Mímir - 01.09.1968, Qupperneq 33
breytilegt. Mörg helgikvæði úr kaþólskum sið
voru laus við aila páfavillu. Guðbrandur hafði
ekkert á móti slíkum kvæðum og tók sum
þeirra í Vísnabókina, t. d. Píslargrát og Davíðs-
dikt eftir Jón biskup Arason, en einmitt það, að
hann skyldi velja kvæði eftir höfuðandstæðing
hins nýja siðar, sýnir ásamt öðru víðsýni Guð-
brands. Onnur vinsæl kaþólsk kvæði birti Guð-
brandur „leiðrétt", þ. e. a. s. lét yrkja upp ýmsa
kafla, sem báru of mikinn keim kaþólskrar
trúar. Frægasta dæmið um slíkt kvæði er Lilja,
sem talið er, að Arngrímur lærði hafi lagfært,
en í útgáfu Guðbrands er öll dýrkun heilagrar
móður vandlega þurrkuð brott.
I kaþólskum sið og raunar miklu lengur voru
Maríukvæði mjög vinsæl svo og kvæði um
kraftaverk og dýrlinga. Teija má ugglaust, að
slík kvæði hafi verið Guðbrandi sérstakur þyrnir
í augum, enda notar hann ekkert slíkra kvæða
í Vísnabók sinni. En kvæði þessi voru svo rót-
gróin með þjóðinni, að eitthvað varð að koma
í þeirra stað, og mun kvæðum ortum um biblíu-
leg efni hafa verið ætlaður þeirra sess, en auk
þess eru í Vísnabókinni tvö ný Maríukvæði eftir
þá Einar 'Sigurðsson og Olaf Guðmundsson.
Guðbrandur mun hafa gert sér ljóst, að
rímur voru svo rótgrónar meðal almennings, að
ókleift væri að uppræta þær. Hann greip því
til þess djarfa ráðs að fá menn til þess að yrkja
rímur um andleg efni, og í Síraksrímum síra
Jóns Bjarnasonar kemur fram, að Guðbrandur
hefur beinlínis sagt góðskáldum sínum, um
hvaða efni þau skyldu ríma. Rímur Vísnabókar-
innar eru yfirleitt heldur einfaldar og auðskildar,
en þó bregður fyrir heiðnu skáldskaparmáli, t. d.
kemur kenningin Oska vín — þ. e. Oðins vín —
fyrir í Júdithsrímum. — Biblíurímur urðu aldrei
vinsælar hérlendis þrátt fyrir viðleitni Guð-
brands, og munu þær líklega hafa þótt daufur
kostur samanborið við rímur um kappa og forn-
ar hetjudáðir.
Auðsætt er, að um leið og Guðbrandur veg-
ur að rímum með þeirra eigin vopnum, viður-
kennir hann tilverurétt þeirra, hann viðurkennir,
að ekkert fái unnið á veraldlegum rímum nema
rímur annars efnis, — þ. e. andlegs efnis. —
Veraldlegar rímur stóðu þó þetta lag af sér, þó
að nærri þeim væri höggvið, og náðu þær raun-
ar aldrei meiri þroska en einmitt á 17. öld.
Af formála Vísnabókarinnar má sjá, að Guð-
brandur hefur haft horn í síðu danskvæða,
afmorskvæða og þess háttar kveðskapar, og enga
mansöngva tók hann í Vísnabók sína. En Guð-
brandi var aðeins illa við efni þessara kvæða og
gat þess vegna notað háttu þeirra til þess að færa
ýmsar lútherskar hugsanir í búning, og í Vísna-
bókinni eru nokkur kvæði undir danskvæða
háttum.
Nú hefur verið vikið að efni Vísnabókarinnar
og því nærtækt að minnast lítillega á höfunda
hennar. — Guðbrandur hefur annars verið held-
ur hyskinn við að nafngreina höfundana, og
töldu ýmsir óvildarmanna hans, að það væri með
vilja gert til þess að láta líta svo út sem hann
ætti stærri hlut að Vísnabókinni en raun er, en
þó er líklegast, að hirðuleysi sé um að kenna.
Auk Eysteins Asgrímssonar og Jóns Arasonar,
sem áður er á minnzt, nafngreinir Guðbrandur
tvo höfunda úr kaþólskum sið, þá Skáld-Svein
og Jón Hallsson. Skáld-Sveinn á Heimsósóma í
Vísnabókinni, en Jón á „Erindi nokkur úr elli-
kvæði." Eftir hvorugan liggur nokkuð utan þess-
ara verka, sem bæði eru ágæt, sérstaklega þó
Heimsósómi Sveins.
Nánast öll önnur kvæði Vísnabókarinnar eru
samin eða þýdd af samtíðarmönnum Guðbrands
og mörg beinlínis fyrir Vísnabókina. Helzta
hjálparhella Guðbrands í þessu efni var síra
Einar Sigurðsson í Eydölum, sem jafnan mun
talinn með beztu skáldum á andlegt efni frá
siðaskiptum fram að Hallgrími Péturssyni. Þegar
Guðbrandur tók að safna efni í Vísnabók sína,
sendi Einar honum mikið kvæðasafn, og fylgdi
því formáli, sem hann hefur líklega ætlazt til,
að biskup birti. Guðbrandur hafnaði þó formál-
anum svo og nokkrum kvæðanna, en birti
meginþorra þeirra. Sem dæmi um kvæði Einars
má nefna Maríuvísur, en þar harmar skáldið
skeytingarleysi siðbótarmanna um minningu
Maríu.
33