Morgunblaðið - 18.09.1986, Page 33
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 18. SEPTEMBER 1986
33
Níræður:
Þórður Krislján
Runólfsson í Haga
Gamall og nýr granni minn,
Þórður í Haga, verður níræður í
dag.
Það er rúmlega hálf öld síðan
ég man hann fyrst í svartasta
skammdeginu 1934.
Þá stóð svo á að þær þrjár mjólk-
urkýr sem voru í Vatnshorni báru
allar um svipað leyti, við byrjun
jólaföstu, og stóðu allar geldar eitt-
hvað hálfan mánuð. Þau dægrin var
víst svolítið daufleg vist hjá okkur
elstu systkinunum á bænum.
Það var hart í spori af frosti, föl
eða hrím á jörð og nærri myrkt af
nótt þegar utan túnið kemur hálf-
hlaupandi ljóslitaður maður, ekki
hár en knálegur — var hann að
ganga við fé eða gá til ijúpna? —
og snarast inn í gömlu bæjardyrnar
og dregur úr barmi sínum tvær
vænar flöskur, fullar af mjólk.
Heimsóknin var snögg eins og
vindsveipur. Innan skamms var
hann hlaupinn aftur út í myrkrið,
en það birti í bænum og okkur syst-
ur minni ársgamalli ylnaði fyrir
bijósti við þessa kveðju þeirra
hjóna, Halldóru og Þórðar í Haga.
Sú hlýja umhyggja sem hún lýsti
hefur ætíð síðan fylgt nafni þeirra
í huga mínum og mun ekki þaðan
víkja.
Það litla samfélag, sem á þessum
árum þreifst í Fram-Skorradal, var
eins fjarri nútímareglum um mann-
lega velferð og hugsast getur, en
þar ríkti þó óskoruð sú siðmenning
hjartans að daufheyrast hvorki við
bamsgráti í garði granna síns né
láta gangandi mann svelta við dyr
sínar.
Nú lifir Þórður einn þar efra af
því fólki sem þá fagnaði ljósinu í
þessari sókn.
Hann fæddist 18. september
1896 í Efra-Hrepp, sem landfræði-
lega heyrir til Andakíl þótt í
Skorradalshreppi sé, sonur hjón-
anna Runólfs Arasonar og Ingi-
bjargar Péturssonar. Eftir
aldamótin fluttust þau upp fyrir
melana að Hálsum, neðsta bæ í
Skorradal að norðanverðu, og þar
ólst Þórður upp, þriðji elstur sjö
bræðra, en systumar voru þijár.
Árið 1913, er hann varð sautján
ára, bar hann aleigu sína, nokkur
ígangsklæði, í pokaskjatta á bakinu
fram endilangan Skorradal og gerð-
ist vinnumaður rausnarhjónanna
Halldóru Pétursdóttur og Svein-
bjamar Björnssonar í Efstabæ,
foreldra Þorgeirs skálds og þeirra
systkina. Þama var Þórður fjögur
ár, en 1917 réðst hann vinnumaður
á helsta stórbýli sveitarinnar, Fitj-
ar, hjá bóka- og gáfumanninum
Stefáni Guðmundssyni og konu
hans Karólínu Hallgrímsdóttur,
Ijúfri og listrænni af þingeyskum
ættum. Þar var hann næstu fjögur
ár.
Þessi tvö menningarheimili voru
háskólar Þórðar svo að talað sé
með Maxim Gorki.
Einhvern tíma las ég það í grein
eftir víðfrægan íslenskan lærdóms-
mann að hann teldi smekkleysi að
tengja orðið sálugi nafni nokkurs
manns.
Ósköp er málkennd manna mis-
jöfn.
Á unglingsárum mínum heyrði
ég Þórð oft tala um þessa sína
gömlu húsbændur og mér flnnst
að hann hafi oftast nefnt þá Svein-
bjöm sáluga og Stefán heitinn.
Hann lagði ætíð í þessar einkunnir
slíka ástúðblandna virðing fyrir lífi
þeirra og starfí að nú myndi ég
öðrum orðum fremur grípa til þeirra
ef ég ætlaði að tala af lotningu um
látinn mann.
í Efstabæ kynntist Þórður Hall-
dóru Guðjónsdóttur sem þar var
vinnukona samtímis honum í þijú
ár og síðar eitt ár á Fitjum. Þau
gengu í hjónaband og á Fitjum
fæddist eldra barn þeirra, sonurinn
Óskar, 1920, en dóttirin, Dóra,
fæddist 1925.
Halldóra var greind kona og bók-
hneigð. Ekki gerði hún sér alla að
viðhlæjendum og ekki alla viðhlæj-
endur að vinum. Hún var „drengur
góður“ eins og sagt var um aðra
húsfreyju. Og ekki lét hún börn
grannkonu sinnar lengi ambra
mjólkurlaus meðan eitthvað dropaði
úr hennar eigin kúm. Hún var hög
kona, smekkvís og þrifin í hús-
haldi. Enn lýsa í huga mínum þær
salúmsofnu ábreiður sem skinu í
mörgum litum á rúmunum í bað-
stofu þeirra Þórðar.
Árið 1921 hófu þau búskap á
Draghálsi í Svínadal og bjuggu þar
eitt ár, en 1922 fluttust þau að
Svanga í Skorradal.
Það má vera táknrænt um hag-
rænt og jákvætt lífsviðhorf Þórðar
að hann undi ekki svo hungurlegu
nafni á jörð sinni — þótt myndrænt
væri — en nefndi býli sitt Haga —
látlaust, hreint og lýsandi, laust við
nýbýlalega sykurkvoðu Unaðs-
staða, Sunnuhvola og Birkihlíða.
Jafnframt flutti hann bæ sinn úr
slakkanum, sem Svangi bar nafn
af, og húsaði á nokkrum hávaða
nær vatninu þar sem er víðsýnt og
Jökulinn ber við loft af bæjarhell-
unni fyrir miðjum dal í vestri.
Þarna bjuggu þau Halldóra æ
síðan af stakri snyrtimennsku og
þrifnaði og ólu upp böm sín tvö uns
þau flugu úr hreiðri. Halldóra lést
árið 1982 og síðan hefur Þórður
búið einn. „Eg dvaldi þar aleinn
með sál minni sjálfri," kvað Einar
Ben. í stórborginni. Ef til vill er
Þórður ekki einni í Haga en hver
annar New York-búi heima hjá sér.
Hagi er beitaijörð ágæt en
slægjulönd lítil eins og á mörgum
býlum Skorradals. Þórður ræktaði
gott tún, ræsti mýrarslakka og
sléttaði móa, en ávallt hlaut hann
að sækja engjaslátt um langan veg,
stundum upp á hálsinn á Þófadal
eða alla leið yfir í Grafardal, stund-
um inn á Fitjaengjar. Það var
langur vegur, tók hálfa aðra
klukkustund með heybandslest.
Mér er í minni eitt síðsumarkvöld
rétt fyrir síðari heimsstyijöld. Ég
kom utan Vatnshornshlíð meðkýrn-
ar en þeir fegðar, Þórður og Óskar,
innan að með lest hvanngrænna
heybagga. Óskar lék á munnhörpu
sína og bárust tónarnir langvegu
að. Þetta var eins og grísk goð-
sögn: Hjarðsveinn, lestreki, hljóð-
pípuleikari — og yfir öllu kristalstær
lognværðin.
Með því að Ilagi bar ekki stórbú-
skap vann Þórður iðulega utan
heimilis síns og var eftirsóttur verk-
maður sakir kapps og afkasta.
Hann sótti fiskvinnu á Skipaskaga,
vegavinnu víða um héraðið og ótelj-
andi erfiðisstörf við gröft og
húsbyggingar á grannbæjum.
Slíkt var eðli Þórðar og lýsir
manninum að hann vann ávallt öðr-
um af öllu meira kappi en hann
beitti í sjálfs sín búskap. Enginn
skyldi svikinn af að kaupa dagsverk
hans. Vel unnið verk var æðsta
hugsjón hans og lífsfylling.
Ég kynntist Þórði fyrst að marki
er ég vann unglingsstrákur með
honum í vegavinnu. Verkfærin voru
skóflur, hakar, jámkarlar og tveir
dráttarklárar, föður míns og hans,
með malarkerrur sínar. Samt tókst
okkur að gera nokkurn veginn
bílfært inn fyrir Vatn fýrir daga
jarðýtunnar.
Þórður var verkstjóri okkar og í
þeim flokki fóru allir að dæmi leið-
togans og unnu „því opinbera“
betur en sjálfum sér.
Ég man nokkra daga um vetur-
nætumar 1943 er við ruddum
veginn gegnum móann neðan við
bæinn í Haga. Þar var mikið stór-
grýti og Þórður var að því leyti líkur
frægasta bónda íslenskum, Bjarti í
Sumarhúsum, að „hann hafði gam-
an af að fást við stóra stéina." Það
var með ólíkindum hvílík björg
Þórður færði um set sem og enn
má sjá í hlöðuveggjum hans. Þegar
ég nú ek þennan veg heilsa ég
stundum upp á gamla kunningja
sem við Þórður veltum úr vegi þessa
haustdaga og enn þykist ég sjá á
sumum þeirra förin undan járnkarli
Þórðar. Svo hart var að þeim vegið
í þá tíð.
Voriðeftir, lT.júní 1944, unnum
við að því að malarbera þennan
vegarspotta. Við vorum þrír, við
faðir minn og Þórður, með tvo
kerruklára.
Það haugrigndi allan daginn og
við vorum svo skinnblautir sem
þorskar á þrítugu dýpi.
Við fórum inn í bæ að snæða
hádegisverð og síðan gerði Þórður
hlé á störfum vegavinnuflokksins.
Við sátum í baðstofunni í Haga og
hlýddum á útvarp frá lýðveldistök-
unni á Þingvöllum. Það lak úr fötum
okkar niður á hvítskúrað gólfið og
eftir því sem leið á athöfnina stóðu
meiri gufur upp af votum vaðmáls-
buxum karlanna.
Ekki veit ég hversu meðvitaðir
þeir voru um þau pólitísku tíðindi
sem þarna gerðust, en ég fann til
einskis fagnaðar og hugur minn var
víðs fjarri bæði lýðveldi og þungri
möl.
Eftir lýðveldisstofnun og
klukknahljóm hurfum við aftur út
í regnið og malarmoksturinn. Þann-
ig heilsuðum við Þórður þessum
atburðum saman í órofa önn að
vegabótum í landi hins unga lýð-
veldis.
Þessa vegavinnudaga sagði hann
mér oft margt af þeim gömlu
bændahöfðingjum Sveinbimi sál-
uga og Stefáni heitnum. Ekki leyndi
sér hrifni Þórðar af fráleik Svein-
bjarnar, en hann var annálaður
hlaupagarpur. Sauðabúskapur var
í Efstabæ og sauðimir skjarrir er
rýja skyldi. Fékk Þórður þama sínar
fýrstu miklu æfíngar í langhlaup-
um. Eitt sinn eltu þeir bóndi og
vinnumaður hans stygga sauði lengi
dags og var Sveinbjörn þá af létt-
asta skeiði, enda fór svo að lokum
að það var hinum fótfráa, unga
húskarli að þakka að hlaupadýrin
urðu handsömuð.
Þó að Þórður tæki aldrei þátt í
opinberum kapphlaupum var hann
í æsku minni nafntogaðasti hlaupa-
garpur héraðsins. Það var sannmæli
sem eitt sinn var um hann sagt,
að „bijóstið er óbilað og fæturnir
óbilanlegir.“
Enn leikur Þórður sér að því að
renna ísa Skorradalsvatns og háls-
inn yfir í Lundarreykjadal að hitta
vin sinn Björn á Sr.artastöðum og
afþakkar bílferð til baka. Þegar ég.
heimsótti hann eitt sinn í vor hafði
hann nýlokið með skóflu sinni við
að grafa upp vatnsleiðslu sína til
endurnýjunar, mikinn skurð á ann-
að hundrað metra langan, vel álnar
breiðan og metra á dýpt. Slíkt hand-
tak hefði vafist fyrir mér og mínum
líkum þótt yngri séum.
Af því sem sagt hefur verið má
vera ljóst að Þórður er enginn
hversdagsmaður um líkamlegt at-
gervi, en meira er þó vert um
innræti mannsins.
Allt eðli Þórðar einkennist af trú-
mennsku og glaðværri góðvild. Þó '
að hann væri ljóslitaður garpur sem
Gunnar á Hlíðarenda, er allt æði
hans sama og Kolskeggs er sagði:
„Hvorki skal ég á þessu níðast og
engu öðru því er mér er til trúað."
Á yngri árum valdist Þórður og
til ýmiss trúnaðar í sveit sinni; sat
í hreppsnefnd og var lengi forða-
gæslu- og kláðaskoðunarmaður.
Bar hann þá oft hratt yfír á útmán-
aðahjörnum.
Þórður er forvitinn um atburði
og tíðindi í heimi og héraði og fylg-
ist vel með. Hann er sögufróður og
minnugur, en aldrei hef ég heyrt
hann leggja öfugt orð til nokkurs
manns. Þegar ég hugsa um hann ,
koma í hugann orð eins og fróm-
leiki og góðvilji.
Fyrst og fremst er hann heill
maður og sjálfum sér trúr. Því er
gott að þekkja hann.
Líf hans í afskekktri einveru er
sjálfsagt brot á velferðarkerfi nú-
tímans með hælum sínum og
stofnunum. En þetta er hans líf og
það á hann sjálfur og mig grunar
að það búi yfir meiri hamingju og
fyllingu en samanlögð heilsuhæli
landsins. s
Okkur á Skorrhóli þykir vænt
um að vita af honum þama utan
við og gott að vera komin í ná-
grenni við hann aftur.
Við ámum honum allra heilla á
þessum degi, góðrar heilsu og glað-
værðar síðasta áfangann.
Þegar hann hverfur fyrir hinsta
leitið veit ég að hann hleypur við
fót undir rísandi sól.
Sveinn Skorri Höskuldsson
Qkuthn írá LANCIA
TISKUBILLINNIAR!
Þaö er bjart framundan hjá kaupendum smábíla, því nú er kominn á markaöinn stórskemmtilegur lítill bíll, sem
á ekkert sameiginlegt meö öörum smábílum nema stæröina.
SKUTLAN er framleidd af hinum þekktu LANCIA verksmiöjum, sem hingað til hafa einbeitt sér aö framleiðslu
stórra og vandaöra luxusbíla og sportbíla.
Hún er 5 manna „lítil aö utan — en stór að innan“ og býður upp á áöur óþekkt þægindi og íburð í bílum af
þessari stærð. SKUTLAN er flutt inn af Bílaborg h/f. Það tryggir 1. flokks þjónustu, sem er rómuö af öllum
sem til þekkja.
SKUTLAN kostar frá aðeins
288.000 krónum.
gengisskr. 2.9.86
BILABORG HF
Smiðshöfða 23sími 6812 99
Alm. auglst./SÍA