Morgunblaðið - 23.10.1979, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 23. OKTÓBER 1979
39
Minning—Hervin
Hans Guðmundsson
„Mínir vinir (ara (jöld,
(eigðin þessa heimtar köld.“
Hinn slyngi sláttumaður er allt-
af að slá, án afláts. Hann er trúr
þjónn og sér um að lögmál lífs og
dauða uppfyllist án undantekn-
inga. Þegar vinir og vandamenn
falla í ljáfarinu, verður sæti
þeirra autt og söknuður sækir þá
heim, sem eftir standa. Þegar ég
frétti lát vinar míns frá æsku og
uppvaxtarárum, fann ég til sakn-
aðar og margvíslegar minningar
rifjuðust upp, allar góðar. Hervin
Hans Guðmundsson húsasmíða-
meistari andaðist í Reykjavík 4.
ágúst síðastliðinn og er mér bæði
ljúft og skyldt að skrifa nokkur
minningarorð um hann.
FyrSt vil ég segja lítið eitt frá
ættum hans og æskuheimili, þvi
eplið fellur ekki langt frá eikinni.
Foreldrar Hervins voru Guð-
mundur Stefánsson og kona hans
Þórunn Baldvinsdóttir. Hervin
var fæddur í Litladalskoti í Lýt-
ingsstaðahreppi 15. nóvember
1907 á fyrsta búskaparári foreldra
sinna þar.
Foreldrar Þórunnar voru: Bald-
vin Jónsson og Herdís Jónasdóttir.
Baldvin var í móðurætt kominn af
Gunnlaugi Gunnarssyni hrepps-
stjóra á Hofi í Dölum. Afkomend-
ur Gunnlaugs í beinan karllegg
voru bændur á Hóli í Tungusveit
yfir hundrað ár og er það af
sumum kölluð Hólsætt. Baldvin og
Herdís bjuggu á ýmsum kotum í
Lýtingsstaðahreppi á síðasta
fjórðungi nítjándu aldar og voru
bláfátæk.
Hálfbróðir Þórunnar var Hans
Baldvinsson bóndi á Hrólfsstöðum
í Akrahreppi, faðir hinna lands-
kunnu systkina, Jakops H. Líndal
á Lækjamóti og Rannveigar.
Foreldrar Guðmundar voru
Stefán Guðmundsson og kona
hans Sigurlaug Ólafsdóttir og
bjuggu þau á Giljum, en síðar á
Daufá. Stefán var kominn af séra
Jóni Sveinssyni presti í Goðdölum
og í aðra ætt af Hjalmi bónda á
Keldulandi, sem nafnkenndur var
á sinni tíð, en hann var móðurfað-
ir séra Jóns Steingrímssonar, sem
stöðvaði eldhraunið á Síðu með
bæn.
Sigurlaug kona Stefáns var
dóttir Ólafs Guðmundssonar
hreppsstjóra í Litluhlíð, en Ólafur
var þriðji ættliður frá Jóni og
Björgu á Skeggsstöðum, sem
Skeggsstaðaætt er kennd við.
Guðmundur Stefánsson var
fæddur að Giljum 26. ágúst 1879
og nú eru því 100 ár liðin frá
fæðingu hans. Af því tilefni væri
sérstök ástæða til, að minnast
hans, svo merkur maður sem hann
var.
Stefán og Sigurlaug bjuggu
fyrst á Giljum, síðan í Litluhlíð,
en fluttu að Daufá 1886. Níundi
áratugur 19. aldar var hinn harð-
asti á allri öldinni. Fyrst var
frostaveturinn mikli 1881, svo
mislingasumarið 1882, þegar
snjóaði í hverri viku um sláttinn.
Vorið 1885 var svo hart að ýmsir
bændur urðu að skera lömb undan
ám sínum vegna heyleysis. Þá tók
út yfir þegar fjögurra daga
stórhríð gerði 16. til 20. maí 1887
og í því veðri fennti fé til dauðs á
flestum bæjum í Skagafjarðar- og
Húnavatnssýslum. Mörg þessi ár
var hafís fyrir Norðurlandi.
Vafalaust hafa þau Stefán og
Sigurlaug misst eitthvað af búfé
sínu á þessu harða vori ’87, en það
var ekki nóg. 19. ágúst um sumar-
ið andaðist Stefán 36 ára að aldri
og Sigurlaug stóð ein eftir með
fimm syni unga og var Guðmund-
ur elztur þeirra, 8 ára. Auk þeirra,
var faðir Stefáns, Guðmundur
Oddsson hjá þeim, aldurhniginn
og örvasa.
Sigurlaug bjó á Daufá eftir lát
manns sins, við sára fátækt, til
1893. Guðmundur átti heima hjá
móður sinni þann tíma, en vann
fyrir sér að nokkru. Guðmundur
mun snemma hafa hugsað sér, að
brjóta hlekki fátæktarinnar og
tókst það með ágætum. Eftir
fermingu var hann í vistum og
síðar lausamaður og nafnkenndur
fyrir dugnað og harðfengi, að
hverju sem hann vann. Hann var
hófsamur og hagsýnn, sýnt um
fjármál og féll ekki verk úr hendi.
Um og eftir tvítugsaldurinn var
hann orðinn vel efnaður og var
það alla æfi.
Árið 1904 kvæntist Guðmundur
Þórunni Baldvinsdóttur og litlu
síðar eða árið 1907 hófu þau
búskap í Litladalskoti og keyptu
þá jörð. Búskapur þeirra blómgað-
ist vel þar, en kotið mun hafa
orðið of lítið, svo þau keyptu
Lýtingsstaði árið 1915 og fluttu
þangað. Sú jörð er landmikil og
fleytir miklum peningi. Og það
stóð ekki á þvi, að Guðmundur á
Lýtingsstöðum varð einn af
stærstu bændum sveitarinnar.
Þar var líka mannflesta heimilið
að ég hygg, en þar voru oft tuttugu
manns í heimili yfir sumarið.
Guðmundur hafði margt kaupa-
fólk og vann að heyskap af miklu
kappi. Sjálfur var hann með allra
beztu sláttumönnum. Þú mátt
segja og skrifa að ég hafi aldrei
orðið heylaus, sagði hann við mig
eitt sinn. Harða veturinn 1920
voru 70 hross á húsi á Lýtings-
stöðum og hátt á annað hundrað
fjár. Tvídyra hesthús var uppi á
túninu. Þar voru 15 hryssur með
folöldum og voru hryssurnar í
annari krónni, en folöldin í hinni
og þessum peningi var hleypt út
fyrir dyrnar einu sinni á dag til
þess að folöldin gætu sogið. Þenn-
an vetur eyddust heyfyrningar og
fækkaði Guðmundur þá hrossum
nokkuð.
Bærinn á Lýtingsstöðum var að
falli kominn og það var fyrsta
verk Guðmundar vorið 1915 að
byggj a hús úr timbri og torfi áfast
við gamla baðstofu. Þetta hús var
þrjár stofur og rishæð yfir með
tveimur herbergjum, suður- og
vesturkvistur var það kallað.
Vestast bæjarhúsa var þinghús
alþiljað og í suðurenda þess var
lítið herbergi og þar voru lík
geymd, sem biðu greftrunar og
þar var fólk látið velja alþingis-
menn í einrúmi.
Guðmundur og Þórunn þekktu
vel fátæktina frá æskuárum. Fá-
tæka höfðu þau alltaf hjá sér.
Framkoma þeirra við fátæka og
sjúka var sönn fyrirmynd. Lýt-
ingsstaðaheimilið var einstakt.
Það stóð öllum opið. Gamalt fólk
var þar tímum saman sem hvergi
átti athvarf. Sjúklingar voru þar
oft, sem biðu eftir viðskilnaði við
þennan heim. Kona nokkur, Signý
hét hún, lá rúmföst á Lýtings-
stöðum heilt sumar og mun hafa
verið berklaveik, því hún var með
blóðspýting. Um haustið var hún
flutt í sjúkrahús og átti þá
skammt ólifað. Geðveik kona var í
sveitinni, einstæðingur. Hún fékk
brjálsemisköst, en var róleg á
milli. Þegar hún brjálaðist, var
hún flutt að Lýtingsstöðum og
vakað yfir henni þar, meðan á þvi
stóð. Lýtingsstaðaheimilið var
bæði gamalmennaheimili og
sjúkrahús. Sjúkrahúsið á Sauð-
árkróki gat þá ekki tekið við öllum
þeim sem veikir voru.
Það kom sér vel að Þórunn
Baldvinsdóttir hafði góða hæfi-
leika til að hjúkra sjúkum,
mönnum og málleysingjum. Sagt
var að hún hafi erft þá eiginleika
frá Herdísi móður sinni. Hún var
fremur dul í skapi, en prúðmann-
leg og hlý í viðmóti. Vinna sem
hún lagði á sig fyrir þetta stóra
heimili var með ólíkindum. Hún
fór fyrst á fætur og vann fram á
nætur. Við venjuleg heimilisstörf
bættist svo það, að þar á þings-
staðnum voru oft fjölmennir fund-
ir og öllum veitt vel. Ég held að
Þórunn hafi ekki fundið fyrir þvi,
sem kallað er féhyggja. Hún þurfti
ekki að hugsa um fjármál, því hún
hafði alltaf nóg fyrir framan
hendurnar. Maður hennar sá um
það. Mesta gleði hennar var að
hjálpa þeim sem voru í nauðum
staddir.
Guðmundur Stefánsson var vel
meðalmaður á hæð, fremur grann-
ur, en svaraði sér vel, kvikur á
fæti og svipmikill. Andlitsdrættir
báru vott um sterkan vilja.
„Maðurinn með glampann í aug-
unum“, sagði séra Lárus á Mikla-
bæ um hann í afmælisveizlu, en
Guðmundur hafði unnið við, að
endurbyggja gamla bæinn á
Miklabæ. Guðmundur bjó yfir
miklu skapi, var örlyndur. Hann
var hreinskilinn og stundum
hrjúfur í viðmóti, en það var eins
og skurn sem skýlir heitum til-
finningum, því hann var barngóð-
ur og fann til með þeim sem bágt
áttu. Hjálpsemi hans var við-
brugðið. Hann brá fljótt við ef
hann var beðinn að sækja lækni
eða ljósmóður, en það var honum
ekki nóg. Hann fór á bæina þar
sem bágar ástæður voru, ræddi við
fólkið og bauð aðstoð sína, og
hann var glöggur á úrræði sem til
voru. Guðmundur var maður um-
svifa og naut þess að stjórna því
sem gera þurfti. Oft sá hann um
sjúkraflutninga á kviktrjám. Það
fór vel um sjúklinga í slíkum
flutningum, en aðgæslu var þörf
og hestar urðu að vera stilltir. Um
tvítugsaldur fór Guðmundur að
vinna við smíðar, einkum húsa-
byggingar. Ekki fór hann í skóla
eftir fermingu en framan af árum
vann hann með Guðmundi Guð-
mundssyni bónda og smið á
Reykjarhóli, en hann var lærður
smiður.
Á þeim tíma, sem Guðmundur
var bóndi á Lýtingsstöðum,
smíðaði hann flestar eða allar
líkkistur, sem þörf var fyrir í
sveitinni, vann við það í þinghús-
inu og var fljótur, lagði oft nótt
við dag. Veturinn 1916 smíðaði
hann utanum Símon Dalaskáld.
Þá kom til hans maður úr hrepps-
nefnd og gerði kröfu um, að hann
smíðaði ódýra kistu, því skáldið
átti ekki peninga fyrir kistunni.
Guðmundur sagðist hafa smíðað
þessa kistu eins og venjulegt var,
hvorki dýra né ódýra, setti upp 30
krónur og fékk aldrei neitt borgað.
Áður en Guðmundur og Þórunn
byrjuðu búskap, voru þau tvö ár
1905 til 1907 í húsmennsku á
Sveinsstöðum hjá foreldrum
mínum, en Guðmundur mun þá
hafa unnið við húsasmíði á ýmsum
stöðum meira eða minna.
Sumir þola ekki sambýli í
þröngu húsnæði, en Þórunn og
móðir mín þoldu það svo vel, að
með þeim var einlæg vinátta
æviiangt eftir það og sýnir það vel
skaphöfn og innræti beggja.
Veturinn 1919 var móðir mín
heilsulítil og var rúmföst þegar
leið á vetur. Þá kom Guðmundur á
Lýtingsstöðum og ræddi við for-
eldra mína, en eftir það var
mamma flutt að Lýtingsstöðum og
þar var hún rúmföst svo vikum
skipti og naut hinna mjúku handa
vinkonu sinnar unz hún komst á
fætur.
Eftir brunann á Mælifelli
haustið 1921 varð heimafólk þar
húsnæðislaust og næsta vetur var
móðir mín á Lýtingsstöðum og þar
fæddist yngsti sonur hennar í
febrúar 1922.
Guðmundur Stefánsson brá búi
á Lýtingsstöðum árið 1927, en
fjölskylda, hans bjó þar næstu
árin. Eftir það vann hann nær
eingöngu við húsasmíði á ýmsum
stöðum. Hann var vestur í Víðidal
og byggði íbúðarhúsið á Lækja-
móti, sem enn sómir sér vel. Þegar
Guðmundur hafði lokið þeirri
byggingu fékk hann húsasmíða-
réttindi og mun Jakob bóndi hafa
gefið honum góð meðmæli.
Guðmundur andaðist í Reykja-
vík árið 1959 nær áttræður að
aldri og hafði þá unnið við húsa-
byggingar auk annars í 60 ár eða
allt að því.
Þórunn Baldvinsdóttir var 9
árum eldri en Guðmundur, fædd
1870. Árið 1896 átti hún son með
Jóhanni Lárusi Jónssyni bónda og
ekkjumanni á Lýtingsstöðum. Það
er Jónas, lengi bóksali á Akureyri,
nú búsettur í Reykjavík. Börn
Guðmundar og Þórunnar auk Her-
vins eru: Stefana gift Ólafi
Sveirissyni frá Mælifellsá, Sveinn
lengi kaupfélagsstjóri á Sauðár-
króki og Unnur gift á Sauðár-
króki.
Allar minningar mínar um Her-
vin Guðmundsson frá uppvaxtar-
árum okkar eru góðar. Hann var
snemma iðjusamur og dugandi,
fremur dulur, prúður í umgengni,
skipti ekki skapi, en á góðri stund
brá hann fyrir sig léttri kímni.
Allir eiga tvær ættir og ég hygg
það ekki fjarri sanni að Hervin
hafi erft skaplyndi móður sinnar,
en umsvif og athafnaþrá föður
síns. Eftir að hann fór frá Lýt-
ingsstöðum um tvítugsaldur voru
kynni okkar ekki mikil. Ég sá
hann þó stöku sinnum og síðast í
Varmahlíð fyrir tveimur árum og
þótti hann þá bera aldurinn vel.
Fyrir 12 eða 14 árum var ég um
tíma við vinnu í Reykjavík. Það
atvikaðist þannig, að ég var hálfs-
mánaðartíma í fæði hjá Hervin og
konu hans, sem ég hafði þá ekki
séð áður. Anna Guttormsdóttir
frá Síðu í Víðidal er góð kona og
ég fann ylinn — hinn andlega yl
—, sem vermdi heimilið. Hervin
Hans var alveg eins og á fyrri tíð,
grandvar til orðs og æðis, fremur
dulur, en broshýr stundum. Þegar
ég ætlaði að greiða Hervin fæðið,
vildi hann ekki taka við neinni
greiðslu. Hann sagði ekki neitt, en
ég vissi að hann lét mig njóta
vináttu frá fyrri tíð.
Börn Hervinsog Önnu voru þrjú:
Haukur flugstjóri, er fórst í sorg-
legu flugslysi 15. nóvember síð-
astliðinn, Guðmundur og Arndís.
Guðmundur er húsasmíðameistari
og er hann fjórði ættliður í beinan
karllegg, sem stundar þá iðju.
Guðmundur á Lýtingsstöðum
sagði mér, að Stefán faðir sinn
hefði verið meiri og betri smiður
að eðlisfari, en hann sjálfur.
Tveir vinir Hervins skrifuðu
kveðjuorð í Morgunblaðið 15. ág-
úst, en þann dag mun hann hafa
verið borinn til moldar.
Þar er skrifað: „Hervin var
dulur í skapi og fáskiptinn við
fyrstu kynni. Hann var frábitinn
allri sýndarmennsku eða að trana
sér fram þótt hæfileika skorti
ekki. Hann átti aðild að ýmsum
fyrirtækjum og félögum og mun
hafa reynst góður liðsmaður þar
sem hann kom við sögu. Hervin
var glaður í góðra vina hópi og
sannur vinur vina sinna".
Ég veit ekki betur en þessi
mannlýsing sé rétt, og hún er líka
vitnisburður um, að Hervin hefur
notið mikillar mannhylli, en
mannhylli er eitt hið bezta, sem
fólk getur hlotið á hervistardög-
um.
í erfiðum sjúkdómsþrautum var
Hervin Hans umburðarlyndur og
æðrulaus. Ég þakka honum góða
vináttu fyrr og síðar og flyt
fjölskyldu hans samúðarkveðjur.
Ég vildi að þessi burtkallaði
vinur minn gæti komið kveðju
minni til feðra vorra: „Ég kem
eftur, kannske í kvöld".
Björn Egilsson,
frá Sveinsstöðum.
Eiríkur Gunnars-
son - Minningarorð
Fæddur 6. júní 1956.
Dáinn 1. marz 1979.
Helfregn berst okkur á öldum
ljósvakans. Vélbáturinn Ver hefur
farist. Var það ekki nafnið á
bátnum hans Eika? Seinna kom
vissan, hann hafði farist með
bátnum. í hug minn kemur
kveðjustundin er hann kom til
mín.
„Ég kem til þess að kveðja, fer
til Vestmannaeyja í nótt, sé þig í
vor, ef ég kem þá aftur, þú veist að
ég verð ekki langlífur. Ég hef svo
oft sagt þér það.“
Var koma hans til æðri stranda
þá nær en ég gat trúað? Það var
eins og ekkert kæmi þessum unga
dreng á óvárt. Þroski og
lífsreynsla spunnu viðkvæman
streng í lífsviðhorfi hans. Hann
var samnefnari þeirrar æsku, sem
elst upp í því þjóðfélagsöngþveiti
sem margt ungmennið hefur ekki
þolað. Eiki reif sig út úr blekk-
ingarvef sýndarmennskunnar.
Hann fór á sjóinn, vildi vera frjáls
og standa á eigin fótum. Ungur
drengur, sem vinnur sig upp í
starfi á sjó og er talinn góður
sjómaður, enginn liðléttingur og
fær góða einkunn hjá traustum
skipstjóra. Það er ekki geðþótt-
aeinkunn. Það er alvörueinkunn í
skóla lífsbaráttunnar. Hljóm-
grunnurinn í öllu hans lífi var
móðir hans. Hann sagði oft:
„Mamma, er það eina, sem ég
elska. Mér finnst stundum að ég
sýni henni það ekki nógu vel.“
Ekki hafa þau verið létt sporin
hennar, þegar hún fylgdi drengn-
um sínum til skips í kulda vetrar-
ins. Það er svo margt sem kemur í
hugann, nú þegar Eiríkur er
farinn frá okkur, en er samt svo
nálægur í hugum okkar og minn-
ingum og ekki hvað síst hjá móður
sinni, sem vermandi ljós á vegum
hennar og allra ástvina. Það var
svo oft, sem við Eiki ræddum um
lífið og tilveruna. Hyað tæki við á
næsta tilverustigi. í dag skil ég
margt af því, sem hann sagði
miklu betur. Mig langar í þessum
fáu línum að þakka Eika fyrir
allan hans hlýhug og tryggð. Þeir
voru ófáir fiskarnir sem hann
færði mér, og snúningarnir sem
hann fór.
Minningar allra sem þekktu
hann rétt verða geymdar.
Guð blessi ástvini hans.
Laufey Jakobsdóttir.
Afmœlis- og
minningargreinar
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og
minningargreinar verða að berast blaðinu með
góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast
á í miðvikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir
hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra
daga. Greinar mega ekki vera í sendibréfsformi eða
bundnu máli. Þær þurfa að vera vélritaðar og með
góðu línubili.