Morgunblaðið - 30.08.1981, Síða 17

Morgunblaðið - 30.08.1981, Síða 17
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 30. ÁGÚST 1981 17 ólafur ok Maria með börnum sinum. Sjálf sitja þau i miðið og sitt hvoru megin við þau yngstu tviburarnir, Maria og ólafur Daði. Lengst til vinstri tviburarnir Haukur og Halldóra og lengst til hægri tviburarnir Helga Svava og Hálfdán. Standandi i aftari röð frá vinstri: Elsta dóttirin ósk. þá Guðrún, síðan tviburarnir Kristin og Rögnvaldur og tviburarnir Fjóla og Lilja, Jónatan og Einar (tviburinn við hann dó i æsku). Maria i hópi barnabarnabarna á niðjamótinu i Hestfirði i sumar. fara eftir henni. Og ég var svo lengi að þessu, að hún náði alltaf til mín. Meðan við vorum á Kleifum þurfti að sækja ljósmóð- urina að Garðsstöðum og frá Hesti út í Álftafjörð, oft margra klukkutíma reið. Ég hafði svo börnin á brjósti, en ekki lengi nema fyrstu dótturina, sem var á brjósti í 9 mánuði. Hin urðu að fá pela með. — Höfðuð þið þá næga mjólk? — Nei, við höfðum ekki nema eina kú. Og að sjálfsögðu var ekki alltaf næg mjólk. Við vorum þó svo heppin að kýrin okkar var eiginlega aldrei geld. En eftir að við fórum að búa á Fæti fékk hún lungnabólgu og dó. Björg í Vigur sendi okkur þá tvisvar sinnum í viku mjólk. Svo fengum við aftur belju um sumarið og áttum hana þar til við fluttum hingað til Bolungarvíkur. Nei, beljur eru ekki leiðinlegar, svarar María með þunga. — Kýrin þekkti mig alltaf, ég þurfti aðeins að kalla á hana. Það þarf bara að hirða kýrnar vel, sinna þeim kvölds og morgna. Ólafur heyjaði þegar hann var heima. En árið sem hann fékk handarmeinið og var í sjúkrahúsi í fimm vikur, þá komu nágrannarn- ir til hjálpar, fjórir gáfu einnar viku vinnu hver. Þá var samhjálp- in svo mikil. Fólk hugsaði meira um nágrannann en nú er, þegar hvert handtak er reiknað til pen- inga. Við áttum góða að. Þegar ég átti þriðju tvíburana, tók föður- systir hans af mér dreng á öðru ári, og þegar ég veiktist af ígerð, tóku þau telpu, sem þau vildu svo ekki láta frá sér aftur. En meðan ég var í sjúkrahúsinu, var öllum börnunum komið fyrir hjá syst- kinum okkar. — Hvernig stóð á sjúkrahús- vistinni? Var þetta eftir barns- burð? — Nei, það gróf út frá tönn. Við vorum þá á Fæti og þremur dögum eftir að fjórðu tvíburarnir fæddust, kom Vilmundur læknir inn eftir. Ég var búin að hafa svoddan voða kvalir lengi, hélt að ég væri að verða brjáluð. Kinnin var öll uppbólgin og hnútur kom- inn á bak við augað. Það var enginn leikur að komast til ísa- fjarðar, en læknirinn lét flytja mig þangað og skar í kinnina og svo aftan við augabrúnina, gerði lítinn skurð, af því þetta er í andlitinu. Allt matarkyns nýtt Það hefur ekki verið lítið átak að sjá svo stóru heimili farborða. Elsta dóttir Maríu segir mér að hún muni aldrei eftir að börnin hafi verið svöng. Nútímafólk á erfitt með að skilja hvernig fólk komst af við þær aðstæður, sem þá voru. Það er því fróðlegt að heyra Maríu segja frá því hvernig farið var að. — Allur matur var nýttur og engu kastað, útskýrir María. — Maður lifði mest á fiski og mjölmat. Við höfðum kindur, upp í 30 talsins og fleiri eftir að við komum hingað út eftir. Til að fá mjólkina úr þeim var fært frá á vorin. Ærnar voru svo mjólkaðar. Ég skildi alltaf mjólkina, strokk- aði rjómann og gerði skyr. Og sýran var notuð til að súrsa í, bæði slátur og hrognkelsahveljur. Hrognkelsin voru borðuð súrsuð með hafragraut. Það var ágætur matur. Ólafur herti steinbít og þorskhausa og maður reif þorsk- hausa og borðaði. Nokkuð sem enginn kann nú orðið. Svo var hrognkelsaveiðin. Við höfðum rauðmaga og grásleppu. Rauð- magann reykti maður og saltaði. Mér þóttu hrognkelsin alltaf svo góð. Úr þeim nýjum bjó maður til súpu. Nú kann fólk ekki að borða svona mat. Ékki var mikið lifað á kjöti. Svo lítið var til af því, þótt aldrei væri fé selt til slátrunar. Afgjaldið af jörðinni hjó í kjötbirgðirnar. Fyrir jörðina á Fæti þurfti að greiða árlega eina á með lambi og ákveðið smjörmagn að auki. Mað- ur borðaði kjöt helst á hátíðum og hengdi svolítið upp. Annars keypt- um við hrefnukjöt og söltuðum það. Ég gerði úr því bollur eða sauð það og bar fram með kartöfl- um. Állt var vel nýtt. — En fleira þarf til en mat, Maria. Hvernig var með húsnæði, fatnað og skó á allan þennan hóp? — Húsakynnin voru ágæt á Kleifum í Skötufirði. Það hús var stórt og gott og stendur enn. Annars var húsrýmið alltaf þröngt. Það lá mikil vinna í að hafa fatnað og sokkaplögg. Fyrstu árin varð að kemba ullina og spinna heima. Á veturna reyndi maður að hafa eitthvað utaná börnin til að skýla þeim og prjónaði mikið. Siðar var svo farið að senda ullina til að láta kemba hana. Það var mikill munur. Og eftir að ég flutti hingað til Bolung- arvíkur, fékk ég sokkavél og gat prjónað á krakkana í vél. Skó varð að gera handa öllum börnunum úr kindaskinnum og grásleppuroði, sem entist illa, því aldrei var hægt að kaupa skó fyrr en eftir að við komum hingað til Bolungarvíkur. Hvað börnin voru upp með sér þegar þau eignuðust hér fyrstu strigaskóna. Hverja bót varð að nota í skóna, til að halda þeim við. Stígvél? Biddu fyrir þér. Það voru engin stígvél. Maður vandist þvi að vera blautur. Blotnaði strax af grasinu við að koma út á morgn- ana. En krakkarnir voru hraustir og þetta gekk allt saman. — Og þú varðst að bjarga þér ein meðan Ölafur var í burtu að draga fisk úr sjó og björg í bú. Fréttirðu nokkuð af honum þegar veður voru vond? — Nei, nei, ég vissi ekkert um hann eftir að hann fór á sjóinn. Hann fór á vetrum á vertíð. En það var mikill munur eftir að við komum út í Fótinn. Þá gat hann komið og róið að heiman eftir að fiskur fór að ganga inn eftir. Fyrst þegar hann reri í Bolungarvík kom hann oft um helgar einn inn í Djúp á árabáti, sem er enginn smáspölur, margra kiukkutíma keyrsla á mótorbáti. Hann var sjálfur með árabát, en síðasta árið, sem við vorum innfrá, lét hann smíða mótorbát, sem hann átti í félagi við bróður sinn. Maður vandist því að vera einn með börnin og vita ekkert um hann tímunum saman. Það þýddi ekki annað. Varð svo að vera, segir María ennfremur. Eitt sinn var hann á Sóleyju með Jónatan Björnssyni. Þá lágu þeir undir Jökli og ég sá hann ekki í marga mánuði. Það var þá sem hann fékk handarmeinið og var lagður inn á sjúkrahús á ísafirði í fimm vikur. Ég var ekkert látin vita um það. Frétti það af tilviljun eftir að hann var kominn af sjúkrahúsinu. Þá fór maður út á ísafjörð og gat sagt mér það. Vilmundur læknir vildi ekki enn sleppa honum heim. Mjólkin seld á 20 aura heimkeyrð Það var erfitt að vera þarna innfrá og árið 1930 útvegaði Einar blessaður Guðfinnsson okkur jörð- ina Tröð, sem nú er komin inn í Bolungarvíkurkaupstað. Þeir voru bræðrasynir Ólafur og hann og miklir vinir. Eftir það hætti Ólaf- ur alveg á sjónum, vann heima að búinu og í fiskvinnu hjá Einari. Við höfðum 70 fjár og sex kýr og seldum mjólk. En þetta var á kreppuárunum og ekkert verð fyrir mjólkina, 20 aurar á lítrann og þurfti að bera hana í húsin. Þó keyptu mörg heimili ekki nema pela á dag, svo mikil var fátæktin. Svo þurftum við að fá hest og kerru til að koma út mjólkinni og ekki var neitt greitt fyrir það. Við vorum 15 ár í Tröð, en seldum þá og keyptum stærri jörð, Meirihlíð. Henni fylgdi líka mikill móskurð- ur og við gátum selt mó, eða móskurð. Allir kyntu þá með mó. Krakkarnir gátu þá unnið í mó- gröfunum. Ég þurfti aldrei í mó- grafirnar sjálf, enda hafði maður nóg að gera með að elda ofan í hópinn og þvo af fólkinu. Einar Guðfinnsson getur ólafs Hálfdánarsonar oft í ævisögu sinni, segir að margir af afkom- endum þeirra Maríu hafi verið í hópi sinna bestu samstarfsmanna við fyrirtæki hans í Bolungarvík. M.a. segir hann á einum stað: „Við Ólafur Hálfdánarson áttum síðan nokkuð mikinn þátt í uppbyggingu Bolungarvíkur, þar sem annar okkar á nú fimmtíu afkomendur og hinn á annað hundrað og flestir afkomendur okkar búsettir í Bol- ungarvík. En við vorum ekki feigir við Ólafur." Það er auðséð að Einar telur Ólaf og Maríu meðal sinna bestu vina. — Sjö af mínum börnum eru hér í Bolungarvík, segir María, 5 í Reykjavík og eitt á Akureyri. Ég á líka fósturson, sem er bílstjóri hér í Bolungarvík. Já, já, ég bætti á barnahópinn fóstursyni. Varð að gera það. Það var rétt eftir að við komum til Bolungarvíkur og yngstu tvíburarnir orðnir fimm ára gamlir. Á næsta bæ við okkur kom kona með barnabarn sitt. Hún þurfti til læknis, ég þekkti hana ekki, en hún bað mig um að taka barnið af sér á meðan. Þegar hún kom aftur, var hún dauðvona. Ég fór með drenginn sem þá var ársgamall, til að sýna henni hann. Þá bað hún mig um að sleppa honum ekki nema foreldrarnir tækju hann. Hún dó, og þar sem svona fór fyrir henni gat ég ekkert gert við blessað barnið. Hann var áfram hjá mér, en foreldrarnir tóku hann suður í skóla að vetrin- um, þegar hann stækkaði. Það er gott að eiga öll þessi börn. Betra er yndi en auður — Þið hafið svo komið ykkur fyrir hér inni i bænum, þegar þið hættuð að búa? — Já, bærinn í Meirihlíð brann I síðasta vetrardag 1949. Það varð sprenging í eldavélinni. Á þiljum í kring var pappír og tjörupappi í milli, og allt svo eldfimt. ólafur var úti í fjósi að skammta kúnum. Tvær dæturnar voru heima, önnur með lítið barn. Hún hljóp í síma, en snjórinn var svo mikill að langan tíma tók að komast með hjálp. Það var því ekkert annað að gera en reyna að verja fjósið og bærinn brann til kaldra kola. Börnin voru þá orðin uppkomin. Einar sonur okkar er lærður smiður. Hann kom og byggði bæinn upp með bræðrum sínum en Ólafur lagði á eigin spýtur raf- magn fram eftir. Við sváfum á meðan öll hjá Ósk dóttur okkar, sem bjó hér í Bolungarvík. Ári síðar fauk þakið af bænum, og mikill hluti fjóssins. En þremur árum seinna tók tengdasonur okkar við jörðinni, en við fluttum hingað niður eftir, keyptum lítið hús og höfðum kindur og tvær kýr. Hér í Bolungarvík áttum við gott líf. Ólafur var alla tíð dugnaðar- maður. Hann dó meira að segja sitjandi við vinnu sína hérna niðri í kjallaranum, var að setja í net. Ekki fellur Maríu heldur verk úr hendi. í kringum hana má sjá fallegt prjónles, sokka og vettl- inga og hosur á smáfólkið. Hún prjónar væna sjóvettlinga og selur í Einarsbúð og leggur vel til á basar Sjálfstæðiskvenna. Þess sjást þó engin merki að hún sé slitin og þreytt eftir erfiða ævi. — Ég var léttlynd og er það sjálfsagt enn, segir hún. — Þegar maður er hraustur, er ekki yfir neinu að kvarta. Ég er bara slæm í fæti, af því ég lærbrotnaði, og gigt sækir í fæturna, segir hún. — Áður hafði maður aldrei tækifæri til að fara af bæ. Fyrsta ferðin okkar var á landbúnaðarsýning- una í Reykjavík um 1940 og gekk víst erfiðlega að koma mér af stað. Nú gerir maður ekki annað en flakka. Mest þykir mér gaman að fara um sveitir. Nýlega var farið með gamla fólkið hér í Bolungar- vík inn í Djúp, og ég var eins og venjulega, elst allra. Mér þykir mikið varið í slíkar ferðir. — Þú ert ekki einu sinni farin að hærast María. Ætli þú verðir ekki 100 ára eða meira? — Ég er víst sérkennileg skepna. En ég er ánægð með að vita ekkert um það hvenær maður fer. Það hefur enginn neitt með það að gera. Maður verður bara að taka því. — Svo þú ert ánægð með þitt lífshlaup? — Já, ég má vera ánægð með lífið. Allir eru svo góðir við mig. Og óhætt er að segja, að betra er yndi en auður. Það er ríkidæmi að eiga mörg góð börn. Viötal og myndir: Elín Pálmadóttir

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.