Morgunblaðið - 01.03.2004, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 01.03.2004, Blaðsíða 16
LISTIR 16 MÁNUDAGUR 1. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ Í Gefið hvort öðru . . . (1982), einu helsta smásagna-safni Svövu Jakobsdóttur, er samnefnd saga semað mörgu leyti er dæmigerð fyrir sagnagerð Svövu,efni og efnistök hennar. Sagan hermir frá brúði sem heggur af sér höndina. Þegar presturinn mælir til brúðhjónanna: „Gefið þá hvort öðru hönd ykkar þessum hjúskaparsáttmála til staðfestu . . . “ lætur brúðurin hönd sína falla á útréttan stúfinn: „Kniplingaklúturinn opnaðist: höndin lá á honum miðjum, lófinn sneri upp, fingurnir ívið bognir eins og þeir höfðu verið þegar öxin féll. Hún rétti höndina til brúðgumans og hún fann, frekar en sá, að hann hörfaði eitt skref aftur“. Söguþráðurinn, ekki síst samskiptin við móðurina með tvö höfuð sem bæði vilja snúa fram og heimsókn til gervi- limasmiðs, er óvenjulegur en í anda höfundarins sem líkt og brúðurin finnur að lokum „lævísa gleði yfir velheppn- uðu bragði“. Í annarri dæmigerðri Svövusögu, Sögu handa börnum, sem birtist í Veislu undir grjótvegg (1967), segir einnig frá uppátæki sem ekki er algengt að rekast á í sögum. Börn taka sig til og fjarlægja heilann úr móður sinni. Það nægir ekki því að konan fer til læknis og lætur hann taka úr sér hjartað. Í lok sögunnar standa þau hvort í sinni krukku á hillu í stofunni, heilinn og hjartað. En enginn kemur til að skoða. Börnin eiga of annríkt. Áður kom fólk til að sjá heilann en konan finnur ekki til neinna breytinga eftir að hafa misst hann: „Hún átti engan veginn erfiðara með að vinna húsverkin eða skilja dönsku blöðin; margt reyndist jafnvel auðveldara en fyrr og atvik sem áður ollu henni heilabrotum virtust nú ekki verð umhugsunar“. Í Veislu undir grjótvegg, til dæmis samnefndri sögu, er lífsgæðakapphlaupið viðfangsefni, það að sýnast á tímum velferðarinnar, hvað sem það kostar og er þá ekki spurt um andleg verðmæti. Grjótveggurinn er það tákn sem byggt skal á, inni- haldsleysi lífsins skiptir minna máli. Aðferð Svövu er að nýta sér gróteskuna við að lýsa af- brigðileik nútíma lífshátta. Óhugnaðurinn setur svip á stíl hennar sem stundum getur verið þurrlegur, líklega vísvit- andi, til dæmis í Gefið hvort öðru . . . og fleiri smásagna- söfnum, en hæfileikinn til að koma lesandanum á óvart, neyða hann til afstöðu með vopnum skáldskaparins, er ótvíræður. Í fyrstu bók sinni, smásagnasafninu Tólf konum (1965), er stíllinn raunsæislegri en stíll Svövu breytist fljótlega og hún tileinkar sér meiri öfgar í framsetningu til þess að segja það sem hún vill segja. Ýmis málefni kvennahreyf- inga verða fljótt ofarlega á baugi og Svava skipar sér í fremstu röð ádeiluhöfunda. Það nægir henni þó ekki. Hún lætur að sér kveða í þjóðmálum og er kjörin á þing. Síðar dregur hún sig í hlé til að geta helgað sig óskipt skáldskapnum. Sumar smásögur Svövu hafa yfir sér dul, verða ekki ráðnar í fljótu bragði, boðskapurinn er ekki alveg ljós. Nefna má Ferðamann í Gefið hvort öðru . . . Þar verður kvikmyndavél eða réttara sagt myndataka til að gefa nýja innsýn í mannleg samskipti. Hvað sem öðru líður telst skáldsaga Svövu Leigjandinn ( 1969) fremsta ádeilu- eða þjóðfélagsverk hennar. Hnit- miðun er einn helsti kosturinn. Ókunni gesturinn í sögunnni sest að hjá ungum hjónum og þau verða smám saman háð honum. Menn hafa túlkað hann sem tákn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eða dæmi um erlenda íhlutun en sagan er nógu margræð til að bjóða upp á fleiri möguleika fyrir lesandann. Mestu skiptir þó að sagan er vel skrifuð og felur í sér óhug og framandleik sem getur höfðað til allra. Þegar nýr gestur kveður dyra hafa eiginmaðurinn og leigjandinn orðið einn maður, samvaxnir, með tvö höfuð og fjóra handleggi, á tveim fótum. Konan horfir í gegnum gægjugatið á útidyrahurðinni og sér inn í dökk og framandi augu sem spegla ekkert: „Henni barst engin vísbending, ekkert frumkvæði úr þessum augum. Ætti hún að opna yrði hún að gera það sjálf upp á von og óvon“. Við tekur hin geigvænlega spurn sem speglast í aðferð Svövu sjálfrar við að greina frá og afvopna lesandann: „En þegar hún lyfti handlegg féll hann undan eigin þunga. Hún fann tilfinningu hverfa, liðamót stirðnuðu frá öxl og fram í fingur unz handleggurinn var steinrunninn allur“. Með Gunnlaðar sögu (1987) og einnig smásagnasafninu Undir eldfjalli (1990) verða tímamót hjá Svövu Jak- obsdóttur. Siðfræðileg efni sækja á, spurningar um líf og dauða, upphaf og tilgang lífs. Hversdagsleikinn víkur fyr- ir áleitnari efnum. Gunnlaðar saga er byggð upp sem nútíma æsisaga og háklassísk goðsaga um leið. Ung íslensk stúlka sem handtekin er í Þjóðminjasafni Dana með gullker í höndunum og Gunnlöð sem gætti skáldskaparmjaðarins sem Óðinn stal verða höf- uðpersónur sögunnar ásamt móðurinni (ekki síst henni) sem fer til Kaupmannahafnar að hitta dótturina seku. Margræði skáldskaparins einkennir lýsingu móð- urinnar á hugarástandi sínu: „Ég vissi það allan tímann að Gunnlöð var saklaus. Hvorki tæld né í vitorði með Óðni þegar hann stal skáld- skapnum. Hvað hafði ég ekki sagt alveg frá upphafi: Óð- inn stal frá henni skáldskapnum. Þessu svaraði ég þegar ég var spurð óvænt og óundirbúin. Ég taldi það van- hugsað svar. Já, en vanhugsað var það einmitt! Þess vegna satt. Ég var ekki á verði. Sannleikurinn eins og gleymdur fangi í vitund minni sem sá sér leik á borði í andvaraleysi fangavarðarins“. Býr sá máttur í skáldskapnum sem getur bætt heiminn og er hann ávallt hrifsaður af konum af grimmúðlegum körlum sem öllu vilja ráða? Er sagan táknræn dæmisaga til eftirbreytni eða er hún bara um átökin sífelldu milli kvenna og karla? Slíkum spurningum má vissulega velta fyrir sér. Leikritum Svövu Jakobsdóttur má ekki gleyma: Hvað er í blýhólknum? ( 1970), Æskuvinum (1976) og Loka- æfingu (1983) til dæmis. Þessi verk, eins og sögurnar, sýna að Svövu bjó margt í hug og átti erindi. Skrif hennar um Jónas Hallgrímsson vöktu einnig nokkra athygli enda sýndu þau að Svava hafði einnig sitt til málanna að leggja í bókmenntafræðum. Annars fór ekki mikið fyrir Svövu síðustu árin. Aðrir höfundar og önnur verkefni urðu meira áberandi. En á sjöunda áratugnum sérstaklega var rödd hennar mjög sterk og hún lagði ekki árar í bát eins og Gunnlaðar saga og fleiri verk vitna um. Persónuleg kynni mín af Svövu urðu fremur stutt en þó meiri en engin. Þótt við skipuðum okkur ekki í sama stjórnmálaflokk var þó skáldskapurinn sameiginlegt áhugamál og ég fékk sönnur á smekkvísi hennar í þeim efnum. Einu sinni á skrifstofu Lesbókar teygði hún sig í miðri samræðu eftir snyrtiveski sínu og púðraði sig og litaði varirnar af alúð. Með þessu varð ég vitni að jafnræð- islegri hegðun kvenfrelsiskonu. Eða skjátlaðist mér líkt og hent getur gagnrýnendur? Svava Jakobsdóttir Eftir Jóhann Hjálmarsson ENDRUM og eins voga íslenzkir píanistar sér út á glerhálan ís slag- hörputvíleiks. Af þeim örfáu tilvik- um sem ég man eftir má nefna sam- leik Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur og Þorsteins Gauta Sigurðssonar, og Jónasar Ingimund- arsonar og Gerrits Schuil. Af erlend- um gestum kemur aðeins upp í hug- ann frábær samleikur tékknesku hjónanna Ludmilu Kojanova og Pa- vels Novotný, er fram fór í allt of fárra votta viðurvist í Salnum í apríl 2000. Yfir eldri æskuminningum manns voma veikir sjónvarpsskugg- ar hins fyrrum heimskunna dúós Marians Rawizc og Walters Land- auers. Á síðustu áratugum munu lík- lega þekktastar frönsku systurnar Katia og Marielle Labèque – þótt hvorugt parið hafi líkast til hingað komið, nema rangt sé með farið. Erfitt er gera sér í hugarlund hvað etur tveimur píanóleikurum saman á umrætt tvenndarforað, er í raun út- heimtir áratugalangan músíkalskan síamstvíburalifnað. Því trúlega er enginn hljóðfærasamleikur kröfu- harðari en á tvö píanó – um leið og úr fáu er að velja af óumdeildum meist- araverkum fyrir þá áhöfn. Fyrir ut- an ánægjuna við að starfa á jafnræð- isgrundvelli með sálufélaga á sama hljóðfæri er það því væntanlega helzt háskinn sem heillar – þegar minnstu mistök geta orðið jafnafd- rifarík og í frægu rúlluskautaatriði Chaplins á barmi ginnungagaps í Borgarljósum. Þau Guðríður St. Sigurðardóttir og Kristinn Örn Kristinsson létu sig samt hafa það á allvel sóttum tón- leikum þeirra í Salnum á miðviku- dag. Fremstur á sviði var Bösendorfer húss- ins en beint fyrir aftan hann Steinwayinn, og höndlaði Guðríður síð- arnefndan í fyrri hálf- leik, en Kristinn í Rachmaninoff og Gershwin eftir hlé. Hvort þau hafi leikið saman áður kom að vísu ekki fram af ferilágripum þeirra í tónleikaskrá. En sé svo var árangurinn vissulega eftirtektar- verður og gaf vísbend- ingu um að loks hefðu saman ratað tveir ein- staklingar er gætu átt nægilega skylt tónskap saman til að réttlæta frekari samvinnu í þessari vandmeð- förnu grein. Reyndar voru aðeins tvö verk kvöldsins frumsamin fyrir píanódúó. Upphafsatriðið, Pavana Ravels fyrir látna spænska prinsessu (1902), er þannig kunnara í einleiksfrumgerð sinni. Hér var það útsett fyrir tvær slaghörpur af Richard Simm, og mjög vel að því er bezt varð heyrt. Alltjent var engu ofaukið, og tigin angurværðin söng með fagurlega samstilltum þokka í tvíleik Guðríðar og Kristins. Næstu tvö dagskráratriði voru hins vegar milliliðalaus. Sónata Moz- arts fyrir tvö píanó í D-dúr K448 frá 1781 var áður flutt hér á landi af þeim Steinunni Birnu og Þorsteini Gauta í apríl 1996. Við aðra heyrn sló það mann, að flyglarnir hefðu betur verið sem lengst hvor frá öðrum, því mótsvörull rithátturinn bauð nánast upp á lifandi „stereó“ víðóm. Hér fór óþarflega sjaldheyrt lítið meistara- verk, er á köflum slagaði upp í betri píanókonserta snillingsins. Það var býsna kröfuhart á samtaka fingra- fimi í útþáttum, enda túlkuninn ekki alltaf laus við taugaóeirð, þó að syngjandi hægi miðþátturinn væri afburðavel mótaður. Svíta nr. 2 (1901) eftir Rachman- inoff var ólíkt þykkar skrifað verk og varla eins vel heppnað fyrir dúóá- höfnina og sónata Mozarts. Þó glitti í margt fallegt í samleik þeirra félaga, er skartaði kannski samstilltustu stórmótun kvöldsins í glæsilegum rúbatóum og accelerandóum Presto- valsins (II). Þrjár Prelúdíur Georges Gershwins í dúóútfærslu Gregorys Stone mynduðu síðan léttan loka- punkt, með hæga og hraða rúmbu utan um blúsaðan miðforleikinn er tókst einna bezt, enda tiltölulega óháðastur þeirri djasssveiflu sem fáum klassískt menntuðum píanist- um er í blóð borin. Á barmi ginnungagaps TÓNLIST Salurinn Píanódúó eftir Ravel (úts. Simm), Moz- art, Rachmaninoff og Gershwin (úts. Stone). Guðríður St. Sigurðardóttir og Kristinn Örn Kristinsson, píanó. Miðviku- daginn 25. febrúar kl. 20. KAMMERTÓNLEIKAR Guðríður St. Sigurðardóttir Kristinn Örn Kristinsson Ríkarður Ö. Pálsson Austan mána – ljóð frá Kína og Japan er í þýð- ingu Pjeturs Haf- steins Lár- ussonar. Ljóðskáldin sem hér eru þýdd ljóð eftir eiga það öll sameiginlegt að hafa verið uppi á tímum Teng- keisaraættarinnar. Hún komst til valda árið 618, sameinaði ríkið sem þá hafði verið sundrað í nær fjórar aldir og ríkti til ársins 907. Vinirnir Lí Po og Tú Fú þykja mestir kínverskra skálda. Einnig sköruðu þeir Vang Vei og Meng Hao-jan fram úr í ljóðagerð- inni. Ljóðin í bókinni eru eftir þessi skáld frá 8. öld. Þá eru í bókinni ástarljóð frá Jap- an. Ljóðin tilheyra þeim bragarhætti sem kallast tönkur. Elstu ljóðin eru frá áttundu öld, en þau yngstu frá síðustu öld. Allar eiga þessar tönkur það sameiginlegt að vera ástarljóð og öll eru skáldin konur, utan elsta skáldið, Kakinomoto No Hitomaro, en hann var uppi á þeim tíma er tönkurnar voru fyrst ortar. Tönkur eru smáljóð sem skiptast í fimm ljóð- línur. Elstu tönkurnar sem vitað er um eru í hinu forna handriti Kojiki, en það mun upphaflega hafa verið kynnt við keisarahirðina árið 712. Ýmsir vilja rekja upphaf japanskra bókmennta til þess handrits. Útgefandi er Salka. Bókin er 80 bls., prentuð í Litrófi. Ljóð

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.