Morgunblaðið - 13.04.1983, Side 23
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 13. APRÍL 1983
Rödd húsfreyju úr
Helgafellssveit t
Ég horfi til fjallanna. Þaðan
hafa oftast ómað ljúfustu lögin
og heyrzt viturlegustu, orð og
ráð. Völvuspár vona, trúar og
ástar á vængjum framtíðar, það-
an kemur hjálp. Og þessi orð eru
vermd af skilningi og þökk, sem
veitir styrk inní örmegni þess,
sem veit sig vera að gleymast í
ys strætanna og tölvutuldri í
kontórum, bönkum og býkúpum
samfélags í borg.
Einmitt slíkt bergmál barst
mér i bréfi, sem ritað var af hús-
freyju ættaðri úr Helgafellssveit
íslands í þess orðs eiginlegu —
og um leið táknlegu merkingu.
Bréf frá konu, sem gegnt hefur
helgustu embættum þessa lands
um aldaraðir:
Húsfreyja og móðir.
Þar var unnið og fórnað við
altari gestrisninnar og lifsins.
Og alltaf hugsað meira um að
gefa en þiggja. Fremur óskað af
hjarta að veita, en að krefjast.
Alltaf spurt: „Hvað get ég gert
fyrir þig?“ með hlýjum rómi og
blíðu brosi. En sjaldan sagt:
„Hvað getur þú gert fyrir mig?“
með glotti græðginnar.
Þar varð aldrei svo allslaust
að bezti bitinn gleymdist handa
gestum og gangandi. Og undir
leiðsögn húsfreyju úr Helga-
fellssveit breifirzkra fjarða og
dala, varð um aldir aldrei svo
aumt, að börn væru borin út eða
kyrkt í móðurkviði, eins og þeim,
sem gleymt hafa eða lítilsvirt
hlutverk húsfreyju og móður,
hefur tekizt að fá samþykkt á
sjálfu Alþingi þessarar frjálsu
þjóðar við auðlindir hafs og
hauðurs nú.
í þetta sinn langar mig til, að
þeir sem líta út um gluggann
minn, fái að virða fyrir sér þær
myndir, sem bréfritara úr ís-
lenzkri sveit eru hugstæðastar á
13. kvöldi jóla í upphafi ársins
1983.
Þær verða bæði jákvæðar og
neikvæðar. Bæði um það, sem ís-
lenzka þjóðin ætti að varðveita,
og það sem verður að varast.
Kemur þar strax í ljós, hve út-
sýnið er mikið nú og gjörbreytt
frá því, sem áður var á íslenzkri
kvöldvöku í íslenzkri baðstofu.
Tek ég þá fyrst það, sem henni
finnst hættulegast og hræði-
legast og nota að mestu hennar
eigið orðalag. Hún skrifar:
„í haust var ég stödd fyrir
framan sjónvarp í stofu hjá
vinafólki mínu.
Á skerminum voru frétta-
myndir frá Beirut. Fjöldamorð-
unum í þessu ógæfusama landi,
þar sem fólki virðist vera slátrað
í hópum daglega, ekki sízt í
flóttamannabúðunum.
Á knjám mér sat sex ára göm-
ul telpa. Ekki þarf hér að lýsa
þeirri sjón, sem þarna blasti við
augum okkar.
Áhrifin voru svo ömurleg, að
ég skil það ekki ennþá, að við,
sem þarna sátum, skyldum ekki
standa upp og loka fyrir þennan
hrylling.
En það var öðru nær. Við sát-
um þarna stjörf og störðum með
viðbjóði og skelfingu. Og telpan
titraði af hræðslu.
Loks stundi hún upp hálfgrát-
andi:
„Af hverju er farið svona ægi-
lega með fólkið og börnin líka?
Hvað hafa þau gert?“
Þá var eins og við vöknuðum
upp af martröð. Við færðum
okkur frá þessum skelfingum
mannlegrar grimmdar.
En blessuðu barninu varð að
orði:
„Ég veit mig dreymir þetta í
nótt.“
Á þessu heimili vildi til, að
bænir eru lesnar með börnunum
á kvöldin, þegar lagzt er til
svefns. Og nú var henni sagt, að
góðir englar Guðs mundu koma
til hennar og leiða hana um
ljóssins heima í fögrum draumi.
Bezti vinur barnanna mundi
vernda hana frá öllu illu.
En ekki eru öll börn svona
lánsöm. Og hvernig fer þá? Og
svo er farið að hugsa: Hverjum
er þetta að kenna? Hvers vegna
er svona lagað gert? Þarf ekki
miklar skýringar, svo þetta verki
jákvætt? Og hver verða svörin?
Hvað skapa þau í saklausri
barnssál? Hvers vegna marg-
faldast nú voðaverk á íslandi?
Jafnvel í íslenzkri sveit? Er
óhætt að demba þessum hryll-
ingi inn á heimilin dag eftir dag
og langt fram á nætur? Gæti
þetta ekki verið til niðurrifs á
trú og siðgæðisvitund þessarar
þjóðar, sem ég hef þó treyst til
að greina rétt frá röngu, sann-
leika frá lygi? Þarna er að mínu
mati farið inn á miklar hættu-
slóðir og ógæfubrautir.
Og hættan margfaldast, þegar
myndbönd og eiturlyf eru látin
flæða eftirlitslítið yfir landið og
komandi kynslóð. Það er næst
því að grimmdin og villimennsk-
an séu settar í hásæti, en traðk-
að og hlegið að því sem heilagt
er.
Móti slíku verður að berjast í
ræðu og riti, útvarpi og sjón-
varpi. Þar verða hinir vitrustu
og færustu að ganga fyrir
skjöldu á hólm við þessi ósköp og
reyna að stöðva heimsku og
sýndarmennsku, sem er hinn
mikli ógnvaldur æskunnar."
Að mati húsfreyjunnar úr
„Helgafellssveit" er þarna vand-
inn mestur.
En það er margt fleira, sem
hin haukskyggna sjón hennar
eygir.
Það mætti fela næsta atriði
undir yfirskriftinni „Litla þjóð
sem átt í vök að verjast, vertu ei
við sjálfa þig að berjast."
Hún heldur áfram:
„Allir verða að halda vöku
sinni, en jafnframt að leggja sitt
fram. Þar gildir samstaða og
samstarf til að efla mátt trúar og
kærleika í landinu. Þar finnst
mér foringjar okkar, þingmenn
og stjórnendur þurfi að vaka
betur á verði. Mættu vera um-
fram allt jákvæðari og samtaka í
trú sinni á landið, kosti þess,
auðlindir og sérstöðu, þakklátari,
bjartsýnni.
Það er sorglegt að heyra nær
daglega gert lítið úr gæðum
lands og þjóðar. Ef ekki eru met
í afla og framleiðslu ár fram af
ári, er líkt og allt sé að farast.
Miðað við baráttu kynslóða fyrri
alda við örbirgð, eldgos, ísa og
drepsóttir, er undariegt að
hlusta á slíkt raus á öld alls-
nægtanna.
Og svo á hinn veginn. Allt tal-
ið um offramleiðslu bæði á sjó
og landi i heimi, sem fólk er í
frjósömustu löndum að farast úr
hungri. Skyldi ekki mega lækka
vörur í verði, svo að allt gengi út
fyrir góðan skilding samt!
Þetta vanmat annars vegar og
ofmat eða kröfur hins vegar er
stórhættulegt.
Fólkið tekur þá framleiðslu og
vörur annarra þjóða fram yfir
sína eigin. Hætti þjóðin að vera
sjálfri sér trú, heimtar útlendan
neyzluvarning og kastar höndum
að sinni eigin vöruvöndun, þá er
hinn dýrmæti þjóðarauður í
voða. Úrvals landbúnaðarafurðir
og fjölbreytni sjávaraflans með
öllum sínum dásamlegu gæðum,
sem gætu borið af í allri veröld.
Allt sett í voða, hreinlega van-
metin og vanþökkuð gæði. Þar
sem þó sannarlega má gera mik-
ið úr litlu, ef gætt er nýtni og
nægjusemi.
Þarna er um brenglað verð-
mætamat að ræða. Þróun, sem
verður að stöðva.
Trúin á landið er hornsteinn
og kjölfesta í senn. Og fólkið
þarf að meta mest og gera sem
bezt úr öllu, sem landið og djúp-
in leggja því í hendur. Þegar
auðlindir eru eitthvað naumari
eitt árið en annað, verður að
nýta betur það sem gefst og
stöðva bókstaflega innflutning
þess varnings, sem unnt er að
Á toppi Helgafells.
vera án eða framleiða með öðr-
um hætti í landinu sjálfu. „ís-
land fyrir íslendinga.“ Aldrei að
láta taumlausar kröfur og
stjórnleysi ráða og skella svo
skuldinni á landið, ef ekki fer vel
að óskum.“
Svona tekur íslenzka sveita-
konan af meðfæddri speki alda
og kynslóða, eitt af öðru fyrir.
Gerir því skil eins og sjónarmið
sveitarhöfðingja á helgisetrum
liðinna alda ættu þar að verða
fyrirmynd á stórbýlinu, íslenzka
ríkinu á 20. öld.
Um æskulýðinn hefur hún
þetta að segja:
„f uppeldinu stefnir því miður
um of til hópkenndar og múg-
sefjunar. Þar verður að gæta sín.
Þar verður einstaklingur að fá
að njóta sin, bæði krafta sinna
og gáfna. Og að dáðum og dug,
gáfum og gjörvileika stendur ís-
lenzk æska á hæstu þrepum
meðal þjóðanna. Já, henni er
ætlað mikið verk að vinna.
Glæða þarf eftir mætti áhuga
hennar og ábyrgðartilfinningu.
Og þá ekki sízt ábyrgð eigin
gerða, óska og athafna í námi og
starfi. Og svo samstarfi ein-
staklinganna í smáu og stóru á
öllum sviðum hins frjálsa sam-
félags.
Æskan okkar er gáfuð og
glæsileg, og henni ber að fást við
verðug verkefni hugar og hand-
ar. En það er einkum á einu
sviði, sem þó virðist óskheimur
allra, sem verður að fara varlega
í öllum þjóðarbúskapnum. Það
er hin svonefnda tæknivæðing.
Þar verður umfram allt að
skapa víðari starfsvettvang. Við
viljum vélar og véltækni. En við
viljum ekki skipta á mönnum og
vélum. Vélin má aldrei stjórna
mönnum né svipta þá hugsun og
tilfinningu eða tækifærum. Það
má aldrei gleymast að ala fólkið
upp til virkra starfshátta, en
ekki til hinnar stórhættulegu
tölvuvæðingar, sem nú æðir yfir
iandið, og sjálf manneskjan
gleymist innan um vélmennin
eða breytist bókstaflega í „rób-
óta“, eða hvað það er kallað
þetta sálarlausa fólk í fjöldan-
um.
Sé þar ekki gætt að hafa bæði
hóf og mát og hafa á öllu gætur,
verður öllu snúið við. Vanmat á
gildi huga og handar skapar hið
versta böl með aðgerðaleysi og
atvinnuleysi. Hvað er líf og hvar
er gæfa án starfs og starfsgleði í
vitund fólksins?
Var hún ekki þrátt fyrir allt
sú lífæð og aflgjafi, sem í ald-
anna rás fleytti þessari þjóð yfir
bylgjur og boðaföll. Gaf hinni
vinnandi hönd það almætti, sem
þurfti til að ljúka störfum sigri
hrósandi yfir erfiðustu aðstæð-
um með trúmennsku og skyldu-
kvöð að verkstjórum."
Til skýringar þess, hvers
vegna þessi „rödd húsfreyju úr
Helgafellssveit" heyrist hér „við
g!uggann“ í dag þarf aðeins upp-
haf bréfsins frá henni:
„Komdu sæll og blessaður sr.
Árelíus.
Þær stundir, sem fólkið á
landsbyggðinni á þess kost að
hlusta á þig og lesa greinar þín-
ar eru mörgum mikils virði.
Það voru morgunbænirnar
þínar í vetur, sem knúðu mig til
að skrifa þér nokkrar línur í
friði kvöldsins. Það er svo gott
að geta mætzt og notið næðis í
þakkaróði til föður á himnum.
Og nú langar mig að þakka
þér, og ég veit, að ýmsir taka
undir.
Ég hef lesið greinar þínar um
áratugaskeið. Fyrst í Tímanum,
sem bar yfirskriftina: „Þáttur
kirkjunnar" og síðan allt, sem ég
hef séð. Ég hef aldrei séð þessi
ritstörf þín þökkuð né um þau
rætt af gagnrýnendum, þótt þau
geti vafalaust fyllt margar bæk-
ur. En með þessum línum, sem
ég bið þig að afsaka, — ég hef
ekki haft mikinn tíma til skrifta
— vildi ég þakka þér, hve oft þú
hefur lyft huga og hjarta til
hæða, og ekki síður til umhugs-
unar hversdagsins um hinn rétta
veg einstaklings og þjóðar. Ég
vona og veit, að ég á margar
skoðanasystur og -bræður.
Mig langar því að láta nokkrar
skoðanir mínar á þessi blöð og
senda þær til þess manns, sem
bezt hefur tekizt minna samtíð-
armanna að ná til fólks bæði í
ræðu og riti, í ljósi sannleika og
mannkærleika. Þú athugar allt
og lýsir á frjálslegan hátt öllu,
sem mannshugur nemur, og læt-
ur þér ekkert mannlegt óviðkom-
andi. Gengur um meðal fólksins
og reynir að kynnast gleði þess
og sorgum, raunum og baráttu.“
Ég þakka þessari ókunnu rödd
íslenzkrar Helgafellssveitar
þetta óverðskuldaða hrós um
mínar gömlu greinar, sem samt
hafa borizt með blæ lífs um
landið. Lifi hún heil og sæl, sem
húsfreyja og móðir, sem leiði
börn íslands á vegum vorsins.
Reykjavík, 14. febrúar 1983.
Árelíus Níelsson.
Frá Áfengisvarnaráði:
Áhrif hækkunar lög-
aldurs til áfengiskaupa
Breytingar á áfengisneyslu má
að stórum hluta skýra með
breytingum á áfengismála-
stefnu, eru niðurstöður sem Esa
Österberg við Áfengisrannsókn-
arstofnun ALKO (Áfengisverslun
ríkisins) í Finnlandi setur fram í
nýrri skýrslu. Stofnunin heldur
því fram að hækkun áfengis-
verðs um 1 af hundraði leiði til
0,7% minni neyslu, sé öðrum
áhrifaþáttum haldið stöðugum
(óbreyttum).
Áhrif afnáms á sölu milliöls
hafa verið athuguð gaumgæfi-
lega. Sjötíu af hundraði þess
áfengismagns, sem menn neyttu
áður með drykkju milliöls, fá
menn nú með að neyta annarra
áfengistegunda. Heildarneyslan
minnkar hinsvegar um 8%, segir
i skýrslunni. Þessar breytingar
hafa litla þýðingu hvað varðar
heildaráfengisneyslun í Finn-
landi, þar sem þau sveitarfélög
sem bannað hafa sölu á milliöli
eru í þeim hlutum landsins þar
sem fólk hefur frá fyrri tíð verið
talið hvað bindindissamast og
aðgætnast í fjármálum.
ALKO hefur haft sölustaði
sína lokaða á laugardögum að
sumrinu frá árinu 1977. Síðan þá
hefur orðið marktæk minnkun á
áfengisneyslu. Áætlað er að
minnkun heildarneyslunnar
þann tíma, sem laugardagslok-
unin varir, nemi 2—3 af hundr-
aði. Ekki er merkjanleg aukning
á neyslu heimagerðs áfengis eða
áfengis sem kemur á markaðinn
eftir öðrum ólöglegum leiðum.
Vorið 1972 var verkfall í sölu-
búðum ALKO. Það hafði þó eng-
in áhrif á veitingahús og sölu-
staði fyrir milliöl. í skýrslunni
segir að áætla megi að neyslan
hafi minnkað um 30 af hundraði
vegna verkfallsins.
í byrjun 8. áratugarins jukust
verulega möguleikar á að ná í
áfengi í Finnlandi, en nokkur
stöðugleiki virðist nú kominn á.
Hversu auðvelt er að ná í áfengi
virðist hafa áhrif á neysluna.
Þessar niðurstöður koma heim
við eldri rannsóknir á áhrifum
ákveðinnar áfengismálastefnu,
segir í þessari finnsku skýrslu.
...- (Folket 3. nóv. 1983.)