Ægir

Árgangur

Ægir - 01.03.2011, Blaðsíða 6

Ægir - 01.03.2011, Blaðsíða 6
6 R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L Ekki kæmi mér á óvart að einhver velti því fyrir sér út frá yfir- skrift þessa pistils hvernig Internetið og sjávarútvegur eigi samleið - já og hvernig ætti að vera hægt að greiða þjóðarat- kvæði um Veraldarnetið! Og þar er kominn kjarni málsins. Væri mögulegt að greiða atkvæði um Internetið? Og hver ætti þá spurningin að vera? Viltu Internetið eða ekki? (Varla dytti nokkrum heilvita manni í hug að setja slíka spurningu fram!) Höldum áfram í hugarfluginu: Viltu hafa Internetið en þá bara til að senda tölvupóst? Eða ætti spurningin að vera: Ertu sammála því að banna allar heimasíður á Internetinu sem eru með fleiri en 10 myndum ef þar eru jafnframt boðnar vörur til sölu? Þessar vangaveltur hafa leitað á huga undirritaðs síðustu vikur í því samhengi hvernig fara eigi að því að setja fisk- veiðistjórnarkerfið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bara það eitt að skipta á orðunum Internet og fiskiveiðistjórnarkerfi í spurn- ingunum hér að framan sýnir mætavel að þetta mál er mun flóknara en það hljómar. Varla heldur nokkur maður í alvöru að við ætlum að fara að spyrja þjóðina hvort hún vilji afleggja fiskveiðistjórnun á Íslandsmiðum. Og hefur almenningur for- sendur til að gera upp á milli fyrningarleiðar og sáttaleiðar, svo dæmi sé tekið? Hvers vegna ættum við þá ekki allt eins að greiða atkvæði annan hvern mánuð um vaxtastig Seðla- bankans? Sú spurning er áleitin hvort hinu mikla tískuorði „þjóðarat- kvæðagreiðsla„ sé viljandi beitt í þrætunni um breytingar á fiskiveiðistjórnarkerfinu. Gera verður skýra kröfu til þess að þeir sem varpa fram hugmyndinni um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjávarútveginn skilgreini um hvað eigi þá að spyrja og til hvers. Eru slíkar hugmyndir settar fram til að stjórnmála- menn komist í skjól frá eigin sundrungu? Nú er það einföld staðreynd að í upphafi kjörtímabilsins boðaði ríkisstjórnin að gera ætti breytingar á kerfinu. Tímaáætlunin var skýr og samkvæmt henni átti breytt kerfi að vera komið á yfirstand- andi fiskveiðiári. Samt er ekkert ljóst - allt fast og rifist sem aldrei fyrr. Það er sannarlega af hinu góða að landsmenn séu meðvit- aðir um mikilvægi sjávarútvegsins og framvindu í greininni. Samlíking sjávarútvegs við Internetið er ekki alfarið úr lausu lofti gripin því hvort tveggja byggir í grunninn á mikilli fjöl- breytni. Sem hefur fleiri kosti en galla. Sjávarútvegur er ekki eitthvað eitt form - eins og að hefur verið vikið í fyrri pistlum á þessum vettvangi. Hann er í sífelldri þróun og sífellt verður að bregðast við. Nákvæmlega það gera þeir sem starfa í greininni frá degi til dags. Og verða að geta gert. Og er þá nærtækt að taka nýlegt dæmi. Togari í eigu þýskrar útgerðar landaði ísfiski hér á landi á dögunum og verðskulduð ánægja var með það í fjölmiðlum. Enginn spurði hins vegar hvernig á því standi að öflugur frystitogari landar skyndilega ísfiski. Gæti verið að útgerðin hafi verið að bregðast við - gera sem mest og best úr aflanum? Sennilega er hagkvæmara að fiska ísfisk á frystitogara en frysta úti á sjó þessa stundina. Jafn- gott að engum hafi dottið í hug að banna frystitogurum að landa ísfiski! Þráhyggja í kvótaumræðunni „En nú í miðri kreppunni er rætt um að kalla inn kvótana og selja þá aftur til útgerðanna. Flestir þeir sem fengu kvót- ana upphaflega hafa framselt þá til aðila sem nú stunda veiðar. Að innkalla og endurselja kvótana er í raun ómerki- legur þjófnaður. Ríkisvaldið hyggst knýja þá sem keypt hafa kvótana fullu verði til að kaupa þá aftur. Getur þjóðar- sálin veikst? Umræðan á Íslandi um kvótakerfið er óheil- brigð þráhyggja. Í miðri stórkreppu er það stefna ríkis- stjórnarinnar að skapa glundroða og gjaldþrot í sjávarút- veginum sem er helsti lykillinn að efnahagsbata. Mín skoð- un er sú að halda eigi áfram á þeirri braut sem þegar hafði verið mörkuð; að láta sjávarútveginn greiða auðlindagjald til ríkisins fyrir veitta þjónustu við eftirlit með auðlindinni. Elinor Ostrom [fyrst kvenna til að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði], minn góði félagi, myndi einnig sterklega mæla með því að sjávarútvegurinn tæki smám saman við mikil- vægum verkefnum við verndun auðlindarinnar - eins og gert hefur verið á Nýja-Sjálandi. Takmarkið með því er að kveikja ábyrgðartilfinningu í bjrósti þeirra sem nota auð- lindina og hvetja þá til að umgangast hana af hagkvæmni og hafa eftirlit hver með öðrum. Hugmyndir af þessu tagi hafa drukknað í háværum öskrum um skiptingu arðsins. Honum er þegar skipt með auðlindagjaldi og almennri skattlagningu sjávarútvegsfyrirtækja.“ Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í viðtali við Frjálsa verslun Landeyjahöfn verður seint heilsárshöfn „Janúar var svona í þokkalegu meðallagi, en febrúar frekar erfiður en kemst samt ekki í hóp fimm verstu sem að ég hef upplifað. Mars stefnir hins vegar í að vera með þeim verstu, þessir fyrstu 3 mánuðir ársins eru yfirleitt erfiðir, en í heildina stefnir veturinn í að vera nokkuð örugglega í hópi þeirra 10 bestu þessi 24 ár. Margir hafa nefnt það að sjó- lagið í Landeyjahöfn sé búið að vera óvenju slæmt, en svo er alls ekki enda ölduhæðin varla farið upp fyrir 5 metrana í allan vetur (fór hins vegar einu sinni í 8,8 metra í hitt í fyrra vetur). Niðurstaða mín eftir reynslu vetrarins og öll þessi ár sem sjómaður hérna við Eyjar er því nokkurn veg- inn eins og ég bjóst við, þ.e.a.s. það er amk. 90% líkur á því að Landeyjarhöfn verði aldrei heils árs höfn. En hvað skal gera? Ástæðan fyrir því að ég byrjaði aftur í haust að skrifa um Landeyjarhöfn er fyrst og fremst það, að mér var laumað þessi hugmynd að bjóða höfnina út og smíða síðan alvöru skip til siglinga milli Þorlákshöfn og Eyja.“ Georg Eiður Arnarson í grein á vefnum eyjafrettir.net U M M Æ L I Þjóðaratkvæði um Internetið? Ísfell ehf • Óseyrarbraut 28 • 220 Hafnarfjörður • Sími 5200 500 • isfell@isfell.is www.isfell.is Allt til línuveiða

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.