Morgunblaðið - 12.05.1983, Síða 6
54
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 12. MAÍ 1983
Bláa lónið í Svarteengi:
Heilsustöð og baðstaður
psoriasis- og exemsjúklinga
eftir Valdimar ólafs-
son, formann Sam-
taka psoriasis- og ex-
emsjúklinga
Vegna hinna fjölmörgu fyrir-
spurna sem Samtökum psoriasis-
og exemsjúklinga hefur borist um
afstöðuna sem samtökin hafa
fyrir félagsmenn sína í Svartsengi
langar mig til að koma á framfæri
nokkrum uppiýsingum um þessa
aðstöðu.
Það munu vera um tvö ár frá því
að fólk fór að prófa vatnið í Bláa
lóninu, með því að synda í vatninu
og bera á sig kísilinn sem á botn-
inn fellur. Vegna veðurs og ófull-
kominnar aðstöðu hafa þó komið
þeir kaflar á þessum tveimur ár-
um sem ekki var hægt að stunda
lónið sem skyldi, t.d. um hávetur
vegna kulda og ófærðar. Einnig
hefur komið í ljós, að með psorias-
is á háu stigi nær ekki árangri
nema með því að stunda lónið
reglulega, þ.e. dagiega í allt að 3
til 4 vikur í senn. Samt sem áður
er óhætt að fullyrða að lónið hefur
eitthvað það til að bera sem hjálp-
ar psoriasissjúklingum til að
halda sjúkdómnum í skefjum. Við
þekkjum dæmi þess að maður með
psoriasis á háu stigi náði sér alveg
góðum með því að fara reglulega í
lónið í nokkrar vikur, og síðan hef-
ur hann haldið sjúkdómnum niðri
með því að fara að jafnaði tvisvar
í viku.
Ýmis vandamál hafa komið upp
á þessu tímabili, sum hefur okkur
tekist að leysa en önnur bíða enn
úrlausnar, ýmist vegna fjárskorts
svo og að enn frekari reynslu er
þörf til að geta leyst þau. Má þar
sérstaklega nefna að hitastig lóns-
ins getur sveiflast verulega til.
Fróðir menn fullyrða þó að með
aukinni þekkingu verði hægt að
leysa það mál.
Aðstaða okkar þarna suðurfrá
hefur til þessa verið mjög frum-
stæð. Við fengum lánaðan vinnu-
skúr frá ístak hf. sem við höfum
notað fram að þessu sem bún-
ingsklefa, en nú í mánuðinum
munum við taka í notkun hús sem
við fengum að láni frá Sjúkrahús-
inu í Keflavík. Með tilkomu þessa
húss geta mun fleiri athafnað sig
samtímis og er í raun ætlunin að
reyna að koma af stað hópferðum
frá Reykjavík til að halda kostn-
aði niðri. Þessi tilraun mun verða
gerð í samvinnu og samráði við
landlækni, m.a. til þess að heil-
brigðisyfirvöld geti gengið úr
skugga um hvort Bláa lónið sé
raunveruleg heilsulind.
Með tilliti til reynslu þeirra,
sem lónið hafa sótt, erum við þess
fullviss að það er tvímælalaust
heiisuiind, sem okkur ber að
kanna og nýta í framtíðinni. Ýms-
ir aðilar fullyrða að hefðu þeir
ekki sótt lónið hefðu þeir orðið að
leggjast inn á spítala. Það er því
augljóst ef Bláa lónið getur komið
í veg fyrir slíkt, að hér er um mjög
verulegt hagsmunamál að ræða.
Við sem höfum reynt það að fara á
sjúkrahús, sem psoriasis-sjúkl-
ingar, þrátt fyrir frábæra umönn-
un og þjónustu, viljum í raun allt
gera áður en í þær nauðir rekur.
Allt frá því að við fórum að
stunda Bláa lónið höðfum við not-
ið frábærrar fyrirgreiðslu
starfsmanna og forráðamanna
Hitaveitu Suðurnesja. Þeir hafa
frá upphafi sýnt þessu máli mjög
mikinn velvilja og stutt okkur með
ráðum og dáð. Sú þakkarskuld
verður seint goldin.
Við höfum frá upphafi lagt ríka
áherslu á að trufla sem minnst þá
starfsemi sem þarna fer fram og
vil ég meina að það hafi tekist vel,
því allir, sem stundað hafa lónið á
okkar vegum, hafa lagt sig fram
um að láta fara sem minnst fyrir
sér og kann ég þeim góðar þakkir
fyrir.
Fljótlega eftir að fréttist um
baðmöguieikana í Bláa lóninu
vildu fleiri en félagar í Samtökum
psoriasis- og exemsjúklinga baða
sig þar. Því miður er engin að-
staða fyrir slíkt og er það bannað.
Ef lónið væri opið fyrir almenning
þyrfti að vera stöðug gæsla þar,
því það er engan veginn sama
hvar synt er í lóninu, og því miður
komu fyrir óhöpp í upphafi. Nú er
svo háttað að félagar í Samtökum
psoriasis- og exemsjúklinga sem
baða sig í lóninu hafa sérstakt
vegabréf útgefið af samtökunum.
Sú reynsla sem við höfum fengið
af lóninu bendir ótvírætt í þá átt
að þarna sé heilsulind sem á er-
indi, ekki bara til psoriasis-sjúkl-
inga, heldur til miklu fleiri. Það er
til dæmis ekki nokkur vafi á að
gigtarsjúklingar myndu hafa gagn
af hitanum í lóninu.
Það þarf því ekki að undra
neinn að við höfum mjög mikinn
áhuga á, að skapa við Svartsengi
sem besta aðstöðu fyrir alla þá
sem þangað vilja sækja. Við höf-
um í því sambandi rætt við stjórn
Hitaveitu Suðurnesja, Sambands
sveitarfélaga á Suðurnesjum svo
og við landeigendur og hafa aliir
sýnt þessum áhuga okkar bæði
mikinn velvilja og skilning, og
hafa lýst sig reiðubúna að starfa
með okkur að uppbyggingu heilsu-
stöðvar í sambandi við Bláa lónið.
Framtíðarhugmyndir okkar um
heilsustöð í Svartsengi mun ég
fjalla um í annarri grein.
Þjóðminjasafin-
ið og fatlaðir
eftir Þór Magnússon,
þjóðminjavörð
Nemendur úr Hlíðaskóla sendu
mér opið bréf í Morgunblaðinu 30.
apríl um erfiðleika fatlaðra við að
komast í Þjóðminjasafnið og taka
dæmi af fötluðum dreng úr sínum
bekk, sem átt hafi erfitt með að
komast upp tröppurnar við húsið.
Ég þekki vel þennan misbrest á
hönnum hússins, en hann er ekki
hinn eini. Þetta hús hentar illa
þeim, sem heilbrigðir eru, hvað þá
fötluðum.
Það nálgast nú 40 ár síðan Þjóð-
minjasafnshúsið var byggt. Á
þeim tíma höfðu menn greinilega
allt aðrar skoðanir á gerð og
hönnun húsa en nú er, og þóttust
menn þó greinilega gera vel.
Þá byggðu menn miklu meira á
hæðina en síðar varð og spöruðu
hvorki stiga né þrep í húsum. Og
eitt af því, sem hvert hús átti að
hafa, voru myndarlegar og vegleg-
ar útitröppur. Við sjáum þess
hvarvetna dæmi, að minnsta kosti
er svo um öll þau hús, sem bera
áttu af. Við þurfum ekki annað en
líta á Þjóðleikhúsið, Háskólann og
stúdentagarðana, ýmsa spítala og
skóla, og sé farið enn lengra aftur
í tímann má benda t.d. á Pósthús-
ið, Safnahúsið við Hverfisgötu og
Alþingishúsið, þar sem hvarvetna
eru tröppur og stigar. Virðuleiki
húsa átti að sýna sig fyrst á úti-
tröppunum, og það er í rauninni
einkennilegt að sjá samkomuhús
frá fyrri árum eins og Hótel Borg
og Iðnó, sem ekki heilsa gestum
sínum með stórum tröppum.
En þetta á ekki einungis við
hérlendis. Erlendis eru flestar
opinberar byggingar, sem eitthvað
eru komnar til ára sinna, með
sama merki brenndar, stórar
tröppur upp að ganga áður en
komizt verður inn.
Þjóðminjasafnshúsið er líkleg-
ast sú opinber bygging hérlendis,
sem státar af stærstum útitröpp-
um. Fyrst eru 9 tröppur af gang-
stétt upp á lóðina, síðan 11 tröpp-
ur að útidyrum með palli á miðri
leið, og svo að lokum, þegar inn er
komið í forstofu, tvö þrep áður en
komið er inn á gólf á aðalhæð.
Svona hefur arkitekt hússins og
byggingarnefnd greinilega fundizt
að það ætti að vera, virðulegar
tröppur að virðulegu húsi. En eng-
inn áttaði sig hins vegar á því, að
hér er hið versta veðravíti, enda
kemur oft fyrir þegar eitthvað er
að veðri, að varla er stætt í tröpp-
unum auk þess sem þær fyllast af
snjó.
Hefðu menn verið að reisa Þjóð-
minjasafnshús nú hefði senni-
legast verið farið nokkuð öðruvísi
að. Menn hefðu reynt að byggja
húsið þannig, að inngangur væri
af jarðhæð og þá gengið beint af
gangstétt inn í húsið, aðeins þá
eitt þrep til að verjast vatnsaga,
en skábraut sett fyrir hjólastóla.
Nýjum inngangi er ekki auðvelt
að koma fyrir, og jafnvel þótt
menn vildu taka upp nýjan inn-
gang frá Suðurgötu, af jarðhæð, er
fyrirkomulag þannig innan dyra,
að það er nánast útilokað nema
með svo stórfelldum breytingum
inni í húsinu, að ég held að það
þyki frágangssök að hugsa um
slíkt eins og nú standa sakir.
En nokkur úrbót er samt í sjón-
máli, sem mun auðvelda fötluðu
fólki að komast inn í húsið.
Verið er að útbúa skrifstofur og
vinnustofur á jarðhæð hússins
austanverðri. Þar verður sérstak-
ur inngangur af stéttinni með-
Þór Magnússon
Starfsfólk safnsins er
ævinlega reiðubúið að
hjálpa öllum þeim, sem
þurfa aðstoðar við að
komast inn í safnið.
Bezt er auðvitað, þegar
fatlaðir eiga í hlut, að
hringja fyrst og boða
komu þeirra.
fram húsinu. Er vonast til, að
skrifstofurnar verði tilbúnar nú
fyrir sumarið.
Svo er ráð fyrir gert, að þar geti
fólk í hjólastólum komið inn og
verður þá sett upp skilti, sem sýn-
ir það. Þarna verður ævinlega ein-
hver viðstaddur á skrifstofutím-
um sem hleypt getur fötluðum inn
og síðan er greiður aðgangur að
lyftunni inni í húsinu.
Einnig er ráð fyrir gert, að kom-
ast megi inn bakdyramegin, frá
Suðurgötunni, með hjólastól.
Starfsfólk safnsins er ævinlega
reiðubúið að hjálpa öllum þeim,
sem þurfa aðstoðar við að komast
inn í safnið. Bezt er auðvitað, þeg-
ar fatlaðir eiga í hlut, að hringja
fyrst og boða komu þeirra. Þannig
hefði kennarinn sem kom með um-
ræddan bekk úr Hlíðaskóla, átt að
láta þess getið, að þar væri nem-
andi sem þyrfti aðstoðar við að
komast inn. Þá hefði verið í lófa
lagið að greiða úr því. — Það er
engin minnkun að því að biðja um
aðstoð, öll þurfum við einhvern
tíma hjálpar og aðstoðar við.
í fáum orðum sagt: Þjóðminja-
safnið er óárennilegt hús þeim,
sem fatlaðir eru. En allan vanda
má leysa. Hér er starfsfólk ævin-
lega þegar safnið er opið og sér-
stakir safnkennarar annast skóla-
heimsóknir og þeir munu að
sjálfsögðu einnig veita aðstoð.
Hitt efni bréfsins, um merk-
ingar og útskýringar á hlutum,
þarf að taka til endurskoðunar og
greiða þar betur úr. Vinnubrögð
og verkhættir fyrri tíðar eru mun
fjarlægari fólki nú, en var þegar
safnið var sett upp með þeim skýr-
ingum, sem enn eru að flestu
óbreyttar. Ungt fólk þekkir ekki
orð eins og vaður, fyrir fiskifæri,
hvað þá að menn átti sig á því, að
vaðsteinn sé sakka. Og kannske
skilja heldur ekki allir, hvað sakka
merkir.
Senn líður að því, að ráðizt verði
í enduruppsetningu alls safnsins
þegar Listasafnið flytur, sem von-
andi verður innan fárra ára. Þá
verður skipulag uppsetningar,
merkingar og leiðbeiningar endur-
skoðað, en safnkennarar þeir, sem
annast leiðbeiningar nemenda,
eiga að geta leiðbeint og skýrt
hluti eins og vaðsteinn. Safnkenn-
arinn fylgir nemendum og útskýr-
ir og leiðbeinir, og gæzlukonur
hafa einnig á takteinum útskýr-
ingar margra hluta í safninu.
Þetta atriði stendur vonandi
einnig til bóta.
Þór Magnússon.
SIGLFIRDINGAFELAGIÐ
í Reykjavík og nágrenni
Siglfirðingar í Reykjavík
og nágrenni
Hinn árlegi fjölskyldudagur veröur haldinn í Glæsibæ
sunnudaginn 15. maí. Kaffi og kökusala frá 3—6.
Þeir, sem gefa kökur, eru beönir aö afhenda þær kl. 2.
Nefndin.