Morgunblaðið - 22.07.1981, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 22.07.1981, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 22. JÚLÍ 1981 Sjötugur: Síra Eiríkur J. Eiríksson prófastur og þjóðgarðsvörður Pr.ófasturinn á Þingvöllum er orðinn elstur í embætti allra presta á íslandi. Til viðbótar við sín 44 ár í prestsskap, eða nær það, á hann að baki eitt ár í kennarastarfi áður en hann tók vígslu. Og alla sína löngu embætt- istíð, síðan hann vígðist árið 1937, hefur hann gegnt tvennum störf- um jöfnum höndum og risið vel undir báðum. En ofan á þetta hafa hlaðist á hann verkefni í félags- málum og kirkjumálum, sem þeir einir eru kjörnir til, er njóta mikils trausts og álits. Það er þá líka almæli og sannmæli, að sr. Eiríkur á Þingvöllum er enginn miðlungsmaður, hvar sem til er litið. Fáir samferðamenn verða minnisstæðari þeim, sem hafa átt honum að mæta. Og nú eru þeir orðnir margir, svo sem líklegt er, þar sem hann á sjötíu ár að baki og hefur jafnan verið í alfaraleið og mjög í ösinni um sína daga. Gömul kynni gleymast síst gömlum. Drengurinn frá Eyrar- bakka var fámáll og hæglátur, þegar hann kom að loknu gagn- fræðaprófi í fjórða bekk Mennta- skólans í Reykjavík haustið 1929. Þeir sem þar voru fyrir reyndu ekki að ráða í það, sem leyndist að baki hálfluktra augna undir þykk- um gleraugum né hverju sú lygna værð, sem hann brá yfir svip sinn, kynni að búa yfir. Hann fór sér hægt í öllum viðskiptum, lét aðra um að sækja á. Einhver óræð dul hvíldi yfir honum. Og persónu- styrkur, sem ósjálfrátt vakti þá tilfinningu, að best væri að fara varlega i nánd hans og með fullri virðingu. Þessu fór fram um sinn. En smátt og smátt fór það að vitnast, að hér var kominn hinn mesti furðufugl, ekki aðeins fleygur vel og fær í öllu námi og mjög lesinn utan námsefnis, heldur átti hann til hvers kyns ólíkindi í tilsvörum, athugasemdum, viðbrögðum og látæði. Ekki var hann órabelgur neinn, enginn var stilltari í kennslustundum og í engu þurfti skólastjórn, kennarar eða félagar að hafa áhyggjur af honum. En þegar menn léttu sér upp var Eiríkur fljótlega og sjálfkrafa miðdepill og uppspretta alls fagn- aðar og lét þó jafnan svo sem hann væri utanveltu við allt. En fyndn- in fauk af honum í allar áttir og þó í sífelldu logni á yfirborði, með ólýsanlegum svipbrigðum og lát- bragði og orðperlum, sem duttu hóglátlega og þannig að hann virtist ekki hafa hugmynd um það sjálfur, að hann væri að segja neitt. Mér dettur i þessu sambandi í hug það, sem jcunningi minn, norskur biskup, hefur sagt á prenti. Hann var mikill bindindis- maður alia tíð og gleðimaður líka. Hann stýrði stóru stúdentahófi á háskólaárum sínum. Þegar leið á veisluna sagði einn félaginn við hann, orðinn góðglaður eða vel það: „Þú þarft ekki að drekka." „Nú, hvað?“ „Jú, þú ert fæddur fullur.“ Um Eirík má með vissu segja það, að þar sem hann var þurfti engar gleðiveigar til þess að menn gætu skemmt sér ómælt. En hann kunni vel að stilla hverjum leik í hóf og aldrei varð græska fundin í gamni hans. Það er fjarri því, að þessi þáttur í fari sr. Eiríks hafi elst af honum. Sá virðingamaður sem hann er og nú nokkuð til ára kominn, þá á hann engu erfiðara með það nú en endur fyrir löngu að bregða undir sig léttum fæti og fara á þeim kostum í gamni, sem engu líkist nema sjálfum honum. Það kann- ast þeir við, sem hafa setið með honum á mjög svo alvarlegum fundum, þar sem ósleitilega var unnið. Ég efast um, að til sé skemmtilegri prófastasamkunda í kristninni en sú íslenska. Fleiri eiga þátt í því en sr. Eiríkur, en enginn meiri en hann. Og bæði kirkjuþing og kirkjuráð, sem hann hefur átt sæti í um mörg ár, eiga honum mikið að þakka, ekki að- eins sem hugkvæmum og hæfum starfsmanni, heldur ekki síður vegna þess, hvílíkur skapbætir það er að umgangast hann. En hann getur einnig flutt alvörumál af mikilli kynngi og leiftrandi snilld. Og það hef ég fyrir satt, að héraðsfundirnir í prófastsdæmi hans hafi stóran og óvenjulegan svip af stjórnanda sínum, sem hvorki skortir orð né andagipt til þess að lyfta þeim langt yfir þúfur og flesjur, örður og hnökra. Sr. Eiríkur hefur verið tengdur tveimur stöðum frá upphafi starfsferils síns, Núpi og Þingvöll- um, og hann hefur sett mikið mót á hlutverk sín á þeim báðum, svo ólík sem aukahlutverk prestsins voru á hvorum þeirra. Hann lauk embættisprófi í guðfræði á skömmum tíma, þremur árum, en jafnhliöa tók hann í leiðinni kenn- arapróf við Kennaraskóiann. Þeg- ar að loknu kandidatsprófi 1935 varð hann kennari hjá sr. Sig- tryKR* á Núpi, sem hafði haft þær spurnir af þessum unga manni, að hann kaus hann fremur til sam- starfs en aðra, sem völ var á. Mun hann og fljótt hafa sannfærst um, að sinni kæru skólastofnun og prestakalli myndi verða vel borgið framvegis, ef sr. Eiríkur fengist þar til forsjár. Að tveimur árum liðnum, haustið 1937, var sr. Eiríkur orðinn aðstoðarprestur sr. Sigtryggs í Dýrafjarðarþingum, en á næsta ári tók hann við kallinu sem skipaður sóknarprest- ur. Þá hafði hann dalist eitt ár erlendis, í Sviss og á Norðurlönd- um, þar sem hann lagði stund á guðfræði og kynnti sér skólamál. Þá var hann heitbundinn ungri heimasætu úr Dýrafirði, Kristínu Jónsdóttur frá Gemlufelli, og átti þvi mikils að vitja, er hann sneri aftur heim. Þau giftust 1938. Með henni kom hamingja mikil til fylgdar við hann, sem á sinn stóra hlut og ómetanlega í ævistarfi og lífsláni hans. Þau hafa komið upp 10 börnum, eitt dó í bernsku. Sr. Eiríkur var prestur að Núpi og kennari við skólann jafnframt og skólastjóri frá 1942, þar til hann var ráðinn þjóðgarðsvörður á Þingvöllum 1959 og sóknarprest- ur þar um leið. Hann hefur verið prófastur í Árnessprófastsdæmi síðan 1970 og kirkjuþings- og kirkjuráðsmaður jafnlengi. Hann var lengi í stjórn Prestafélags Vestfjarða og formaður þess um tíma. Aðeins hálfþrítugur var hann kosinn í stjórn Ungmennafé- lags Islands og þremur árum síðar var hann orðinn formaður sam- bandsstjórnar þess. Þá stöðu skip- aði hann vjð mikið álit og vinsæld- ir í þrjá áratugi. Það er mikill starfsferill, sem hér er að baki. Og ekki er það álitamál, að sr. Eiríkur hefur verið atkvæðamaður, bæði sem prestur og skólamaður, og nú á þriðja áratug sem fulltrúi lands og þjóðar á Þingvöllum. Það er vandasamt ábyrgðarstarf. Þing- vellir hafa verið prestssetur um aldir og verður svo vonandi áfram, enda verður ekki vefengt, að sameining prestsstarfsins þar og þjóðgarðsvörslunnar hefur gefið hina bestu raun hingað til. Munu þeir vandfundnir meðal samtíma- manna, er eins vel eða betur hefðu getað gegnt hlutverki þjóðgarðs- varðar á Þingvöllum en prestarnir sr. Jóhann og sr. Eiríkur, að ógleymdum konum þeirra. Þeir, sem hafa verið þar í fylgd með erlendum mönnum á undanförn- um árum, hafa mátt heyra það, að af mörgu merkilegu á þessum einstaka stað, sé presturinn ekki síst minnisstæður — og heimili hans, ef menn hafa komið þar inn og séð Kristínu, bækurnar og börnin og haft tækifæri til að ræða í tómi við húsbóndann. Ég var í kirkju í fyrra á Þingvöllum með útlendum vini mínum. Það var á venjulegum sunnudegi, söfn- uðurinn var ekki fjölmennur, enda eiga víst flestir, sem leggja leið sína um ÞingvöU á sumardögum, önnur erindi en að sækja kirkju þar. En undir það tók ég með mínum erlenda vini, að varla mundi víða á Norðurlöndum hafa verið flutt tilþrifameiri prédikun en sú var, sem við fengum að njóta í litlu Þingvallakirkju. Hann naut hennar að vísu ekki að fullu sakir ónógrar kunnáttu í málinu. En svo mikið skildi hann, að ræðan var rismikil og mögnuð. íþrótt sr. Eiríks í ræðumennsku er sérstakur kaiptuli. Hann byrjar jafnan þannig, að mest minnir á hægfara sytrur í Flóanum, sem varla heyrast hjala. En brátt færist rennslið í aukana og senn fer það að gnýja og freyða, eins og þau hin miklu vötn, sem talað er um í Biblíunni, með þungum dyn og háum hreimi og seiðandi magni fossins og geislagliti í úðanum. I flugmælsku hans eru straumar ofan úr Hágöngum andans og frá Safamýrum bókmennta. Hann hefur farið á fjörur oft og víða, eins og menn gerðu í Flóa og Meðallandi, gengið þar á reka, sem brimaldan skolaði mörgu spreki á land og mörgu vogreki. Og vel er allt geymt í minnissjóði og mörg spýtan haglega telgd í innblásnum huga og af fimu tungutaki. Nú líður að því, að sr. Eiríkur láti af embætti. Miklar þakkir og heilar óskir munu fluttar þeim hjónum á tímamótum. Ég átti símtal við Kristínu rétt í þessu, bóndinn var ekki heima hann hefur oft þurft að víkja sér frá og ekki alltaf með hugann við hvers- dagslega hluti, þótt heima væri. En Kristín var heima í öllum skilningi. Hún sagði það í síman- um, að nú væri 20 manns í heimili hjá sér og hló sínum skæra hlátri. Hún hefur hlegið best að sr. Eiríki og verið hið skæra bros yfir vegferð hans. Hún hefur ekki aðeins skilið, hvílíka konu slíkur maður þarf að eiga til þess að hans mikla og óvenjulega gerð megi njóta sín. Hún hafði alla kosti til þess að gera þann skiln- ing sinn að veruleika. Guð blessi þau bæði og börnin öll. Sigurbjörn Einarsson Klifar hann ennþá, karlfauskur- inn, ef til vill einhverjir segja, sem kynnu að hafa fest í minni, að ég minntist hér í blaðinu séra Eiríks Eiríkssonar þjóðgarðsvarðar, Þingvallaklerks og nú um skeið prófasts, þegar hann átti fimm- tugsafmæli og ennfremur á sex- tugsafmæli hans, en bæði er það, að fjöllesnasta blað landsins hefur eignast fjölmarga nýja lesendur á síðustu áratugum, — og svo er hitt, að séra Eiríkur og kona hans, frú Kristín Jóndóttir, frænka mín, hafa reynzt okkur hjónum um áratugi fágætir hollvinir. Því þykir okkur ekki annað hæfa en að ég sýni lit á því, að við munum það merkisafmæli, sem hann á í dag. Hann er fæddurí Vestmanna- eyjum 22. júlí 1911. Foreldrar hans voru Hildur Guðmundsdóttir og Eiríkur trésmiður Magnússon. Bæði voru þau vel gefin, en komu ekki skapi saman. Fór Eiríkur til Ameríku og farnaðist þar vel, en Hildur, sem var dugandi og vel gáfuð gerðarkona, tók sig upp með son sinn í reifum og fluttist til Eyrarbakka. Hrepptu þau vonzku veður á leiðinni, svo að óvíst var um landtöku, en hún lánaðist. Hildur settist svo að hjá móður sinni og frænku og vann ásamt þeim fyrir piltinum. Hann reynd- ist snemma skýr, og ungum var honum falið það trúnaðarstarf að gæta kúa Eyrbekkinga. Rækti hann það af samvizkusemi sem og önnur, er til féllu og voru við hans getu. Hann var snemma bók- hneigður og námfús, en ekki voru um skeið horfur á, að honum mundi gefast kostur á langskóla- námi, og Eyrbekkingar munu síð- ur en svo hafa búizt við, að kúahirðir þeirra ætti eftir að verða Þingvallagoði og prófastur Árnesinga. En þegar hann hóf skólagöngu, voru tveir sérstæðir áhugamenn og sannir menntavinir orðnir lærifeður í barnaskóla Eyrar- bakka, Þingeyingurinn Aðalsteinn Sigmundsson sem skólastjóri og Vestfirðingurinn Ingimar Jóhann- esson sem kennari. Þeir voru ekki aðeins barnafræðarar, heldur líka framarlega í þeirri sveit áhuga- manna, sem höfðu forystu í ung- mennafélögunum og trúðu einlæg- lega á þann málstð, sem þau höfðu helgað sig. Þeir voru og fljótir að komast að raun um, að hinn lítið frami lærisveinn þeirra, Eiríkur J. Eiríksson væri gæddur fágætum námsgáfum, fróðleiksfíkn, vilja- þreki og seiglu, og varð þeim báðum, og þá ef til vill fyrst og fremst skólastjóranum áhugamál að fræða hann og greiða veg hans til langskólanáms. Og svo vel farnaðist honum í námi móður- málsins og danskrar tungu, að út kom í þýðingu hans, þegar hann var sextán ára, dönsk saga handa unglingum. Það greidi annars leið hans til framhaldsnáms, að ungur komst hann í vegavinu og varð þar furðu fljótt flokksstjóri og síðan í mörg sumur. Þetta gerði honum fært að komastí Menntaskólann, og stúdentsprófi lauk hann árið sem hann varð tuttugu og eins árs. Síðan stundaði hann samtímis nám i Háskóla íslands og Kenn- araskólanum, lauk kennaraprófi 1934 og prófi í guðfræði árið eftir. Næsta vetur var hann svo kennari í Núpsskóla, en 1936—’37 stundaði hann framhaldsnám í Basel í Sviss og kynnti sér ennfremur skólamál á Norðurlöndum. Svo hvarf hann á ný vetur að Núpi, var kennari við héraðsskólann 1937— ’42 og síðan skólastjóri til 1960, var vígður aðstoðarprestur menntahöfðingjans Sigtryggs Guðlaugssonar 1937 og árið eftir sóknarprestur í Dýrafjarðarþing- um og gegndi því embætti, unz hann varð prestur og þjóðgarðs- vörður á Þingvöllum. Meðan hann var vestra gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum um lengri og skemmri tíma og ber þar einkum að nefna, að í marga áratugi var hann formaður Ungmennasam- bands íslands. Árið 1938 gekk hann að eiga Kristínu Jónsdóttur frá Gemlufalli í Dýrafirði, sem er slík kona, að ég leyfi mér að fullyrða, að ekki hafi séra Eiríkur stigið heillaríkara spor á ævi sinni en þegar hann kvæntist Kristínu. Þau hafa eignast ellefu börn, sex syni og fimm dætur, og eru tíu þeirra á lífi við bezta gengi, en einn son misstu þau. Hann dó í bernsku af hörmulegum slysför- um. Ég hafði í nokkur ár verið búsettur a ísafirði, þegar séra Eiríkur fluttist þangað. Ég hafði verið nemandi í Núpsskóla, og var mér mikil ánægja að því að frétta af heillaríkum störfum hins unga prests og skólastjóra. Aðsókn að skólanum jókst með hverju árinu sem leið frá öllum landshlutum, og var mikið látið af kennslu og stjórn séra Eiríks. Hann varð og strax vel metinn klerkur jafnt meðal stéttarbræðra sinna og sóknarbarna. En lítil kynni hafði ég af honum lengi vel, enda lagði ég sjaldan leið mína til bernsku- og æskustöðva þar eð ég var önnum kafinn og í þeúnan tíma mjög erfitt um samgöngur vestur yfir heiðar frá ísafirði. Eitt af því, sem ég heyrði af séra Eiríki var það, að þótt enn væri hann ungur, hefði hann þegar eignazt stórt og merkilegt bókasafn. Og svo kom loks þar, að ég hitti hann að máli og hafði orð á því, að ég hefði heyrt, að hann væri ekki einungis vel metinn klerkur og skólastjóri, heldur einnig sérlega vel lesinn og ýkja- fróður um íslenzka bókaútgáfu frá upphafi vega. Hann hefur aldrei mikillátur verið og lét lítt af bókvísi sinni og bókaeign, en sagði, að nú hefði mjög batnað hagur ísafjarðar og ísfirðinga og spurði, hvort ég mundi ekki á komanda vetri fáanlegur til að koma vestur að Núpi, dvelja þar hálfan mánuð, flytja erindi um íslenzka menningarþróun og lesa upp fyrir nemendur úr bókum mínum og annarra. Ég tók þessu fagnandi, og svo var það á útmánuðum 1944, að ég fékk ferð vestur á varðbáti, sem síðan kom eftir 12—14 daga og flutti mig norður á ísafjörð. Því er svo skemmst frá að segja, að þessi för mín að Núpi lánaðist mæta vel. Ég flutti fjögur erindi um íslenzkar bókmenntir og menningarþróun og fékk fágæta áheyrn, en svo las ég kvöld eftir kvöld íslenzkan skáldskap eftir mig og aðra, og enn fer um mig ylur, þegar ég hugsa til þess, að séra Eiríkur og hinn aldni klerkur og mikli menningarfrömuður, séra Sigtryggur Guðlaugsson, hlógu svo dátt undir lestri mínum, að ég varð að þagna nokkur andartök. Mér er það og ærið minnisstætt, þegar höfðinginn með sitt tígulega skegg, tók undir hönd mér, eftir að hafa hlýtt á erindi mitt um þróun íslenzks skáldskapar á 19. öldinni, og mælti broshýr: „Mér hlýnaði öllum, þega þú eignaðir fræðslu minni fyrir þrjá- tíu árum tendrun þess ljóss, sem logaði svo skært í erindi þínu.“ En nú er þess ógetið, sem mér þótti og þykir æ síðan mest um vert: Nú kynntist ég séra Eiríki þannig, að með okkur tókst full- komin tryggðavinátta. Öll kvöld ræddum við í einrúmi saman — og langt fram á nótt, já, einu sinni fór hann ekki frá mér fyrr en klukkan hálfátta og þá inn í skóla til starfa sinna. Við ræddum bækur og bókmenntir og spurðum og spurðum hvor annan, fyrst þreifandi fyrir okkur, oft þannig, að mer varð orðfátt út af þekkingu hans, ekki sízt í bókvísi, en auk þess ræddum við önnur mál en þau, sem að bókum og bókmennt- um lutu, en voru slík, að öll voru þau okkur mikilvæg, og jafnan lögðum við okkur fram um að ljúka þannig umræðunni, að við værum komnir að jákvæðri niður- stöðu eða að minnsta kosti inn að kjarnanum. En þó að alvara væri oftast ríkjandi, kynntist ég einnig strax að þessu sinni, hinu sér- stæða skopskyni séra Eiríks, sem stundum verður á þann veg, að viðmælanda detta í hug þau orð Jóns biskups Vídalíns að skemmta um hinn óskemmtilegasta hlut. Samfundir okkar hafa æ síðan verið ánægjulegir og einhvers verðir og óviðjafnanleg reyndist mér vinátta hans og nærfærni, þegar ég fimm árum eftir þessa samfundi okkar var staddur á viðsjálum vegamótum ævi minnar og átti að mæta ekki aðeins skipulögðum rógi þeirra.sem trúðu á bráðkomandi himnaríki á jörðu, heldur og auðtrúa fífla úr þeim flokki, sem ég hafði með öllu kauplaust unnið í tvo áratugi. Á árunum 1951 til ’58 dvöldum svo við Unnur öðru hverju vestur á Núpi, einu sinni fulla þrjá mánuði samfellt, og þá reyndist ég svo lánsamur, að milli eiginkvenna okkar séra Eiríks varð til einlæg og óbrotgjörn vinátta. Á Núpi urðu svo til sumar bækur mínar. Þá kynntist ég séra Eiríki sem

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.