Goðasteinn - 01.09.2009, Page 41
Goðasteinn 2009
var. Landamerki jarðanna hafi þá legið eftir dalbotninum. Ekki er ólíklegt að svo
hafi verið þar sem skógareign Dalstorfujarða í Húsadal var allur skógur suðaustan
megin í dalnum að vatnsfarveginum sem liggur eftir dalbotninum en ekkert
norðan við hann. Að byggð hafi verið mikil á einhverjum stað á Mörkinni bendir
til þess að þar hafi landnámsbærinn verið því að eftir að búið var að skipta henni í
þrjár jarðir getur tæplega hafa verið mikil byggð á einum stað þrátt fyrir þau
landgæði sem þar hafa verið áður en land fór þar að blása upp.
í Oddamáldaga í Vilknisbók frá árinu 1397 segir að Oddakirkja eigi „hálfan
afrétt í miðja Mörk“ sem hlýtur að merkja: Hálfan afrétt á miðhluta Þórsmerkur
og hún hafi því ekki átt hálfan afréttinn Þórsmörk, heldur hálfa eyðijörðina sem lá
miðsvæðis á Mörkinni en hinn helming jarðarinnar hefur Holtskirkja verið búin að
eignast áður með skóginum.
Þetta sérstaka orðalag á máldaganum virðist síðan hafa leitt til þess að farið var
að kalla Þórsmörk í miðja Mörk eða Miðmörk. Þegar það nafn hafði tekið við af
nafninu Þórsmörk sem líklega hefur viðgengist um aldir lá beint við fyrir Odda-
presta að eigna kirkjunni hálfan beitanætt á henni allri.
Land jarðarinnar sem frenrst var á Mörkinni hefði þá verið Langidalur, Vala-
hnúkur og Húsadalur suðaustan við farveginn í botni dalsins, ásamt því landi sem
er þar fyrir vestan. Nálægt miðju þessu svæði eru tvær fornar bæjarrústir sem
blásið hafa upp. Önnur þeirra hefir í manna minnum verið nefnd Þuríðarstaðir.
Hin rústin mun hafa farið að koma í ljós við uppblástur um 1944 en hún er um
300 metra suðvestur frá Þuríðarstöðum og hefur hún verið nefnd Þuríðarstaðir efri
eða Ásbjarnarstaðir. Bæði eru þessi bæjarstæði forn, samkvæmt rannsóknum á
hlutum sem þar hafa fundist. Þau eru greinilega bæði á sömu jörðinni en hvort þar
hefir einhvern tíma verið tvíbýli er ekki gott að segja. Líklegra er að þau séu hvort
frá sínum tíma en bærinn verið færður. Á landi þessarar jarðar átti Dalur undir
Eyjafjöllum meginhlutann af öllum skógi samkvæmt skjalfestum vitnisburði frá
árinu 1599.
í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1709 segir að landið
umhverfis Þuríðarstaði, ásamt Húsadal sé brúkað fyrir afrétt úr Fljótshlíð. Þessi
frásögn jarðabókarinnar styður þá túlkun máldaga Oddakirkju frá 1397 að hún
eigi hálfan beitarrétt á miðjörðinni á Þórsmörk og um leið þá ályktun að Þórsmörk
hafi verið skipt í jarðir á meðan þar var byggð.
Samkvæmt þessum heimildum virðast afréttarréttindi Oddakirkju vera á
miðjörðinni en bændur í Fljótshlíð brúki fremstu eða fremri jörðina fyrir afrétt og
stórbýlisjörðin Dalur hafi átt meginhlutann af skóginum á fremsta hluta Merkur-
innar um aldamótin 1600. Þetta bendir til þess að auðmennirnir sem bjuggu í Dal
á fyrri öldum hafi átt þann hluta, þ. e. fremstu jörðina, þegar byggð lagðist þar af
eða síðar.
39