Morgunblaðið - 31.10.1981, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 31.10.1981, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 31. OKTÓBER 1981 31 óumbeðið í þessu máli, vinarbragð sem hann sýndi mér, sér ókunnum manni, sannaði mér þá þegar, hvers konar innri mann hann hafði að geyma. Þá er mér skylt að geta þess hve vel hann reyndist fjölskyldu minni, þegar ég slasaðist í vetur, og ekki síst eftir að í ljós komu þær afleiðingar sem slys þetta olli á högum mínum. Ég og fjölskylda mín verðum honum ævinlega þakklát fyrir fórnfýsi hans í okkar þágu. Mér er fullkunnugt um, að Sig- urður sýndi mörgum þessa hlið á sér. Ekki hafði ég hugsað mér að rekja á neinn hátt æviferil Sigurð- ar eða lýsa honum frekar, en get þó ekki látið ógetið um þá fram- kvæmdagleði, sem einkenndi hann. Hann orkaði mjög á mig, þessi áræðni sem hann bjó yfir, ég held bókstaflega að hann hafi framkvæmt alla þá hluti sem hann hafði áhuga fyrir. Þessi kraftur, þetta freísi sem geislaði af honum og ég tala nú ekki um þjónustulund hans í garð annarra. Allt þetta hlaut að hafa áhrif á mig, þrátt fyrir það höfðum við um margt mjög ólikar skoðanir, sem við raunar ræddum lítið eða aldrei um. Sigurður tók virkan þátt í ýms- um félögum og komu þar eigin- leikar hans fram í ríkum mæli. Hann hafði mjög ákveðnar skoð- anir, sem hann leyfði sér að fylgja, sem auðvitað hafði þau áhrif, að ekki voru allir á sama máli. Mál- tækið segir: „Haltu fram skoðun- um þínum og vertu eitthvað eða hafðu enga skoðun og vertu ekk- ert.“ Sigurður fyllti fyrri flokkinn. Alls staðar sáust merki um framkvæmdagleði hans. Hann hafði reist fjölskyldu sinni glæsi- legt hús í heimasveit sinni og komið sér mjög vel fyrir. Slíkt vekur gjarnan athygli annarra. Að lokum vil ég og fjölskylda mín votta fjölskyldu Sigurðar, konu hans og syni, foreldrum og systkinum okkar dýpstu samúð og biðjum góðan Guð að halda vernd- arhendi sinni yfir þeim um alla framtíð. Kristbjörn Árnason í dag, laugardag verður til moldar borinn að Lágafellskirkju í Mosfellssveit eitt af glæsilegustu ungmennum sveitarinnar, vinur minn og frændi barna minna, Sig- urður Stefán Frímannsson frá Blómsturvöllum. Maður stendur orðvana frammi fyrir þeim örlögum sem þessum góða dreng voru búin, kallaður á brott í blóma lífsins. Það var mik- ili sjónarsviptir að missa hann úr fjölskyldunni og sárara én orð fá lýst. Ég hef þekkt Sigga (eins og hann var kallaður) frá því að hann var barn og ólst upp í skjóli for- eldra sinna á traustu og hlýju heimili. Ég sá hann vaxa upp í það sem hann varð, glæsilegt góð- menni. Hann varð mikill athafna- maður og hafði komið sér og fjöl- skyldu sinni vel fyrir svo með ein- dæmum var af svo ungum manni að vera. Hann var rafvirkjameist- ari að mennt og vann sjálfstætt og sýndi þar best hvað starfsgleði hans var óþrjótandi. Hlýtt viðmót hans laðaði til hans fólk á öllum aldri og virtist hann alltaf hafa tíma til að rétta út hönd til hjálp- ar. Margir munu sakna vinar í stað og kveðja hann með söknuði. Ég tel mig og börn mín hafa misst mikið, heimilisvininn sem bar með sér birtu og gleði hvar sem hann fór og munum við geyma minningu hans sem þá dýrmætustu sem við eigum. Ég bið Guð almættis að leiða hann á braut til bjartari heima og varðveita eftirlifandi fjölskyldu hans. Með dýpstu samúð, Guðrún Eyjólfsdóttir Sigurður Stefán Frímannsson lést þann 23. október sl. af afleið- ingum flugslyss, er átti sér stað við flugvöll að Hellu á Rangárvöll- um, sunnudaginn 4. þessa mánað- ar. Það er skarð fyrir skildi er svo ungur maður fellur frá í blóma lífsins, frá ungri konu og litlum dreng, að auki umfangsmiklum at- vinnurekstri. Sigurður var fæddur 14. ágúst 1949 á heimili foreldra sinna, en þau eru Unnur Sveins- dóttir frá Álafossi og Frímann Stefánsson, frá Blómsturvöllum í Eyjafirði. í föðurættina er Sigurð- ur kominn af norðlenskum bænd- um en Sveinn og Halldóra, móð- urforeldrar hans bjuggu allan sinn búskap að Álafossi. Sveinn var vefari þar en stundaði nokk- urn frístundabúskap að Sveins- stöðum í Mosfelssveit. Þetta voru góðir nágrannar en Sveinn Árna- son var mikill áhugamaður um íþróttir og félagsmál og hinn merkasti maður. Sigurður ólst upp við nám og störf hér í sveitinni, en svo hóf hann nám í rafvirkjun hjá Ingólfi Pálssyni í Hveragerði og lauk því 1971. Hann starfaði þar um skeið að iðn sinni, en fluttist til sinnar heimabyggðar árið 1975 og fékk meistararéttindi sín sama ár. Sigurður byggði yfir fjölskyldu sína og atvinnurekstur í landi for- eldra sinna og flutti í hin nýju húsakynni á árinu 1979. Hann kvæntist Ragnheiði Halldórsdótt- ur þann 6. apríl 1974, en hún er ættuð úr Rangárþingi, og framtíð- arheimilið settu þau saman að Blómsturvöllum eins og áður seg- ir. Þegar þau hjónin fluttu í Mos- fellssveitina tók Sigurður -strax virkan þátt i félagslífi hér og brátt lágu okkar sporaslóðir saman á þeim vettvangi, enda þótt ald- ursmunur væri mikill. Gerðist hann mjög virkur í liði ungra sjálfstæðismanna og beitti sér fyrir ýmsum framfaramálum. Re.vndist hann þar sem og annars staðar traustur og öruggur félagi. Allt starf hans og líf einkenndist af viljastyrk og mótaðri skaphöfn, og komu þessir eiginleikar oft í góðar þarfir í umróti stjórnmál- anna. Þá starfaði hann mikið í Junior Chamber, og var einnig fé- lagsmaður í Rotary-hreyfingunni í Mosfellshreppi. Er fuglabændur sameinuðust um byggingu sláturhúss í Mos- fellssveit sýndi hann strax áhuga á þessu nýmæli, svo það kom eins og af sjálfu sér, að hann tók að sér alla rafmagnsvinnu hinna ýmsu flóknu tækja. Sveinn, bróðir hans, tæknifræðingur, sem var þá við störf í Danmörku, en þar var véla- kosturinn keyptur, var til ráðu- neytis við vélakaupin og nutum við ráða þeirra bræðra, sem reyndust hin farsælustu. Sigurður var aðeins 32 ára er hann féll frá, og er næsta ótrúlegt hverju hann gat áorkað á svo stuttum starfstíma. Hann var með afbriðgum verklaginn og útsjón- arsamur og vakinn og sofinn í hugðarefnum sínum. Umsvifin voru mikil, margir menn í vinnu og allt byggt upp frá grunni á eig- inn rammleik. Honum var trúað fyrir hinum vandasömustu verk- um, sem honum fóru vel úrhendi. Hann var einbeittur og hafði mjög eindregnar skoðanir á málum, en það var sá aflgjafi sem gerði hon- um kleift að ná settu marki í líf- inu. Vinsæll var hann og vinmarg- ur og þeir sem nutu starfskrafta hans og vináttu hugsa nú með hiý- hug til hins gengna vinar. Þessu er lokið hérna megin, en það hvarflar að manni, að æðri máttarvöld hafi nú ætlað honum eitthvað annað og meira hlut- skipti handan móðunnar miklu. Það er óvægin lífsreynsla fyrir unga konu að missa sinn lífsföru- naut á besta aldri, en löngum hefir það verið hlutskipti íslenskra kvenna er mannskaöaðar hafa verið, bæði á sjó og landi. Við samferðamennirnir þökkum fylgdina og samstarfið þennan stutta tíma, sem við nutum sam- vista við Sigurð Frímannsson, og vottum ekkjunni, litla syninum og ættingjum öllum hluttekningu. Minningin lifir um traustan og dugmikinn drengskaparmann. Megi það mýkja sviða ástvinanna við missinn. Með virðingu og þökk kveðjum við hinn látna vin. Jón M. Guðmundsson Hann Sigurður er látinn. Þegar þessi hörmulegu tíðindi bárust okkur félögum í JC-Mos- fellssveit, setti okkur hljóða. Kannski höfum við aldrei hugsað um að slíkt gæti hent einn úr okkar hópi, en vegir guðs eru órannsakanlegir. Okkur, sem störfuðu með Sigurði að félags- málum, er kært að minnast þessa góða drengs, sem alla tíð var einn af máttarstólpum okkar félags- skapar. Árið 1974 var Sigurður félagi í JC Hveragerði og vann þá ötullega að stofnun félagsskaparins í Mosf- ellssveit. Ári síðar er hann hóf störf í sinni heimabyggð, Mosf- ellssveitinni, gekk hann strax í okkar raðir. Var hann strax kosinn til trún- aðarstarfa og árið 1977 var hann einróma kosinn forseti félagsins. Er skemmst frá því að segja, að undir hans forystu efldist starfs- emi félagsins til mikilla muna, enda hafði Sigurður til að bera þá miklu elju, leiftrandi hugmyndafl- ug og mælsku, sem smitaði út frá sér til okkar hinna. Sérstaklega er okkur minnisstæð sú mikla og jákvæða aðstoð sem hann veitti þeim félögum, sem óvanir voru þátttöku í félagsmálastarfsemi. Við fráfall Sigurðar er höggvið stórt skarð i félagsskap okkar, skarð sem ekki verður fyllt í. Störf hans eru einn af þeim hornstein- um sem félagið stendur á. Við þökkum honum samfylgdina. Eiginkonu, barni, foreldrum og systkinum vottum við okkar dýpstu samúð. Megi algóður Guð varðveita minningu hans um alla framtíð. Félagar í JC Mosfellssveit háttað, að verzlunarstjóra vantaði að Soffíbúð í Austurstræti 14. Leitað var til Soffíu og tók hún að sér stjórn verzlunarinnar og hélt henni til 1953, en þá kom til annað verkefni við að sjá um stjórn hús- eignarinnar að Austurstræti 14 og hafði hún það með höndum allt til ársins 1966, þegar hún var komin yfir áttrætt. Þrátt fyrir það, að Soffía varð að dvelja langdvölum í Reykjavík vegna starfsins við Soffíubúð átti hún samt heimili sitt allan þann tíma á Akureyri enda áttu systur hennar, Svava og Brynhildur, jafnframt heimili sitt þar en um það leyti, sem Soffía lauk störfum sínum syðra, voru þær báðar látn- ar, Brynhildur 1961 og Svava 1963. Kynni okkar Soffíu hófust fyrst þegar hún kom til starfa við Soff- íubúð í Reykjavík. Var hún þá löngum daglegur gestur á heimili okkar Sigríðar og hófust þá þau kynni, sem entust allt til loka. Dætur okkar kynntust henni fljótt í frumbernsku allt frá því hún las þeim barnasögur fyrir svefninn og síðar af rausnarlegum tækifæirisgjöfum og ekki sízt móðurlegri umhyggju ef lasleika bar að höndum. Á þeim árum, sem Soffía var einbúi í Aðalstræti 72 áttum við Sigríður oft erindi norður til þess að heimsækja þær systur Fann- eyju og Soffíu, sem bjuggu nánast hlið við hlið í Fjörunni. Fengum við þá enn að kynnast rausn henn- ar og gestrisni. Næst gerðist það, að Fanney, systir hennar andast 1977. Losnuðu þá síðustu bönd, sem Soffía átti við Akureyri, og ákvað hún þá að selja húseign sína í Að- alstræti 72, sem hún hafði þá átt í rúm 40 ár og síðustu árin átti hún á heimili okkar Sigríður í Hlunna- vogi 7. Soffía þakkaði oft forsjóninni fyrir þá ágætu heilsu, semhkún hluat í vöggugjöf þar með góða sjón og heyrn, þótt hvorttveggja væri þá farið að dofna. En ýmislegt fleira var henni gefið. Hún var búin ágætum gáf- um og var stórglæsileg að ytra út- liti og sópaði að henni hvar sem hún fór enda var framkoma henn- ar öll hin fágaðasta. Af ýmsum góðum kostum, sem hún var búin verður fyrst að minnast gjafmildi hennar og hjálpfýsi. Stuttu eftir að hún var farin að vinna fyrir kaupi bað hún móður sína um leyfi til þess að gefa bágstaddri konu mánaðar- kaup sitt. Leyfið var fúslega veitt. Soffía óskaði eftir því, að þessu væri haldið leyndu en þetta barst út og komst í hámæli og þótti fá- gæt rausn en margar slíkar gjafir mun Soffía hafa látið af hendi rakna síðar, sem hvergi voru skráðar. Þegar Soffía varð áttræð þann 10. desember 1964 ritaði sr. Jón Auðuns grein um hana í Morgun- blaðið en hann var henni samtíða á ísafirði á hennar athafna- og blómaskeiði og vel kunnugur sögu hennar þar. Tek ég hér smáklausu úr grein þessari. Sr. Jón segir: „Ég vissi ekki til, að nokkur kona á ísafirði nyti meiri virð- ingar en frú Soffía, enda tókst hún á við verkefni, sem fátítt er að konur fáist við, einkum í útgerð- armálum. Hún stóð straum af stóru rausnarheimili og hún hefir fengið að lifa það að sjá þeim öll- um farborða, sem á vegum henar voru. Ég geri engum góðum rangt til þótt ég segi, að frú Soffía hafi gert stórmannlegar við ættingja og venslafólk en ég veit um aðrar konur. Og þegar leitað var fjár- framlega til einhvers á ísafirði var frú Soffía oft eina konan þar á lista og jöfn þeim fremstu að rausn. Hún hefir lengi búið við góðan efnahag en aldrei verið sparsöm." Soffía hefir nú öðlast hvíld eftir langan og athafnasaman vinnu- dag. Henni hefir orðið að þeirri bæn sinni, sem hún oft bað síðustu mánuðina, að Drottni þóknaðist að leyfa henni að deyja, en þótt hún sé horfin sjónum okkar mun enn um sinn stafa mikilli birtu af náfni hennar og athöfnum. Við minnumst hennar með ein- lægu þakklæti og virðingu. Jón G. Halldórsson Frænka mín og góðvinur allt frá því að ég var barn að aldri, Soffía Jóhannesdóttir, andaðist hinn 21. þ.m. í dag verður hún jarðsett norður á Akureyri. Soffía varð 96 ára og vel það, fædd 10. desember 1884 á ísafirði. Foreldrar hennar voru Jóhannes verslunarmaður Guðmundsson, ættaður úr dúpinu vestra, og eininkona hans, Sigríð- ur Bjarnadóttir, frá Akureyri. Ekki fer á milli mála að um margt var Soffía óvenjuleg kona og í engu var hún meðalmann- eskja. Hún fór ekki alltaf troðnar brautir og í ýmsum athöfnum sín- um ruddi hún sinn eigin veg. Ung að aldri lauk Soffía námi í Kvennaskólanum á Akureyri og varð skömmu síðar bókavörður í Bókasafni ísafjarðar. Því starfi gegndi hún í fáein ár en sneri sér síðan að kaupmennsku. Var hún þá enn ung að árum. Kaupmennskan vað aðalstarf Soffíu allt þar til vinnudegi henn- ar lauk fyrir um það bil tveim ára- tugum. Soffía var hagsýn og dug- -leg kaupkona, fór þannig sjálf til annarra landa og keypti þar vand- aðar vörur og seldi við skaplegu verði, fyrst á ísafirði en síðar í Soffíubúð í Reykjavík, en sú versl- un var í eigu hennar og föðurbróð- ur mins, Axels Ketilssonar. Soffía fór vel með fjármuni sína og varð því vel efnuð er tímar liðu fram. Og þar kem ég að þeim þættinum í fari hennar sem mér er hugstæðastur. Hún safnaði ekki fjármunum til að geyma þá í handraðanum. Slíkt var í algjörri andstöðu við skaphöfn hennar. Hún vildi éerja þeim til nytsamra framkvæmda, ekki fyrst og fremst í eiginhagsmuna skyni heldur til að bæta kjör þess mannfólks sem lifði og hrærðist í kring um hana. Þetta kom vel í ljós á árinu 1938. Kreppan mikla sem hófst í Banda- ríkjunum haustið 1929 markaði sem kunnugt er djúp spor sín hér úti á íslandi, ekki síst í útgerðar- bæjum landsins. Þegar kom fram að árinu 1938 var ástandið orðið ömurlegt á ísafirði, eftir langvar- andi atvinnuleysi var örbirgð hjá mörgum manninum. Að sjálfsögðu höfðu ráðamenn bæjarins gert allt sem þeir gátu til að draga úr erfiðleikum almenn- ings í bænum, en burðir bæjarfé- lagsins voru veikir. Þá var það að Soffía tók hönd- um saman við bæjaryfirvöldin með það fyrir augum að kaupa togara til ísafjarðar. Má með sanni segja að fjármunir hennar riðu baggamuninn og jafnsatt er það, að engri einstakri manneskju var það meir að þakka að togarinn var keyptur. Því skal þó ekki gleymt að ýmsir aðrir góðir menn lögðu þar hönd að verki. Rekstur togarans gekk þó nokk- uð vel og gjörbreyting var á öllu atvinnuástandi í bænum. Soffía var óvenju traust mann- eskja, hún var vinaföst og með fá- dæmum ættrækin, hún var djörf í athöfnum sínum og skjótráð ef vanda bar að höndum. Við ættmenn hennar og aðrir vinir minnumst hennar með virð- ingu og þakklæti. Haukur llelgason Lengi hafði hún þráð það sem nú er orðið en samt er eins og dauðinn komi manni ávallt á óvart, stundum gerir hann boð á undan sér en oftast ekki, það gild- ir einu hver á í hlut. Margar eru tilviljanir lífsins og má segja það um heimsókn mína til Soffíu á mánudaginn fyrir viku. Erindið var að flytja henni gleði- fréttir, að við hjónin hefðum eign- ast litla dóttur daginn áður, sem við höfðum ákveðið að skíra henn- ar nafni. Nú er það svo að venjan er að nafn nýfædds barns er oftast leyndarmál eða óákveðið fram að skírn en nú brá svo við að nafnið hafði verið ákveðið fyrirfram ef stúlka yrði og eitthvað var það sem rak mig á fund Soffíu strax daginn eftir til að segja henni tíð- indin. Hvort æðri máttarvöld höfðu þar hönd í bagga er ekki gott að vita, en þó hef ég á tilfinn- ingunni að svo hafi verið. Fundir okkar hafa verið stopul- ir frá fyrstu tíð, en einkennst af umhyggjusemi og áhuga á minni velferð. Bæði var það að hún bjó í öðrum landshluta þangað til fyrir nokkrum árum og hitt að þó að hún væri komin hingað í næsta nágrennið urðu heimsóknirnar færri en vera skyldi hvað sem nú olli því. I dag er hinsta kveðjustundin runnin upp, jafn sár og ávallt, en ég hugga mig við það að hún er núna í góðum höndum. Hlýjar hugsanir fylgja Soffíu alltaf. Guð geymi hana og varðveiti. Ágúst Oddsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.