Goðasteinn - 01.09.2009, Page 42
Goðasteinn 2009
Innsta jörðin á Mörkinni hefði þá verið frá Góðagili að sunnanverðu og
Rjúpnafellsgili að norðanverðu inn að jökli. Það hefur að vísu verið lakasta jörðin
nema eitthvað meira land hafi komið til. Svo gæti verið að þar sem talað er um
þrjá bæi á Þórsmörk séu Steinfinnsstaðir taldir með þó að þeir séu ekki á
Þórsmörk sjálfri. Þeir eru á Kápu á Almenningum, rétt innan við Þröngá sem er í
mörkum milli þeirra og Þórsmerkur og þeir hafi þá verið innsti bærinn af þessum
þremur bæjum sem þarna er talað um. Hugsast gæti iíka að innsta jörðin á
Mörkinni hafi legið undir Steinfinnsstaði því að þar hefur vetrarbeit verið miklu
betri í snjóavetrum en á Steinfinnsstöðum en land þessarar jarðar eitt og sér hefur
sennilega ekki verið nóg nema til kotbúskapar.
Talið er að Steinfinnsstaðir hafi verið í byggð um það bil jafnlengi fram eftir
öldum og Þuríðarstaðir á Þórsmörk. Það er byggt á munurn sem fundist hafa í
rústum bæjanna en ekki er líklegt að hægt hafi verið að búa þar eftir að hlýinda-
skeiði landnámsaldar lauk og mjög erfitt í miklum snjóavetrum án þess að geta
notað vetrarbeit fyrir sauðfé á Þórsmörk sjálfri.
I Njálssögu segir að þau Björn hvíti og Valgerður áttu gnótt í búi. Því ber vel
saman við það að vetrarútigangur sauðfjár var talinn öruggari á miðhluta Þórs-
merkur en annars staðar í Rangárvallasýslu þegar ær voru látnar ganga úti á Mörk-
inni á nítjándu öld og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu.
Allir skógar Holtskirkju á Þórsmörk munu hafa verið á miðhluta hennar eða
á því svæði þar sem líklegast er að jörð Björns hvíta hafi verið. Það lítur því út
fyrir að eigendur eða ábúendur Holts hafi að minnsta kosti einhvern tíma fyrir
1270 átt miðhluta Þórsmerkur og þá lagt undir Holtskirkju allan eða mestallan
skóginn þar. Beitarrétturinn hafi síðar, eftir að hætt var að búa á jörðinni, komist í
eigu Oddakirkju.
Talið er að á 13. öld hafi nytjaskógur verið orðinn svo eyddur frammi í
byggðinni í Landeyjum og Eyjafjallasveit að þar hafi ekki lengur verið hægt að
gera til kola. Þá hefur hið mikla skóglendi fyrir innan byggðina verið orðið
verðmætt því viðarkol voru á þeim tíma nauðsynjavara. Þá var líka mikil þörf fyrir
raftvið til húsagerðar. Á þessum tíma hefur skóglendið á Þórsmörk verið mjög
verðmætt því að þar hefur birkiskógurinn verið stórvaxnari en víðast annarsstaðar
á þessum slóðum. Skógarnir á þeim hluta Þórsmerkur þar sem jörð Björns var,
hafa því líklega verið verðmeiri en beitin þótt hún hafi verið mjög góð. Af þeim
ástæðum er orðalag máldaga Oddakirkju um beitarréttinn í Þórsmörk, eftir mínum
skilningi, eðlileg: „Hálfan afrétt í miðja Mörk“. Sem útleggst: Hálf miðjörðin á
Þórsmörk.
Á fyrri hluta 13. aldar bjó í Holti undir Eyjafjöllum auðugur bóndi, Hólm-
steinn Grímsson. Hann var afkomandi hinna fornu Holtsverja. Kona hans var
Guðrún, dóttir Orms á Breiðabólsstað Jónssonar, Loftssonar, í Odda. Sonur þeirra
40