Ársrit Torfhildar - 01.11.1990, Blaðsíða 76
erfiðara fyrir að nálgast textann líkt og í þeim róttæku
tilraunaverkum sem skrifuð voru á sjöunda áratugnum og síðar.
Lesendum er enn ætlaður auðveldur aðgangur að textanum líkt
og í nýraunsæinu, og því sameinast stefnurnar í raun um
áhersluatriði að þessu leyti. Forsendur þessa lesendaáhuga eru
þó mjög ólíkar þar sem afstaða nýraunsæju höfundanna er byggð
á þeirri skoðun að sósíalískir eða félgslega meðvitaðir höfundar
ættu að reyna að skilja þau öfl sem byggju að baki yfirborðsmynd
veruleikans og miðla þeirri rannsókn sinni í listrænum búningi,
skiljanlegum sem flestum lesendum. Öfugt við
"krossgátubókmenntir" módernismans, sem nýraunsæinu var
upphaflega att gegn, átti merking slíkra bókmennta að vera
augljós og aðgangur að þeim að vera sem auðveldastur 8.
Forsendur táknsæju höfundanna voru á hinn bóginn að halda
lesandanum við efnið, tryggja áhuga hans og viðurvist með
ákveðnum þáttum sem voru innbyggðir í textann. Þessi afstaða
birtist meðal annars í vilja margra höfunda til að skrifa
aðgengileg verk sem samt voru krefjandi, en hér á landi hefur
aldrei komiö til virkilegrar "close that gap" hreyfingar. Höfundar
sem meðvitað gera út á lág- og hámenningarform samtímis eins
og Ishmael Reed eða Umberto Eco, hafa verið fáir hér um slóðir.
Aðgengileiki íslensku skáldsagnanna sem eru þessu marki
brenndar virðist fyrst og fremst hafa orsakast af því að þær héldu
formgerðareinkennum nýraunsæisins.
EINKAMÁL DJÖFLAEYJUNNAR
Þetta atriði verður ekki að fullu skýrt nema með samanburði
á táknsæu og nýraunsæu verki. Eins og sagði í upphafi verða hér
tekin fyrir Einkamál Stefaníu og Þar sem djöflaeyjan rís og
tekur samanburðurinn til athugunar á niðurstöðum táknmiða og
táknmynda á hinum staðkvæmu (paradigmatísku) og raðkvæmu
(syntagmatísku) ásum tungumálsins í textanum. Roman
Jakobson tengdi þessi hugtök, sem upphaflega eru komin frá
Saussure, við mælskufræðiheitin myndhverfingu og
74