Morgunblaðið - 03.09.1983, Qupperneq 14

Morgunblaðið - 03.09.1983, Qupperneq 14
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 3. SEPTEMBER 1983 Úr tónlistarlífinu MARGRÉT HEINREKSDÓTTIR Jose Carreras Spænski tenórsöngvarinn, sem ,sló í gegn‘ í New York 24 ára Ekki eru nema tíu ár rúm frá því að spxnski tenórsöngvarinn Jose ('arreras kom fyrst fram á sviði Borgaróperunnar í New York (New York City Opera) í hlutverki Pinkertons í óperunni Madame Butterfly eftir Puccini — og vakti slíka athygli, að hann skauzt upp á hinn alþjóðlega stjörnuhimin með eldingarhraða. Árið 1974 fékk hann hlutverk Cavaradossis í Toscu hjá Metropolitan-óperunni í New York og tveimur árum síðar söng hann hlutverk Rodolfos í La Boheme með La Scala-óperunni í gestaleik hennar í Washington. Síðan tóku við hlutverk í óperum Verdis og brátt var um Carreras talað sem einn af þremur beztu tenórsöngvurum heims, ásamt þeim Luciano Pavarotti og Placido Domingo. Svo skyndilegri og skjótri frægð fylgir mikið álag og marg- ar hættur svo ungum söngvara, Carreras er enn ekki nema 35 ára, og nú síðustu árin hafa menn heldur ekki verið á eitt sáttir um, hvort hann sé á réttri leið. Þótt margir dái hann tak- markalaust og telji hann fara batnandi eru aðrir á öndverðum meiði, segja, að hann hafi færzt of mikið í fang og misboðið rödd- inni; hann hafi tekið að sér hlut- verk sem hefðu átt að bíða þar til hann yrði eldri og þroskaðri, söngvari verði alltaf að gæta þess að brenna ekki kerti sitt í báða enda ella eigi hann á hættu að eyðileggja röddina langt fyrir aldur fram. Þessar raddir komu fyrst fram að marki, þegar hann fór með hlutverk Radames í Aidu Verdis undir stjórn Herberts von Kar- ajan, en það söng hann á Salz- burgarhátíðunum 1979 og 1980. Töldu margir gagnrýnendur, að hann hefði verið of ungur fyrir þetta verkefni. Sjálfur hefur Carreras tekið undir það að nokkru í blaðaviðtali við tíma- ritið Ovation, segist og hafa færzt undan í fyrstu, þegar Kar- ajan bauð honum hlutverkið, en látið freistast þegar hann fann að „meistarinn" treysti honum til þess, „en bæði vegna tauga- óstyrks og annarra ástæðna," segir hann, „söng ég alls ekki vel fyrra árið, 1979, seinna árið var ég mun betri." XXX íslenzkum sjónvarpsáheyr- endum gafst nú fyrir skömmu kostur á að heyra og sjá þennan ágæta unga söngvara í óperunni „Luciu di Lammermoor" eftir Donizetti. Það er ekki oft, sem sjónvarpið sýnir óperur og sinn- ir þannig þeim hópi áheyrenda sinna — sem ég hygg að sé býsna stór — sem yndi og áhuga hefur af óperum. Hefði að mínum dómi mátt sýna þá rausn að útvarpa óperunni samtímis í stereó, — greinilega hafði verið gert ráð fyrir slíkum flutningi í upptök- unni — það hefði gert sýninguna miklum mun eftirminnilegri. Jose Carreras naut sín af- skaplega vel sem Edgardo, bæði fríðleiki hans vel við hæfi hlut- verks hins rómantíska og dramatíska elskhuga Luciu og röddin einstaklega hlý og falleg eins og spænskar tenórraddir oft eru. Reyndar er rödd hans sögð hafa „dökknað" síðustu árin — sem sumir segja stafa af of miklu álagi, en hann sjálfur tel- ur eðlilega breytingu vegna auk- ins þroska sjálfs sín. „Ég var ekki nema 24 ára, þegar ég byrj- aði að syngja í óperum og eðli- lega hefur röddin breytzt síðan eins og ég hef sjálfur þroskazt og breytzt. Þroskaárum söngvarans á þessum aldri fylgja ýmis vandamál. Eftir því sem röddin breytist verður söngmátinn líka að breytast, ýmislegt, sem áður var örðugt, reynist manni auð- veldara og öfugt og við allar til- finnanlegar breytingar verður söngvarinn að endurskoða söng- tækni sína frá grunni. Ég held, að allir söngvarar þurfi öðru hverju að taka á slíkum vanda, sérstaklega þó þeir, sem byrja mjög ungir. Oft gera söngvarar hlé á því að syngja opinberlega meðan þeir vinna að siíkri endurþjálfun raddarinnar, en Carreras er því ekki samþykkur. Honum finnst bezt að þreifa sig áfram á svið- inu, því að það sem virðist í lagi í litlum æfingasal komi kannski allt öðru vísi út í 4.000 manna óperuhúsi. „Eins og aðrir söngvarar sem taka starf sitt alvarlega, er ég klukkustundum saman eftir hverja sýningu að hugsa um hana og reyna að gera mér sem fyllsta grein fyrir frammistöðu minni, hvort heldur sýningin hefur tekizt vel eða illa — og jafnt þótt ég hafi verið kvefaður eða að öðru leyti illa á mig kom- inn líkamlega. Maður verður að hugsa um, hvernig unnt sé að ná sem beztum árangri við allar hugsanlegar aðstæður," og hann bætir við að svo sem líkamleg líðan söngvarans geti haft áhrif á röddina svo geti og hverskonar tilfinningalegt rót skipt máli um frammistöðu söngvarans á svið- inu. Jose Carreras kveðst vera í stöðugu sambandi við kennara sinn í Barcelona, Juan Ruax, vinna með honum þar, þegar við verði komið en þess á milli ráð- færi hann sig við hann í síma. Og það éru fleiri, sem hann stendur í stöðugu símasambandi við í Barcelona, þar býr fjöl- skylda hans, sem hann talar við daglega, hvar sem hann er staddur í heiminum, „hringi jafnvel frá Ástralíu," segir hann. Þannig reynir hann að fylgjast með daglegum framförum barna sinna tveggja, 3ja ára telpu og 8 ára drengs og þau með starfi hans, það gerir þó einkum sonur- inn að sjálfsögðu, sem Carreras segir sísyngjandi — hann kunni þegar margar óperuaríur en hafi „hræðilega rödd“. XXX Um söng Jose Carreras hefur verið sagt, að auk þess að bera hin sterku einkenni spænskra tenórradda minni röddin og söngur hans stundum á Di Stef- ano, stundum á Cesare Valletti og stundum á Bergonzi. Þeim, sem vilja meira af Carreras heyra skal bent á nýja útgáfu Philips á uppfærslu konunglegu óperunnar brezku undir stjórn Colins Davies á óperunni „Werther" eftir Massenet — textinn eftir hinni kunnu skáld- sögu Göthes um þjáningar Werthers hins unga, en þar fer Carreras með titilhlutverkið. Sú uppfærsla beindi honum inn á brautir frönsku óperunnar — eftir að hafa til þessa fyrst og fremst einbeitt sér að Puccini og Verdi — og næstu verkefni hans urðu hlutverk Rómeós í Rómeó og Júiíu eftir Gounod og Don Jose í Carmen eftir Bizet. Carreras hefur sungið geysi- mikið á undanförnum árum — ekki sízt fyrst eftir að hann „sló í gegn“ í New York — á 16 mán- uðum söng hann þá ellefu hlut- verk en er nú farinn að hægja á ferðinni, syngur ekki nema á um 80 sýningum á ári og reynir að gæta að jafna betur en áður niður erfiðustu hiutverkunum. Ljóðatónleika heldur hann líka öðru hverju og kveðst hafa af því mikla ánægju. „Með þeim nálg- ast söngvarinn hlustendur með allt öðrum hætti en í óperunni, tengslin verða nánari ... án hljómsveitar og búninga óperu- sviðsins hefur maður þó þá til- finningu að standa hálfnakinn frammi fyrir áheyrendum en það er líka hollt og gefur auk þess tækifæri til að syngja fyrir fólk í minni borgum og bæjum sem ekki hafa óperuhús." Fjölbreytni segir hann sér nauðsyn, „sumir söngvarar vilja syngja fá hlutverk en stefna að því að ná algeru og fullkomnu valdi yfir þeim með því að syngja þau aftur og aftur. Ég er öðru vísi gerður, ég vil læra ný og ný hlutverk, fá sem mesta fjölbreytni. Ég veit, að það er dálítið hættulegt en það er áhætta, sem ég vil heldur taka. Þegar ferli mínum sem söngvara er lokið, hvenær sem það verður, vil ég geta hætt ánægður yfir því að hafa gert það á leiksviðinu, sem mig langaði til.“ Tak gleði þína! Bókmenntir Jóhann Hjálmarsson Sá sem kemur til Færeyja og litast um í bókabúðum hlýtur að undrast hve færeysk bókaútgáfa er þróttmikil þrátt fyrir smæð þjóðar- innar. Og það sem einkennir marg- ar færeyskar bækur er vandað útlit sem helgast ekki síst af því að Færeyingar eiga gróna myndlist- arhefð sem m.a. lýsir sér í því að alúð er lögð við hvers kyns myndskreytingar. Fá bókaforlög sem mega sín eru að vísu starfandi í Færeyjumm, en einstaklings- framtak nýtur sín aftur á móti í bókaútgáfu. Þar komast engar gróðahugmyndir að, aðeins menn- ingaráhugi. Þetta rifjast upp þegar inn um dyrnar berst færeysk bók: Snorri Hjartarson: Heystmyrkrið yvir mær. Martin Næs týddi úr ís- lendskum. Tróndur Patursson gjördi permuna. (Jtg. Orð og lög, Tórshavn 1983. Martin Næs er eitt af kunnari skáldum Færeyinga af yngri kynslóð, kvæntur íslenskri konu og vel að sér í íslenskum skáldskap. Ég hef verið að bera þýðingar hans saman við frum- kvæðin og sannfærður um að þær eru mjög trúverðugar án þess að ég sé fullkomlega dóm- bær um slíkt vegna þekkingar- leysis hvað varðar færeyska tungu. En til þess að þýða skáld þarf skáld. Ég held að Martin Næs geti leyft sér að glíma við skáldskap Snorra Hjartarsonar. Hann er sjálfur skáld sem á margt sameiginlegt með þeirri næmu tilfinningu fyrir náttúr- unni og manninum í náttúrunni sem ljóð Snorra vitna um. Eins og kunnugt er fékk Snorri Hjartarson bókmennta- verðlaun Norðurlandaráðs 1981 fyrir Hauströkkrið yfir mér. Orð og lög hafa fengið styrk úr Nor- ræna þýðingasjóðnum vegna út- gáfu bókarinnar á færeysku. Verðlaunin eiga þátt í að koma ljóðum Snorra á framfæri við fleiri frændþjóðir okkar og er það út af fyrir sig meðmæli með því uppátæki sem verðlaunaveit- ingar eru þótt eflaust geti þær líka komið illu til leiðar. Annars væri gaman að vita hve margir íslendingar sem ekki þekktu ljóð Snorra áður kynntu sér þau eftir verðlaunaveiting- una. Snorri hefur að vísu alltaf átt sér tryggan lesendahóp, en hann er eitt þeirra skálda sem menn mega ekki fara á mis við. Svo margt hefur hann að segja okkur og gerir það á þann hátt að til afreka verður að teljast. Hauströkkrið yfir mér er kannski fremur þunglyndislegur titill. En þegar vel er að gáð er líka gleði að finna f bókinni. Snorri Hjartarson jafnvel fögnuð, eiginlega lífs- þorsta hins aldraða skálds. Snorri hefur löngum kunnað að gæða orð sin lífi, fylla setningar sínar í senn fró og nautn. Lítum til dæmis á ljóðið Endurfundir: Hver kemur þarna handan úr hrímkaldri móskunni yfir hraunid og sandinn? Gleði berst vid ótta. Mig grunar hver þaó er. Ljós er hún og bláklædd og ber allar listirnar í barmi sér. Vitjar þú mín enn í auönum langra nótta sem hvarfst þegar strengurinn sUki hrökk? Tak gleði þína drengur og gakk! I þýðingu Martin Næs hljómar ljóðið þannig og kallast líka Endurfundir á færeysku: Hvör kemur haóani úr frostkaldri skýming um reyniö og sandin? Gleói berjist vió ótta. Eg gruni hvör taó er. Ljós er hon og bláklædd og ber allar listirnar í barmi sínum. Vitjar tú meg enn á náttum longum og oydnum tú sum hvarv tá ió strongurin einasti brast? Tak gleói tína drongur og gakk!

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.