Morgunblaðið - 26.07.1983, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 26.07.1983, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 26. JÚLl 1983 29 Bollaleggingar um þingkosningar í Danmörku í haust eru óraunhæfar — sagði Uffe Ellemann-Jensen m.a. á fundi með blaðamönnum í gær „Við fræddum hvorn annan um efnahags- og stjórnmál ríkjanna tveggja og afstöðu ríkisstjórna Dan- merkur og íslands í þeim málum sem efst eru á baugi í hvoru landinu fyrir sig,“ sagði Uffe Ellemann-Jen- sen, utanríkisráðherra Danmerkur, á fundi með blaðamönnum í |er. Hann hóf fundinn með stuttu ávarpi þar sem hann skýrði frá viðræðum hans og Geirs Hallgrímssonar, utan- ríkisráðherra, í gærmorgun. Hann sagðist hafa greint frá þeim aðgerð- um sem dönsk stjórnvöld hyggjast grípa til í baráttunni við efnahags- vandann sem Danir eiga við að etja, einnig hefði verið vikið að varnar- málum, fiskveiðimálum og málefn- um Efnahagsbandalagsins. Um stefnu og stöðu Atlants- hafsbandalagsins sagði Uffe Elle- mann-Jensen að mikill meirihluti dönsku þjóðarinnar væri fylgjandi aðildinni að bandalaginu. Nýlegar skoðanakannanir sýndu raunar, að NATO nyti meiri stuðnings meðal Dana en nokkru sinni fyrr. Um stöðu og styrk ríkisstjórnar Danmerkur, sem fjórir borgara- legir flokkar eiga aðild að, sagði Uffe Ellemann-Jensen, að hann teldi bollaleggingar um að stjórn- in myndi boða til þingkosninga í haust ekki raunhæfar. Hann sagði einingu vera í ríkisstjórninni um nauðsynlegar aðgerðir í efna- hagsmálum, en stjórnin hefði framar öðru einsett sér að finna lausn á miklum efnahagsörðug- leikum Dana. Ef fjórflokkarnir hefðu ekki tekið höndum saman um nauðsynlegar aðgerðir í efna- hagsmálum hefði mátt óttast um stöðugleika þjóðfélagsins, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir framtíð dönsku þjóðarinnar. Raunar hefði merkilega vel tekist að fá þingið til að samþykkja harðar aðgerðir í efnahagsmálum og hann bjóst við að sú yrði áfram raunin. Varðandi málefni Efnahags- bandalagsins sagði Uffe Elle- mann-Jensen að Danir hefðu þá sérstöðu meðal norrænna þjóða, að eiga aðild að Efnahagsbanda- laginu og Evrópuþinginu. Hann sagði aðildina að EBE hafa veitt Dönum tækifæri til að hafa nán- ari afskipti af lausn ýmissa al- þjóðamála en þeir annars hefðu haft möguleika til. Hitt væri þó ekki launungarmál að Danir hefðu nokkra sérstöðu innan þess. Nefndi hann þar annarsvegar deilur vegna skiptingar síldveiði- kvóta í Norðursjó og einnig áætl- anir Grænlendinga um úrsögn úr Efnahagsbandalaginu. Varðandi hið síðastgreinda sagði Uffe Ellemann-Jensen, að dönsk stjórnvöld hörmuðu þá af- stöðu Grænlendinga, en þeir legðu áherslu á forræði þeirra í málinu, og bætti því við, að fiskveiðar í grænlenskri lögsögu yrðu ekki notaðar sem „gjald“ fyrir útgöngu þeirra. Afstaða dönsku stjórnar- innar miðaðist að því, að Græn- lendingar fengju aðild að fríversl- unarsamskiptum Efnahagsbanda- lagsrikjanna og stuðning úr sjóð- um þess, líkt og raunin væri um ýmsar nýlendur annarra banda- lagsríkja. Spurningu um það hvort niður- staða væri fengin í viðræðum danskra og norskra yfirvalda. varðandi mörkin milli Jan Mayen og Grænlands, svaraði ráðherrann á þá leið að viðræður myndu fara fram um það mál milli embætt- ismanna ríkjanna tveggja. Þess má geta, að Uffe Elle- mann-Jensen kom beint til blaða- mannafundarins úr laxveiðum í Elliðaánum. Áður hafði hann skoðað handritin í Árnastofnun og fyrr um daginn áttu þeir viðræð- ur, Geir Hallgrímsson og hann, svo sem fyrr var getið. í gærkvöldi sat danski utanríkisráðherrann og föruneyti hans kvöldverð í boði ríkisstjórnarinnar. I dag fer Uffe Ellemann-Jensen til Vestmanna- eyja og síðdegis heldur hann áfram austur í þjóðgarðinn í Skaftafelli og þaðan verður farið í Hraunbúðir í Landbroti, þar sem utanríkisráðherrann gistir í nótt. # Eiginkona danska utanrfkisráðherrans, Alice Vestergaard, fór og skoóaði Árbæjarsafnið meðan eiginmaðurinn renndi fyrir lax í Elliðaánum. Danski utanríkisráðherrann mundar veiðistöngina fagmannalega, en veiðin varð á hinn bóginn minni en til stóð! Helgi Hálfdanarson: Hóras og Stefán G. Það er engu líkara en að spjall manna um bókmennta-verðlaun kunni að togna eitthvað á langveg- inn að þessu sinni, eins og einatt fyrr. í umræðu þessari hefur það m.a. borið á góma, að grísk og rómversk fornskáld hafi ekki þurft að láta andann kafna und- ir pottlokinu. Að sjálfsögðu hef- ur það á öllum öldum verið hverju skáldi mikilvægara en flest annað að þurfa ekki að hafa sífelldar áhyggjur af næstu máltíð. Og eru þó forlögin ærið duttlungafull um það sem annað, svo sem m.a. má sjá í hinu mikla riti Wills Durants um Grikki og Rómverja hina fornu, sem nú er til á íslenzku í snjallri þýðingu dr. Jónasar Kristjánssonar. Þar segir svo um rómverska skáld- snillinginn Hóras: „Fátæktin kom í veg fyrir að hann spillti lífi sínu með kynsvalli, og hvarf hann þá að bókmenntum og setti saman ljóð á grisku og latínu undir tyrfnum grískum bragar- háttum. Vergilíus las eitt þess- ara ljóða og hrósaði því við Mae- cenas." Naumast þarf að ætla, að sú skáldskapar-iðja, sem fátæktin hafði narrað Hóras út í, og var slíkt afbragð í augum sjálfs Virgils, hefði skyndilega lognazt út af, ef ekki hefði komið til ör- læti Mekenasar. Hitt er annað mál, að af Mekenasi þáði Hóras þann greiða að verða ævilangt laus undan öllum áhyggjum af viðurværi sínu; og það kom sér vissulega betur en vel fyrir skáldlistina, þó að reyndar hafi það verið opinbert leyndarmál í tvo þúsund ár, að drjúgan slunk af þeirri ölmusu, sem Hóras sníkti út úr Mekenasi, fjárfesti hann í kjarngóðum drykk og spræku kvenfólki, sem fátæktin hafði áður forðað honum frá. Sá er mergurinn málsins, að Mekenas hreytti ekki í Hóras kaupi kennara í eitt ár og sagði honum að bíta gras upp frá því, heldur tryggði honum ýsu í soðið upp á hvern dag, svo lengi sem hann nennti að tyggja. Þetta er einmitt það sem hverju skáldi er brýnust nauð- syn, að eiga sér trygga afkomu, ekki bara eitt ár, eða tvo þrjá mánuði, heldur ævinlega. Þess vegna er tilviljunarkenndur styrkja-peðringur og verðlaun af opinberri hálfu næsta kuldaleg umhyggja fyrir skáldum, ef á annað borð er talin þörf á fjár- veitingum. Til þess að geta lifað áhyggjulausu lífi, dugir ekkert minna en stöðug þurftarlaun vetur sumar vor og haust á hverju einasta ári meðan blaktir á skarinu. Þar gegnir sama máli um skáld og annað fólk. En slík kjör munu ekki standa íslenzkri skáldastétt til boða á næstunni í formi styrkja eða verðlauna, þó svo að einhver handahófs-nefnd þættist þess umkomin að velja einstaklinga í þá stétt. Þar verður að koma til fast launað starf. Einungis mjög fáir snjallir rithöfundar komast af án þess. Ýmsir tala sí og æ um að „örva“ skáldskapinn með verð- launum. Ætli sé nú beinlínis þörf á því? Skyldi vera framleitt of lítið af skáldskap á íslandi um þessar mundir? Margur fagnar því, að nú sé meiri gróska í bókmenntum vorum en nokkru sinni. Svo eru aðrir til, sem blöskrar vaðallinn og vildu víst fegnir borga nokkrum skáldum smáfúlgu til að halda sér saman svo sem eitt eða tvö ár. Það sem okkur vantar, er ekki meiri bókmenntir, heldur betri bókmenntir. Og þær verða ekki til með því að ginna sem flesta til að sólunda sem mestum papp- ír í von um einhvern stopulan glaðning. Flestum skáldum mun hollara, að afkoma þeirra geti verið óháð afköstum í rit- mennskunni, að skáldskapur þeirra fái að fara sínu fram í næði, án þess að vera skyldugur til að ala önn fyrir höfundi sín- um. Það eru slík vinnubrögð sem gefa vonir um betri bókmenntir. Enginn dregur í efa, að bar- lómur Stefáns G. hafi verið réttmætur. En hvaða vit væri að jafna vinnu-kjörum í nútíma- þjóðfélagi við liðna hörmungar- tíð, þegar menn þræluðu eins og skepnur myrkranna á milli og höfðu samt ekki í sig og hyski sitt. Þjóðfélag sem býr þannig að þegnum sínum, er ekki menn- ingar-þjóðfélag, og sá mun vand- fundinn í sölum alþingis, sem vill taka mið af slíkri villi- mennsku. Hvernig skyldi Stefáni G. vegna í venjulegu hagnýtu starfi á Islandi nú á dögum? Það er fljótsagt, að andvökum sínum gæti hann breytt í átta stunda svefn á hverri nóttu, og þræl- dómi frá morgni til kvölds í átta stunda vinnu, fimm daga vik- unnar. Þó að hann vildi síðan nota jafnlangan tíma til yrkinga og til vinnu, ætti hann samt af- gangs 32 stundir á viku til að sinna konu og krökkum, þvo upp og hvíla sig. Margur léti minna nægja til þess. Auðvitað eru til menn, sem aldrei fá nóg af tíma fremur en öðru; og hver veit nema Stefán karlinn héldi áfram að berja lóminn við slík kjör, þegar til kæmi; en víst mætti fjandinn vorkenna honum að una við sinn hag. Hitt er svo annað mál, að tækist honum svo vel upp við skáldskapinn, að hann gæti lifað á honum einum, þá væri hann vitaskuld sjálfráð- ur um það, og kannski til þess manna vísastur. Enn verður ýmsum tíðrætt um þann „heiður" sem fylgi bók- menntaverðlaunum. Hverjum getur í alvöru þótt heiður að verðlaunum, sem ekki er hægt að veita nema samkvæmt haldlaus- um yfirlýsingum Péturs eða Páls. Öðru máli gegnir um mat á íþrótta-afrekum; málbandið og skeiðklukkan vita hvað þau syngja. Hins vegar lái ég engum sem tekur við hnossinu og brosir þakksamlega fyrir kurteisi sak- ir, enda viðbúið að allt annað reiknaðist til gikksháttar eða annars verra. Nýlega var haldin hér í Reykjavík söngkeppni, þar sem sex ungmenni voru látin keppa til verðlauna, og skyldi dóm- nefnd sérfræðinga skera þar úr. Sigurvegari varð ung stúlka, sem mér þótti reyndar syngja eins og engill. Síðan var keppendum raðað eftir stigum, sem dóm- nefndin gaf, og gátu þau orðið allt frá einu til sex. Nú er mér kunnugt um, að til voru þeir, sem nánast vildu snúa þessari röð við. Og hafi það verið fyrir kunnáttuleysi í fræðunum eða skort á brúklegum tónlistar- smekk, má geta þess, að einn keppandinn hlaut frá einum sér- fræðingnum eitt stig, en frá öðr- um sex! Með öðrum orðum, sá keppandi, sem einn sérfróður dómari taldi beztan, var af öðr- um sérfróðum dómara talinn Iakastur. Réttlátara hefði verið að draga um þessi verðlaun. Svo afdráttarlaust dómsvald yfir listamönnum, sem látið er felast í opinberum verðlaunum, ætti enginn að dirfast að taka sér, hvorki alþingi né aðrir. Hér tíðkaðist um skeið, að bókrýn- endur dæmdu menn til verð- launa. Svo fór þó, að þeir sáu að sér og lögðu niður þennan ósið, og er þeirra sæmd að meiri. Svo ég vitni að lokum til þess manns, sem ég hef mest álit á, lýk ég máli mínu með orðum, sem und- irritaður lét falla í þeirri um- ræðu: Rýnendur eiga að vera mál- flytjendur en ekki dómarar. Þeir eiga að flytja mál sitt fyrir þeim dómstóli, sem öll þjóðin skipar, þótt aldrei kveði hún upp neinn samhljóða lokadóm.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.