbúnaðartæki
úr sýktu hólfi þurfi viðkomandi að
þrífa og sótthreinsa búnaðinn og fá
vottorð því til staðfestingar. Geri fólk
það ekki, þá segir Sigurborg að einu
stjórnvaldsaðgerðirnar sem MAST
geti gripið til séu að stöðva flutninginn
og senda tækið í þrif og eftir atvikum
að kæra til lögreglu. Hún nefnir nýlegt
dæmi þar sem Matvælastofnun kærði
flutning á óþveginni dráttarvél úr
Miðfjarðarhólfi, sem nú sé skilgreint
sem riðuhólf, í Borgarfjörð. MAST líti
það mjög alvarlegum augum, enda sé
Borgarfjörður riðulaust svæði.
Hólfum fækkað jafnt og þétt
Þegar varnarhólfin voru sem flest
segir Sigurborg að þau hafi verið
nálægt 40, en nú séu þau 25. Ef
sama sjúkdómastaða er í tveimur
aðliggjandi varnarhólfum segir
Sigurborg að þá sé skoðað hvort
ástæða sé til að hafa þau aðskilin.
Þeim hafi fækkað jafnt og þétt og nú
síðast var Húna- og Skagahólf sett í
eitt hólf árið 2018, þegar varnarlína
við Blöndu var lögð niður. Það hafi
verið gert því Blanda var ekki nægur
farartálmi fyrir sauðfé eftir að áin
var virkjuð og sjúkdómastaða beggja
hólfa var sú sama.
Matvælastofnun gerir samninga
við verktaka sem sjá um að halda
varnarlínunum við. Sigurborg segir
það gert samkvæmt fjárveitingu sem
matvælaráðuneytið fær til ráðstöfunar,
sem felur svo MAST að útfæra
viðhaldið. Þetta séu takmarkaðir
fjármunir, en undanfarin ár hafi nálægt
50 milljónum verið varið til viðhalds,
þó Sigurborg geri ráð fyrir að aukið
fjármagn verði sett í málaflokkinn í
ár vegna nýlegra riðusmita.
„Ef við ætlum að halda öllum
varnargirðingum fjárheldum þá
kostar það hundruð milljóna og
þeir peningar eru ekki til,“ segir
Sigurborg. Matvælastofnun þurfi því
að forgangsraða eftir því hvar sé allra
mikilvægast að halda fjárheldu. Hún
viðurkennir að það sé því óraunhæft
að koma alfarið í veg fyrir samgang
fjár milli varnarhólfa eins og staðan
er núna og svo hafi verið um áratugi.
Takmörkunarsvæði erlendis
Sigurborg veit ekki til þess að annars
staðar sé landi skipt í sambærileg
varnarhólf og hérlendis. Almenn
viðbrögð í löndunum í kringum okkur
séu að setja upp takmörkunarsvæði
þegar sjúkdómar komi upp. Þá sé
takmörkunarsvæðið ákveðinn radíus
frá upptökunum, mismunandi eftir
alvarleika hverju sinni.
Aðspurð segir Sigurborg mögulegt
að vera með einhvers konar sóttkví
á jörðum þar sem upp kemur riða,
þó ekki sé víst að það sé raunhæft
við íslenskar aðstæður og hvaðan
fjármagnið til þess skuli koma. Þetta
tíðkist þegar upp komi riða í hjörðum í
Evrópu og er misjafnt hvort og hversu
mikið fé er skorið niður. Þar séu
búskaparhættir þó öðruvísi, enda séu
hjarðirnar hvort eð er meira og minna
einangraðar. Hérlendis blandist hjarðir
þegar fé er laust á fjalli, í réttum og
fjárragi á haustin.
Fleiri verkfæri í verkfærakistunni
„Stóra spurningin er hvort það sé
réttlætanlegt að skipta landinu upp
í varnarhólf vegna riðuveiki,“ segir
Sigurborg, en hingað til hafi svo
verið talið. „Í fyrsta lagi eru þessar
varnargirðingar til að hefta fé, af því
smit fer alltaf fyrst og fremst frá dýri
til dýrs, alveg sama hvaða veiki það
er. Síðan getur smit borist með öðrum
hætti, og það getur riðuveiki gert líka,
þannig að varnargirðingin sem slík
tryggir ekki að sjúkdómar berist ekki
yfir.“
Sigurborg segist ekki geta tjáð
sig mikið um það hvaða breytingar
séu væntanlegar á fyrirkomulagi
sauðfjárveikivarna í ljósi þess
að fundist hafi arfgerðir sem
geri sauðfé ónæmt fyrir riðu og
miklar vonir eru uppi um að hægt
verði að rækta upp riðuónæman
sauðfjárstofn. Yfirdýralæknir óskaði
eftir tillögum í þrennu lagi frá
fulltrúum sauðfjárbænda. Fyrst um
útfærslu á uppbyggingu hjarðar eftir
riðuniðurskurð. Í öðru lagi útfærslu
á aðgerðum þegar riðuveiki greinist.
Í þriðja lagi hvernig skuli standa að
ræktun gegn riðuveiki.
Nú er sérfræðingahópur skipaður
af matvælaráðherra að rýna
tillögurnar og er von á niðurstöðum
1. nóvember næstkomandi. „Ein
af stóru spurningunum sem ég
vildi fá svar við var að leggja mat
á gildi núverandi fyrirkomulags
varnargirðinga með tilliti til hafta
á útbreiðslu riðusmits. Hvaða gildi
hefur þetta í dag, því það hafði mikið
gildi þegar þú hafðir engin önnur tól.
Það eina sem við höfðum var að reyna
að uppræta smitefni með því að skera
niður. Sem betur fer erum við komin
með fleiri verkfæri í verkfærakistuna
til að berjast gegn riðuveiki,“
segir Sigurborg. Í umræðunni um
riðu gleymist þó oft að þetta er
sársaukafullur taugasjúkdómur og
að rétt sé að spyrja hvort réttnæmt
sé að láta riðunæmt fé vísvitandi lifa
í riðusmituðu umhverfi.
Það sé í höndum ráðuneytis að
taka þá ákvörðun hvort fyrirkomulag
varnarhólfa verði annað. Í lögum sé
gert ráð fyrir varnarhólfum og það sé
ráðherra sem geti fellt niður ákveðnar
varnarlínur að höfðu samráði við
Matvælastofnun. Af fenginni reynslu
gerir Sigurborg ráð fyrir að breytingar
á kerfinu muni taka langan tíma.
Gangi ræktun gegn riðu eftir aukist
alltaf vægi þess að kindur séu ónæmar
fyrir riðusmitinu. Þá verði ekki eins
mikil þörf á að hefta útbreiðslu
smitefnisins. Hvað garnaveiki
varðar, þá skipti varnarhólfin minna
máli í því samhengi, í ljósi þess að
hægt sé að bólusetja gegn henni.
Varnarhólfin eru 25 í dag, en voru nálægt 40 þegar mest var. Mynd / MAST
Víða um land má sjá áberandi skilti þar sem varnarlínur ná yfir þjóðvegi.
Yfir þær línur má ekki flytja sauðfé og nautgripi, nema með sérstöku leyfi.
Það sama á við um hey, torf, tað og landbúnaðartæki. Mynd / Úr safni
Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.
Mynd / MAST
20% afsláttur af öllum
innréttingum út október.
562–1500
Friform.is
Fríform ehf.
Askalind 3,
201 Kópavogur.
Virka daga 10-17
Laugardaga 11-15Hjar ta heimilisins
Við hönnum innréttingar að þínum þörfum.