Morgunblaðið - 26.06.1980, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 26. JÚNÍ 1980
19
„Upphaflega hugmyndin var
sú að gera mynd sem gerðist i
nútímanum og fjallaði um mál
sem væri ofarlega á baugi i
þjóðfélaginu.“ sagði Hrafn
Gunnlaugsson, höfundur og leik-
stjóri Oðals feðranna, þegar
Morgunblaðið spurði hann um
kveikjuna að kvikmyndinni.
„Ástæðuna fyrir áhuga okkar á
gerð myndar um sögusvið í nútím-
anum, má rekja til myndarinnar
Lilju, sem við gerðum fyrir nokkr-
um árum, en hún gerðist upp úr
1933. Þá hófst samstarf okkar
þriggja. Við vorum á ýmsan hátt
mjög sáttir við þá mynd, en það
kostar mikla fyrirhöfn í búningum
og leikmunum að setja í bakkgír í
tímanum.
Við ákváðum að seilast ekki upp í
bókaskápinn í leit að efni, heldur
reyna að láta verkið vaxa út úr þeim
raunveruleika sem við búum öll
við,“ sagði Hrafn.
„Ákvörðunin var síðan tekin eftir
langar samræður um þessi atriði,
það tók okkur nokkurn tíma að
ákveða hvert yrkisefnið ætti að
vera. í þessari mynd er yrkisefnið
fjölskylda sem býr úti á landi og
Hrafn Gunnlaugsson
Hrafn Gunnlaugsson leikstjóri og höfundur Óðals feðranna:
Verkið óx út úr þeim
raunveruleika
sem við búum öll við
stendur skyndilega á tímamótum
þegar heimilisfaðirinn fellur frá.
Þegar yrkisefnið lá ljóst fyrir þá
kom að því að gera atburðarás.
Upphaflega handritið var ekki nema
10—20 vélritaðar síður og þar var
öðru fremur reynt að segja sjálfa
söguna á ljósan hátt, án þess að fara
út í samtöl. Eftir að hafa farið yfir
atburðarásina og yrkisefnið lá næst
fyrir að finna rétta fólkið í hlut-
verkin. Það varð að falla að at-
burðarásinni og yrkisefninu og
einnig varð að vera hægt að vinna
atburðarásina í gegnum hvern ein-
stakling, orðavalið varð að falla að
hverri persónu.
Það var mikið verk að finna rétta
fólkið, en ég hafði mér til aðstoðar
ódrepandi manneskju, Ragnheiði
Harvey, en hún var skrifta og sá auk
þess um förðun. Við fórum af stað
og fórum víða um landið. Á hverjum
stað fundum við eina og eina
persónu, en allstaðar fóru fram
nákvæmar prófanir," sagði Hrafn.
— Hvers vegna eru áhuga-
leikarar í öllum hlutverkum?
„Þessi leið sem valin var í upp-
hafi, að vinna myndina út úr
raunveruleikanum, gerir á vissan
hátt kröfur til að leikararnir séu úr
því umhverfi eða þekki það, og þá
var leiðin mörkuð. Ég hef síður en
svo ótrú á atvinnuleikurum. Fyrir
nokkru tók ég upp Vandarhögg
Jökuls Jakobssonar á Akureyri, en
þar voru atvinnuleikarar í öllum
stærstu hlutverkunum. Ég hef orðið
var við það að menn halda að ég hafi
einhverja ótrú á atvinnuleikurum,
en það er alls ekki rétt. Hvert
verkefni verður bara að hafa sinn
stíl og aðferð.
— Hvernig reyndust
áhugaleikararnir?
„Þeir reyndust vel. Það hlutverk
sem erfiðast reyndist að finna
réttan leikara í var hlutverk móður-
innar. Hlutverkið gerir kröfu til
mikilla andlegra átaka og djúps
persónulegs skilnings á mannlegum
geðhrifum. Það má segja að þetta
hlutverk sé á vissan hátt burðarás
myndarinnar, móðirin er miðpunkt-
urinn sem allar línurnar skerast í.
Það gekk seinlega að finna konu í
þetta hlutverk. Við vorum búin að
fara víða. Það voru nokkrar sem
komu til greina, en engin þeirra
hreif mig algerlega. Ég var ekki
viss. Þá ræddi Ragnheiður við Leik-
félag Kópavogs og þannig hittum
við Hólmfríði Þórhallsdóttur. Ég
prófaði hana og við vorum ekki búin
að ræða saman nema í fáeinar
mínútur þegar ég ákvað að velja
hana. Ég efast ekki um að valið var
rétt, hún er mikil leikkona, leikkona
af guðsnáð. Grundvallaratriðið hvað
móðurina varðar er ekki hvað hún
segir, heldur það hugarástand sem
hún er í. Þegar því hugarástandi er
náð, þá kemur hitt af sjálfu sér.
Þannig var það með Hólmfríði."
— Hvernig kom vinnumaðurinn
inn í myndina?
„Theódór Þórðarson lögreglu-
þjónn, sem er formaður Leikfélags
Borgarness, setti upp á sínum tíma
einþáttung eftir mig, Flugurnar í
glugganum. í þessum einþáttungi
fór Sveinn M. Eiðsson, sá sem leikur
vinnumanninn, með eitt hlutverkið.
Leikur Sveins kom mér mjög á
óvart. Frá þeirri stundu var ég
ákveðinn í að skrifa einhverntímann
hlutverk fyrir hann. Hlutverk
vinnumannsins er þetta hlutverk.
Það má segja að Sveinn hafi verið
inni í myndinni allt frá upphafi."
— En hvað með aðalhlutverkið,
Stefán?
„Jakob Þór Einarsson, en hann
leikur Stefán, hittum við uppi á
Akranesi. Það komu margir til
greina í hlutverk Stefáns, þessi
aldursflokkur er það fjölmennur, en
Jakob sýndi strax mikla næmni og
hæfileika til að túlka þær hugsanir
og geðbrigði sem bæra3t með Stef-
áni. Jakob hefur feikna mikla list-
ræna hæfileika og er einstakur að
eiga samvinnu við.
Annars held ég að erfiðast hafi
verið að leika systurina, en Guðrún
Þórðardóttir fer með hlutverk henn-
ar. í leik er ekkert erfiðara en að
leika líkamslýti einhverskonar, eins
og hún gerir. Jafnframt þarf hún að
leika stúlku sem verður fyrir gífur-
legu tilfinningaáfalli, þegar hún
lendir í greipum aðkomumannsins.
Ég get nefnt það til gamans að
þegar Bo Jonson, fyrrverandi for-
stjóri sænsku kvikmyndastofnunar-
innar sá myndina, viðhafði hann
þau orð um Guðrúnu að þarna væri
á ferðinni leikaraefni á heimsmæli-
kvarða.
Hins vegar er bæði út í hött og
ómögulegt að gera upp á milli
leikaranna. Þeir túlka ólíka
persónuleika og ég er þeim öllum
þakklátur, þó þú hafir látið þetta
samtal snúast um þessa leikara
fremur en aðra. Það er einnig
vafasamt að fella dóm um einstaka
leikara, það er aðeins mín persónu-
lega skoðun sem þar kemur fram og
hún skiptir raunverulega ekki máli,
heldur hvað áhorfandanum sem sér
myndina finnst," sagði Hrafn.
„Ég get ekki látið hjá líða að
minnast á fólkið sem stóð á bak við
myndavélina, það mæddi kannski
hvað mest á því. Það hafði á hendi
störf eins og leikmunavörslu, förð-
un, umsjón með búningum o.fl., en
þetta fólk varð alltaf að vera til
staðar. Og fékk aldrei frí á milli eins
og leikararnir.
Vinnutíminn var geysilega lang-
ur, fólk fór á fætur klukkan 6 á
morgnana og hætti oft ekki að vinna
fyrr en 11—12 á kvöldin. Það má
nefna að kvikmyndatökumaðurinn
var yfirleitt ekki kominn í rúmið
fyrr en löngu eftir miðnætti."
— Hver er kostnaðurinn?
„Við lögðum af stað með 5 millj-
ónir í vasanum og veðsettar íbúðir.
Hins vegar hafa lánastofnanir
reynst okkur mjög vel. Samt hafa
leikararnir reynst okkur best. Við
sömdum við þá um að þeir fengju
ekki greitt fyrr en farið væri að
sýna myndina. Án þeirra aðstoðar
hefði ekki veirð hægt að gera þetta.
Þá reyndist Hekla h.f. og forstjóri
fyrirtækisins, Ingimundur Sigfús-
son okkur vel.
Heildarkostnaður við myndina er
um 65 milljónir þegar allt er talið,
og þurfum við um 45 þúsund
áhorfendur til að koma ekki út með
halla.“
— Er þetta ekki óheppilegur
árstími til frumsýningar?
„Við vorum tilneyddir til að
frumsýna nú. Við skuldum það
mikið fé. Við verðum að vona að
áhugi fólks bjargi okkur og almenn-
ingur komi og sjái myndina, enda er
ekkert sjónvarp í júlímánuði.
Að lokum vil ég þakka þeim
Snorra Þórissyni kvikmyndatöku-
manni og Jóni Þór Hannessyni fyrir
samstarfið. Að starfa með þeim var
lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað
missa af,“ sagði Hrafn Gunnlaugs-
son.
Eiður Guðnason, alþm.:
Tveggja kosta völ
Margt hefur að undanförnu
verið ritað og rætt um skoðana-
kannanir, gildi þeirra og áreiðan-
leik. Örugglega má sitthvað finna
að þeim könnunum, sem síðdegis-
blöðin hafa að undanförnu gert
með tilliti til forsetakosninganna
nú á sunnudaginn. í ljósi fyrri
reynslu er þó næsta víst að þessar
kannanir gefa mikilvæga vísbend-
ingu um skoðanir kjósenda og
stöðu einstakra frambjóðenda.
Úrslitin í skoðanakönnun Vísis,
sem birt voru á þriðjudag, komu
ekki á óvart. Línurnar hafa verið
að skýrast undanfarna daga og
Vísiskönnunin staðfesti það sem
margir hafa talið sig vita nú um
nokkurt skeið, — nefnilega það, að
baráttan stendur nú milli tveggja
frambjóðenda, þeirra Guðlaugs
Þorvaldssonar og Vigdísar Finn-
bogadóttur. Auðvitað munu stuðn-
ingsmenn Alberts og Péturs mót-
mæla þessu, en því er þó erfitt að
hagga. Miðað við fyrri kannanir
og úrslit kosninga, þá er þetta hin
raunverulega staða nú. Hinn
fræðilegi möguleiki er auðvitað
fyrir hendi, en hann er órafjarri
hinum harða raunveruleika. Þeirri
staðreynd er því erfitt að neita,
hversu fegnir, sem sumir vildu, að
nú er tveggja kosta völ.
Sé litið á einstök kjördæmi í
úrslitum Vísis hefur staða fram-
bjóðendanna vissulega nokkuð
breyst innbyrðis. I forsetakosn-
ingum er landið allt hinsvegar eitt
kjördæmi. Sé litið á niðurstöðurn-
ar fyrir landið í heild, þá eru
breytingarnar frá síðustu könnun
nánast smávægilegar og það er
vissulega athyglisverð staðreynd.
Nú má segja að þau Guðlaugur
Þorvaldsson og Vigdís Finnboga-
dóttir standi jöfn miðað við Vís-
iskönnunina. Munurinn á fylgi
þeirra er svo lítill, að hann er
engan veginn marktækur, eins og
Vísir réttilega leggur áherslu á.
Hér er því alveg ljóst að um
tvísýna baráttu verður að ræða.
Aldrei verður hinsvegar um of
undirstrikað, að það er ekki sú
saga sem skoðanakannanirnar
segja, sem öllu máli skiptir, og það
er ekki sú saga, sem skráð verður
á spjöld sögunnar. Sagan. sem í
þessu samhandi skiptir öllu máli
er sagan, sem sögð verður að
kveldi kjördags. þegar talið verð-
ur upp úr kjörkössunum. Sú saga
verður skráð á spjöld sögunnar.
Allt bendir nú til að mjótt geti
orðið á munum milli þeirra Guð-
laugs og Vigdísar. Niðurstöður
Vísis hljóta að verða okkur stuðn-
ingsmönnum Guðlaugs í senn
hvatning og áskorun til að vinna
nú vel og drengilega að því að
tryggja Guðlaugi Þorvaldssyni
yfirburðasigur í kosningunum á
sunnudaginn.
Þorbjörn Guðm. varaform. Trésmíftaíélags Rvk.
„Nú reynir á,
félagar góðir“
Senn líður að því, að við íslend-
ingar kjósum okkur nýjan forseta.
Að þessu sinni eru 3 karlmenn
og ein kona í kjöri. Aldrei í sögu
lýðveldisins hefur kona gefið kost
á sér sem forseti. Framboð Vigdís-
ar Finnbogadóttur hefur fyrir
margar sakir verið í brennidepli
kosningabaráttunnar.
Það hefur ekki farið fram hjá
neinum, að reynt hefur verið að
gera framboð Vigdísar tortryggi-
legt.
Mikið.hefur verið hamrað á því,
að hjón verði að vera á Bessa-
stöðum. Við alla þá sem setja slíka
fordóma fyrir sig, vil ég segja
þetta:
Við státum okkur, íslendingar,
oft af því, að við séum í hópi
þeirra þjóða sem búum við hvað
hagstæðasta lýðræði sem þekkist í
heiminum. Lýðræði sem grund-
vallast á því, að allir þjóðfélags-
þegnar búi við jöfnuð, sem byggir
á að manngildi allra sé óháð
uppruna, þjóðfélagsstöðu, efna-
hag, kynferði eða heilsufari.
Með því að halda fast við
„hjónakenninguna", er verið að
útiloka stóran hóp, þegna íslenska
lýðveldisins, án tillits til mann-
gildis, frá því að skipa æðstu stöðu
lýðveldisins. Slík kenning gengur
á skjön við grundvallarsjónarmið
lýðræðis.
í stefnuskrá Alþýðusambands
Islands er lýst yfir að verkalýðs-
hreyfingin muni halda áfram að
efla baráttuna fyrir alhliða jafn-
rétti kvenna og karla jafnt í
atvinnulífinu, sem á öðrum svið-
um þjóðlífsins. Af þessum orðum
má ljóst vera, að verkalýðshreyf-
ingin er tilbúin að styðja og
styrkja alla þá sem efla vilja
jafnrétti kvenna og karla.
Allir sem rætt geta um framboð
Vigdísar Finnbogadóttur með
réttsýni, viðurkenna að það mun
hafa veruleg áhrif til að örva
konur til aukinnar þátttöku, og að
taka að sér ábyrgðarstöður í
þjóðfélaginu.
Nú reynir þvi á, hvort einhver
meining er í orðum stefnuskrár
Alþýðusambands íslands, hvort
verkalýðshreyfingin vill í raun og
veru jafnrétti milli karla og
kvenna, því Vigdís Finnbogadóttir
stendur mótframbjóðendum sín-
um síst að baki, hvað varðar alla
mannkosti, sem við teljum að
verði að prýða forseta vorn.
Að mínum dómi er framboð
Vigdísar Finnbogadóttur eitt
stærsta tækifæri, íslenskt verka-
fólk, til að sýna hvað býr í mætti
fjöldans.
Sýnum nú samstöðu og tryggj-
um kjör Vigdísar, látum það ekki
hafa áhrif á afstöðu okkar, að
allstór hópur úr forustusveit
verkalýðshreyfingarinnar, hefur
annarra hagsmuna að gæta en að
framfylgja mótaðri stefnu verka-
lýðssamtakanna.
Ágæti félagi, láttu ekki fordóma
og gamlar kreddur hafa áhrif á
þig. Grundaðu vel val þitt 29. júní,
því val á forseta íslands getur haft
afgerandi áhrif á þróun íslensks
þjóðfélags.