Póllinn - apr. 2024, Blaðsíða 8
Alfred Bernhard Nóbel fæddist árið 1833 í Stokkhólmi og lést árið 1896. Hann var efnafræðingur og
uppfinningamaður en á ferlinum eignaðist hann alls 355 einkaleyfi. Hans þekktasta uppgötvun er
án efa dýnamítið, sem hann fékk einkaleyfi á árið 1867, en hann er þó frægastur fyrir verðlaun sem
voru stofnuð með auðlegð hans árið 1901 og eru einnig kennd við hann. Nóbelsverðlaunin hafa
verið veitt í sex greinum síðan árið 1969 þegar hagfræðinóbellinn bættist við, en árið 1901 voru
þau aðeins fimm: efnafræði-, eðlisfræði-, læknisfræði, bókmenntanóbellinn og friðarverðlaun
Nóbels. Sumum gæti þótt skjóta skökku við að uppfinningamaður dýnamítsins og jafnframt eigandi
Bofors járn- og stálverksmiðjanna, sem þróuðust í miklar vopnaverksmiðjur er hann átti þær, hafi
stofnað verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi framlög til samfélagsins og þá sér í lagi hvað
varðar frið. Enda telja margir, þótt ekki sé hægt að staðfesta það fullkomlega, að Nóbel hafi viljað
láta eftir sig sómasamlegri arfleifð en það að hafa fundið upp dýnamítið og hafi því viljað verðlauna
þau framlög sem miða að því að gera heiminn betri.
Fyrstu handhafar friðarverðlauna Nóbels voru þeir Jean Henri Dunant og Fréderic Passy. Dunant
hlaut þau fyrir hlut sinn í stofnun Rauða krossins árið 1863 og Passy hlaut þau fyrir sinn þátt í
stofnun Alþjóðaþingmannaráðsins árið 1889. Framan af voru það bara karlar sem hlutu verðlaunin
en þó var kona sem hlaut þau árið 1905, í fimmta sinn sem þau voru veitt. Konan hét Bertha von
Suttner og hafði verið einkaritari og húshjálp Alfreds Nóbel um margra ára skeið. Talið er að hún
hafi haft mikil áhrif á ákvörðun Nóbels um að stofna til verðlaunanna við andlát sitt. Von Suttner
hlaut verðlaunin fyrir djörfung sína til að standa gegn hryllingi stríðs og að vera róttækur friðar-
sinni. Árið eftir að von Sutther hlaut verðlaunin var það þó Theodore Roosevelt sem hlaut þau.
Hann hlaut þau fyrir hlutdeild sína í endalokum stríðs Rússlands og Japans í forsetatíð sinni.
Roosevelt var forseti Bandaríkjanna á árunum 1901-1909 og hafði þar áður verið varaforseti
William McKinley. Hann reis þó fyrst til verulegrar frægðar árið 1898 í spænsk-ameríska stríðinu
þegar hann sagði af sér sem næstráðandi innan bandaríska sjóhersins og safnaði til sín sjálfboða-
liðum í riddaralið nokkurt sem kallaðist „The Rough Riders“. Hann var foringi liðsins og eftir stríðið
vildi hann helst vera kallaður Roosevelt ofursti.
Þótt Theodore Roosevelt hafi vissulega átt ríkan þátt í að binda enda á stríð Rússlands og Japans
gæti sumum þótt svolítið skringilegt að veita manni sem tók virkan þátt í stríði og blóðsúthellingum
friðarverðlaun Nóbels. Roosevelt er þó alls ekki meðal umdeildustu handhafa verðlaunanna heldur
eru þeir töluvert fleiri sem hafa gert töluvert verri hluti. Henry Kissinger er einn umdeildasti
friðarverðlaunahafi Nóbels en hann hlaut sín verðlaun á svipuðum forsendum og Roosevelt. Hann
var þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna á árunum 1969-1973 og utanríkisráðherra á árunum 1973-
1977. Hann hlaut verðlaunin árið 1973 fyrir hluteild sína í vopnahléssamkomulagi í Víetnamstríðinu
en hann átti þó að hljóta þau ásamt hinum norður-víetnamska diplómata Le Duc Tho. Le Duc Tho
afþakkaði þó verðlaunin þar sem hann taldi að friði hefði enn ekki verið komið á í Víetnam. Kissinger
hafði átt sinn hlut í stríðsrekstri rétt eins og Theodore Roosevelt, en Roosevelt hafði þó ekki
persónulega samþykkt 3875 loftárásir sem vörpuðu 540.000 tonnum af sprengjum árið 1969, í því
skyni að koma í veg fyrir uppgang kommúnista í Suður-Asíu (Al Jazeera, 2023). Kommúnistarnir
komust samt til valda í Víetnam og Kambódíu og Rauðu khmerarnir eru ábyrgir fyrir þjóðarmorði
tveggja milljóna manna í Kambódíu. Enn í dag deyr fólk á svæðinu vegna leifa bandarískra sprengja
sem varpað var í valdatíð Kissingers. Henry Kissinger var stríðsglæpamaður og því er nokkuð
kaldhæðið að hann hafi hlotið friðarverðlaun Nóbels.
FRIÐARVERÐLAUN
HVAÐ STANDA ÞAU FYRIR ? Katla Ólafsdóttir
07