Morgunblaðið - 22.05.1983, Qupperneq 35
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 22. MAÍ1983
35
• Frændurnir standa frammi fyrir rúnum Arne Saknussem í • Sigið í gíg Snæfellsjökuk. Teikningin er úr bók Jules Verne. • Staddir í kristallahöll. Teikning úr bók Jules Verne.
gígbotni jökulsins.
Mönnum brá mjög við þetta en
það hafa menn fyrir satt, að Hetta
tröllkona muni þetta kveðið hafa,
því hún ætlaði sem hún vildi að
væri, að Ingjaldur skyldi aldrei
aftur hafa komið, sem hún hafði
ráð til sett. En er Ingjaldur var
nálega að bana kominn, sá hann
hvar maður reri einn á báti; hann
var í gráum kufli og hafði svarð-
reip um sig. Ingjaldur þóttist
kenna þar Bárð vin sinn. Hann
reri snarlega að báti Ingjalds og
mælti, „Lítt ertu staddur kumpán
minn, og voru það mikil undur, að
þú jafnvitur maður lést slíka
óvætt ginna þig sem Hetta er; og
far nú á skip með mér ef þú vilt,
og prófa að þú fáir stýrt, en ég
mun róa.“ Ingjaldur gerði svo.
Hvarf Grímur þá af bátinum, er
Bárður kom. Þykir mönnum sem
það muni Þór verið hafa. Bárður
tók þá að róa all sterklega og allt
þar til er hann dró undir land;
flutti Bárður Ingjald heim og var
hann mjög þjakaður, og varð hann
alheill, en Bárður hélt til sín
heimilis.
Ekki bara Bárður
Sagnir eru til um fleiri fyrri
tíma menn sem gengu á jökulinn.
Ekki er vitað um annað erindi
Bárðar á Snæfellsjökul, en að
hann hafi minnt hann á fyrri
heimkynni sín. Kannski var hann
að leita sér bústaðar?
En á síðari hluta 16. aldar er til
saga um fjölvísan andlega þenkj-
andi mann sem átti erindi á Snæ-
fellsjökul. Þetta var sér Jón á
Þæfusteini. Erindi hans á jökulinn
var að veiða sagnaranda, sem
sagðir eru á sveimi á Snæfells-
jökli. Það gat verið dýrmætt að
næla í slíkan anda, þvi hann gat
sagt mönnum hin ótrúlegustu tíð-
indi, bæði óorðin og orðin. En eins
og nærri má geta, var ekkert grín
að góma slíkan anda og nauðsyn-
legt að vita lengra nefi sínu.
Það varð að liggja á bakinu þar
til að andinn smaug upp í menn og
var ógerningur að vita hvað biðin
gæti orðið löng. Því mátti athyglin
aldrei hvarfla, því þá gat sagnar-
andinn komist ofan í maga áður
en menn áttuðu sig. Það var stór-
hættulegt, því andinn gerði sér þá
lítið fyrir og ærði menn. Það var
því ekkert gamanmál að standa í
þessu. Jón gamli notaði það bragð
sem gjarnan var notað á sagnar-
anda, að hann hafði í munni sér
þaninn líknarbelg. Lá hann svo
þarna við kulda og vosbúð hvern
sólarhringinn af öðrum. Á sjötta
degi þaut allt í einu sagnarandi
ofan í hann og ætlaði að gera hann
vitlausan, en gætti ekki að sér og
Jón beit saman. Hafði andinn þar
með gengið í gildruna og segir
sagan að fátt hafi komið Jóni á
óvart eftir þetta. Hrafnar kunna
tökin á sagnaröndum, þegar þeir
láta sig falla skyndilega á flugi og
velta sér um leið eru þeir að grípa
sagnaranda. Þess vegna vita
hrafnar óorðna hluti.
Breskir sjómenn???
Þeir fyrstu sem vitað er til að
gengu á Snæfellsjökul voru þeir
Eggert ólafsson og Bjarni Pálsson
sem fyrr segir. Þeir geta þess að
þeim hafi verið sögð ævintýraleg
fjallgöngusaga, af tveimur bresk-
um sjómönnum, á Snæfellsjökul.
Fyrir óralöngu hefðu þeir reynt að
komast á topp fjallsins. það tókst
næstum eftir því sem sagan segir,
en ferðin endaði illa. Annar þeirra
fékk slæma snjóblindu og ráfaði
ringlaður frá félaga sínum og
spurðist ekkert til hans þar eftir.
Hinn blindaðist einnig, en gat þó
greint liti dálítið. Það kom sér vel,
því hann hafði sýnt þá fyrirhyggju
að hafa með sér kindablóð í belg
og lét hann það drjúpa í för sín til
þess að hann gæti rakið slóð sína
til baka. það varð honum til lífs.
En þeir Bjarni og Eggert gengu
á jökulinn 1. júlí 1753. Ekki var
þeim spáð velgengni, því tröll,
dvergar, huldufólk, svo ekki sé
minnst á sjálfan Bárð Snæfellsás,
áttu að hefta för þeirra, eftir því
sem sveitamenn töldu. öllum til
mikillar furðu, komust þeir félgar
þó á leiðarenda. Englendingarnir
Stanley og Wright gengu á fjallið
14. júlí 1789, en þeir komust ekki
upp á hæstu Þúfuna eins og Bjarni
og Eggert. Þeir Stanley og Wright
lögðu í ferð sína frá Arnarstapa,
en tveir Bretar aðrir, Bright og
Holland, gengu á fjallið frá
Ólafsvík árið 1810. Ekki komust
þeir á hæsta tindinn, né heldur
Skotinn Henderson, sem freistaði
þess fimm árum síðar ásamt fjór-
um íslendingum. Eftir þetta fór
ferðum á Snæfellsjökul fjölgandi,
enda sú þjóðsaga ekki lengur við
lýði að ógengt væri á fjallið og að
Bárður og fylgdarlið hans brygði
fæti fyrir ferðamenn.
Ferðafélag íslands var stofnað
1927 og hefur félagið allt fram á
þennan dag gengist fyrir fjölda
ferða á fjallið. Hundruðir manna
hafa gengið á jökulinn í ferðum
þeirra, svo ekki sé minnst á þá
sem gengið hafa á fjallið á eigin
vegum. Þrátt fyrir trú manna fyrr
á tímum, mun ekki vera erfitt að
ganga á Snæfellsjökul. Algengast
er að lagt sé á fjallið frá Stapa. Er
talið að það taki menn fjórar
klukkustundir að jafnaði. Oftast
og best er að ganga á jökulinn að
vorlagi, þá er enn mikill vetr-
arsnjór og harðfennt í morgunsár-
ið. Þegar líður á sumarið taka
sprungur að myndast og geta þær
bæði verið varasamar og hættu-
legar. Verða göngumenn að vera
vel búnir, ekki síst til fóta og einu
má aldrei gleyma, sólgleraugum,
því annars á viðkomandi snjó-
blindu vísa. Mannbroddar, taug og
íshamar eru einnig þarfaþing og
nauðsynleg nema fólk vilji bjóða
slysum heim.
Jules Verne
Franski rithöfundurinn Jules
Verne gerði Snæfellsjökul heims-
frægan með bók sinni „Leyndar-
dómar Snæfellsjökuls", eða
„Journey to the center of the
Earth", eins og hún nefndist á
ensku. Segir þar frá þýskum vís-
indamanni sem fer, ásamt ungum
frænda sínum, ofan í gíg Snæ-
fellsjökuls ásamt íslenskum fylgd-
armanni og lenda þeir í hinum
ótrúlegustu ævintýrum í iðrum
jarðar. Hefur vísindamaðurinn
vitneskju sína um iðurdyrnar af
fornum miða sem hann er látinn
finna í eintaki af Heimskringlu
eftir Snorra Sturluson, eða Snorre
Tarleson eins og Verne nefnir
hann. Á miðanum stendur í rúna-
letri eftirfarandi: „Gakk í gíg
Snæfellsjökuls, sem skuggi Scart-
aris kyssir fyrsta júlí, djarfi
ferðamaður, og þú munt komast í
iður jarðar. Eg gerði það. Arne
Saknussem. Saknussem þessi er
sagður íslenskur munkur og mikill
bókmenntasnillingur fyrri alda.
Þegar prófessorinn hefur ráðið
rúnirnar verður hann óður og upp-
vægur að feta í fótspor gamla ís-
lenska munksins með furðulega
nafnið. Þeir sigla hingað frænd-
urnir og ráða til sín sem fylgdar-
mann dúntekjumanninn Hans
Bjelke frá Stapa. Bjelke er mikill
furðufugl, lengstu setningarnar
hans eru eitt orð og eru þau mörg
hver furðurleg. Dæmi: „farja"
(sem þýðir ferja), „der“ (sem þýðir
þarna), „kirkiherde" (sem þýðir
sóknarprestur) og þannig mætti
lengi telja.
Scartaris sem fyrr er getið er í
sögunni hæsti tindur jökulsins og
er þeir félagar finna leiðina ofan í
iður jarðar taka við fádæma
ævintýri. Ganga þeir um stór-
kostlegar kristalla- og dropa-
steinahallir, finna furðulegan
gróður og einkennilegt dýralíf,
auk þess sem þeir sigla á fleka um
mikið neðanjarðarhaf. Þar eiga
þeir m.a. í útistöðum við sæ-
skrímsli mikil, en það verður þeim
til bjargar að þau snúast hvort
gegn öðru og hetjurnar komast
undan. Sagan endar á því, að eftir
mikið volk í undirheiminum, lenda
félagarnir í eldgosi og þeytast upp
á yfirborðið aftur. Eru þeir þá
komnir suður til Strombólí.
Öþarfi mun að rekja söguna
nánar, mörgum fslendingum er
hún að góðu kunn enda til i is-
lenskri þýðingu Bjarna Guð-
mundssonar. Gerð var Holly-
wood-kvikmynd eftir bókinni fyrir
mörgum árum og mátti sjá hana á
sjónvarpsskermum hér á landi
fyrir nokkrum árum. Það vakti
óskipta athygli landsmanna, að ís-
lenskur maður var fenginn til að
leika hlutverk fylgdarmannsins
Hans Bjelke. fslendingurinn hét
Pétur Rögnvaldsson, en auðvitað
mátti hann ekki heita það í Holly-
wood. Kom hann fyrir augu
heimsins sem Peter Ronson.
Bókin og kvikmyndin báru hróð-
ur Snæfellsjökuls um víða veröld
og til mun fólk sem veit ekki ann-
að um fsland en að þar sé Snæ-
fellsjökull og „Scartaris" þó að
tindur sá sé ekki til undir því
nafni. Spurning hvort að nafnið er
afbökun af nafninu Skarðsheiði,
sem er svo sem kunnugt er svip-
mesta fjall Borgarfjarðarhéraðs
ásamt Baulu og Eiríksjökli. En
jökullinn er ekki bara kunnur af
ævintýraskáldsögu Jules Verne.
Dulspekingar allt suður til Ind-
lands þekkja fjallið mæta vel og
telja það dulmagnað í meira lagi.
Erfitt mun að fá nákvæmar
skilgreiningar á því í hverju þessi
mikli dularkraftur er fólginn, en
ljóst er að þeir eru mrgir sem trúa
á hann og þykjast finna hann.
Fleiri staðir í næsta nágrenni búa
yfir þessu og mynda samleikandi
heild, svo sem Stapafell og Söng-
hellir. Á toppi Stapafells er sér-
kennilegt klettabelti „Fallskross-
inn“. Er það talið fornt helgitákn,
en í Stapafelli búa dvergar, huldu-
fólk og fleiri vættir. Bergmálið í
Sönghelli er kapítuli út af fyrir
sig. Þeir Eggert ólafsson og
Bjarni Pálsson lýsa fyrirbærinu í
Ferðabókinni og hljóðar lýsingin
svona: „Hingað og þangað eru
skápar inn í veggina og er innsti
skápurinn stærstur. Hellisþakið
skiptist í tvær hvelfingar. Virðast
þær vera myndaðar af vindinum
og hinum sterka eyðingarmætti
loftsins. En þessi smíð, sem gerð
er af vindinum, veldur því, að
loftbylgjurnar endurvarpast það-
an með miklu afli, svo að hljóð allt
margfaldast að styrkleika, og
kemur þá fram mjög hátt, en
óhreint bergmál. Þeir sem í hell-
inn koma gera sér það því til gam-
ans að syngja þar og kalla, en ein-
kennilegast er þó að heyra það, ef
maður skyrpir frá sér eða talar í
hálfum hljóðum. Þá suðar um all-
an hellinn og ömurlegt bergmál
kveður við í honum. Um alla hell-
isveggina eru alls konar stafir og
nöfn krotuð. Mest eru það rúnir og
galdrastafir, en margt af þeim
hefur nú veðrast burtu. Elsta ár-
talið sem við sáum þar, var 1483.“
Svo mörg voru þau orð. Það er
því ekki einungis jökullinn. Ná-
grenni hans er innlimað í hinn
mikla dularsveip þar sem jökull-
inn skipar öndvegið. Snæfellsnes
allt er ríki jökulsins, þar hafa hin
furðulegustu undur gerst, Fróðár-
undrin, Baulárvallaundrin o.fl. svo
eitthvað sé nefnt, undir faldi jök-
ulsins dulmagnaða og í garði hans.
Texti: Guðmundur
Guðjónsson