Póllinn - apr. 2024, Blaðsíða 23
Árið 1983 framdi Blaise Compaoré sitt eigið valdarán í Efri-Volta, en hann hafði stuðning margra
ungra liðsforingja, en mörgum þeirra féll handtaka Sankara afar illa í geð. Compaoré gerði Thomas
Sankara að forseta ríkisins þann 4. ágúst, en hugmyndafræði Sankara var á þessum tíma innblásin
að miklu leyti af Jerry Rawlings í Gana og Fidel Castro og Che Guevara á Kúbu, en Sankara hefur oft
verið kallaður „Che Guevara Afríku“. Sankara áleit sig vera byltingarmann og kallaði byltinguna sína
„lýðræðis- og alþýðubyltinguna“ (Révolution démocratique et populaire, eða RDP). Þann 4. ágúst
1984, ári eftir að hann tók við völdum, breytti hann nafni ríkisins úr Efri-Volta í Búrkína Fasó, en
Búrkína Fasó merkir „land hinna heiðarlegu“ á tungumálunum mooré og dyula. Hann orti nýjan
þjóðsöng fyrir ríkið og gaf því nýjan fána, en rauði liturinn í fánanum táknar byltinguna, græni
liturinn gnægð náttúrulegra auðlinda og gula stjarnan táknar leiðarljós byltingarinnar.
Það fyrsta sem Sankara gerði í forsetatíð sinni var að breyta heiti stjórnar ríkisins í Conseil national
de la révolution (CNR), eða Byltingarráðið. Í ráðinu voru bæði hermenn og óbreyttir borgarar, og var
nafninu ætlað að sýna að breytingar myndu verða. Sankara réðst strax í aðgerðir til að tryggja fæði
og húnsæði allra borgara og að veita öllum nauðsynlega læknisaðstoð. Hann hóf fjöldabólu-
setningaráætlun árið 1983 og árið 1985 voru tvær milljónir íbúanna bólusettar. Ungbarnadauði
lækkaði úr 20,8% niður í 14,5% í stjórnartíð hans og var stjórn hans sú fyrsta í Afríku til að
viðurkenna að alnæmi væri raunveruleg ógn. Hann hóf einnig mikið uppbyggingarferli og voru
margar múrsteinaverksmiðjur settar á fót til að byggja betri hús og byggja upp öll fátækrahverfi.
Hann lagði yfir 700km járnbrautarteina um allt land og hóf herferð gegn ólæsi, í upphafi
stjórnartíðar hans var 13% þjóðarinnar læs, en í lok hennar 73%. Hann taldi umhverfisvernd vera
mikið forgangsatriði og barðist ötullega gegn skógareyðingu og var mörgum milljóna trjáa plantað í
stjórnartíð hans. Honum tókst að gera matarframleiðslu ríkisins sjálfbæra, en undirstöður þess
hafði hann lært í herskólanum á Madagaskar. Sankara barðist einnig fyrir auknum kvenréttindum og
lét þau orð falla að „ekki væri raunveruleg félagsleg bylting án frelsunar kvenna“. Stjórn hans
bannaði umskurð kvenna og þvinguð hjónabönd en einnig var aðgengi að getnaðarvörnum aukið. Í
stjórnartíð hans gegndu margar konur háttsettum embættum og voru þær hvattar til að mennta sig.
Thomas Sankara lagði alltaf mikla áherslu á að þiggja ekki erlenda aðstoð. Hann sagðist vera gegn
heimsvaldastefnu (e. anti-imperialist) og beindi spjótum sínum einkum gegn Frakklandi, fyrrum
nýlenduherra Búrkína Fasó. Fjárhagsaðstoð Frakka var lækkuð um 80% á árunum 1983-1985, en árið
1986 kom François Mitterand, þáverandi forseti Frakklands, í heimsókn til Búrkína Fasó og
fordæmdi Sankara stefnu Frakklands í öðrum Afríkuríkjum harðlega. Sankara var mikill Pan-
Afríkusinni, sem er stefna sem leitast til að auka samstöðu allra einstaklinga af afrískum uppruna.
Árið 1987 var Thomas Sankara myrtur í valdaráni sem Blaise Compaoré, vinur hans, skipulagði.
Compaoré hélt því fram að Sankara væri „liðhlaupi og svikahrappur“ og „einræðisseggur sem vildi
gera landið að hálfnýlendu“. Compaoré gerðist sjálfur forseti ríkisins í kjölfarið og gegndi þeirri
stöðu fram til 2014, en þá flúði hann land eftir enn eitt valdaránið. Compaoré afnam margar
umbætur sem Sankara hafði innleitt, í því skyni að leiðrétta það sem ekki fylgdi hugsjón Sankara.
22