Helgarpósturinn - 27.02.1986, Blaðsíða 2

Helgarpósturinn - 27.02.1986, Blaðsíða 2
ÚRJÖNSBÖK Bréf úr dreifbýlinu eftir Jón Örn Marinósson Mikil guðsblessuð tilbreytni var það okkur kerl- ingu minni að stauta í gegnum bréfið frá þér og fregna hversu margt er á seyði í borginni og mannlíf þar iðandi af önnum og uppákomum. Er á því glögg- lega allur annar bragur en hér í kotinu um hávetur þar sem sést varla nokkurt kvikt nema snjótittlingur í hlaðforinni endrum og sinnum og skottur á baðinu eftir að skyggja tekur. Ekki þætti okkur Boggu minni ónýtt að stofna til kynna við suma þá höfuðborgara sem þú hittir á hverjum degi. Fásinnið hér í sveitinni er svo mikið orðið að menn rölta sig jafnvel út í kirkjugarð til þess að losna við einmanakenndina og hafa einhvern að tala við annan en sjálfan sig. Meðan ég man: þakka þér kærlega fyrir hassið og vídeó- spólurnar. Það kom sér hvort tveggja vel í norðan- áhlaupinu í 24. viku vetrar þegar við hjónakornin treystumst vart út fyrir húsdyr í þrjá sólarhringa að sinna blessuðum skepnunum. Tíminn líður, satt er það, og margt hefur breyst í héraðinu síðan þú fórst á búnaðarþingið og kynntist þessari konu í Súlnasalnum. Þú ert ekki einn um að vera því búmarki brenndur að flytjast nauðugur í mergðina fyrir sunnan. Aðalból, Stórholt, Miklibær, Hvammur og Eilífsstaðir — allar þessar jarðir eru ekki lengur í byggð og lánshæfu ástandi, húsin í nið- urníðslu og túnin í órækt. Þar getur ekki að líta fram- ar nein merki um íslenska bændamenningu nema skakkhöll skiltin niður við brautina: „Rent a pony“. Arfi og njóli eru að færa áburðarpokana í kaf og ryð- brunnar heybindivélar smám saman að sökkva ofan í jörðina. Þar heyrist enginn lengur taka í nefið í kvöldkyrrðinni á vorin og bölva rukkun frá stofn- lánasjóði. Þar sitja ekki framar stórhuga menn við köflótta plastdúka á eldhúsborðum og leggja á ráðin um að auka framleiðsluna og nýta styrkjakerfið. Þar gnauða einungis vindar í ufsum og hriktir í stoðum sem áttu að standa uns lán væru að fullu greidd. Sum útihúsin hanga uppi á veðböndunum einum saman. Sjálfsagt má finna skýringar á þessu öllu. En óneit- anlega bregður manni í brún þegar finnst ekki mykjulykt nema á einstaka bæ og telst til tíðinda að reka bullurnar í kúadellu. Ég átta mig ekki fyllilega á þessari nýju markaðshagkvæmni. Næst mjólkur- búinu og á bestu grasnytjajörðunum er ýmist stund- uð hrossa- eða fuglarækt, á sauðfjárjörðunum rækta menn dýrbíta en á afskekktustu og grasminnstu kot- unum er hangið enn við kýrnar. Sumir hafa sauðfé á laun. Ekki undrar mig þó að landbúnaðaryfirvöld hugleiði að setja háskólapróf sem skilyrði fyrir að menn fái að byrja búskap. Ungur maður byrjaði að búa hérna í sveitinni í fyrravor og var sendur í geð- rannsókn um veturnætur; hann hafði bara gagn- fræðapróf. Mér líst illa á loðdýraræktina. Ég er einu sinni þannig gerður að ég verð að komast á fjall, í réttir og á hrútasýningar og geta æpt á búfé og bölvað kún- um. Bóndinn unir sér hjá kindunum sínum, en það myndast engin tengsl á milli manns og refs; það unir sér enginn hjá minkunum sínum. Auðvitað hefur margt breyst. Hver hefði svo sem trúað því fyrir nokkrum árum að Bjössi á Jófríðar- stöðum ætti eftir að hringsnúast kringum hænsn frá morgni til kvölds. Manstu eftir honum, þessum sveit- arhöfðingja, þar sem hann þeysti um héraðið á vökr- um gæðingum með silfursleginn pískinn á lofti, kóngur í ríki sínu. Hverjum hefði þá boðið í grun að sá dagur ætti eftir að renna upp að heyrðist hvorki hneggjað né baulað á Jófríðarstöðum. Ég segi þér satt. Þegar komið er í hlaðið núna á Jófríðarstöðum heyrist ekkert nema kurr og gagg í vélgeggjuðum varphænum og kjöltrið í Bjössa framan við tölvu- skjáinn að reikna út fóðurþörfina. Púturnar verpa viðstöðulaust og sjá ekki dagsins ljós alla ævi og þá ekki Bjössi heldur á þönum í kringum þær og kjúkl- ingana enda orðinn óttalega pútulegur sjálfur. Hann er ósköp grogginn með sig og selur kjúklinga frá Jó- fríðarstöðum undir vörumerkinu „Joe Fried Chicken". Áslákur á Aðalbóli gafst upp núna í haust. Ég rétti honum hjálparhönd við að bera búslóðina út í tengi- vagninn sem flutti allt suður. Hann var bitur og sár. Ég reyndi eftir bestu getu að rökstyðja fyrir honum þá niðurstöðu markaðshagfræðinga búnaðarsam- takanna að bændur væru of margir miðað við hrá- efnisverð sem fengist samkvæmt eftirspurnarkúrvu með tilliti til neyslu á innanlandsmarkaði í hlutfalli við hagkvæmasta nýtnistuðul framleiðslufjármagns og hámarksafköstun afskrifanlegra lausafjármuna og bestu aðrbærni kvikfénaðar á fæti með hliðsjón af jarðarrentu, þar sem tekið er jafnframt mið af óvissum breytingum á teygnum efnahagsgildum, en ég get ekki sagt að mér hafi tekist að veita Ásláki nokkra hugsvölun. í fimmtándu ferðinni út að tengi- vagninum sagðist hann vera bóndi yst sem innst og í því efni breytti engu hvað skrifstofublækur væru að þvaðra fyrir sunnan. Hann væri fæddur og uppalinn á þessari jörð og tengdur henni órjúfanlegum bönd- um, sagði hann og fórnaði höndum í geðshræringu sem hann hefði ekki átt að gera því að fjögurra sæta sóffinn, sem við bárum á milli okkar, skall niður á fyrrgreinda jörð hans megin með þeim afleiðingum að ég fékk hnykk á báðar axlir og gat eftir það ekki liðsinnt honum neitt að ráði. Ég tíndi út Handbók bænda frá upphafi og alla árganga af Frey og settist síðan upp á heybindivélina og hlustaði á Áslák þusa fram í myrkur. Hann væri sko meiri bóndi í sér en svo að hann legðist svo lágt að breyta Aðalbóli í minka- bæli og pútnahús hvað svo sem okkur hinum þætti fullsæmilegt að gera á jörð forfeðranna. Ég reyndi að malda í móinn og sagði sisona að við værum enn nokkrir í dalnum með kýr og sauðfé, en Áslákur hnussaði og spýtti í allar áttir og kallaði út um bíl- gluggann, um leið og þau hjónin renndu úr hlaði, að líkast til yrði þess ekki langt að bíða að við þessir fáu yrðum farnir að lifa á tófu og tildurkellingum úti í heimi. Þar með var Áslákur á Aðalbóli farinn suður. Ég hef frétt að hann sé búinn að fá vinnu í eyrna- pinnaverksmiðju í Hafnarfirði. Blessuð sértu sveitin mín, sungum við hér áður fyrr, og víst er hún blessuð, en sannast sagna, gamli vinur, þá veit ég ekki hvað við Bogga mín þraukum lengi á kotinu. En hér held ég sé best að láta staðar numið. Klukkan er langt gengin tvö. Það er heiðskírt og stillt, nóttin logar af norðurljósum og dalurinn ómar af aggi og gaggi í tófu. Þú skilar kveðju til kon- unnar og blessaður láttu mig vita ef losnaði vinna í plastkútagerðinni hjá þér. Þinn einlægur. . . . HAUKUR I HORNI MJÓLKUR- KVÓTINN í VERKI „Ég mátti bara hafa 20 og hálfa mjólk- andi" 2 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.