Morgunblaðið - 02.11.1995, Qupperneq 28
28 FIMMTUDAGUR 2. NÓVEMBER 1995
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ
Nýtt listagallerí opnað í Reykjavík
Morgunblaðið/Árni Sæberg
HREINN Friðfinnsson ásamt tveimur verka sinna
í Galleríi Ingólfsstræti 8.
Ingólfsstræti 8
í DAG hefur nýr sýningarsalur
fyrir myndlist starfsemi í Ingólfs-
stræti 8 í Reykjavík; Gallerí Ing-
ólfsstræti 8. Svanur Kristbergsson
mun sjá um rekstur hans ásamt
Eddu Jónsdóttur eiganda hans og
skipa þau, ásamt Berki Arnarsyni,
sýningarnefnd sem hefur yfirum-
sjón með vali á sýnendum. Einnig
mun verða leitað til sýningarstjóra
til að setja upp einstaka sýningar
í framtíðinni. Blaðamaður hitti
Svan að máli og ræddi við hann
um tilurð og hlutverk salarins.
„Þetta er nokkuð sem Eddu er
búið að dreyma lengi um að.gera.
Það var drifið í þessu núna með
frekar litlum fyrirvara eftir að við
fréttum af þessu húsnæði hér í
Ingólfsstræti 8. Þar var allt í niður-
níðslu og við þurftum að leggja
mikla vinnu í endurbætur. Þetta
hefur allt gerst mjög hratt,“ sagði
Svanur.
Hann sagði að Edda hefði sótt
það fast að hafa hann með sér í
framkvæmdinni, ekki hvað síst
vegna þess að hann væri í betri
tengslum við það sem væri að ger-
ast hjá yngri kynslóð listamanna
en hún er sjálf vel kunnug kynslóð-
inni þar á undan, en hún er mynd-
listarmaður sjálf. „Mitt hlutverk
verður meira að leita að ungum
listamönnum auk þess sem ég mun
líta út fyrir landsteinana en við
höfum í hyggju að sýna verk er-
lendra listamanna í biand við ís-
lenska," sagði Svanur.
11-12 sýningar á ári
Myndlistarmaðurinn Hreinn
Friðfinnsson ríður á vaðið en hann
er vel kunnur hér á Iandi sem og
víða erlendis en hann hefur mikið
að gera við sýningarhald á megin-
landi Evrópu og í Skandinavíu að
sögn Svans. Hann sagði að þau
hefðu ákveðið að byrja á að sýna
verk þekktra listamanna til að
staðurinn fengi góða athygli strax
í upphafi en á eftir Hreini sýnir
Ásgerður Búadóttir. Einnig er í
deiglunni sýning Ingólfs Arnarson-
ar. Búið er að ganga frá sýningu
Rögnu Róbertsdóttur næsta sumar
sem verður framlag gallerísins til
Listahátíðar í Reykjavík. Eins er
frágengið að Finninn Pekka Ni-
skanen komi hingað til lands í sept-
ember á næsta ári og sýni í gallerí-
inu.
Svanur segir að stefnt sé að
u.þ.b. 11-12 sýningum á ári bæði
einkasýningum og jafnvel litlum
samsýningum. Hann segir að eng-
ar línur hafi verið dregnar og allt
sé opið á meðan galleríið er að
mótast og þau gefi sér rúmt ár í
reynslutíma.
Þurfa að vinna traust fólks
Einkareknir sýningarsalir á höf-
uðborgarsvæðinu hafa átt undir
högg að sækja. Margir hafa gefist
upp á endanum, ekki síst vegna
skorts á fjármagni til reksturs. Því
liggur beint við að spytja hvort þau
séu ekki smeyk um að þetta eigi
eftir að reynast erfitt í fram-
kvæmd.
„Við ætlum að eyða góðum tíma
í að búa til einhvern fjárhagslegan
grunn. Við þurfum að vinna traust
og áhuga fólks, myndlistarmanna
og fyrirtækja sem gætu hugsað
sér að styrkja starfsemina. Við
viljum geta rekið heilt starfsár með
einhverskonar bakhjarla sem
myndu styrkja okkur og við gerum
okkur fullkomlega grein fyrir að
við verðum þá eitthvað að hafa til
að gefa á móti. Við erum bjartsýn
og förum í rauninni ekki af stað
með neitt nema bjartsýnina.
Draumurinn er sá að fá t.d. 11-12
aðila sem myndu styrkja starfsár-
ið, kannski einn á hveija sýningu.
Þetta myndi gefa okkur ákveðið
öryggisnet og við gætum einbeitt
okkur að því að skipuleggja gott
starfsár. Þetta er kannski barnsleg
bjartsýni en það kemur þá bara í
ljós hvemig til tekst.“ sagði Svan-
ur að lokum.
Sýning Hreins Friðfinnssonar i
Galleríi Ingólfsstræti 8 verður opn-
uð kl. 17.30 í dag og verður opin
frá kl. 14-18 alla daga nema mánu-
daga til 26. nóvember.
Svanasöngvar
Schuberts
Morgunblaðið/Ámi Sæberg
FRA tónleikunum.
TONLtST
Borgarleikhúsið
LJÓÐATÓNLEIKAR
Kristinn Sigmundsson og Jónas
Ingimundarson fluttu Schwanenge-
sang, ljóðaflokk Schuberts við
kvæði eftir Rellstab, Heine og Seidl.
Þriðjudagurinn 31. október 1995.
SVANASÖNVAR Schuberts
voru gefnir út 1829 ári eftir að
hann lést. Útgefandinn var Hasling-
er, er naut aðstoðar Ferdinands,
bróður tónskáldsins, við röðun og
val söngvanna. Líklegt er talið að
Ferdinand hafi ráðið nafninu á
þessu lagasafni. Kristinn og Jónas
hafa bætt við einu ljóði eftir
Rellstab, Herbst, og þykir þetta
fallega lag minna á söngva Mend-
elssohns, hvað snertir tærleika en
er ef til vill einum of tilfínninga-
þrungið fyrir Mendelssohn. Þetta
haustljóð var samið í apríl 1828 en
ekki gefið út fyrr en 1895, fyrir
100 árum, og þó það eigi vel heima
meðal svanasöngva Schuberts og
hann sjálfur hafi haft í huga að
gefa úr safn söngva við ljóð eftir
Rellstab og ætlað haustljóðinu að
vera í því safni, þekkja flestir laga-
flokkinn án þessa lags.
í þessum lagaflokki er að finna
lög sem í safni Schuberts teljast
ekki með þeim merkari en einnig
listaverk, eins og Tvífarinn, sem er
líklega eitt magnaðasta söngtónverk
sem samið hefur verið og var þetta
meistaraverk glæsilega sungið af
Kristni. Sama má segja um annað
kyrrlátt verk, Myndin hennar, sem
er nánast tónles og þeir félagar
fluttu af sérstökum innileik. Borgin
var glæsilega flutt af Jónasi og í
söng Kristins gat að heyra sáran
söknuð þess sem hefur glatað því
sem honum var kærast. Þau lög sem
hér hafa verið talin upp, svo og
Atlas og Við hafið, sem bæði eru
söngdrama og einnig það yndislega
lag Fiskistúlkan, eru öll samin við
kvæði eftir Heine og saman mynda
þau heisteypta röð söngverka, sem
öll eru meistaraverk, er voru öll
snilldarlega flutt af Kristni og'Jón-
asi.
Rellstab söngvarnir, sem með
haustljóðinu eru átta að tölu, þykja
nokkuð misjafnir að gæðum en
frægastir eru Stándchen og Aufent-
halt, Standhcen hugljúft sönglag
og Aufenthalt glæsilegt söngverk.
Þau söngverk er standa næst þess-
um tveimur meistaraverkum eru
Kriegers Ahnung og In der Ferne.
Bókmenntafræðingar telja að
Rellstab væri fyrir löngu gleymdur
sem ljóðskáld ef Schubert hefði
ekki tónsett ljóð hans og benda á
til samanburðar, að það er ekki til-
viljun að öll söngverk Schuberts við
kvæði eftir Heine eru meistaraverk.
Flutningur Kristins Sigmunds-
sonar á Svanasöng Schuberts er
listviðburður og náði hann hámarki
í Heine-lögunum, sérstaklega Tvíf-
aranum. Jónas Ingimundarson lék
af listfengi og er minnisstæður leik-
ur hans í Die Stadt. Það er í raun
aukaatriði að taka til eitthvað sér-
stakt, því samleikur Kristins og
Jónasar hefur fengið þá slípun, er
byggir á listfengi, löngu samstarfi
og samvirkri tilfinningu þeirra fyrir
viðfangsefnunum. Sem ljóðasöngv-
ari hefur Kristinn Sigmundsson
kveðið okkur íslendingum söngva
Schuberts af miklum glæsibrag,
auk þess að vera eftirsóttur söngv-
ari við öll helstu óperuhús heims-
ins. Það er því vel við hæfi, að nefna
hann listamann og þá er orðið skil-
ið sem hástig þess er það merkir.
Jón Ásgeirsson
„Afangastaður Island“
___MYNDLIST
Norræna húsid
LJÓSMYNDIR FRÁ
ÍSLANDI
Tove Kurtzweil. Opið daglega frá
14-19. Til 12. nóvember. Aðgangur
ókeypis.
NORRÆNA listabandalagið hef-
ur verið með ýmsar framkvæmdir
i gangi í tilefni þess, að 50 ár eru
liðin frá stofnun samtakanna. Er
þetta eins konar uppstokkun og
yfirlit yfir stöðuna í norrænni sam-
tímalist, en aðalsýningin verður í
nýju safni núlista í Kaupmannahöfn
í desember á næsta ári.
Einn liður framkvæmdanna er
sýning á ljósmyndum dönsku lista-
konunnar Tove Kúrtzweil í Nor-
ræna húsinu, en hún hefur rekið
ljósmyndastofu í Kaupmannahöfn
frá 1966, jafnframt því að ferðast
mikið og gera listrænar myndraðir
frá þeim löndum sem hún heimsæk-
ir.
Það sem fyrir listakonunni vakir,
er að draga fram einkenni hvers
lands fyrir sig á svart-hvítum Ijós-
myndum, þar sem hún leitast við
að tengja fortíð við nútíð, tíma og
rými, og öfugt. Og þó fortíðin sé
ekki sýnileg í mörgum myndanna
skynjar skoðandinn hana í hinni
sérstöku ljósmyndatækni, sem lista-
konan hefur tileinkað sér. Sömu-
leiðis er eins og skoðandinn skynji
nútíðina þótt myndefnið sé af forn-
gildum menjum einvörðungu, því
að þá dregur hún fram fyllingu
tímans ásamt eyðingunni, sem telst
höfuðeinkenni okkar mengaða
hnattar. er svo er komið. Halda
má fram, að þessar myndir séu
tímalausar, og þegar Kurtzweil
tekur myndir af Islandi, sem hún
hefur einungis flogið yfir áður, er
líkast sem maður sé að skoða
myndir frá því löngu fyrr á öld-
inni, gott ef ekki síðustu öld. Mað-
ur skynjar, að landslagið er æva-
gamalt og þó er eins og skoðandinn
horfi úr nútíð inn í fortíð og með-
tekur um leið, að þetta er fersk
og sértæk sýn á landið.
Enn eitt dæmi þess, að
myndlistarmenn hafa stöð-
ugt verið að nálgast fortíð-
ina í vinnubrögðum sínum
undanfarna áratugi, þessa
sömu fortíð og fyrrum var
úthrópuð en nýtæknin hef-
ur gert svo ljóslifandi.
Þetta eru snöggtum
annars konar myndir en
við erum vön að útlendir
taki af landinu, og því er
ástæða til að skoða þær
vandlega, því hér rýnir
gerandinn á form, og feg-
urð þess í sjálfum sér.
Þannig eru sumar mynd-
anna ekkert annað en
hrein og klár form, sem
undirstrikar að hið hlut-
vakta hefur óhlutbundnar
sjónvísanir, og er hin form-
hreina mynd nr 7 vafalítið
gleggsta dæmið. Einnig
skara hinar byggingar-
fræðilegu, konstrúktívu,
myndir af rafmagnsmöstr-
um nr 9 og 10 þessa myndsýn. Þá
hafa myndir nr 11 og 39 furðulegt
austurlenzkt svipmót. Þannig voru
það formskýrar myndir auk nokk-
urra með dulúðugu svipmóti, sem
rýninum fannst hafa sterkustu
skírskotanirnar til landsins og
umhverfisins, jafnframt rýmisins
og tímans. Einkum þótti honum
kletturinn á gullbrúna grunninum
(23), mögnuð og yfirmáta falleg
mynd.
Bragi Ásgeirssoh