Ársrit Torfhildar - 01.04.1989, Side 13
Arsrit Torfhildar
Innlendir áhrifavaldar Laxness eru helst taldir vera
Þórbergur með Bréfi sínu til Láru og Fornar Ástir Sigurðar
Nordal. En í Fornum Ástum ku Laxness hafa séð glitta í hverju
órökvíst myndmál og brotakennd frásögn fékk komið til leiðar,
og er þá sérstaklega átt við prósann Hel.
Annars er það athyglisvert hversu lítið þetta umrót hreyfði
við Ijóðinu. Davíð Stefánsson hélt sínu nýrómantíska striki og
var, í vinsældum, poppstjarna síns tíma, Tómas Guðmundsson
orti áhyggjulaust en yndislega vel. Nýir menn tóku við
hefðbundna forminu eins og ekkert væri sjálfsagðara og höfðu
ekki einu sinni fyrir því að reyna að hressa upp á myndmálið.
Það var helst að maður nokkur nefndur Steinn Steinarr hafi
tekið við að endurnýja það innan frá.
Ein af ástæðunum kann að vera sú að sundruð
heimsmyndin tjaslaðist að e-u leyti saman með trú (eða hatri) á
kommúnismanum. Menn sáu nýja dögun rísa í austri og
Sovétríkin stefndu í jarðneskt himnaríki. Meðan sú víma hélst,
ásamt kreppunni, þá töldu skáldin sér skylt að berjast fyrir
hugsjóninni. Og í slíkum tilvikum beinist athyglin að boðuninni
en síður að listrænum gæðum (það má fullyrða með hæfilegum
ofsa að það sé beinlínis hættulegt fyrir skáld að hafa hugsjón,
ekki nema þá ákaflega loftkennda, sem rúmast ekki í einföldum
orðum). Einnig hefur sjálfstæðisbaráttan spilað inní. Menn urðu
að hylla fánann á þjóðlegan hátt; Með stuðlum-höfuðstöfum-og
rími.
Modemisminn hélt sig fjarri íslenskri ljóðagerð á 4.
áratugnum því skáld voru heil í sinni skoðun. Það var ekki fyrr
en með síðari syndafallinu, heimsstyrjöld no.2, að heimsmyndin
sundraðist á ný. Og þar sem farið var að slá í íslenska ljóðlist,
þá lentu skáldin í enn meiri kreppu en ella við að finna nýjar
leiðir, nýtt form.
11