Goðasteinn - 01.09.2009, Page 163
Goðasteinn 2009
Sigurður Ingi átti því láni að fagna að fæðast og alast upp á því góða
sveitaheimili Neðri-Þverá. Við óvænt og ótímabært fráfall Guðjóns bónda á
Neðri-Þverá árið 1954 tóku þeir bræður, Sigurpáll og Sigurður Ingi, formlega
við búsforráðum ásamt móður sinni. Það féll meira og minna í þeirra hlut að
rækta og byggja upp jörðina og koma henni til þess ástands sem aukin tækni
leyfði og æ vaxandi kröfur um afköst og nytjar.
Árið 1974 bættist heimilinu liðsauki í formi ungrar, föngulegrar
Reykjavrkurmeyjar, Kristínar Aradóttur, sem réðst að Neðri-Þverá sem ráðs-
kona. Þá var Sigríður móðir bræðranna orðin nokkuð lasburða og þarfnaðist
umönnunar. Hún lést þremur árum síðar.
Hinn 5. júlí 1975 gekk Sigurpáll að eiga Kristínu Aradóttur í Breiða-
bólstaðarkirkju, konuna sem átti eftir að bera með sér líf og ljúfar stundir inn í
tilveruna á Neðri-Þverá. Kristín er fædd í Reykjavík 5. júlí 1955. Þeim hjónum
fæddist frumburðurinn 26. september 1975 og hlaut hann nafnið Ari Bergþór.
Hann lést aðeins þriggja mánaða gamall á jóladag sama ár. Fjögur börn björt,
brött og braggleg áttu eftir að fæðast þeim hjónum og þar var Árni fyrstur í
röðinni en hann er fæddur 16. maí 1977. Heitkona hans er Kristín Silja Guð-
laugsdóttir dýralæknir hér í héraði og hafa þau tekið við búsforráðum á Neðri-
Þverá. Næstur er Sigurður Ingi nemi, f. 18. júní 1978, þá Esther nemi, f. 23.
október 1981 í sambúð með Sigurði Óla Sveinbjörnssyni og búa þau að Krossi
í A.-Land. og yngstur er Einar Bjarni, f. 1. janúar 1985. Sigurður Ingi var sem
annar faðir barnanna á Neðri-Þverá hvað uppeldi, umönnun og ástríki varðaði.
Með bræðrunum Sigurði Inga og Sigurpáli ríktu kærleikar og gangkvæm
virðing þótt ólíkir væru.
Sigurður Ingi eignaðist einn fyrsta vörubílinn hér í héraði um 1947. Sá
var af Chevrolette gerð og var til margra hluta brúklegur. Hann var notaður við
hreinsunarstörf eftir Heklugosið 1947, við varnargarða- og vegagerð, við
bústörfin og síðast en ekki síst var honum brugðið í gerfi almenningsvagns til
að koma fólki á dansleiki. Þá var komið fyrir bekkjum á pallinum og þar sátu
menn í hvaða veðri sem var og létu sér vel lynda, nokkuð sem nútímafólk sætti
sig ekki við nema ef vera kynni til að upplifa forna tíð og það á góðviðrisdegi.
Sr. Önundur S. Björnsson, Breiðabólstað í Fljótshlíð
161