Morgunblaðið - 07.12.1983, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 07.12.1983, Blaðsíða 4
36 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 7. DESEMBER 1983 Mjúkar plötur undir þreytta fætur <& <S@> VwiurgMu 1«. «•*>•**' HW 1IMM4MO VELA-TENGI 7 1 2 Allar gerðir Öxull — í — öxul. Öxull — í — flans. Flans — í — flans. Tengið aldrei stál — í — stál, hafið eitthvað mjúkt á milli, ekki skekkju og titring milli tækja. Allar stærðir fastar og frá- tengjanlegar SQyiííllmflinuKr <®r (S(o) Vesturgötu 16, sími 13280 esiö reglulega af öllum fjöldanum! Itlorjjunlilnítitt Dýrðin beið. En þá var þorrin þráin, sem í hjarta brann Mannheimar — úr formála Gísla Jónssonar Nú er komin út Ijóðabókin Mannheimar — úrval úr Ijóðum Heiðreks Guðmundssonar hjá Almenna bókafélaginu. Gísli Jónsson, menntaskóla- kennari valdi Ijóðin og ritar inngang bókarinnar. Hér fer á eftir hluti inngangsins, birtur með leyfi höfundar. Heiðrekur Guðmundsson hefur ekki gróið eins vel við Akureyri og reyniviðurinn sem hann hefur ræktað á saltstorkinni eyrinni. Akureyri hefur ekki verið rífleg fóstra við þennan skáldgest sinn. Nema þá of seint. Viðkvæmni sína og rómantíska ást til æskustöðv- anna kann hann manna best að brynja: Lát heldur næða mér á móti svalt, svo minning þessi verði ekki sár. Hér fá ei lengur friðland mínar þrár. Ég fer á brautu eftir stundarbið. Drag gráa þoku á meðan yfir allt, svo öðlazt geti ég ró og vinnufrið. (Bæn um frið) Hins vegar hlaut fyrsta ljóða- bók Heiðreks, Arfur öreigans, mjög góðar viðtökur. Ritlaun voru rífleg. Mikið var um bókina skrif- að og nær einróma lof. Ekki var heldur viðvaningsbragnum fyrir að fara. Honum var þetta makleg og mikil uppörvun. Hann átti þá þegar nokkur ljóð í næstu bók. í óþolinmæði tók hann handrit hennar af útgefanda sínum og skipti um. Vandalaust var að fá nýjan. Af heiðarbrún kom út 1950. En þá voru mikil tískufyrir- brigði í íslenskri ljóðagerð. Atóm- bylgjan, sejn sumir kenna til formfælni, var að rísa í fulla hæð. Heiðrekur kom hvergi til móts við hana. Hinni nýju bók var tekið með tilfinnanlegu tómlæti, ekki síst ef miðað er við hrifningu manna yfir Arfinum. Að sjálf- sögðu ætluðust menn til mikils, og mikil ósanngirni væri að telja síð- ari bókina ekki að minnsta kosti jafngóða hinni fyrri. En tíminn var Heiðreki ekki hallkvæmur. Vonbrigði hans urðu mikil, jafn- vel þótt vinir hans féllu í stafi yfir Ijóðum eins og Orlofi: Ungan mann í önnum dagsins eitt sinn dreymdi um sumarfrí. Orlof tók, er unnið hafði árum saman fyrir því. Greiddi hann á æskuárum iðjumannsins fórnargjöld. Trúði því, að gæfa og gleði gæfist síðar þúsundföld. Það var liðið langt á ævi, loks er stundin mikla rann. Dýrðin beið. En þá var þorrin þráin, sem í hjarta brann. Hrifið gátu ei hugann lengus hillingar né gleðimót. Þá var stritið orðið eina yndi hans og raunabót. Einmitt hér nær hann þeim tóni sem hann hefur sungið síðan og er einkalegasta ljóðeign hans. Nú líður langur tími sem ein- kennist af einhvers konar varúð, fælni, ef ekki ótta. En á sinn hljóðláta, sérstæða hátt brýst Heiðrekur út úr hringnum. Hann tekur að smíða nýja bragarhætti. Nýjungar í rímsetningu og jafnvel sjálfri hrynjandinni koma fram. Mér finnst Vordraumar og vetr- arkvíði (1958) einkennast af kvíða- blandinni gætni. Um bókina var fjallað af góðviljaðri sanngirni, með örfáum undantekningum. Til voru ákaflega einsýnir ritdómar sem virtust ætla að læsa alla ljóðagerð í spennitreyju ákveðins forms og tiltekinna skoðana. Harkalegan dóm frá slíkri hendi má lesa um þessa bók, skrifaðan af undarlegri grunnhyggni. I fjórðu ljóðabókinni, Mann- heimum, (1966) er heimsádeilan skrifuð frá mannlífskönnuninni með kaflaskiptum. Sum ádeilu- kvæði þeirrar bókar stappa nærri því að vera dægurljóð, en önnur eru sígild. Fremst þeirra Konan við fossinn. Með þessari bók þykir mér sem Heiðrekur hafi öðlast sjálfstraust sitt að nýju, hún er að því leyti tímamótaverk. Síðan hef- ur hann verið öruggari um sig, skeytt minna um opinbera rit- dóma, enda skrifar hann ekki hátt alla þá sem þess konar dómstörf hafa að atvinnu. Uppörvun og að- dáun fjölda lesenda hefur hann ekki skort, og þótt hann sé sjálf- stæður í ljóðum sínum, talar hann ekki við sjálfan sig. Hann vill fremur að ljóð sitt skiijist þeim, sem les, en láta hann eftir átta- villtan. En grafa mega menn til gullsins. Guðmundur á Sandi nefndi listrænasta ljóð sitt Niðurstöðu. Heiðrekur sonur hans segist hafa leitað niðurstöðu alla ævi, og þetta er sannmæli um ljóð hans. A ýms- an hátt auðkennir hann þessa niðurstöðu ljóðanna, einkum í seinni tíð, með markvissri upp- byggingu og sérlegri rímsetningu. Enn hefur Heiðrekur ekki kom- ist að lokaniðurstöðunni, og þess vegna yrkir hann nýr og ferskur að því leyti. En svo persónulegur er hann orðinn, að enginn yrkir nú eins og Heiðrekur Guðmundsson, og því síður yrkir Heiðrekur eins og nokkur annar. Þessi sérleikur kemur best fram í Langferðum (1972) og Skildögum (1979). Mér þykir sem langferðir Heið- reks inn í mannheima, þroski hans og góðvild, hafi sætt hann við mennina, en hann er hvorki sáttur við dauðann né drottin, og lái hon- um hver sem vill. Hljómkviða hans um þetta efni er svo heil- steypt í síðustu ljóðabók hans, að hún er tekin óskert í þetta úrval. „En galli minn er sá, að ég get ekki orðið sáttur við neina grundvallarsetningu, ekki fylgt neinum flokki gegnpm þykkt og þunnt. Ég er hræddur við að binda mig. Þá óttast ég þröngsýni, að ég sjái ekki hlutina, menn og málefni nógu vel frá öllum hliðum. Ég vil ekki lokast inni í hringnum." Það hefur Heiðrekur Guð- mundsson ekki gert. Sjálfstæði sínu hefur hann haldið í öllum skilningi. En hann er lítill auglýs- ingamaður og um hann hefur ekki verið athafnasamt áróðurslið. Gimsteinninn í þjóðararfi okkar Islendinga er ljóðstafasetning. Tilfinningin fyrir henni er ómet- anleg, rækt og tryggð við hana í verki og orði meiri þjóðrækni en títt er að viðurkenna. Kristján Karlsson sýndi fyrstur manna fram á hversu ljóð Heiðreks eru í senn bæði persónuleg og hefð- bundin i besta skilningi, hversu sameinast í kvæðum hans djúp- stæð ræktarsemi og óvenjulegur næmleiki gagnvart hræringum nútímans. Ræktarsemi Heiðreks kemur best fram í því að í sex heilum ljóðabókum kemur aldrei fyrir óstuðlað erindi. Hann verður því ekki, hér frekar en endranær, sakaður um „tómlæti, glapsýn, undanslátt, fíflskap á torgum", svo vitnað sé til hins máttuga kvæðis Hannesar Péturssonar til vegs og varnar íslenskri stuðla- setningu (Bréf um ljóðstafi). Um form og efni segir Heiðrek- ur sjálfur: „Það skiptir meira máli hvað sagt er en hvernig það er sagt, en þó með þeim fyrirvara, að efnið sé svo vel mótað að það verði lesand- anum sem minnisstæðast. Og skoðun mín er sú að stuðlarnir og hóflegt endarím skerpi athygli hans. En þrátt fyrir allt er andi ljóðsins höfuðatriði, eins og sálin manninum. En best er þó að heil- brigð sál sé í hraustum líkama." Heiðrekur hefur leitast við að tengja saman nútíð og fortíð. Hann kollsteypir ekki gömlu formi né rífur niður djúprættan gróður. Hann reynir að viðhalda samhenginu í ljóðagerð okkar. Stuðlarnir eru honum kannski ekki heilagir í sjálfu sér, heldur þáttur í þeirri viðleitni. Um rím gegnir öðru máli. Að fornu fari yrkir hann stundum rímlaust með öllu. Hitt ber þó hærra, hversu hann sveigir til hefðina að eigin geðþótta. I fyrstu tveimur ljóðabókum sínum fer hann að mestu troðnar rímslóðir. I þriðju ljóðabók og síðan býr hann sífellt til ný afbrigði, fækkar ljóðlínum með endarími, svo að seiður þess dragi ekki athyglina frá ljóðkjarnanum, sem hann hyll- ist til að einkenna með rímat- kvæði í lokin. Sérstöku ástfóstri hefur hann tekið við rímsetninguna a b c d e b , það rímar saman ann- að og síðasta vísuorð í sex lína erindi. Hrynjandi kann að vera mjög breytileg: Og sá kemst langt á liprum tám, sem lausa kápu á herðum ber. Og séð frá þínum sjónarhól var sigurganga allt þitt líf. Þú breyttir ekki heimi hót, en honum tókst að breyta þér. (Heimurinn og þú) Þá fannst máttarvöldum vísum vera mál að grípa í strenginn, gefa honum hættumerki. — Heima lá hann sjúkur undir vesturglugga og sá að sólin senn til viðar mundi gengin. (Á elleftu stund) Annað tilbrigði hefur hann oft og rímar þá saman fjórða og síð- asta vísuorð i sex lína erindi (a b c d e d). Því annaðhvort tekur við eilífur svefn ellegar fegurri heimur. Og þeim verður dauðinn að lokum líkn, sem lengi er búinn að þreyja. — En lífið er þyngst á þeirri stund, þegar við byrjum að deyja. (í biðsalnum) Þó það sé annað mál, má mikið vera, ef þessar lokalínur verða ekki langlífar, svo sem fleiri niðurlagsorð í kvæðum Heiðreks. Önnur tilbrigði en þau sem að framan greinir, læt ég lesendum eftir að finna sjálfum. Heiðrekur hafði þegar í æsku næmt. brageyra og þurfti engan lærdóm til þess að skynja hvenær rétt væri kveðið. Bæði vegna skoð- ana og sökum þessa hreifst hann mjög af Þorsteini Erlingssyni sem var næsta óskeikull hagsmiður bragar. Hrynjandi í ljóðum Heiðreks er undantekningarlítið kliðmjúk og regluleg, en einstöku sinnum hef- ur hann „talið út“ og búið til nýst- árleg afbrigði, þar sem braglín- urnar eins og hnippa hvor í aðra til að stugga við lesanda, eða áheyranda öllu fremur. Þetta er skýrast í Vetrarkviða. Þar hefjast allar línur á forlið, en svo skiptast á stiklandi braglínur með tvíliðum, þrílið og stúf og aðr- ar sem þramma áfram þung- skreiðar með samfelldum tvíliðum til loka. — Hinn langi vetur, nú veit ég það, hann verður skárri en kvíðinn fyrir honum. Ég hef ekki fundið dæmi um þennan leik Heiðreks annars stað- ar, en ekki er þetta tilviljun. Hann liggur lengi yfir alvörukvæðum sínum, sverfur og fágar. Hins veg- ar getur hann verið ótrúlega fljót- ur og höggviss í vísnaleik, glettinn og jafnvel kerskinn. Það besta eft- ir hann þess kyns lifir, hvort sem prentað verður eða ekki, og geri þeir betur sem geta. Dungal er með harðan haus, honum ber við steininn kalda; segist vera sálarlaus. Sama er mér — og nær að halda. Skopskyn Heiðreks birtist sjaldan í ljóðum hans, sú úthverfa sársaukans er þar betur brynjuð og dulin. Þórarinn Björnsson skólameistari sagði í síðustu ræðu sinni á Sal: „Það er einn meginvandi allrar lífslistar að breyta erfiðleikum í ávinning. Það er það sem skáldið gerir, þegar það breytir þjáning- um sínum og raunum í fögur ljóð.“ Sjálfur segir Heiðrekur undir lok fyrstu ljóðabókar sinnar að sér sé þungt í hug, ef hann taki til að yrkja. Bestu kvæði hans eru með einhverjum hætti tragísk, allt frá Orlofi til Nýjustu árgerðarinnar, sem hér birtist í fyrsta sinn. Ég bið lesendur að bera saman ljóðin Hvað er klukkan ? í Arfinum, í bif- reiðinni í næstu Ijóðabók og svo þetta nýja ljóð. Svo harmþrungið er löngum mannlegt hlutskipti, að markið næst ekki fyrr en maðurinn er ek- ki lengur fær um að njóta þess ágætis sem í því er fólgið. Og hvers vegna þá að keppa að mark- inu eða biðja þess að draumurinn rætist? Og þú ert raunar hygginn að hætta engu til við hæfnispróf á bröttum frægðarvegi. Því ef þú skyldir falla, það lýðum yrði ljóst. Svo Ijós þitt undir mæliker þú setur. — Það leynist bak við drauminn sú dulda ósk cg von, að draumurinn þinn gamli rætist eigi. (Gamall draumur um tækifæri) f merkilegri og ágætri brag- hendu sinni um Sigurð Breiðfjörð kveður Steingrímur Thorsteins- son: Spor að hyggju- og hjartasetri hittast skálds í kvæðaletri. í kvæðaletri Heiðreks Guð- mundssonar má lesa spor að hug hans og hjarta, og skilst þá enn betur en ella hvers vegna ijóð hans eru svo góð sem raun ber vitni. Gísli Jónsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.