Morgunblaðið - 02.09.1982, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 02.09.1982, Blaðsíða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 2. SEPTEMBER 1982 Baldur Eyþórsson forstjóri — Minning Fæddur 2. september 1917 Dáinn 26. ágúst 1982 I dag fer fram frá Fossvogs- kirkju útför Baldurs Eyþórs Ey- þórssonar, forstjóra Prentsmiðj- unnar Odda. Hann hefði í dag orð- ið 65 ára gamall ef ævibraut hans hefði orðið lengri. Baldur fæddist að Sólheimum í Vestmannaeyjum 2. september 1917. Foreldrar hans voru Hildur Margrét Vilhjálmsdóttir og Eyþór Þórarinsson lengi verkstjóri í Vestmannaeyjum og víðsvegar um land í þjónustu Vitamálastofnun- arinnar. Ég kynntist Eyþóri all- náið seint á fjórða tug þessarar aldar, þegar hann var verkstjóri við hafnargerð í Hafnarfirði. Ey- þór var harðduglegur, hygginn og velmetinn verkstjóri, traustvekj- andi, úrræðagóður, hvasseygur, orðfár en athugull. Hann naut óskoraðs trausts þáverandi vita- málastjóra, sem þá var Emil Jóns- son, áður bæjarstjóri í Hafnar- firði. Þessar eigindir Eyþórs erfði sonurinn Baldur í ríkum mæli á starfsferli sínum í áratugi. Baldur Eyþórsson fluttist til Reykjavíkur með foreldrum sínum ungur að aldri og hóf prentnám í Isafoldarprentsmiðju 1933. Námi lauk hann frá Iðnskólanum í Reykjavík 1937. Hann starfaði í Isafoldarprentsmiðju til 1940 og í Alþýðuprentsmiðjunni til 1943 og hafði þá lokið sveinsprófi og hlotið meistarabréf í prentiðn. Eftir það var hann ekki lengur ásáttur að vera annarra þjónn og stefnan var mörkuð ákveðin og krókalaust til forystu í sinni starfsgrein. Því marki náði hann með miklum sóma, þó að æviárin yrðu ekki fleiri og þrálát sjúk- dómsbarátta í þrjú ár að undan- förnu hafi verið þrándur í götu hins glaðsinna athafnamanns. Árið 1943 stofnaði Baldur Prentsmiðjuna Odda, ásamt tveimur starfsfélögum sínum í prentarastétt, Ellert Ágústi Magnússyni og Björgvin Bene- diktssyni og Finnboga Rút Valdi- marssyni, er þá var framkvæmda- stjóri Menningar- og fræðslu- málaráðs alþýðu. Var Baldur valinn af þeim fé- lögum til þess að veita hinu nýja fyrirtæki forystu og fram- kvæmdastjórn. Prentsmiðjan var fyrst til húsa í leiguhúsnæði á Freyjugötu 41, þar sem nú er Ásmundarsalur. Fljótlega reyndist húsnæðinu of þröngur stakkur sniðinn hinni ört vaxandi starfsemi þeirra félaga. Var þá ráðist í að kaupa húseign Egils Vilhjálmssonar á Grettis- götu 16 en þar óx starfsemin jafnt og þétt og kom að því að þörf var á enn stærra húsnæði og keypti fyrirtækið þá húseign Sameinuðu verksmiðjanna, er Magnús Víg- lundsson, stórkaupmaður og verk- smiðjueigandi, hafði reist við Bræðraborgarstíg og einnig síðar næstu húseign við sömu götu, þá í eigu SÍBS. Öll sagan er hér ekki rakin um húsnæðisþrengsli Prentsmiðjunn- ar Odda. Næst var hugað að ný- byggingu og á síðastliðnu ári fluttist prentsmiðjan í glæsilega nýbyggingu, er reist hafði verið að Höfðabakka 7 í höfuðborginni. Þar er nú rekin ein stærsta og fullkomnasta prentsmiðja á Norð- urlöndum. Sárþjáður og sjúkur, oft á tím- um, ýmist í sjúkrahúsi eða heima leysti Baldur þetta þrekvirki af höndum. Að þeim störfum loknum virtist heilsa hans á batavegi og bjartari framtíð í lífi hans í sjón- máli. En þá var klippt á örlaga- þráð ævinnar. Baldur Eyþórsson var mikill fé- lagshyggjumaður, víðsýnn og vel viti borinn, fylginn sér, áhuga- samur og áræðinn. Oftast í forystusveit og jafnan tillögugóð- ur. Valdist hann til margháttaðra trúnaðarstarfa, einkum meðal stéttarfélaga sinna. í stjórn Hins íslenska prentarafélags var hann 1939 til 1943, í stjórn Félags ís- lenskra prentsmiðjueigenda frá 1945 og formaður frá 1954 til 1976. Formaður var hann í skólanefnd Iðnskóians í Reykjavík 1964. Hann starfaði mikið í Alþýðu- flokknum, átti sæti í miðstjórn flokksins um hríð, var kjörinn fulltrúi flokksins í bankaráði Bún- aðarbanka íslands og átti Jiar sæti á annan áratug. I stjórn Áburðar- verksmiðju ríkisins átti hann einnig sæti. Ég kynntist Baldri Eyþórssyni er hann var starfsmaður Isafold- arprentsmiðju á árunum 1936 til 1937. Ég var þá í ritnefnd Banka- blaðsins, sem þá var prentað þar. Síðar var ég ritstjóri Bankablaðs- ins er það var prentað í Odda á fyrstu árum prentsmiðjunnar og um langt skeið síðar. Það atvikaðist svo að ég gerðist meðeigandi í prentsmiðjunni Odda og keypti ásamt vini mínum, Jóni Magnússyni, hlut Finnboga Rúts Valdimarssonar og bættust þá í hópinn Egill Thorarensen, kaupfélagsstjóri á Selfossi, og Ólafur Þorsteinsson, stórkaup- maður í Reykjavík. Síðar seldum við fjórir hluti okkar Gísla heitn- um Gíslasyni, stórkaupmanni í Vestmannaeyjum, æskuvini og frænda Baldurs Eyþórssonar. Ég naut mikillar ánægju, lær- dóms og haldgóðrar reynslu af kynnum mínum og samstarfi við Baldur Eyþórsson. Allt vannst vel í hans höndum. Baldur Eyþórsson var glaðlynd- ur, sviphýr, mildur, velviljaður og hjálpsamur þeim er til hans leit- uðu aðstoðar og ásjár. Hann var sannur maður, hreinskilinn, hugljúfi í umgengni og trygglyndur í vináttu. Baldur kvæntist Sigríði Þor- geirsdóttur, ættaðri úr Reykjavík, 31. október 1942. Þau slitu sam- vistum. Börn þeirra eru Þorgeir, framkvæmdastjóri í Odda, kvænt- ur Rögnu Maríu Gunnarsdóttur, Eyþór, flugmaður, kvæntur Gyðu Ólafsdóttur, Hildur, húsmóðir, gift Bjarna Finnssyni, kaupmanni í Blómavali, Hilmar, viðskipta- fræðingur og flugmaður, kvæntur Vigdísi Hauksdóttur og Sólveig háskólanemi. Sambýliskona Baldurs var hin síðari ár, Steinunn Guðmunds- dóttir úr Hafnarfirði. Var hún honum mikill styrkur í veikindum hans að undanförnu og annaðist hann af einlægni og ástúð. Fyrir það á hún alúðarþakkir skilið. Á kveðjustund þegar kirkju- klukkurnar óma við útför Baldurs Eyþórssonar kallar hugurinn fram þakkir fyrir fagurt líf og ljúfar endurminningar. Ástvinum og öðrum, sem eiga um sárt að binda sendi ég einlæg- ar samúðarkveðjur. Adolf Björnsson Baldur í Odda er allur. Skarð er nú fyrir skildi. Baldur Eyþórsson var fæddur í Vestmannaeyjum hinn 2. septem- ber 1917, sonur hjónanna Eyþórs Þórarinssonar, verkstjóra þar, og konu hans, Hildar Margrétar Vilhjálmsdóttur. Baldur lauk prentnámi 1937 og meistarabréf í iðngrein sinni fékk hann 1942. Prentsmiðjuna Odda stofnaði Baldur ásamt tveim öðrum prent- urum, árið 1943. Var hann lengst af upp frá því kenndur við þetta reisnarlega fyrirtæki, enda for- stjóri þess allt frá öndverðu. Dugmikil stjórn Baldurs á prentsmiðjunni Odda leiddi brátt til þess að fyrirtækið varð eitt hið stærsta hér á landi, og er nú svo komið, að það er búið flestum nýj- ustu tækjum, sem þekkjast í prentiðn. Öll starfsemi þessa myndarlega fyrirtækis var fyrir aðeins rúmu ári flutt í nýreist stórhýsi, að Höfðabakka í Reykja- vík. En enginn verður óbarinn bisk- up og sannast það vel á Baldri. Vinnuálag hans var með ólíkind- um og segja má, að árum saman hafi hann lagt nótt við dag. Þá varð ekki vikist undan ýms- um trúnaðarstörfum, enda Baldur, sakir gáfna sinna og glæsi- mennsku, sjálfkjörinn til marg- víslegra forystustarfa. Ekki verða þessi störf né heldur æviferill þessa merka manns hér talinn nema að mjög litlu leyti, enda slíkt ógjörningur í stuttri minn- ingargrein. Þó skal nefnt, að Bald- ur sat um árabil í bankaráði Bún- aðarbanka Islands, í miðstjórn Al- þýðuflokksins, í stjórn Hins ís- lenska prentarafélags og einnig var hann um skeið formaður í Fé- lagi íslenskra prentsmiðjueigenda. Fjölmörg voru þau störf önnur, sem Baldur lagði gjörva hönd á og ekki verða hér talin, en fullyrða má að hann var góður liðsmaður hverju því málefni sem hann veitti brautargengi. Baldur Eyþórsson bar persónu- töfra, sem engum gleymast þeim er honum kynntust. Manna mest- ur að vallarsýn, svipurinn hreinn, svo að engum duldist að hér fór drengskaparmaður. Baldur var góðum gáfum gædd- ur og þrátt fyrir takmarkaða skólagöngu er mér kunnugt um, að hann las og talaði nokkur tungu- mál. Þá var hann allra manna fróðastur um sögu lands og þjóðar og gjörkunnur félagsmálum sam- tíðar sinnar. Baldur Eyþórsson var mikill til- finningamaður. Lagði hann lítil- magnanum lið hvenær sem færi gafst, og veit ég að margir munu nú, þegar jarðnesk ævi hans er öll, minnast með hlýju og þakklæti drengskaparmannsins, sem dugði, þegar fokið var í flest skjól. Baráttumaður var Baldur mik- ill, en drengilegur og málefna- legur var hann ætíð í málflutningi sínum. Rógur og illmælgi voru honum andstyggð, enda var hann manna sáttfúsastur. Trúmaður var Baldur mikill og treysti ávallt handleiðslu Guðs. Baldur kvæntist hinn 31. októ- ber 1942 sómakonunni Sigríði Þor- geirsdóttur og eignuðust þau fimm mannvænleg börn, tvær dætur og þrjá syni, sem öll eru á lífi. Síðari kona Baldurs er Steinunn Guðmundsdóttir. Steinunn reynd- ist manni sínum með eindæmum vel í löngu og erfiðu sjúkdóms- stríði hans. Við hjónin vottum öll- um ættmennum Baldurs okkar dýpstu samúð í sárum harmi þeirra. Megi Guðs friður fylgja honum. B.Ö. Flestum okkar mun þann veg farið, þegar við fréttum lát vina okkar og kunningja, að hugur hvarflar aftur til fyrstu kynna og minnisstæðustu atburða, sem síð- ar áttu sér stað í samskiptum við hinn látna, meðan leiðir lágu enn saman. Ekki þurfti ég að láta segja mér andlátsfregn vinar míns og frænda Baldurs Eyþórssonar þrisvar eins og fornsögur greina, svo vel gat ég fylgst með fádæma langri baráttu hans við „manninn með ljáinn" þar sem barist var af Baldurs hálfu með svo undraverð- um árangri, að jafnvel færustu menn iæknavísindanna áttu á því engar skýringar. I rúmlega tvö ár átti hann ótaldar ferðir á sjúkrahús og læknar gáfu nánustu aðstandend- um litlar og á stundumængar von- ir um afturkomu hans. Áftur og aftur voru tvísýnar orrustur háð: ar, sem lauk með stundarsigri. í krafti viljafestu ríkrar skapgerðar hóf Baldur störf sín á ný, hann átti enn ólokið göngu sinni að settu marki, að koma fyrirtæki sínu, prentsmiðjunni Odda, í nýtt og viðunandi húsnæði og afla þess tækjabúnaðar, sem bestur þekkist í þeirri starfsgrein hér á landi, og stenst hann að umsögn fróðustu manna samanburð við það besta í flestum nágrannalöndum okkar. Úr lítilli og takmarkaðri prentsmiðju, við alls ófullnægj- andi húsakost á tveimur stöðum í borginni, tókst honum og sam- starfsfólki hans að koma upp risa- fyrirtæki í iðninni, a.m.k. á is- lenskan mælikvarða. Þegar menn í dag líta á vinnu- aðstöðu og skoða framleiðslu prentsmiðjunnar Odda, skyldi þess minnst, að þar að baki liggur 39 ára þrotlaust starf. Með þessar staðreyndir í huga verður enn- fremur ljóst, að hér var ekki um byltingu að ræða, heldur mark- vissa þrautseigju, sem fólst m.a. í því að kunna ekki að gefast upp og missa aldrei sjónar á því marki, sem að var stefnt. Tvímælalaus leiðtogi þessarar heillavænlegu þróunar var Baldur Eyþórsson, en allan þennan tíma hélt hann um stjórnvölinn. Fyrstu kynni okkar Baldurs áttu sér stað um svipað leyti og hann vann að stofnun prentsmiðj- unnar Odda, ásamt tveim félögum sínum, þeim Björgvin Benedikts- syni og Ellert Ág. Magnússyni. Ekki var það þó í gegnum prent- iðnina, sem leiðir okkar Baldurs lágu fyrst saman, heldur samstarf um sameiginlegar þjóðmálaskoð- anir innan Alþýðuflokksins, þegar ég var nemi í múraraiðn og var þar að feta mín fyrstu spor. í kjölfar þessara fyrstu kynna, áttum við eftir að eiga ótaldar samverustundir, allt frá minni- háttar fundum á vegum flokksins upp til heimila okkar. Kynni okkar höfðu varað nokkur ár, er við urðum þess áskynja, að jafn- framt sameiginlegum skoðunum í þjóðmálum, vorum við náskyldir, en fram til þess tíma var flest annað rætt okkar í milli en ætt- fræði. En ekki dró frændsemin úr þeim kunningsskap okkar, sem skapast hafði, en leiddi hinsvegar til órofa vináttu okkar í milli. í gegnum þetta einlæga vináttu- tímabil átti ég þess góðan kost að kynnast persónunni og manninum Baldri Eyþórssyni, jafnt í meðbyr sem andbyr okkar beggja persónu- lega, eða sameiginlegum hugðar- efnum við ýmis trúnaðarstörf. Prentiðn lærði Baldur í ísafold- arprentsmiðju árin 1933—1937 og lauk þá jafnframt prófi úr Iðn- skólanum í Reykjavík. Fljótlega að námi loknu var hann kjörinn í stjórn Hins íslenska prentarafé- lags og sat þar í 3 ár, ennfremur var á vegum HÍP fjöldi trúnað- arstarfa, er Baldur tókst á hendur fyrir starfsgrein sína og félag, sem hér verður ekki gerð full skil, m.a. sat hann í stjórn Lífeyris- sjóðs prentara óslitið frá 1960. Stjórnarmaður í Félagi ísl. prentsmiðjueigenda 1945—52 og formaður þar frá árinu 1960. Af öllum þeim störfum, er hann tókst á hendur fyrir starfsgrein sína, óx hann að trausti og virð- ingu. Auk framantalinna starfa, sem þó hvergi nærri eru tæmandi upp- talning, voru Baldri falin ýmis opinber störf af hálfu Alþýðu- flokksins. Hann sat í bankaráði Búnaðarbanka íslands í 13 ár eða frá 1960—1973, varð formaður skólanefndar Iðnskólans 1964, svo að nokkuð sé nefnt. Öll þessi trúnaðarstörf, og er þó margt ótalið, vann Baldur utan annaríks vinnutíma í fyrirtæki sínu, Prentsmiðjunni Odda. Þessi trúnaðarstörf, sem hér hafa verið nefnd, eru ljós vottur þess trausts, sem samtíðarmenn hans báru til hans, enda brást hann því aldrei. í miðstjórn Alþýðuflokksins átti Baldur sæti um nokkurra ára skeið og er þeim, sem þetta ritar, vel kunnugt um hve traustur og nýtur liðsmaður hann var þar, ekki síst á erfiðleika- og óvissu- tímum varðandi útgáfu Alþýðu- blaðsins og framtíð þess. í einkalífi sínu var Baldur gæfu- maður. Árið 1942 kvæntist hann ágætiskonunni Sigríði Þorgeirs- dóttur, og eignuðust þau 5 mann- vænleg börn, sem öll eru nú upp- komin og vonandi njóta ávaxtanna af gifturíku uppeldi. Fyrir átta árum slitu þau Bald- ur og Sigríður samvistum. Árið 1974 stofnaði Baldur heimili með Steinunni Guðmundsdóttur, sem reyndist honum í hvívetna hinn tryggasti förunautur, og þó mest og best, þegar mest á reyndi í hinu langvinna stríði í veikindum hans, jafnt innan heimilis og á sjúkra- húsum. Steinunn lagði nótt með degi til að létta Baldri þungbæra sjúkdómsbaráttu í einlægri sam- vinnu við börn hans. Mörgum okkar er þann veg farið að vilja brynja okkur með eins- konar varúðarskel. Þetta lífsform er á stundum misskilið og það fólk, sem þannig er gert, er ekki talið nógu greitt aðgöngu. Baldur Eyþórsson var einn þeirra, sem tók á verkefnum sín- um jafnt og vináttutengslum við einstaklinga með varfærni lífs- reynslu sinnar. Við fyrstu kynni kann því einhverjum að hafa fundist sem hann væri „ekki allra" eins og sagt er. Öllum þeim mörgu, sem þurftu með einum eða öðrum hætti að hafa samskipti við hann, ber þó saman um, að á traustari og orðheldnari mann yrði ekki kosið. Allt stóð sem staf- ur á bók, sem hann tók að sér. Allar málalengingar voru honum lítt að skapi og hann kaus heldur raunhæfar athafnir. Þessar kröf- ur gerði hann ekki aðeins til þeirra, sem hann hafði samskipti við, heldur fyrst og fremst til sjálfs sín. Baldur uppskar ríkulega svo sem hann sáði, jafnt í barnaláni sínu sem í starfi. Undir „varúðarskelinni" sló við- kvæmt og skilningsríkt hjarta Baldurs, sem ávallt reyndist al- búið að aðstoða og greiða úr vanda samfylgdarfólksins. Sjaldan sá undirritaður hann þó innilega glaðari og ánægðari en í sívaxandi hópi barnabarna sinna, þar sem hann eygði vaxtarbrodd framtíð- arinnar. Svo sem ljóst má vera af fram- ansögðu, bar Baldur Eyþórsson ekki tilfinningar sínar á torg. Baldur hafði það lífslán að halda allt til hinstu stundar ein- lægri trú sinni, fullviss um að betra líf tæki við að lokinni jarð- vist hér. Þessar skoðanir hans voru honum svo helgar, að ekki voru þær látnar í ljós, nema í þröngum vinahópi, en reyndust honum mikilvægastar og ómetan- legur styrkur í andbyr og tvísýnu. Nú, er leiðir skilur um lengri eða skemmri tíma, er mér ljúft að minnast drengskaparmannsins Baldurs Eyþórssonar, sem ávallt var hægt að leita til þegar í nauð- imar rak um úrlausn vandamála, er manni virtust nánast óyfirstíg- anleg. í hinni daglegu lífsbaráttu eig- um við svo oft takmörkuðum skilningi að fagna, en á erfiðleika- stundum reis tryggð og vinátta Baldurs hæst. Skarð, sem vandfyllt er, hefur verið rofið í þá verndarveggi, er áður hlífðu vinum Baldurs Ey- þórssonar, en orðstír hans lifir áfram hjá niðjum hans og vinum. Ástvinum Baldurs og ættingjum öllum votta ég dýpstu samúð, um leið og færðar eru einlægar þakkir fyrir ómetanlega samfylgd, traust, tryggð og sanna vináttu. Hvíl þú í friði, friður guðs þig blessi. Eggert G. Þorsteinsson í dag kveðjum við Baldur Ey- þórsson prentsmiðjustjóra og minnumst hinna margþættu starfa hans í íslensku athafnalífi og þó einkum í þágu íslensks prentiðnaðar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.