Goðasteinn - 01.09.1968, Side 23
Það var sem færðist bros í sveitabæinri
er barst að eyrum fyrsta lóukvak,
og börnin hlógu, hlupu út í blæinn,
ef heyra mætti söng og vængjablak.
Og ellin sjálf varð ung og létt í spori,
og öldungs brá varð hýr og glöð um sinn,
sem ástkær mynd frá ævidagsins vori
væri enn að strjúka bjartri hönd um kinn.
Þín dýrðarljóð voru öllum ómum fegri
- ég ennþá hef ei breytt um vissu þá -
þau voru kannske ennþá yndislegri,
af því mér fannst þau koma himni frá,
en ciga skylt við angan vorsins bióma,
við árdagssól og fjallablámans hyl,
við sumarblæ og haustsins litaljóma,
á landi því, sem bezt í heimi er til.
Ég man hinn sterka þúsund vængja þytinn,
er þéttir skarar lyftust jörðu frá,
og glampa sá ég gullinbrúna litinn
og glaða kvakið fyllti loftin blá.
Hve oft þá snerti hugann hljóður tregi
og hulin þrá að kanna þessi svið,
já, líða í söng um sumarloftsins vegi
og svífa frjáls um geiminn eins og þið.
Er fölna blóm og sól á lofti lækkar,
þú leitar burtu, heiðafuglinn minn.
En eftir því sem árum mínum fækkar
mér ávallt kærri verður söngur þinn,
því er ég hlusta á þessa unaðsóma
þeir æðri strengi vekja í brjósti mér
og syngja tii mín einhvern aftanljóma
sem yljar þegar húma og kólna fer.
Goðasteinn
21