Félagsbréf - 01.12.1962, Page 14

Félagsbréf - 01.12.1962, Page 14
10 FÉLAGSBRÉF Otundum er á það minnzt, að íslendingar hafi horft með nokkurri vandlætingu á þá ungu höfunda, sem leituðu að heiman og hófu að skrifa skáldrit sín á erlendu máli á fyrstu tugum aldarinnar. Þetta var á þeim árum, þegar þjóðin hafði öðlazt heimastjórn og sótti hvað fastast fram til lokasigurs í sjálfstæðisbaráttunni. Þetta hratt af stað al- mennri bjartsýni og mönnum var talsvert í hug, þjóðernisleg vakning gekk yfir landið undir kjörorðinu íslandi allt, ný myndlist var komin til sögunnar fyrir atbeina ungra og glæsilegra listamanna og íslenzkir íþróttamenn voru teknir að keppa á erlendum vettvangi. Þjóðin virtist, að minnsta kosti í orði kveðnu, hafa mikinn hug á að sýna heiminum fram á hlutgengi sitt meðal framsækinna menningarþjóða og þurfti á öllu sínu liði að halda. Það var því ekki nema eðlilegt, að ýmsum hrysi hugur við að sjá unga afbragðsmenn úr hópi upprennandi skálda og rithöfunda flýja land sitt og tungu, í stað þess að efla þær bók- menntir, sem höfðu öðru framar staðið undir metnaði þjóðarinnar og verið henni haldreipi. Og víst hefði þessi þróun mátt þykja viðsjárverð, ef hún liefði orðið til frambúðar, en svo varð ekki, og nú mætti það teljast okkur til sjálfskaparvítis, ef hún hæfist að nýju. Hún átti á sín- um tíma rök í umkomuleysi þjóðfélagsins; enginn höfundur hér á landi gat á þeim árum gert sér minnstu vonir um að lifa af skáldskap sínum einvörðungu, m.a. vegna þess, að þeim var svo að segja fyrir- munað að koma verkum sínum á framfæri við erlenda lesendur, en það kom aftur til af því, að þýðendur íslenzkra fagurbókmennta voru ekki tiltækir. Reyndar höfðu nokkur smærri skáldrit íslenzkra höfunda, Jóns Thoroddsens, Gests Pálssonar, Indriða Einarssonar og Einars Hjör- leifssonar Kvarans, verið þýdd á erlend mál, en þær tilraunir voru flest- ar af vanefnum gerðar, og varð þeim ekki heldur fylgt eftir. Nú hefur eitthvað rýmkazt um fyrir íslenzkum höfundum í þessu efni, sérstak- lega eftir að tekið var að styrkja erlenda stúdenta til náms við Háskólann, en samt mun þetta um langt skeið verða vandamál, sem ekki er vert að loka augunum fyrir. Ungum og framgjörnum höfundum var þv’ varla láandi, þó að þeir yndu ekki hinni þröngu vök, sem þeim var búin hér heima, og kysu að neyta vængjanna þar sem rýmra mundi uni þá — ef flugtakið lánaðist.

x

Félagsbréf

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Félagsbréf
https://timarit.is/publication/1060

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.