Morgunblaðið - 02.11.1980, Qupperneq 30

Morgunblaðið - 02.11.1980, Qupperneq 30
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 2. NÓVEMBER 1980 Rannsóknir á Kröflueldstöð sameina hvorutveggja. Þær gegna mjög mikilvægu félagslegu hlutverki með því að gefa íbúum svæðisins nákvæmar upplýsingar um ástand eldstöðvarinnar hverju sinni. Hægt er að skil- greina þau tímabil þegar mestar líkur eru á umbrotum og með nokkurra kiukkustunda fyrirvara er hægt að segja til um að viðbúnaði Almannavarna skuli hrundið í framkvæmd. Samtímis hafa atburðir síðustu ára í Kröflueldstöð valdið byltingar- kenndum framförum í þekkingu og tæknikunnáttu i eldfjallafræði á íslandi. í upptalningunni hér að fram- an voru Vestmannaeyjar neðar- lega í röðinni ef meta á líkur á hugsaniegu eldgosi. Rannsókn á þessari eldstöð nú gefur ekki vonir um veigamikla vísindalega eftirtekju. Félagsieg nauðsyn þess að kanna Vestmannaeyja- eldstöðina er hins vegar svo yfirgnæfandi að þetta svæði kem- ur skiiyrðislaust næst á eftir Kröflu þegar verkefnum er raðað eftir mikilvægi. Þegar þessum tveim eldstöðv- um hefur verið sinnt að einhverju marki er ekkert fjármagn eftir til að sinna Kötlu og Kverkfjöllum, sem þó eru verulegir ógnvaldar vegna jökulhlaupa á Mýrdals- sandi og í Kelduhverfi, en sírit- andi jarðskjálftamælar ættu að geta gefið aðvörun sem nægir tii að koma farartækjum af Mýr- dalssandi í tæka tíð. Ekkert er eftir til að sinna eldstöðvum í Öskju sem er mjög áhugaverð frá Vísindalegu sjónarmiði og rann- sókn hennar mundi gefa þekk- ingu sem aftur kæmi félagslegri þjónustu til góða. Hvað Heklu snertir þá gaf gossaga eidstöðv- arinnar til kynna að þar mundi ekkert ske fyrr en á næstu öld. Félagsleg áhrif Heklugosa eru lítil og aldrei um bráða lífshættu að ræða. Þess vegna kom Hekla aldrei til umræðu við val verk- efna. Gosið í Heklu þann 17. ágúst varð óvænt vegna þess að alls ekkert var gert til að fylgjast með eldstöðinni. Eftir á er hægt að leiða líkur að því að með fullkominni mælitækni hefði ver- ið hægt að sjá gosið fyrir en slíkar hugleiðingar eru varla áhugaverðar í þessu samhengi, nema til að leiða talið að næsta þætti þessa máls, sem er fram- kvæmd eldfjallavöktunar. Eldfjallavöktun byggir á for- sendum, sem eru aðallega í því fólgnar, að það líði einhver tími frá því bráðin bergkvika yfirgef- ur myndunarstað sinn uns hún kemur upp á yfirborð í eidgosi. Aðferðirnar, sem vöktunin bygg- ist á, eru allar við það miðaðar að nema og mæla breytingar sem verða á jarðskorpunni við það að kvikan fer á hreyfingu. Hér verða nefnd þrjú atriði sem gefa tilefni til ákveðinna mælingaaðferða, en fleiri atriði eru til svo og fleiri aðferðir til að mæla það sama. (1) Myndunarstaðir bergkviku eru á verulegu dýpi, þar sem farg berglaga, sem ofan á liggur, er mjög mikið. Fargið veldur því að engar sprungur eða rásir eru fyrir hendi. Kvikan verður því að brjóta sér leið upp á við. Slík umbrot valda jarðskjálftum, sem hægt er að mæla og staðsetja af mikilli nákvæmni. A Hawaii hef- ur verið hægt að fyigja bergkviku allt frá 60 km dýpi á leið upp í jarðskorpuna. Við Kröflu hefur verið hægt að fylgja framrás kvikuhlaups og mæla hraða hlauptotunnar þegar hún brýtur sér leið neðanjarðar. (2) Reynslan sýnir að kvika fer sjaldan beina leið frá myndunar- stað til yfirborðs. Efri hluti jarðskorpunnar er eins konar kvikugildra. Þar safnast kvikan fyrir og verður að ryðja frá sér. Það gerist með þeim hætti að hún lyftir berglögunum sem ofan á liggja. Við það myndast bunga á yfirborð jarðskorpunnar sem hægt er að mæla. Þessar mæl- ingar gefa tvenns konar upplýs- ingar. í fyrsta lagi gefur lögun bungunnar upplýsingar um dýpi niður á kvikuna. Ef bungan er flöt og víðáttumikil liggur kvikan dúpt, en bunga, sem er brött og lítil að ummáli, gefur til kynna að grunnt sé á kvikuna. í öðru lagi er stækkun bungunnar beinn mælikvarði á magn kviku, sem streymir inn í jarðskorpuna. Þrjár aðferðir eru algengastar til að mæla lögun og vöxt bung- unnar. I fyrsta lagi er mæld hæðabreyting merktra punkta á bungunni miðað við punkta sem liggja örugglega utan við hana. Mælingin er framkvæmd þannig að gengið er með mælistiku og kíki um allt svæðið (nivellering). Mælingin er því tímafrek og kostnaðarsöm. í öðru lagi er unnt að mæla breytingu á fjarlægð milli punkta á yfirborði bungunn- ar. Þegar bungan þenst út verður jarðskorpan að gefa eftir, líkt og þegar lofti er blásið í blöðru. Yfirborðið stækkar og fjarlægð milli merktra punkta eykst. Mælingin er framkvæmd með því að láta ljósgeisla (leisi) með þekktri bylgjulengd speglast milli punkta á yfirborði bungunnar. Töluverðan tækjabúnað og mannskap þarf til að framkvæma mælinguna, sem er tímafrek og kostnaðarsöm. Báðar ofangreind- ar aðferðir gefa nákvæmar upp- lýsingar um lögun og vöxt bung- unnar, en þar sem ekki er hægt að endurtaka slíkar mælingar nema með löngu millibili af hagkvæmnisástæðum, geta þær ekki gefið upplýsingar um snögg- ar breytingar, sem verða á lögun bungunnar. Snöggar breytingar verða ef kvikan brýst út úr þró sinni. Atburðarásin getur þá orðið með ýmsum hætti. Kvikan getur brot- ið sér leið neðanjarðar og myndað berggang og hún getur stigið á grynnra dýpi, stöðvast þar og myndað nýja kvikuþró. Þessar hreyfingar kvikunnar valda ætíð einhverri brevtingu og jafnvel aflögun á bungunni. Eldgos er líklegast þegar slíkar snöggar kvikuhreyfingar eiga sér stað og nauðsynlegt að geta fylgst með þeim. Til þess er notuð þriðja aðferðin sem hér verður nefnd. Tvær fyrri aðferðirnar eru fengn- ar frá landmælingamönnum, en þessari þriðju aðferð var fyrst beitt við mælingar á Kilauea- eldstöðinni á Hawaii. Hún felst í því að þegar bunga vex á yfir- borði jarðar breytist halli í hlíð- um bungunnar í réttu hlutfalli við vaxtarhraðann og fjarlægð frá miðpunkti bungunnar. Á Hawaii var notuð einföld aðferð til að mæla hailabreytinguna, aðferð sem er vel þekkt úr byggingariðnaði þegar verið er að mæla út fyrir láréttum fleti. Tvö ker eru tengd með vatnsslöngu. Ef kerin eru njörvuð niður og bilið milli þeirra látið vera hæfi- lega langt, gefur breyting á stöðu vatns í kerjunum til kynna að kerin hafi hækkað eða lækkað mismikið. Aðferðir, sem notaðar eru í mildu loftslagi Hawaii, eru ekki endilega heppilegar á frost- köldum úthafseyjum, en auk þess er vatnskeraaðferðin seinvirk og dálítið klúðursleg. Þegar verið var að skjóta Ap- ollo-eldflaugum til tunglsins reið á að iata þær halda lóðréttri stefnu í flugtaki. I því skyni var þróaður hallamælir, sem síðan var tengdur sjálfvirkum stjórn- búnaði eldflaugarinnar. Þessi hailamælir hefur síðan verið framleiddur og notaður til að fylgjast með hallabreytingum í sambandi við eldfjalla- og jarðskjálftavöktun. Þar sem þessi bandaríski mælir er bæði dýr og hefur reynst misvel, var ráðist í að hanna og smíða nýja gerð hallamæla hér á landi, sem byggja á öðrum tæknilegum for- sendum en sá bandaríski. Eftir að bungan á yfirborði jarðar hefur verið staðsett með landmælingum er hallamælum valinn staður utan í bungunni. Hallabreytingar koma fram sem breytingar í rafspennu frá raf- eindabúnaði tækisins og þetta merki er hægt að meðhöndla á ýmsan hátt. I Mývatnssveit eru merkin sendýmist með símalínu eða örbylgjuútvarpi til miðstöðv- ar í Reykjahlíðarþorpi, þar sem öll merkin eru skráð á sirita. Með þessu móti liggja upplýsingar um vöxt og breytingar á lögun bung- unnar fyrir, samtimis því sem breytingin á sér stað. Mælarnir gefa því samfelldar upplýsingar um innstreymi kviku í kvikuhólf- ið og þeir gefa strax til kynna ef kvika byrjar að streyma út úr hólfinu. í júlí í sumar sýndu mælarnir ákaft útstreymi úr kvikuhólfinu fjórum tímum áður en gos hófst í Gjástykki. (3) Blágrýtiskvika er um það bil 1200 gráða heit þegar hún yfir- gefur myndunarstað sinn. Við háan þrýsting djúpt í jörðu eru ýmis rokgjörn efni uppleyst í kvikunni. Mest ber á vatni og kolsýru. Þegar kvikan kemur upp á grynnra dýpi gerist það sama og þegar tappi er tekinn af sódavatnsflösku, kolsýran og önnur rokgjörn efni víkja úr kvikunni og leita til yfirborðs. Ýmislegt bendir til þess að kolsýruloft hafi streymt upp gegnum jarðskorpuna á Heimaey vikum eða mánuðum fyrir gosið 1973. Gerbreyting varð á efna- samsetningu lofttegunda frá jarðhitasvæðinu í Kröflu í sam- bandi við fyrstu umbrotahrinuna þar í desember 1975. Skilningur á þessum breytingum er enn naum- ur en rannsóknir sem verið er að framkvæma, geta leitt til þróun- ar mælingaaðferða sem hafa verulega þýðingu í eldfjallavökt- un. Af því sem nú hefur verið sagt, ætti að vera ljóst að það er hægt að gefa rökstudda umsögn um líkur á eldgosi á grundvelli beinna mælinga á hegðum eld- stöðvar. Öryggi umsagnar er al- farið háð því hve mikið menn eru reiðubúnir að fjárfesta í tækja- búnaði og rannsóknarvinnu. Að þessu leyti er umsögn um líkur á eldgosi svipaðs eðlis og veðurspá. Þeim mun þéttari sem veður- athuganastöðvar eru og þeim mun örar sem upplýsingar ber- ast, þeim mun öruggari verður spáin. Sennilega eru fleiri óþekktar stærðir sem hafa áhrif á eldvirkni en veðurlag og því hlýtur eldgosaspá enn um sinn að fela í sér meiri óvissu en veð- urspá. En þessum tilraunum er það sameiginlegt að sérhver þekkingarauki eyðir óvissu og bætir öryggi umsagnarinnar. í veðurspá er óvissan þeim mun meiri sem reynt er að spá til lengri tíma. Sama máli gegnir um eldgosaspá þó að tímalengdir séu ólíkar í þessum tveimur tegund- um umsagna. í upphafi þessarar greinar var það talið annað aðal- markmið eldfjallafræði að gefa umsagnir um langtímaáhættu vegna skipulags landnýtingar. Þær aðferðir, sem hér var lýst, eru allar miðaðar við að fylgjast með eldstöðvum, sem líkur eru til að gjósi innan skamms tíma vegna þess gosmynsturs, sem eldfjallasagan hefur leitt í ljos. Af eðlilegum ástæðum er hér einungis um eldstöðvar að ræða, sem falia í þann flokk þar sem einhver er virk á hverjum áratug. Þá er ekki sinnt neinni af þeim eldstöðvum, þar sem einhver gæti verið virk á aldabili eða árþús- unda. Hér er úr vöndu að ráða, því tiltæk þekking gefur nánast enga möguleika til útilokunar ákveðinna svæða. Slík gos gætu komið nánast hvar sem er á eldvirku svæðum landsins, og það sem verra er, nánast hvenær sem er. Á þessari öld hefur ekkert gos orðið, sem fellur í þann flokk gosa sem verða á aldabili. Tvö gos hafa orðið síðan land byggðist, sem falla í flokk þeirra gosa sem verða á árþúsundabili, og fjögur þúsund ár eru liðin síðan algeng- asta tegund slíkra eldgosa, dyngjugos, varð á Mývatnsöræf- um. Eina tiltæka leiðin til að gefa umsögn um ástand eldvirku svæðanna í heild og jafnframt til að segja eitthvað um líkur á eldgosum næstu áratugi fram í tímann er eitthvert form vöktun- ar, sem byggir á þeim aðferðum sem um var getið hér að framan. Neti jarðskjálftamæla hefur ver- ið komið upp um allt land, en jarðskjálftamælingar gefa þó ekki upplýsingar sem hægt er að nota, nema til hliðsjónar í hugs- anlegri langtímaspá. Næsta skref að því marki er að mæla spennu- ástand jarðskorpunnar á öllum eldvirkum svæðum iandsins. Slík rannsókn er mjög vel framkvæm- anleg, t.d. með fjarlægðarmæl- ingum og síritandi halla- mælingum. Að vísu er hér um nokkuð kostnaðarsamt fyrirtæki að ræða, en þekkingarágóðinn mundi vafalítið skila sér fljótt í nýsköpun hugmynda og stórstígri framþróun eldfjallafræða á Is- landi. Eftirmáli Þessi grein var í vélritun þegar aftur gaus í Kröflu þann 18. október. í tilefni þeirrar eldsupp- komu skal nú lýst nokkuð aðdrag- anda þess goss og þeim rannsókn- um sem voru framkvæmdar í sambandi við það. Eftir gosið í júlí var ljóst af fyrri reynslu að líkur yrðu á öðru eldgosi um miðjan október. í byrjun mánaðarins hóf Norræna eldfjallastöðin vinnu við tvenns konar mælingar, um leið og kerfi síritandi hallamæla var styrkt og yfirfarið. í fyrsta lagi var byrjað að safna lofttegundum daglega úr Leirhnjúki, úr gufuauga við gíg- inn Víti og nálægt Kísiliðjunni í Bjarnarflagi. Sýnin voru efna- greind samdægurs í rannsóknar- stofu Eldfjallastöðvar í Reykja- hlíðarþorpi. I öðru lagi var komið fyrir speglum fyrir leisigeisla á ýmsum stöðum í suðurhluta sprungukerfisins í sjónlinu frá húsi Eldfjallastöðvar. Fjarlægð- armælingar til þessara spegla voru framkvæmdar daglega til að kanna hvort einhver hreyfing ætti sér stað á suðurhluta svæðis- ins. Loks voru tjaldbúðir settar upp þann 15. okt. í Sandmúla, norðarlega í Gjástykki, til að skapa vinnuaðstöðu þar nyrðra ef gosið kæmi upp norður í Gjá- stykki. Að kvöldi 17. okt. höfðu engar breytingar mælst, sem gætu gefið til kynna að kvikuhlaup yrði til suðurs með hugsanlegu gosi í Bjarnarflagi. Hins vegar hafði hallamælir staðsettur norðan og vestan við Leirhnjúk hegðað sér óvenjulega síðan 8. okt. Hann sýndi nokkuð hratt ris til suð- austurs í 6—8 tíma og síðan sig sem stóð í u.þ.b. 10 mínútur. Það var því líkast að einhver átök ættu sér stað en krafturinn ekki nógur til að taka af skarið. Þetta breyttist kl. 05:30 á laugardagsmorgun þann 18. okt. Þá byrjaði þessi hallamælir að sýna mjög hratt ris til suðurs og austurs. Risið var með ólíkindum hratt en kom þó ekki fram á öðrum hallamælum sem eru stað- settir nokkra kílómetra í burtu. Þetta sýndi að lítill en mjög brattur gúll var að myndast í stefnu rétt norðan við Leirhnjúk frá þessum hallamæli. Risið hélt áfram með sama hraða allan laugardaginn. Klukkan 20:42 brast kvikuhólfið og kvika byrj- aði að streyma út úr því. Allir hallamælar sýndu hratt sig og mikill órói kom á jarðskjálfta- mæla. Staðsetning skjálfta benti í fyrstu til þess að kvika streymdi til suðurs, en fjarlægðarmæling yfir sprungukerfið klukkan 21:45 sýndi enga hreyfingu á jarð- skorpunni í Bjarnarflagi. Klukk- an 22:02 hófst gosið rétt norðan við Leirhnjúk á þeim stað, sem hallamælirinn hafði bent á síðan klukkan 05:30 um morguninn. Gossprungan lengdist síðan til norðurs og um tíma var hún allt að 7 km löng. Eftir nokkra tíma hafði gosið takmarkast við 200— 300 metra langan kafla á nyrsta hluta sprungunnar við Sandmúla, þar sem tjaldbúðir Eldfjalla- stöðvar voru settar upp þrem dögum fyrr. Gosinu lauk snemma morguns (um kl. 01:30) þann 24. okt. Hraunið var þá um 12 ferkílómetrar. Magn þeirrar kviku sem tæmdist úr kvikuhólf- inu undir Kröflueldstöð svarar til 45 daga meðalinnstreymis síð- ustu fimm ára. Land rís nú aftur með miklum hraða og innstreym- ið virðist vera yfir meðallagi. Næsta umbrotahrina og eldgos getur því orðið þegar í nóvember, þó að enn sé fullsnemmt að segja til um það. Það sem veldur nokkrum ugg er að hallamælirinn norðan við Leirhnjúk byrjaði strax að sýna sams konar átök og hófust þann 8. okt. Það er því full ástæða til að vera vel á verði á næstu vikum, því nú vofir sú ' hætta yfir að eldgos verði í Bjarnarflagi. Fjármagn til eld- fjallarannsókna á þessu ári er löngu til þurrðar gengið og ekkert verður að gert í vöktun Kröflu- svæðis nema til komi ríflegar aukafjárveitingar nú þegar. Reykjavík, 27. okt. 1980, Guðmundur E. Sigvaldason, Norrænu eldfjallastöð- inni.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.