Morgunblaðið - 01.03.2004, Side 25

Morgunblaðið - 01.03.2004, Side 25
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 1. MARS 2004 25 skrumskæld. Orð hennar og hug- myndir voru egghvöss vopn. Ég kynntist henni tíu ára og ég kveð hana fimmtug. Ást mín og virðing eru án landamæra. Ég sendi baráttu- kveðjur til Jóns Hnefils, Jakobs, barnanna hans og til allra annarra sem syrgja Svövu. Íslensk þjóð hefur séð á eftir stórri systur. Enn einn fugl er floginn á vit stjarnanna. Vænghaf- ið er ógleymanlegt. Vigdís Grímsdóttir. Svava var einstök hæfileikakona og hún kunni að nota hæfileika sína. Hún var skáld og frumleg hugsun hennar ýtti óhjákvæmilega við þeim, sem lásu sögurnar hennar eða sáu leikritin. Hún gat dregið upp snjallar myndir af fólki og atvikum og hún gat líka leyst þann mikla vanda að sam- eina sterkan boðskap og góðan skáld- skap. Kvenréttindakonur á Íslandi kunnu vel að meta skáldið Svövu, og það gerðu stjórnmálamenn á vinstri kantinum einnig. Hæfileikar hennar og skoðanir leiddu til þess, að vorið 1971 fór Alþýðubandalagið þess á leit við hana að hún tæki það, sem telja mátti öruggt sæti á lista flokksins í Reykjavík. Ég var borgarfulltrúi sama flokks í Reykjavík, og þar með hófst náið samstarf okkar í flokknum. Borgar- fulltrúar og þingmenn Reykjavíkur geta að sjálfsögðu náð mun lengra með stefnumál sín með góðu sam- starfi en með því að hokra hver í sínu horni. Svövu hafði ég reyndar lengi þekkt, en foreldrar okkar voru vina- fólk allt frá námsárum feðra okkar í guðfræðideild. Það var gaman að fylgjast með henni vinna að fyrsta þingmálinu, sem var frumvarp til laga um Jafn- launaráð. Það var vandað og ýtarlegt og skýrt kveðið á um hvernig staðið skyldi að framkvæmdinni. Hún var harðduglegur þingmaður og frum- varp hennar varð að lögum. Ég nefni hér aðeins þetta fyrsta mál, en þing- mál hennar voru mörg og merk og hún lét heldur ekki sinn hlut eftir liggja í almennri umfjöllun mála. Hún var eina konan í þingflokknum, en á þessum árum áttu konur yfirleitt ekki greiða leið í þingsali. Menntun og hæfileikar Svövu nutu sín einnig vel í verkefnum erlendis, hvort sem um var að ræða störf á þingi Samein- uðu þjóðanna eða í Norðurlandaráði. Góðar minningar koma upp í hug- ann, nú þegar komið er að kveðju- stund. Ég sé fyrir mér nokkrar konur í aðdraganda borgarstjórnarkosn- inga. Þær eru ekki allar jafnvanar og Svava er mætt í hlutverki leiðbein- andans. Hún hjálpar fyrst og fremst byrjandanum, sem ekki var vön skriftum, með því að segja „jú þetta er gott“ og benda síðan með öryggi og hógværð á hvernig færa mætti til og lagfæra, án þess að vekja minni- máttarkennd hjá stúlkunni. Ég minnist sumarferðar Alþýðu- bandalagsins um Suðurland á sól- björtum degi. Ég var í sama bíl og Svava og með í för voru þeir einnig Jón Hnefill og sonurinn Jakob, sem hafði tekið gítarinn með sér. Það var sungið og skrafað í bílnum. Aðal- áfangastaður var í fögrum hvammi við Hvítá. Svava var ræðumaður dagsins, þar talaði hugsjónakonan og skáldið og allur hópurinn hlustaði í hrifningu. Það var greinilegt að eng- inn vildi missa af nokkru orði. Blessuð sé minning Svövu. Hún varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga góðan lífsförunaut. Ég votta Jóni Hnefli, Jakobi og fjölskyldunni allri innilega samúð. Adda Bára Sigfúsdóttir. Ég hitti Svövu Jakobsdóttur fyrst þegar við Rauðsokkur fórum kvöld eitt saman út fyrir Reykjavík í skála til að snæða saman og ræða málin. Þetta var fallegt sumarkvöld og ég fylltist stolti yfir því að vera í hópi kvenna sem voru bæði meðvitaðar um stöðu sína í samfélaginu, höfðu yf- irsýn yfir samfélagslegar aðstæður kvenna og vissu hvert ætti að stefna í baráttunni fyrir jafnrétti þeirra á vinnumarkaðinum, til náms og á heimilinu. Þá vissi ég ekki að seinna ætti ég eftir að verða tengdadóttir hennar. Svava hafði útgeislun mjög sterkr- ar konu sem maður bar ósjálfrátt virðingu fyrir. Hún var föst fyrir og hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Það var þess vegna ætíð gaman að koma við hjá henni og Jóni Hnefli eldri, fá sér kaffibolla og spjalla. Þegar Jón Hnefill yngri fæddist tók hún strax þá ákvörðun að reynast þessu barni góð amma. Við það stóð hún. Þegar við foreldrar hans skildum héldu hún og Jón Hnef- ill eldri þétt utan um sambandið við okkur og þar sem faðirinn bjó erlend- is komu þau Jóni nánast í föðurstað, sóttu hann um hverja helgi til að eiga dagsstund með honum og hugsuðu fyrir því að hann skorti aldrei neitt. Hjá þeim lærði sonur minn að rækta eiginleika sem munu endast honum allt lífið. Þau kenndu honum m.a. að lesa og meta gildi góðra bókmennta. Allt þetta er veganesti sem aldrei verður metið til fjár. Við höfum haldið sambandi við Svövu í meira en 22 ár og hafi skugga borið á það samband er hann löngu horfinn. Í gegnum veikindi sín bar Svava ætíð höfuðið hátt og barðist hetjulega. Það var þess vegna sem ég ætlaði ekki að trúa því að þessi sterka kona væri að fara frá okkur. Ég mun á minn hátt sakna hennar og finnst verst að hafa ekki getað sagt henni nægilega oft hversu þakklát ég er fyrir allt það sem hún hefur lagt af mörkum til sonar míns og sonarsonar hennar. Ég er sannfærð um það, að núna þegar hún hefur lokið hlutverki sínu í þessu jarðlífi á hún fyrir höndum spennandi ferðalag á vit nýrra æv- intýra sem bíða okkar hinna. Jón Hnefill, Jakob, Jón Hnefill yngri, Svava, Anton Freyr og Ásta María, Guð veri með ykkur í sorg ykkar og gefi ykkur styrk til að halda áfram. Hjördís Bergsdóttir – Dósla. Fyrsta bók Svövu Jakobsdóttur, 12 konur kom út árið 1965. Þetta var fyrir daga nýju kvennahreyfingar- innar og mikið þurfti til að konur væru teknar gildar í bókmennta- stofnuninni. Sjötti og sjöundi áratug- ur 20. aldar voru ekki hlynntir kven- höfundum. Tíðarandinn var þannig að það var talið karlanna verk að skapa list og menningu, kvennanna var að dást að þeim. Ef þær vildu tala sjálfar létu menn eins og þeir sæju þær ekki eða létu þær vita að þær væru boðflennur í veislunni undir grjótveggnum. Raunsæishefðin var sterk og nánast einráð og Svava sagði síðar að innan hennar hafi hún engan stað séð fyrir konur og veruleika þeirra. Niðurstaða hennar varð þessi: „Við hina karlmannlegu bókmennta- hefð segi ég: Gott og vel, ég skal ræða við ykkur á grundvelli hins hlutlæga raunsæis en með mínum skilyrðum – innra borðið skal snúa út.“ Furðusögurnar sem hún skrifaði frá upphafi voru gróteskar, fyndnar og hræðilegar. Í þeim fólst frelsandi húmor og háð sem varpaði skæru ljósi á þá tvíbentu orðræðu sem notuð hafði verið til að halda konum niðri. Í sögum Svövu var ráðist beint á klisj- urnar og myndmál þeirra afhjúpað og þannig sýndi hún hvernig fordóm- ar og staðlaður mannskilningur er falinn í tungumálinu sem við notum oft hugsunarlaust og breytum þar með ómeðvitað gegn eigin sannfær- ingu. Hin róttæka gagnrýni Svövu og listræna úrvinnsla var ómetanleg fyr- ir nýju kvennahreyfinguna; smásög- urnar og leikritin urðu vopn í baráttu kvenna fyrir jafnrétti og frelsi. Þó er skáldsagan Gunnlaðar saga áreiðan- lega hátindurinn á höfundarverki Svövu, bók sem breytti bæði fortíð og nútíð og verðskuldar að vera talin eitt mikilvægasta listaverk aldarinnar. Leiðir okkar Svövu lágu saman ár- ið 1976, ég átti þá eftir að skrifa BA- ritgerð um verk hennar, fimm grein- ar og viðtöl og sat með henni löngum stundum af því tilefni. Það var unun að tala við hana um bókmenntir og listir; hún var með afbrigðum vel les- in, skarpgreind og skapandi, fyndin og heillandi en hún var líka skoðana- föst, vildi hafa síðasta orðið og hafði það oftast. Ég vildi að henni hefði auðnast tími til að skrifa meira og vera lengur meðal okkar. Við Kristján vottum Jóni Hnefli, Jakobi, börnum hans og systkinum Svövu okkar innilegustu samúð. Dagný Kristjánsdóttir. Með fráfalli Svövu Jakobsdóttur sjáum við á bak brautryðjanda og baráttumanneskju sem markaði djúp spor. Rithöfundurinn, bókmennta- fræðingurinn, stjórnmálamaðurinn, hugsjónamanneskjan, allt sameinað- ist þetta í hógværri og hlýrri mann- eskju sem var einstaklega notaleg í allri viðkynningu. Leiðir okkar lágu fyrst og fremst saman í gegnum stjórnmálin. Hún var að draga sig þar til hlés um svipað leyti og glíma mín við þau hófst, en var þó áfram nálæg og lagði sitt af mörkum eftir því sem tími og kraftar leyfðu. Fyrir stjórnmálamanninum Svövu og störfum hennar á þeim vett- vangi var borin djúp virðing og oft til hennar vitnað. Frumkvæði hennar á sviði jafnréttismála, sem meðal ann- ars leiddi til setningar jafnréttislaga, er vel þekkt. Við þeim málum hafði hún reyndar áður hreyft svo um munaði með beittum penna sínum. Á sviði jafnréttis- og kvenfrelsisbarátt- unnar var Svava því brautryðjandi hvort tveggja sem rithöfundur og stjórnmálamaður. En áhugasvið Svövu var vítt og fyrir utan jafnrétt- is- og félagsmál lét hún allt sem við- kom menningu og listum til sín taka, lagði þjóðfrelsis- og friðarbaráttu lið með rödd sinni og penna, sinnti al- þjóðasamstarfi og þar fram eftir göt- unum. Um rithöfundar- og bókmennta- fræðiferil Svövu verða ugglaust margir til að fjalla, mér færari. Ég vil hér aðeins tjá þá persónulegu upp- lifun sem það var mér að lesa Gunn- laðarsögu, lesa hana aftur og hafa nú enn í höndunum í minningu höfund- arins. Gunnlaðarsögu set ég hiklaust á bekk með því albesta sem ég hef lesið eftir seinni tíma höfunda ís- lenska. Rammíslensk og sumpart forn sem sagan er, þá er hún um leið fersk glíma við nútímann og dansar á mörkum raunheims og kynjaveraldar í anda suður-amerískra furðusagna eins og þær gerast bestar. Síðustu samskipti okkar Svövu voru í tengslum við alþingiskosning- arnar sl. vor. Þá féllst hún ljúfmann- lega á að skipa heiðurssæti á fram- boðslista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í öðru Reykjavíkur- kjördæminu og var áhugasöm um framgang okkar. Fyrir þann stuðn- ing og heiður sem það var hreyfingu okkar erum við hjartanlega þakklát. Ég votta eftirlifandi eiginmanni, syni og öðrum aðstandendum inni- lega samúð. Af þakklátum hug og með djúpri virðingu kveð ég Svövu Jakobsdóttur. Heiðruð veri minning hennar. Steingrímur J. Sigfússon. Svava Jakobsdóttir hefur kvatt jarðvistina eftir fjölbreytilegan og at- hafnasaman æviferil, og er vissulega skarð fyrir skildi. Svava lét til sín taka á mörgum sviðum, en mest að vöxtum og best að kostum var fram- lag hennar til íslenskra bókmennta. Hún var fortakslaust einhver eftir- tektarverðasti og listfengasti höfund- ur Íslendinga eftir seinni heimsstyrj- öld, enda voru verk hennar þýdd á fjölmörg tungumál. Gilda má einu hvar niður er borið í skrifum hennar, hvarvetna glittir í gull. Svava vakti fyrst athygli mína með smásögu sem hún birti í „Lífi og list“ í júlí 1950. Þó ég muni óljóst efni sög- unnar, sem bar heitið „Konan í kjall- aranum“, er mér í fersku minni and- blær hennar og áhrifin sem hún hafði á mig ungan. Ég þóttist skynja að upp væri að renna höfundur sem léti að sér kveða. Þess var samt lengra að bíða en ég hafði vænst. Það liðu sumsé tæp fjórtán ár þartil hún kom aftur frammá ritvöllinn, og þá með smásöguna „Rautt og gult“ sem birt- ist í Lesbók Morgunblaðsins í mars 1964. Mér fannst mikill fengur að fá söguna til birtingar og lét höfundinn ekki velkjast í vafa um það. Það var því óblandið gleðiefni, þegar Svava sagði mér í óspurðum fréttum nokkr- um árum seinna, að viðtökur mínar og hvatningar hefðu átt ósmáan þátt í þeirri ákvörðun sinni að gera rit- listina að ævilöngu viðfangsefni. Síðla árs 1966 birti hún tvær sögur til viðbótar í Lesbókinni: „Þegar skrúfað var fyrir kranann í ógáti“ og „Eldhús eftir máli“. Þær birtust báð- ar í annarri bók hennar, Veizlu undir grjótvegg (1967). Tveimur árum fyrr hafði smásagnasafnið „Tólf konur“ komið út. Með báðum þessum bókum tryggði Svava sér sess innarlega á skáldabekk. Allar voru sögur hennar samdar í raunsæjum stíl og fjölluðu um þær ógnvekjandi gátur sem mæta konum á ýmsum skeiðum lífsins, allt frá bernsku til fullorðinsára. Í sál- fræðilegri könnun á tilfinningalegri kreppu kvenna í nútímasamfélagi sýndi Svava sérkennilegt næmi og innsæi. Fyrri bókin var fyrirboði þeirrar seinni sem fjallaði um sama vanda með dirfskufyllri og skilmerki- legri hætti. Þar sprengdu áhrifarík- ustu sögurnar af sér ramma hefð- bundins raunsæis og fóru útí nokkurskonar „fáránlegt raunsæi“ þarsem fjallað var um fjarstæðustu atvik og aðstæður með bláttáfram og sjálfsögðum hætti. Þessi aðferð gerði sögurnar í senn bráðfyndnar og ein- att sérlega nærgöngular. Segja má að aðferðin yrði einkunn skáldkon- unnar jafnt í smásögum, skáldsögum sem leikritum. Árið 1969 birtist fyrsta skáldsaga Svövu, Leigjandinn, og olli ekki síður tíðindum en smásögurnar. Var mikið um hana skrafað og skrifað, enda mátti vel útleggja hana sem einskon- ar fabúlu um stöðu Íslands í veröld samtímans. Síðan liðu 13 ár þartil þriðja smásagnasafn Svövu kom út, „Gefið hvort öðru …“ (1982). Við- fangsefnin voru að mestu þau sömu og í fyrri smásögum: kjör kvenna í innilokaðri veröld þæginda, öryggis, sjálfsfórna og markleysis. Svipað má segja um síðasta smásagnasafnið, „Undir eldfjalli“ (1989). Það sérstaka við endurtekna umfjöllun Svövu um þessi brýnu efni er að hún endurtek- ur sig ekki, heldur nálgast þau hverju sinni með ferskum og frjóum tjáning- arhætti. Seinni skáldsaga Svövu, „Gunnlað- ar saga“ (1987), er að mínu mati ein- stæð í íslenskum bókmenntum. Hún var af mörgum talin innlegg í kvenna- baráttuna, en fjallar um miklu víð- tækara, djúplægara og sígildara efni. Hún leitast við að tengja saman alla þætti tilverunnar, skoða lífið sem órofa samfellu: grósku og hrörnun, fórn og fullnægingu sem hluta af samstæðri heild. Um þetta hnýsilega viðfangsefni fjallaði Svava líka í ýms- um fræðigreinum og ritgerðasafninu „Skyggnst bak við ský“ (1999). Um leikhúsverk Svövu Jakobs- dóttur mætti skrifa langt mál. Leik- ritin urðu sex: Hvað er í blýhólknum? (1970), Friðsæl veröld (1974), Æsku- vinir (1976), Í takt við tímana (fyrir útvarp 1980), Lokaæfing (1983) og Næturganga (fyrir sjónvarp 1989). Lokaæfing var sýnd víða um heim og Næturganga á Norðurlöndum og í Frakklandi. Öll vöktu leikverkin verulega athygli, enda hafði Svava tvímælalaust á valdi sínu að gæða að- kallandi samtímavandamál drama- tískri spennu og magnaðri svið- skynngi, meðal annars með því að krydda leikritin gamansömum og jafnvel fáránlegum atriðum til að lífga uppá atburðarásina og draga fram andstæður. Við Svava áttum gott samstarf á Lesbókinni 1966–67, en svo tók hún við af mér og gegndi starfinu til 1969. Síðan var hún starfsmaður á dag- skrárdeild RÚV 1969–70. Á árunum 1971–79 var hún þingmaður Alþýðu- bandalagsins og kom á því skeiði mörgu góðu til leiðar, átti meðal ann- ars frumkvæði að jafnréttislögum, sem Alþingi samþykkti, og hafði for- göngu ásamt Gunnari Thoroddsen um setningu laga um Launasjóð rit- höfunda 1973. Það framtak hefur að minni hyggju skipt sköpum fyrir vöxt og viðgang íslenskra bókmennta heima og heiman undangenginn ald- arfjórðung. Svava gegndi fjölmörg- um trúnaðarstörfum bæði á Alþingi, í samtökum rithöfunda, í stjórn Máls og menningar og víðar. Síðustu minnisverðu samskipti okkar Svövu urðu fyrir nokkrum ár- um þegar hún afréð, þó heilsan væri tæp, að leggja með mér í þriggja vikna hópferð um Grikkland ásamt manni sínum, Jóni Hnefli Aðalsteins- syni prófessor, og syni þeirra Jakobi S. Jónssyni sem búsettur er í Svíþjóð. Urðu þær samvistir öllum sem hlut áttu að máli til mikillar ánægju, enda var fjölskyldan einstaklega samhent um að þiggja það sem í boði var og njóta samveru við lífsglaða og nám- fúsa ferðafélaga. Sendi ég þeim feðg- um og öðrum ættingjum og aðstand- endum Svövu hugheilar samúðar- kveðjur á þessum dapurlegu tíma- mótum. Blessuð sé minning gjöfullar og göldróttrar andans valkyrju. Sigurður A. Magnússon. Svava Jakobsdóttir kom til liðs við hreyfinguna eins og það var orðað sem frambjóðandi vorið 1971. For- saga málsins var sú að í kosningunum 1967 fékk G-listinn tvo menn kjörna, Magnús Kjartansson þá ritstjóra en síðar alþingismann og ráðherra og Eðvarð Sigurðsson, formann Verka- mannafélagsins Dagsbrúnar. Það var því mikilvægt að vanda vel til skip- unar í þriðja sætið í kosningunum 1971. Það varð að gera allt sem unnt var til að fella ríkisstjórn Alþýðu- flokksins og Sjálfstæðisflokksins sem hafði þá setið að völdum í tólf og hálft ár. Eftir yfirlegur varð niðurstaðan sú að leita til Svövu Jakobsdóttur rithöf- undar. Hún hafði reyndar verið blaðamaður á Morgunblaðinu og fannst sumum í grasrótinni skrýtið að sækja frambjóðanda þangað þrátt fyrir Blýhólkinn. Ég hygg að það hafi verið Adda Bára Sigfúsdóttir, Kjart- an Ólafsson og Guðmundur Hjartar- son sem réðu mestu um þessa för. Þegar Svava steig fyrst fram fyrir flokksmenn, eftir að framboðið var ákveðið, var það á fundi á Hótel Sögu og var ekki laust við að það væru skýjahnoðrar spurninga að ég segi ekki tortryggni á sveimi í Súlnasaln- um í kringum þennan frambjóðanda. Hún flutti þá ræðu sem ég man satt að segja ekkert úr nema það að mér leið stórum betur eftir að hafa hlust- að á hana og fann að þau vísu flokks- foreldrar voru á réttri leið eins og venjulega. Ræðan skildi eftir traust og öryggi hjá okkur sem unnum niðri í lestinni. Svava eða sjötti lögfræðing- urinn var slagorðið sem við bjuggum til og við máluðum það á borða sem við strengdum þvert yfir Laugardals- höllina rétt fyrir kosningarnar. Sjötti lögfræðingurinn var sjötti lögfræð- ingurinn á lista Sjálfstæðisflokksins. Svava náði kjöri en ekki sjötti lög- fræðingurinn og með þeim kosninga- sigri Alþýðubandalagsins í Reykjavík varð unnt að mynda vinstri stjórn. Viðreisnarstjórnin fallin. Svava stóð sig hetjulega í kosningabaráttunni, og síðan í stjórnarmyndunarviðræð- unum og svo í nefndastarfi fyrir rík- isstjórnina á sviptingasömum tíma. Hún sat í menntamálanefnd og alls- herjarnefnd og í utanríkismálanefnd. Hún sótti sem þingmaður mörg alls- herjarþing Sameinuðu þjóðanna og tók virkan þátt í norrænu samstarfi. Það var rökrétt að hún væri virk í al- þjóðlegu samstarf því hún hafði breiðan menntunarbakgrunn bæði frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Sví- þjóð auk þess sem hún var að nokkru leyti alin upp í Kanada sem prests- dóttir í Vatnabyggð þar sem heitir Wynyard í Saskatchewan. Svava Jakobsdóttir hóf starfsferil sinn í utanríkisráðuneytinu og væri fróðlegt að vita hve margir hafa farið hennar leið, það er úr starfi í sendi- ráði í þingið; þekktari eru dæmi um það gagnstæða. Svava vann hér í sendiráðinu á Kommendörsgatan í nokkur ár, 1955 til 1958, og má enn sjá gögn með fallegri rithönd hennar í skjalasafni sendiráðsins. Eftir störf- in í utanríkisráðuneytinu kom hún víða við og verður það ekki rakið hér í einstökum atriðum utan minnst á hennar pólitíska feril: Hún sat á alþingi á níu þingum, alltaf fyrir Alþýðubandalagið í Reykjavík. Það sem hæst ber í þingferli Svövu er að mínu mati frumvarpið um jafn- launadómstólinn sem var eiginlega framúrstefnumál og væri róttækt enn þann dag í dag. Upp úr frum- varpinu varð til jafnréttisráð. Á þessu sviði átti Svava ríkt frumkvæði með sterkum stuðningi kvenna í Alþýðu- bandalaginu eins og Vilborgar Harð- ardóttur. Öll þingstörf hennar voru SJÁ SÍÐU 26

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.