Morgunblaðið - 19.02.1984, Page 28
28
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 19. FEBRÚAR 1984
Hópurinn, sem stendur aö sýningunni.
(Ljósm. Ól.K.M.)
„Amma... hvað elskar þú mig mikið?" Leikstjórinn leiðbeinir þeim Þóru
Friðriksdóttur (frú Amalíu Tillford) og Bryndísi Marsibil Gísladóttur (Mary).
„Sannkallad
kvennaleikhús“
Fylgst með æfingu á leikritinu Rógburður eftir Lillian
Hellmann í Kvennaskólanum í Reykjavík
í Kvennaskólanum í Reykjavík var sl. fostudag frumsýnt leikritið „Rógburður“ eftir
bandaríska leikritaskáldið Lillian Hellman í þýðingu Þórunnar Sigurðardóttur. Leikstjóri
er Vilborg Halldórsdóttir. Lillian Hellman er eflaust mörgum kunn, enda vinsælt leikrita-
skáld með litríka ævi að baki.
Hún fæddist árið 1905 í New Orleans og fjalla mörg leikrita hennar um hugarheim
Suðurríkjafólks í Bandaríkjunum á óvæginn hátt. „Rógburð", eða „The Childrens
Hour“, eins og það heitir á frummálinu, skrifaði Hellman árið 1934 og var það hennar
fyrsta leikrit en áður hafði hún m.a. starfað sem bókmenntagagnrýnandi og blaðamaður.
Af öðrum verkum hennar má nefna leikritin „Days to Come“ og „Little Foxes“ en það
síðarnefnda var nýlega sýnt við miklar vinsældir í London og New York með Elisabeth
Taylor í aöalhlutverki.
„Ástin er tilviljunum háð — þannig
verður hún að vera.“ Ari Matthías-
son (Joseph) og Steinunn Knútsdótt-
ir (Karen).
Stórleikkonan frú Lily Mortar, sem leikin er af Margréti Lind Ólafsdóttur,
niðursokkin í Ijúfar leikhúsminningar meðan námsmeyjarnar leika sér.
Sjálfsævisaga Lillian Hellman,
„An Unfinished Woman“, kom út
1969. Þar segir hún m.a. af kynn-
um sínum við Ernest Hemingway,
F. Scott Fitzgerald og Sergei Eis-
enstein, en með honum starfaði
hún í Rússlandi um tíma, að
ógleymdum spennusagna-
hofundinum Dashiell Hammett,
sem var vinur hennar og elskhugi
um árabil.
Það fer ekki illa á því að ný-
stofnað leikfélag Kvennaskólans í
Reykjavík skuli velja „Rógburð"
sem sitt fyrsta verkefni: leikritið
gerist í kvennaskóla og af fjórtán
hlutverkum eru tólf ætluð konum.
En þó að skólinn hafi verið opnað-
ur báðum kynjum með tilkomu
framhaldsdeildanna fyrir fimm
árum, eru stúlkur þar ennþá í yf-
irgnæfandi meirihluta.
Eins og hið íslenska heiti segir
til um fjallar leikritið um rógburð
og þau áhrif sem slíkt athæfi get-
ur haft á líf fólks. Afleiðingarnar
verða flóknari en virðist í fyrstu
og í dramatískum átökum leikrits-
ins er ýmsum áleitnum spurning-
um velt upp.
í helstu hlutverkum eru Halla
Stefánsdóttir, Steinunn Knúts-
dóttir, Bryndís Marsibil Gísla-
dóttir, Margrét Lind Ólafsdóttir
og Þóra Friðriksdóttir, auk Ara
Matthíassonar, sem fenginn var
„að láni“ úr Stúdentaleikhúsinu.
Lýsingu annast Einar Berg-
mundur, Elín Rósa spilar á saxó-
fón, Björg Vilhjálmsdóttir gerði
veggspjald sýningarinnar og leik-
stjóri er sem áður sagði Vilborg
Halldórsdóttir.
Blm. leit við í Kvennaskólanum
eina kvöldstund í vikunni og
fylgdist með leikstjóranum leggja
línuna á langri og strangri æfingu.
„Líkt og Ijós stakrar
stjörnu ...“
Það er ys og þys meðal kvenna-
skólameyja þegar okkur ber að
garði, enda æfingin um það bil að
hefjast. Áður en það gerist lætur
leikstjórinn þær mynda hring, þar
sem þær eiga að haldast í hendur,
horfast í augu og hver og ein á að
ímynda sér að það sé viðkomandi
persóna í væntanlegri leiksýningu,
sem hún er að horfa á en ekki
vinkonan eða sessunauturinn úr
Kvennó.
„Þið getið vanið ykkur á að
byrja leikritið með þessum hring,"
segir Vilborg. „Það er erfitt að
horfa í augun á annarri mann-
eskju, en ekki ef maður er persóna
í leikriti að horfa í augun á ann-
arri persónu og þetta hjálpar ykk-
ur að lifa ykkur inn í verkið. Ef
einhver fer að hlæja þá er það
verst fyrir hann sjálfan,“ bætir
hún við, „því þá nær hann ekki
sambandi við hina.“
Þögn slær á hópinn og einbeit-
ingin virðist vera í hámarki. Tvær
flissa endrum og eins, en hjá hin-
um virðist dæmið alveg ganga
upp.
Vilborg skilur hópinn eftir í
smástund og svo hefst æfingin.
Væntanlegum áhorfendum er eng-
inn greiði gerður með því að fara
að rekja efni leikritsins, en eftir
hádramatískan endi er tekið til
óspilltra málanna við að gagnrýna
það sem betur mættí fara, leik-
stjórinn gerir athugasemdir og
allir taka nótur. „Þessi bók tengist
þessari persónu, það á að sjást á
þér þegar þú rekst á hana ... ekki
horfa svona mikið út í sal, þá
ferðu að gleyma replikkum ... það
eru ekki til þagnir í yfirheyrslu-
senunni ... ekki vera flóttaleg
þegar þú horfir í augun á þessari
persónu, þá kemur engum á óvart
hvað þú segir við hana seinna ...
Marta, kreppa hnefana á bls. 78 og
79 ..." Allir taka ábendingunum
vel og það fer ekkert milli mála, að
hér er unnið af mikilli alvöru.
„Það má segja að hér sé sann-
kallað kvennaleikhús á ferðinni,"
segir leikstjórinn, þegar stund
gefst milli stríða. „Þetta verk var
flutt í útvarpinu sumarið 1977,
undir leikstjórn Stefáns Baldurs-
sonar. Þá heyrði ég það og hreifst
af því. Þegar það kom svo til að ég
leikstýrði í Kvennaskólanum, kom
eiginlega ekkert annað leikrit til
greina. í því eru tólf kvenhlutverk
og þar sem það gerist í kvenna-
skóla, er skemmtilegt að það skuli
vera leikið í eina kvennaskóla
landsins, þó það sé hann reyndar
strangt tekið ekki lengur. En mér
finnst alltaf ríkja sérstök
stemmning í þessum skóla, viss
tengsl við gamla tímann og ég
skora á gamla nemendur skólans
að nota þetta tækifæri til þess að
rifja upp liðna tíð í þessu ágæta
umhverfi og andrúmslofti sem
umlykur Kvennaskólann. Fólk
ætti líka að vera minnugt þess, að
leiksýning bíður ekki eftir því
uppi í skáp eins og mynd-
bandsspóla.
Við höfum ekki haft langan
tíma til æfinga og aðeins ein hafði
leikið áður,“ segir Vilborg er talið
berst að leikendum. „En ég hef
gert miklar kröfur til þeirra og
þær hafa þurft að vinna af hörku,
alveg eins og i alvöru leikhúsi. Það
er þroskandi að taka þátt í svona
skólasýningu og sjálf hef ég lært
mikið af þessu sem leikari," en
Vilborg útskrifaðist frá Leiklist-
arskóla íslands sl. vor og „Róg-
burður“ er fyrsta leikritið, sem
hún stýrir. „Lillian Hellman er
líka spennandi höfundur," bætir
hún við. „Hún skrifaði kvik-
myndahandrit í Hollywood á
Leikstjórinn, Vilborg Halldórsdóttir,
í sígildri stellingu í salnum.
Lillian Hellman.
fjórða áratugnum og vann með
Eisenstein í Sovétríkjunum og það
er ákaflega gaman að velta því
fyrir sér, hvernig hún byggir leik-
ritin sín upp. „Rógburður" hefur
líka verið kvikmyndað og sýnt hér
í sjónvarpinu. í upphaflegri gerð
gerist það í smábæ nálægt Boston,
en það gæti gerst hvar sem er og
það er sá póll sem ég hef tekið í
hæðina í þessari uppfærslu.
Leikritið fjallar um tvö megin-
atriði; það segir af lítilli stúlku,
sem dregur óskýr mörk milli
ímyndunar og raunveruleika og
hvernig hún kemur af stað sögu,
sem er ósönn. Það snýst síðan upp
í spurninguna „máttu vera eins og
þú ert?“ Þó spurningin fjalli í
þessu tilfelli um ástir tveggja
kvenna, gæti hún eins verið
„máttu hugsa eins og þú gerir?
Ganga í grænum nælonsokkum?"
Eða enn annað. Höfundur fer
þannig með þetta viðkvæma efni,
án þess að velta sér upp úr því, að
hægt er að setja hvað sem er í
staðinn," segir Vilborg og bætir
við: „Þegar ég velti því fyrir mér,
hvað Lillian Hellman sé að segja í
þessu leikriti, kemur mér í hug
kínverskt spakmæli: „Líkt og ljós
stakrar stjörnu geislar af fjöllum í
órafjarlægð, svo getur eitt óað-
gæsluorð flekkað heila manns-
ævi.“
H.H.S.