Morgunblaðið - 05.08.1978, Qupperneq 20
20
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 5. ÁGÚST 1978
I Útgefandi ntttbiMfe hf. Árvakur, Reykjavík.
Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson.
Ritstjórar Matthías Johannessen,
Styrmir Gunnarsson.
Ritstjórnarfulltrúí Þorbjörn Guðmundsson.
Fréttastjóri Björn Jóhannsson.
Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson
Ritstjórn og afgreíósla Aöalstræti 6, sími 10100.
Augiýsingar Aðalstræti 6, sími 22480.
Áskriftargjald 2000.00 kr. ó mánuói innanlands.
1 lausasölu 100 kr. eintakiö.
íslenzkur
skipaiðnaður
Eyþjóð, sem byggir afkomu sína á sjósókn, og háð er
utanríkisviðskiptum, útflutningi og innflutningi, í ríkara
mæli en flestar aðrar þjóðir, hlýtur að stefna að því að verða
sjálfri sér nóg um skipaviðgerðir og færa nýsmíði eigin skipa inn
í landið, eftir þvi sem aðstæður og arðsemi frekast leyfa.
Frændur okkar, Færeyingar, sem búa við svipaðar aðstæður,
hafa á þessu sviði skotið okkur ref fyrir rass.
Þegar litið er um öxl, allt frá stofnun lýðveldis fram á okkar
daga, verður ljóst, að skipafloti okkar hefur verið endurnýjaður í
stökkum, sem m.a. eiga rætur í ákvörðunum ríkisstjórna um
fjármagnsfyrirgreiðslur til fiskiskipakaupa. Þessar stökkbreyt-
ingar í stað jafnari þróunar hafa verið Þrándur í Götu
uppbyggingar íslenzks skipasmíðaiðnaðar.
Síðasta stökkbreyting íslenzka togaraflotans hófst á síðustu
árum svokallaðrar viðreisnarstjórnar og var framhaldið af
vinstri stjórninni síðari. í tíð Jóhanns Hafstein sem
iðnaðarráðherra á viðreisnarárum var gerð virðingarverð tilraun
til að knýta þessa endurnýjun eðlilegri uppbyggingu íslenzks
skipasmíðaiðnaðar. Þetta fór þó úr böndum í framkvæmd vinstri
stjórnar. Svo mikið lá á, þrátt fyrir þegar fengna vitneskju um of
mikla veiðisókn í þorskstofninn, að svo til öll nýsmíði
togaraflotans var flutt út, frá íslenzkum skipasmíðastöðvum og
iðnaðarmönnum. Hefði þessu verkefni verið dreift á lengri
framkvæmdatíma, sem ekki var óeðlilegt, hefði skapazt gullið
tækifæri til að byggja betur upp íslenzkan skipasmíðaiðnað og
halda kyrrum í landinu fjármunum, sem mættu þessum erlenda
kostnaði. Þarna var glutrað niður tækifæri sem óvíst er að komi
jafngott aftur næstu misserin.
Nýsmíði skipa innanlands árið 1975 var aðeins 15% af
skipakaupum íslendinga það ár. Nefnd, sem núverandi
iðnaðarráðherra skipaði til að taka til athugunar vandamál
skipaiðnaðarins hér á landi, skilaði bráðabirgðaáliti í
októbermánuði s.l., þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu, að
eðlilegt sé að stefna að 50% hlutdeild okkar sjálfra í eigin
skípasmíði. í áliti sínu fjallar nefndin um hlutverk skipaiðnaðar-
ins, tæknistig íslenzks skipaiðnaðar, markaðshlutdeild hans,
óstöðugleika markaðar fyrir nýsmíði, hagkvæmni skipaiðnaðar
og uppbyggingu. Þar er lögða sérstök áherzla á að efla tækni
íslenzks skipaiðnaðar, sem að sjálfsögðu helzt í hendur við
verkefni í þessari framleiðslugrein.
I áliti því, sem hér er vitnað til, eru settir fram tveir kostir. Sá
fyrri er óbreytt stefna, sem væntanlega myndi leiða af sér
ósamkeppnisfæran skipasmíðaiðnað og veita þeirri ríkisstjórn,
sem sitja mun eftir u.þ.b. 8 ár, eins og það er orðað.tilefni til að
mynda flóðbylgju innfíuttra skipa. Þetta er sögð sú reynsla, sem
íslendingar hafi búið að. Hinn síðari er að byggja upp
samkeppnisfæran skipaiðnað, sem myndi bæði hafa í för með sér
að næsta bylgja yrði mun vægari og innflutningur skipa, til
lengri tíma lítið, minni. Ástæða er til að vekja athygli á þessari
niðurstöðu til íhugunar fyrir alþjóð.
Þeir, sem fyrst og fremst líta á íslenzkar skipasmíðastöðvar
sem viðgerðarstofnanir fyrir fiskiskipaflotann, mega gjarnan
hugleiða, að því aðeins verður hægt að byggja upp viðunandi
framtíðar viðgerðarþjónustu, að þessar stofnanir hafi viðunandi
rekstrar- og afkomugrundvöll. Svo verður ekki án nýsmíði til að
brúa eyður í starfi en þó fyrst og fremst til að hægt sé að byggja
upp skipasmíðastöðvar af þeirri stærð, með þeim tækniútbúnaði
og sérhæfða starfsliði, sem framtíðarhagsmunir þjóðarinnar
hljóta að krefjast. Þau verkefni, sem íslenzkar skipasmíðastöðv-
ar hafa af hendi leyst á vettvangi nýsmíði, hafa ótvírætt sannað
hæfni og fagþekkingu íslenzkra skipasmíða. Þessi iðngrein er því
verðug þess að fá vaxandi hlut í nýsmíði íslenzks skipastóls nú
þegar eða í allra næstu framtíð.
Um leið og Mbl. vekur athygli á þessari að ýmsu leyti
vanræktu iðngrein, sem svo mikla þýðingu hefur fyrir eyþjóð og
fiskimannaþjóð háða vöruflutningum heim og heiman, leggur
það áherzlu á vendilega’könnun arðsemi í fjárfestingu hér sem á
öðrum sviðum. í áliti skipaiðnaðarnefndar eru hinsvegar leiddar
að því líkur að hagkvæmt sé að fjárfesta í alhliða
skipaviðgerðarstöð í háum tæknilegum gæðaflokki, ef jafnframt
verður séð fyrir því, að framleiðniaukning frá núverandi
framleiðni eigi sér stað og að markaður sé fyrir hendi. Á þessu
sviði þarf að ganga úr skugga um staðreyndir mála.
Iðnaðurinn verður að skapa atvinnutækifæri fyrir bróðurpart
þess vinnuafls, sem þjóðinni bætist á komandi árum og
áratugum. Skipaiðnaður er líklegur hlekkur í því atvinnuöryggi,
sem þjóðin stefnir að í næstu framtíð. En það verður að hlú að
honum eins og öðrum gróðri í velmegunarreit íslenzkrar
framtíðar.
r
Olafur B jörnsson prófessot:
Hvað er kaupmáttur launa ?
Fá orð munu meira vera notuð í
umræðum um efnahagsmál en
kaupmáttur launa. Sá mæli-
kvarði, sem þá er jafnan lagður til
grundvallar er hlutfallið milli
vísitölu kaupgjalds og vísitölu
framfærslukostnaðar, þannig að
hækki laun hlutfallslega meira en
vísitala framfærslukostnaðar, þá
hefir kaupmáttur launa vaxið,
metið á þennan mælikvarða, en
auðvitað öfugt, ef franrfærslu-
kostnaður vex meira en kaup
hækkar. Flestir munu nú sammála
um það, að lífskjör launafólks, sem
mun nema a.m.k. 4/5 þjóðarinnar,
hljóti að vera mjög mikilvægur
þáttur efnahagslegrar velferðar
þjóðarheildarinnar og því hljóti
það að vera eitthvert hið mikil-
vægasta atriði þeirrar stefnu, sem
hverju sinni er mörkuð í efnahags-
málum, að þessi kjör séu sem bezt.
Allir ættu líka að vera sammála
um það, að til þess að slíku
markmiði megi ná, sé nauðsynlegt
að hafa sem réttastan mælikvarða
á lifskjörin og þær breytingar, sem
ákveðnar aðgerðir kunna að valda
á þeim.
Sá mælikvarði, sem notaður er
við svo að segja allar þær rann-
sóknir, sem gerðar hafa verið í
þessu efni, er kaupmáttur launa
eins og hann hefur verið skil-
greindur hér að framan.
En þó að hér sé vissulega um
mikilvægan þátt afkomu launa-
fólks að ræða, þá getur þessi
mælikvarði þó verið mjög villandi
og notkun hans leitt til niðurstöðu,
sem getur orðið hindrun í vegi
raunhæfra aðgerða til þess að
tryggja lífskjör launafólks. Þar
sem þessu efni hafa að mínum
dómi verið gerð alltof lítil skil af
hálfu þeirra, sem öðru fremur
telja sig bera hag launafólks fyrir
brjósti hvort heldur sem um er að
ræða forystumenn launþegasam-
taka eða stjórnmálamenn, þá
skulu hér á eftir færð fyrir því
nánari rök, að kaupmáttur launa,
eins og hann jafnan er skilgreind-
ur, getur verið mjög skakkur
kompás til að stjórna eftir, ef
markmiðið er það, að tryggja
afkomu launafólks. Skipstjóri, sem
stýrir eftir skökkum kompás,
kemst sjaldnast klakklaust til
hafnar.
Það eru einkum fjögur atriði,
sem valda því, að kaupmáttur
launa, skilgreindur sem fyrr segir,
er engan veginn einhlítur mæli-
kvarði á kjör launafólks og skulu
þeim nú gerð nokkur skil hverju
um sig.
Skekkjur í grundvelli
f ramíærslu vísitölu
Víitala framfærslukostnaðar
gefur til kynna breytingar á
meðalverði ákveðins magns vöru
og þjónustu, sem talið er að gefi til
kynna neyzlustig tiltekinnar við-
miðunarfjölskyldu. Slíkur grund-
völlur byggir jafnan á meira eða
minna víðtækum neyzlurannsókn-
um.
Hér skulu ekki nánar rædd
vandamál í sambandi við það að
finna „réttan" vísitölugrundvöll,
en látið nægja að benda á það, að
hversu skynsamlegur sem grund-
völlur þessi kann að vera í
upphafi, þá úreldis hann jafnan
fljótt, sakir breyttra neyzluvenja.
Núverandi vísitÖlugrundvöllur,
sem byggður mun á neyzlurann-
sóknum, sem gerðar voru árið
1965, er þannig kominn til ára
sinna, þar sem gera má ráð fyrir
því, að verulegar breytingar hafi
orðið á neyzluvenjum síðan. Þessa
skekkju má þó auðveldlega leið-
rétta á grundvelli nýrrar neyzlu-
rannsóknar. Skal framkvæmd á
því ekki rædd hér nánar.
Öllu mikilvægari þessu atriði
eru þó vissar „innbyggðar" skekkj-
ur á vísitölugrund’ellinum, eigi
hann að sýna rétta mynd af
breytingu lífskjara. Er það einkum
tvennt, sem þar skiptir máli.
í fyrsta lagi tekur vísitala
framfærslukostnaðar eingöngu
mið af einkaneyzlunni, en tekur
ekkert tillit til samneyzlunnar,
sem hlýtur þó einnig að vera
mikilvægur þáttur afkomu og
vellíðanar fólksins. Ef söluskattur
væri t.d. hækkaður um 1% til þess
að afla fjár til fleiri leikvalla og
dagvistunarheimila , myndi kaup-
máttarvísitalan reiknuð á venju-
legan hátt, sýna 1% kjararýrnun,
en auðsætt er, að þetta er rangt,
því að bætt þjónusta hvað snertir
leikvelli og dagvistun barna getur
verið fjölda fólks miklu meira
virði en 1% lækkun söluskatts.
Annað mikilvægt atriði í þessu
sambandi er það, að yfirleitt er
ekki í vísitölunni tekið tillit til
beinna skatta. Mikilvægustu beinu
skattarnir eru tekjuskattur og
útsvar, en þeir eru, eins og ég tel
mig áður hafa fært rök fyrir á
opinberum vettvangi, í raun sér-
skattar á launafólk. Virkt eftirlit
með hinum tiltölulega stóra hópi
smáatvinnurekenda hér á landi
yrði svo dýrt og vafstursmikið, að
það gæti ekki borgað sig, þannig
að ef rétta ætti hlut launafólks í
þessu efni, tel ég það eina
raunhæfa tillögur Gylfa Þ. Gísla-
sonar um afnám tekjuskatta að
ólafur Björnsson
mestu eða öllu leyti. En meðan
tekjuskattarnir eru stór liður í
tekjuöflun hins opinbera er auð-
sætt, að hægt er að rýra kjör
launafólks verulega með hækkun
beinna skatta, án þess að það komi
fram í kaupmáttarvísitölunni.
Viðskiptakjör
og kaupmáttur
Til þess að mat á kaupmætti
launa geti verið raunhæft, verður
að byggja á forsendum, sem von er
til að geti varað lengur en aðeins
um stundarsakir. Með því að skrá
erlendan gjaldeyri undir raunvirði
hans en hafa innflutning frjálsan
er um stundarsakir hægt að halda
við miklum kaupmætti gagnvart
erlendri vöru. En auðvitað aðeins
um stundarsakir, því að slíkt
ástand leiðir til stórfellds við-
skiptahalla gagnvart útlöndum.
Raunhæft mat á kaupmætti launa
verður því að taka tillit til
viðskiptakjara. Ef þau versna, t.d.
vegna þess að innflutt vara
hækkar í. verði án tilsvarandi
hækkunar útfluttrar vöru, er það
raunar sjálfsblekking ein að reyna
að halda uppi óbreyttum kaup-
mættí launa. Á hinn bóginn teldi
ég það mjög koma til álita, að
kaupmáttur launa ykist sjálfkrafa
þegar viðskiptakjör batna. Tel ég
slíkt farsælla en stofna til þeirra
stökkbreytinga launa, sem stund-
um hafa átt sér stað við næstu
samninga, sem gerðir hafa verið
eftir það að veruleg tekjuhækkun
hefir átt sér stað í útflutnings-
framleiðslu.
Atvinnuöryggi og
kaupmáttur launa
Fyrir aldarfjórðungi eða svo
heyrði ég roskinn embættismann,
sem þá var, eitt sinn tala um það í
kunningjahópi, að hann teldi, að
fram til þess dag hefði afkoma
embættismanna hér á landi aldrei
verið betri en á kreppuárunum
eftir 1930. Þó að þetta verði tæpast
sannað með tölulegum rökum,
hygg ég í þessu felast talsverðan
sannleikskjarna. Á samdráttar- og
atvinnuleysistímum er verðlag
jafnan lágt og þar sem kaupgjald
er ósveigjanlegt, niður á við, má
gera ráð fyrir því, að afkoma
þeirra, sem eru í öruggum stöðum
sé tiltölulega góð á slíkum tímum.
Tölfræðilegar athuganir í ýmsum
löndum virðast og staðfesta það,
að verðbólga og atvinnuleysi
breytist jafnan í öfuga átt, þ.e. lítil
verðbólga þýðir mikið atvinnuleysi
og öfugt. Víst er og um það, að
auðveldara er að halda verðbólgu í
skefjum og tryggja þannig kaup-
mátt launa, ef látið er skeika að
sköpuðu með atvinnuástandið. Hér
höfum við þannig enn eitt dæmi
um það, að kaupmáttur launa,
reiknaður sem hlutfall kaup-
gjaldsvísitölu og verðlagsvísitölu,
gefur ekki rétta mynd af afkomu
launafólks, þegar á heildina er
litið, ef það að halda uppi kaup-
mætti launa er keypt því verði, að
atvinnuleysi sé tilfinnanlegt.
Varan verður
að vera fáanleg
Grundvallarskilyrði þess, að
samanburður kaupgjalds og vísi-
tölu framfærslukostnaðar gefi
rétta mynd af kaupmætti launa,
hlýtur að vera það, að öll sú vara
og þjónusta, sem tekin er með í
vísitölugrundvöllinn, sé fáanleg án
takmarka á því verði sem með er
reiknað í grundvellinum. Ef vara
er hins vegar ófáanleg eða sérstak-
ir erfiðleikar á útvegun hennar
verður hlutfallið milli kaupgjalds-
vísitölu og verðlagsvísitölu ekki
lengur neinn nothæfur mælikvarði
á kaupmátt launa. Ef vara þarf
ekki að vera fáanleg, þá er hægt að
skrá á henni svo lágt verð sem
vera skal í grundvelli vísitölunnar
og auka þannig að mun kaupmátt
launa á pappírunum, en hver væri
bættari með því?
Ef markaðurinn er settur úr
skorðum þannig, að neyzlan
ákvarðist með höftum og skömmt-
un þá er öll kjarabarátta laun-
þegasamtakanna í sinni núverandi
mynd gerð óvirk. Enginn verður
bættari með því að fá hærra kaup,
ef skömmtun hindrar það að hann
geti keypt meira af neyzluvarningi
eða þjónustu en áður.
Kjaravísitala
í stað kaupmáttarvísitölu?
Hér hefir verið bent á fjögur
atriði — öll mikilvæg að mínum
dómi — sem valda því að kaup-
máttur launa, reiknaður út á þann
hátt sem tíðkað er, getur gefið.
mjög ranga mynd af þróun raun-
verulegra lífskjara launafólks.
Kompásinn, sem stýrt er eftir í
baráttunni fyrir bættum lífskjör-
úm launafólks, er skakkur og
verður að leiðréttast, ef raunhæf-
um árangri á að ná.
Ég vil í lok þessa greinarstúfs
leyfa mér að koma á framfæri
þeirri hugmynd við forystumenn
launþegasamtaka og stjórnmála-
menn, hvort ekki væri skynsam-
legt, í stað þess að einblína á
kaupmáttar vísitöluna í þeirri
mynd sem nú er, að freista þess, að
reikna út kjaravísitölu, þar sem
auk kaupmáttarvísitölunnar væri
tekið tillit til þeirra fjögurra
annarra atriða, sem hér hafa verið
nefnd og einnig skipta miklu máli
fyrir lífskjör launafólks. Mér eru
ljósir ýmsir tæknilegir örðugleikar
á slíku, en sé góður vilji og
skilningur fyrir hendi, ættu þeir
þó ekki að vera óyfirstíganlegir.
Slíka vísitölu mætti m.a. nota sem
viðmiðun við framkvæmd hinnar,
að mínum dómi, athyglisverðu
hugmyndar um kjarasáttmála
milli atvinnurekenda, launþega og
ríkisvalds.