Morgunblaðið - 20.01.1985, Page 2

Morgunblaðið - 20.01.1985, Page 2
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 20. JANUAR 1985 2 B kenningum Guðspekifélagsins að segja má að ég hafi ekki farið það- an aftur næstu árin. Þarna kynntist ég fyrirmyndar- mönnum sem lögðu grundvöllinn að lífi mínu. Það voru t.d. þeir séra Jakob Kristinsson, formaður Guð- spekifélagsins, og Sigurður Kristófer Pétursson. Sigurður var sjúklingur flest sín manndómsár, en lét það ekki aftra sér frá því að vinna að sínum áhugamálum af mikilli elju, hann var einn af stofnendum Guðspekifélagsins og bar það mjög fyrir brjósti. Hann dvaldist lengi á Holdsveikraspítal- anum í Laugarnesi. Þar komast hann fyrst í kynni við guðspekina fyrir áhrif danskrar hjúkrunar- konu, fröken Harríet Kjær. Það mun reyndar hafa verið þessi danska hjúkrunarkona sem flutti guðspekina til íslands. Áhugi Sigurðar Kristófers á málefnum guðspekinnar varð til þess að hann fór að læra ensku og þreifa fyrir sér um þýðingar af þvi máli. Fyrsta þýðingin, sem hann gerði úr ensku og ætlaði að fá birta í tímariti Guðspekifélagsins, þótti svo léleg að hún væri nánast óprenthæf. Þetta var nokkurt áfall fyrir Sigurð Kristófer en verður til þess að hann öðlast óvænt innsýn inn i íslenska tungu. Vann hann að miklu ritverki um þetta síðustu æviár sín — verkið kom út 1924 og nefndist „Hrynj- andi islenskrar tungu“, en Sigurð- ur Kristófer dó ári seinna. Þá bók las ég ofan í kjölinn á sinum tima. Einum velgerðarmanni má ég ekki gleyma: Sigurði ólafssyni rakarameistara i Eimskipafélags- húsinu. Nám í Bandaríkjunum Eins og ég sagði höfðu þessir menn djúptæk áhrif á minn lífs- feril og urðu kynni min af þeim til þess að ég uppgötvaði hina and- legu hlið lífsins, ef svo má að orði komast. Ég tók þá staðföstu ákvörðun að rifa mig upp úr kvöð verkamannavinnunar, og veturinn 1924—25 tókst mér að fá leyfi til að sitja í læknadeild háskólans, þó án réttar til þátttöku í prófum. Veturinn 1926 fór ég svo í lækna- nám til Bandarikjanna, til Chic- ago. Þegar til Chicago var komið var pyngjan orðin létt eins og gefur að skilja og átti ég varla eyris virði. Er þetta var bjó forrikur is- lenskur maður, Hjörtur Þórðar- son, í Chicago-borg. Hann átti þar stóra verksmiðju sem framleiddi spennubreyta fyrir bílaverk- smiðjur Ford og Cevrolett m.a. Hjörtur var milljóneri á dollara- vísu — hann átti t.d. eyju úti i Mitchigan-vatni og þar hélt hann mikil samkvæmi sem ýmsir gróss- erar fylkisins sóttu. Ég var ákveðinn í að hitta Hjört þegar er ég kom til Chicago og treysti á það að hann myndi greiða eitthvað úr fyrir mér. Ein- hvern veginn tókst mér að finna húsið hans á öðrum degi, þó ég væri ekki vanur að komast leiðar minnar i stórborg. Þar hitti ég fyrir íslending sem ég kannaðist við; sagði hann mér að mæta i verksmiðjunni morguninn eftir og fengi ég áreiðanlega einhverja úr- lausn um vinnu. Ég vann svo þarna í verksmiðj- unni í hálft ár og hafði þá næga peninga til aö hefja læknisnám. Annars var Hjörtur ekki hrifinn af að hafa íslendinga i vinnu hjá sér til lengdar — hann vildi að íslendinar tækju sér eitthvað stærra fyrir hendur en að vinna hjá öðrum — stofnuðu sjálfir fyrirtæki eða færu í nám. Þegar ég hætti í verksmiðjunni hjá honum gaf hann mér 100 dollara, sem voru stórfé í þá daga. Þetta mun hann hafa gert í því skyni að ég gæti tekið mér verðugt verkefni fyrir hendur. Ég stundaði svo læknanám i Chicago næstu sex árin. Þetta var á bannárunum og gekk oft mikið á i borginni. Þá var AI Capone upp á sitt besta og var aðalmaðurinn í áfengissmyglinu — hann var þó ekki einn um hituna því ýmsir aðrir bófaflokkar reyndu að starfa á hans svæði. Einu sinni tókst ein- hverjum þeirra að koma umtals- verðu magni af áfengi inn i borg- ina og var það geymt í vöruhúsi. Menn A1 Capone höfðu veður af þessu og gerðu hinum fyrirsát við vörugeymsluna. í þeim átökum voru sex skotnir til bana, og voru væringar sem þessar algengar í Chicago bannáranna. Hinn al- menni borgari varð þó ekki mikið var við þetta, því bardagarnir voru háðir milli bófaflokkanna og nánast álitnir þeirra einkamál. Þýðingar — Hvað tekur svo við þegar þú kemur til íslands aftur? Þegar ég kom heim að loknu læknanámi tókst mér ekki að fá leyfi til að stunda lækningar hér á landi og olli það mér nokkrum vonbrigðum. Það varð úr að ég gerðist starfsmaður Borgarlækn- isembættisins varðandi heilbrigð- iseftirlit og gegndi því starfi allt til eftirlaunaaldurs. — Hvað varð til þess að þú tókst þér þýðingar fyrir hendur? Þetta hefur verið mitt áhuga- málum ævina. Ég byrjaði á þvi að þýða úr ensku, sem er fyrsta málið sem ég lærði til hlítar. Það voru bókin „Líf í alheimi“ o.fl. rit. Árið 1940 kom til mín efnaður maður, sem hafði ákveðið að fjár- magna útgáfu á helstu trúar- heimspekiritum heimsbókmennt- anna. Bað hann mig að þýða kin- versku bókina Tao teh King eða Bókina um dygðina og veginn. Sú bók kom út 1942. Ég fékk snemma áhuga á ind- verska fornmálinu sanskrit, og hef þýtt nokkrar bækur úr þvi máli. Fyrsta verkið sem ég þýddi úr sanskrit er hið forna helgirit Indverja Bahagvat Gita (Hinn himneski lofsöngur) og kom hún út hér 1939. Þá þýddi ég Uphan- ishadurnar, sem eru ævafornar sanskrítarbókmenntir. Kom verkið út undir nafninu „Laun- viska Vedabóka" árið 1942. Þá þýddi ég úr sanskrít hina miklu bók „Fimmdægru“ og kom hún út hér 1963. Or sanskrít þýddi ég einnig ljóðabálkinn „Árstíðirnar" eftir hið forna indverska skáld Kalidasa og er það „Nafnlausa bókin“ sem út kom 1973. — þetU eru fyrst og fremst trúar- legar bókmenntir er það ekki? Vedabækurnar eru trúar- heimspekilegs eðlis en jafnframt grundvöllur indverskra bók- mennta til forna. Þær eru þungar og torskildar. Bahagvat Gita er trúarlegs eðlis fyrst og fremst, og hafa Indverjar lagt það út á marga vegu. Eftir að ég hafði þýtt Bahagvat Gita og verkið var kom- ið út, tók ég aftur til hendini við það og færði í ljóðrænt form. Sú gerð verksins er aðgengilegri, hún kom út árið 1965. Fimmdægra (Panchatantra) er einskonar leið- sögn í lífsspeki og mannþekkingu sem sett er fram með dæmisögum. — Er sanskrít ekki fremur tyrfið mál — mér skilst að Indverjum sjálfum þyki það hart undir tönn. Sanskrít — palí Jú, sanskrít er mjög erfitt tungumál — það gerir sérstaklega málfræðin. Ætli maður að læra sanskrít verður að byrja á því að læra ákveðið letur, sem heitir Devanagari og ekkert annað tungumál notar það letur. Sans- krit er forntunga Indverja og er talið að það hafi verið talað á Ind- landi fyrir þúsund árum. Nú er það eingöngu bókmál en mestur hluti klassískra bókmennta Ind- lands er ritaður á sanskrít. Sans- krít er álitin vera mál hins forna ariska kynstofns en fjöldinn allur af tungumálum er kominn af ar- íska málstofninum; fullyrða má að íslenska sé elsta málið sem talað er af þessum ariska málstofni. — Hefur þú lært fleiri Austur- landamál? Ég hef einnig gluggað dálítið í palí sem er forntunga Búddatrú- armanna. Af þessu tungumáli þýddi ég eina bók, Dhammapada, — í íslensku þýðingunni nefnist hún „Leiðsögn til lífsvisku" og kom út áriT) 1954 en ný útgáfa 1975. Eina bók hef ég skrifað á ensku The Quest of Wholnes. Þar tek ég yogasútrur Patantjalis fyrir á vís- indalegan hátt, með hliðsjón af taugalifeðlisfræði. — Um hvað fjalla þessar yogasútr- ur? Þær eru grundvallaratriði yoga- heimspekinnar. Þær fjalla um það hvernig menn ná tökum á skap- andi mætti sínum — hvernig þeir geta orðið andlegir menn. Þær út- skýra hvernig maðurinn getur ræktað hið andlega með sér og orðið meiri maður fyrir bragðið. Sören Sörenson. — Hvernig er þetta verk þitt upp- byggt? Ég byrjaði á þvi að þýða sútr- urnar á ensku en lagði svo út af hverri og einni, og sýndi framá hvernig þær geta haft hagnýtt gildi. Þegar maður hefur öðlast skilning á því sem höfundurinn hugsar sér og hefur einnig vis- indalega þekkingu á efninu er freistandi að sýna öðrum framá hvernig hagnýta má sútrurnar. — Hvernig tengjast sútrurnar yogaheimspeki? Til eru margar greinar af yoga og sumar þeirra byggja mikið á þessum sútrum. Sútrurnar eru sálfræðilega uppbyggðar og þeim er ætlað að hafa áhrif á þá sem taka þær til íhugunar. Indverjar skilja þær á sinn hátt — en ég veit ekki til þess að þær hafi verið skýrðar vísindalega fyrr. Ensk-íslensk orðabók — Við víkjum nú talinu að hinni miklu Ensk-íslensku orðabók sem út kom hjá Erni og örlygi núna fyrir jólin, og Sören er höfundur að. Ég spyr hann hvað hafi orðið til þess að hann tók sér þetta verk- efni fyrir hendur. Það liggja ákveðnar orsakir til allra hluta og það á einnig við um þetta verk. Það var árið 1973 sem ég varð fyrir þvi mikla áfalli að missa minn hjartkæra lífsföru- naut Elínborgu Sigurðardóttur. Ég var þá kominn á eftirlaun og gerði ég mér ljóst að ef ég ætti ekki að grotna niður í andlegu aðgerðarleysi yrði ég að takast á við eitthvert viðamikið verkefni. Ég hafði aldrei verið í vandræðum með að finna verkefni til að ein- beita huganum að en nú varð ég að finna mér verkefni er tæki hug minn allan. Árið 1967 fórum við hjónin til Bandaríkjanna og þar komst ég yfir orðabók sem ég hafði ekki áð- ur haft vitneskju um. Þegar heim kom og ég fór að skoða þessa bók nánar komst ég að þeirri niður- stöðu að hér væri um orðabók að ræða sem gerlegt væri að snara á íslensku. Þegar ég var orðinn ekkjumaður lagði ég út í þann þrældóm að snúa orðabók þessari á íslensku. Vann ég samfleytt að verkinu frá árinu 1973 til 1980, alla daga frá morgni til kvölds. Fyrir mér vakti að vinna að góðri orðabók, bók sem veitti nemendum og öðrum stoð í námi og lestri góðra bóka. Ég vann þetta verk eins vel og ég hafði getu til en reynslan verður að dæma um hvernig til hefur tek- ist. Þá er mér skylt að geta þess að þetta verk hefði aldrei náð fram að ganga nema ég hefði notið að- stoðar góðra manna sem lögðu mikinn skerf til þessa verks. — Heldur þú ennþá sambandi við Guðspekifélagið? Nei, ég hef ekki haft neitt sam- band við það síðan ég kom heim frá námi — ég hef einhvern veg- inn vaxið frá því. Heimspeki og trúarbrögö Ég hef satt að segja engar ákveðnar trúarskoðanir og yfir- leitt ekki mikla trúarþörf. Það eina sem við vitum er að það er mikið skapandi afl í tilverunni og þetta skapandi afl kemur í ríkum mæli fram hjá manninum. Sumir segja að þetta skapandi afl sé Guð en sú skýring höfðar ekki sterkt til mín — ég tel mig ekki vita hver þessi sköpunarmáttur er. En lífið er merkilegast alls og þess vegna hlýtur maður að bera virðingu fyrir því — ég tel að maður eigi að nota líf sitt vel og láta gott af sér leiða eftir því sem tök eru á. Ég hef heldur ekki tileinkað mér neina ákveðna heimspeki — ég hef að vísu kynnt mér ind- verska og evrópska heimspeki en ég hef ekki komið mér niðurá neina sérstaka lífsfilósófíu. Én ég er forvitinn um allt er lífið snertir — sjáanlegt eða hulið. Það er svo margt sem maður skilur ekki í þessari tilveru og heimspekin hjálpar manni ekki mikið hvort sem hún er vestræn eða austræn. - bó. Á Listasafni íslands Myndlist Bragi Ásgeirsson f tveimur fremstu söhim Lista- safns fslands stendur um þessar mundir yfir sýning á 33. vatnslita- og krítarmyndum eftir Gunnlaug Scheving, hefur svo ein olíulita- mynd af minni gerðinni fengið að fljóta með til samanburðar og ynd- isauka. Þetta er dálítið óvenjuleg sýn- ing á myndverkum þessa ágæta málara því að hér er myndefnið i ríkari mæli hreint landslag en menn voru vanir frá hendi hans. Hér kemur þó fram að Gunn- laugur var ekki síður mjög eftir- tektarverður landslagsmálari en t.d. sjávarmyndamálari þótt hann sé þekktastur sem slíkur. Hér kemur allt fram í senn, rík tilfinning fyrir uppbyggingu myndefnisins og er burðargrind myndanna þannig oftast þaul- hugsuð og hnitmiðuð. Mikið og tært birtuspil er aðal margra þeirra ásamt ríkri tilfinningu og samsemd fyrir grómögnum og litbrigðum jarðar. Stundum minnir meðhöndlun Gunnlaugs á litunum á sjálfan Bonnard og er þá ekki leiðum að líkjast því að sá er af mörgum álitinn mestur listasnillingur aldarinnar. Veit ég til þess að Gunnlaugur var mjög hrifinn af Bonnard en samt voru þeir í flestu ólfkir listamenn. Vil ég hér vísa til nokkurra mynda framslætti mínum til stuðnings svo sem myndanna þriggja frá Akranesi (nr. 3, 6 og 18), svo og „Hús við strönd“ (9) og „Landslag" (32). Allar þessar myndir þykja mér hreinar perlur fyrir litræna útfærslu, birtuflæði og mynd- byggingu. Það ætti að vera mjög lærdómsríkt og til umhugsunar að bera vinnubrögðin í þessum myndum saman við það flóð af miðlungsmyndum af landslagi er fyllir markaðinn og fólk kaupir i stórum stíi. Hér helgar landslag- ið ekki meðalið, svo ég hniki dá- lítið alþekktu máltæki, nei svo sannarlega ekki, því að hið eina sem gildir er svipmikil vinnu- brögð, rík tilfinning fyrir mynd- efninu og auðug, skapandi kennd. Allt þetta sfðasttalda prýddi Gunnlaug Scheving í ríkum mæli svo sem myndirnar á veggjum Listasafns íslands eru til vitnis um. Megi þær verða mörgum drjúgur lærdómur ásamt tilefni til heimsóknar í sali Listasafns íslands.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.