Úrval - 01.12.1974, Síða 126
124
ÚRVAL
ÚRVALSLJÓÐ
Á hverju þekkist Þingeyingur,
þörf er ekki á neinum leitum:
Hann veit allt, sem enginn veit um,
upp á sína tíu fingur.
HYGGINDI, SEM f HAG KOMA.
Þegar sektin sækir að
sálarfriði manna,
flýja þeir oft í felustað
fi'jálsu góðgerðanna.
Til að öðlast þjóðar þögn,
þegar þeir aðra véla,
gefa sumir agnarögn
af því, sem þeir stela.
VEIKLEIKI HOLDSINS.
Hljótast má af munúð enn
mæðustjá og hneisa.
Ástin þjáir ýmsa menn
eins og þrálát kveisa.
125
GLEÐIMAÐUR GÓÐUR.
Gleðskapnum hann alltaf ann,
eignast fjölda vina.
Það er sól um þennan mann,
þótt ‘ann rigni á hina.
EKKI OF SEINT.
Mildur vertu manni í nauðum,
meðan hann er enn að strita.
Seint er ást að sýna dauðum.
Sokkið skip þarf enga vita.
FJÖLLYNDI.
Ástum sáði hann út í vind,
aðgát sjaldan kunni,
kyssti Léttúð, kraup hjá Synd,
kvæntist Refsingunni.
SVO SEGIR SAGAN.
Þeir gerðust of margir, sem mátu sig sjálfa hæst
og misvirtu guð sinn, þótt stæðu þeir falli næst,
og sáðu út blekkingu, magnaðri og mikilvirkri.
Þeir þóttust síst hafa þörf fyrir himnesk ráð. ■—•
En þvert yfir líf þeirra er æðri viðvörun skráð,
letruð með eldi og undirstrikuð með myrkri.
Séra Helgi Sveinsson (1908—1964).